Ekki er um annað meira talað þessa dagana en tilraunir sjálfstæðismanna og framsóknarmanna til að ná samkomulagi um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Og svo virðist sem kjósendur flokkanna tveggja, sem standa að þessum viðræðum, séu almennt ánægðir með, að ríkisstjórn þeirra sé á næsta leiti.
Hitt er svo jafnrétt, að vandfundinn er sá kjósandi Sjálfstæðisflokksins, sem getur sannfærzt um,.að það teljist til þjóðarhags, að Ólafur Jóhannesson verði áfram forsætisráðherra. Ekki felst í því nein persónuleg gagnrýni, þótt minnt sé á, að hann var oddamaður þeirrar stjórnar, sem stóð sig þannig og skildi þannig við, að það þarf kraftaverk til að koma þjóðarskútunni aftur á flot.
Sjálfstæðismenn telja framsóknarmenn leggja of mikla áherzlu á, að Ólafur verði áfram forsætisráðherra. Þeir telja, að sjálfstæðismenn geti ekki tekið þátt í stjórn, sem ber á sér svip breyttrar vinstristjórnar. Þeir telja, að nýir menn verði að koma til skjalanna til að efla traust þjóðarinnar á, að víðtæk endurreisn geti hafizt með stjórnarsamstarfi framsóknarmanna og sjálfstæðismanna. Og án slíks trausts af hálfu þjóðarinnar verður ekki unnt að framkvæma þær stórfelldu aðgerðir, sem nú eru nauðsynlegar.
Jafnljóst er, að sjálfstæðismenn munu eiga erfitt með að sætta sig við, að ítarlegt samkomulag náist fyrst og fremst um vandamál líðandi stundar og orðalag verði loðið og óljóst á þeim atriðum, sem stefna að nýrri endurreisn þjóðfélagsins.
Með þessu er ekki verið að segja, að framsóknarmenn séu tregir til slíks. Þeir virðast átta sig á því jafnt og sjálfstæðismenn, að björgunaraðgerðum líðandi stundar þarf að fylgja markvisst uppbyggingarstarf, ef varanlegur árangur á að nást. Það er án efa í samræmi við vilja beggja aðila, að vel verði gengið frá framtíðarmarkmiðum ríkisstjórnarinnar.
Mikilvægur árangur náðist, þegar samkomulag.varð um að framlengja bráðabirgðaráðstafanir núverandi ríkisstjórnar um einn mánuð. Þar með vinnst betri tími til þess að undirbúa og skrásetja framtíðarmarkmið ríkisstjórnarinnar. 0g til slíks nægja nokkrir dagar auðsjáanlega ekki.
Verðbólgan heldur áfram að krauma, þrátt fyrir allar bráðabirgðaaðgerðir. Þess vegna þarf stjórnarsamkomulagið að byggjast á varanlegum aðgerðum, er haldið geti henni í skefjum. Má þar nefna nýja og betri útfærzlu á verðjöfnun í sjávarútvegi. Ennfremur stórfelldan sparnað í opinberum rekstri og frestun framkvæmda til þess tíma, er þjóðin hefur efni á þeim.
Byggja þarf upp traustan grundvöll lífskjarabóta með því að koma á jafnvægi í atvinnulífinu, fyrst og fremst með rétt skráðu gengi á hverjum tíma og með réttri verðmyndun í þjóðfélaginu. Ný lög um verðmyndun þurfa að erlendri fyrirmynd að koma í stað núverandi kerfis. Þannig mætti lengi telja.
Um slík atriði ætti að geta náðst samkomulag, ef báðir aðilar gefa sér tíma til þess. Og lausafregnir af gangi viðræðnanna benda til þess, að mikilvæg skref hafi þegar verið stigin á því sviði, þótt enn sé mjög langt í land.
Það væri jafnvel betra, að viðræðurnar færu út um þúfur en að nýja stjórnin bær i keim af gömlu stjórninni með sama forsætisráðherranum og sömu bráðabirgðaaðgerðunum.
Jónas Kristjánsson
Vísir