Enn einn prófkjörsvandinn

Greinar

Til er betri leið en prófkjör til þess að ná sem flestum kostum prófkjörs og forðast sem flesta galla þess. Hún krefst að vísu samkomulags pólitísku aflanna um breytingu á kosningalögum, sem heimili flokkum að setja upp óraðaða framboðslista, ef þeir telja það henta sér.

Þetta skiptir núna máli enn einu sinni, af því að framboðin tvö í borgarstjórnarkosningum Reykjavíkur eru komin í vandræði með skipun framboðslista í næstu kosningum, þótt þær verði ekki fyrr en eftir heilt ár. Þau geta hvorki haft prófkjör né verið án þeirra.

Óraðaðir framboðslistar fela í rauninni í sér, að prófkjör er sameinað kosningu. Í stað þess að kjósendur raði fyrst saman lista í fyrri kosningum og kjósi síðan milli lista í öðrum kosningum, gera þeir þetta í einu lagi, með minni fyrirhöfn og tilkostnaði allra málsaðila.

Stundum hefur borið á, að menn hafa reynt að hafa áhrif á niðurstöðu prófkjörs hjá öðrum flokkum en þeim, sem þeir hyggjast kjósa. Þetta kom í ljós í síðustu þingkosningum hjá framsóknarmönnum á Norðurlandi vestra og alþýðuflokksmönnum á Reykjanesi.

Óraðaðir framboðslistar tryggja hins vegar, að ekki hafi aðrir afskipti af vali hvers framboðslista en þeir, sem kjósa hann, þegar til kastanna kemur. Lýðræðishugsjón prófkjörs nær fram að ganga, en á þann hátt, að óviðkomandi aðilar hafa ekki áhrif á framboðslistann.

Stundum hefur borið á, að fallistar í prófkjöri hafa ekki sætt sig við úrslitin og reynt að grafa undan gengi listans í kosningum. Ýmis dæmi eru um, að þeir hafi leiðst út í sérframboð og þannig valdið margvíslegum sárindum í röðum fólks, sem áður stóð saman.

Óraðaðir framboðslistar tryggja hins vegar, að fallkandídatar fá ekki tækifæri til að veita gremju sinni útrás á þann hátt, að það skaði gengi framboðslistans í kosningum. Lýðræðishugsjón prófkjörs nær fram að ganga, en á þann hátt, að það klýfur ekki flokka.

Stundum hefur borið á, að eiginleg kosningabarátta sumra frambjóðenda fer einkum fram í prófkjörum og þá með ærnum kostnaði og ærinni fyrirhöfn. Þegar kemur að kosningum, eru þessir frambjóðendur orðnir svo dasaðir, að þeir eru ekki til mikils brúks í slagnum.

Óraðaðir framboðslistar tryggja hins vegar, að vinna og fyrirhöfn einstakra frambjóðenda nýtist listanum í heild, af því að það fellur saman við kosningabaráttuna. Lýðræðishugsjón prófkjörs nær fram að ganga, en án þynningar á kröftum framboðslista í kosningum.

Ef óraðaðir listar koma í stað prófkjörs, falla persónulegar auglýsingar einstakra frambjóðenda innan ramma kosningabaráttu framboðsins í heild og verða þar af leiðandi mildari gagnvart öðrum frambjóðendum listans heldur en þær hafa reynzt vera í venjulegu prófkjöri.

Löngum hefur verið litið á prófkjör sem illa nauðsyn, er stjórnmálaflokkar komist stundum ekki hjá til að halda innra friði. Ef prófkjör falla niður um skeið, kemur venjulega í ljós, að þeirra er aftur þörf til að taka tillit til nýrra stjórnmálamanna og breyttra viðhorfa.

Borgarstjórnarkosningar í Reykjavík eru dæmigerður vettvangur, þar sem framboð geta hvorki haft prófkjör né verið án þeirra. Óraðaðir listar eru kjörin aðferð til að sameina kraftana að baki borgarstjóraefnunum, þótt einstaklingar berjist um einstök sæti innan listanna.

Tvisvar hefur tillögur um óraðaða lista dagað uppi á Alþingi, ekki af því að þingmenn finni þeim margt til foráttu, heldur skortir aðeins kjark til breytinga.

Jónas Kristjánsson

DV