Fyrirhuguð þjóðhátíð á Þingvöllum og annað tilstand í tilefni 1100 ára afmælis Íslandabyggðar er tiltölulega lítils virði í samanburði við landgræðsluáætlun þá, sem nýlega hefur verið birt. Sú áætlun fjallar einmitt um verðugustu gjöf þjóðarinnar til landsins, sem hefur fóstrað hana í ellefu aldir.
Íslendingar komu fyrir ellefu öldum að vel grónu landi. Talið er, að þá hafi skógar og kjarrlendi náð yfir 20-30 þúsund ferkílómetra og annar gróður yfir 30 þúsund ferkílómetra til viðbótar. Í ellefu aldir hafa Íslendingar verið að sóa þessum auði. Er nú svo komið, að kjarr nær aðeins yfir eitt þúsund ferkílómetra og annar gróður yfir 20-25 þúsund ferkílómetra. Gróðurlendið hefur því minnkað um meira en helming.
Forfeður okkar höfðu fátækt.og vanþekkingu sér til afsökunar. En nú erum við orðin auðug þjóð með talsverða vísindalega þekkingu og höfum enga afsökun lengur. Samt er gróður enn. á undanhaldi í landinu. 1100 ára afmælið er því kjörið tækifæri til að snúa vörn í sókn og byrja að skila landinu aftur því, sem forfeður okkar tóku af því.
Samkvæmt áætluninni .á þetta að kosta einn milljarð króna á næstu fimm árum. Það eru um 200 milljónir króna að meðaltali á ári umfram núverandi fjárveitingar og geta varla talizt háir vextir af skuld okkar. Þetta fé á að nægja til að bjarga þeim jarðvegi og gróðri, sem nú er í hættu, og til að græða mikið af nýju landi. Um þetta segir í áætluninni:
“Nefndin leggur áherzlu á, að takmarkið hlýtur að vera að stöðva uppblástur, sandfok og aðra jarðvegseyðingu, – að koma gróðurnýtingu og beit í það horf, að gróðri fari fram,- að friða þau skóglendi, sem þess eru verð og tryggja, að þau gangi hvergi úr sér,-að leggja grundvöll að nýjum skógum til fegrunar, nytja, skjóls og útivistar, þar sem það hentar, – að stuðla að endurgræðslu örfoka og ógróinna landa, sem æskilegt er, að breytist í gróðurlendi, -og að efla rannsóknir á þessum sviðum, þannig að sem traustastur grundvöllur sé undir öllu, sem gert er til að ná þessum markmiðum”.
Mestur hluti milljarðsins á að renna til landgræðslu, 705 milljónir. Til skógræktar eiga að fara 165 milljónir. Til rannsókna og ýmissa annarra verkefna eiga að fara 130 milljónir króna. Í áætluninni eru þessi verkefni öll sundurliðuð. Virðist þetta byggt á traustum grunni, því að áætluninni fylgir ítarleg lýsing á núverandi ástandi. Er sú lýsing gerð í samstarfi við búnaðarsambönd og gróðurverndarnefndir um land allt.
Enginn vafi er á, að landgræðsluáætlunin mun njóta almenns stuðnings þjóðarinnar. Menn verða sammála um að minnast ellefu alda byggðar í landinu með því að hefja framkvæmdir eftir áætluninni.
Forfeður okkar tóku um margar myrkar aldir gífurleg lán hjá landinu til að tryggja sér og börnum sínum líf. Þess vegna hélt þjóðin áfram að vera til, þrátt fyrir hörmungar og hallæri, og komst að lokum inn í nútímann og í aðstöðu til að endurgreiða skuldina. Það skulum við nú gera með sem mestum myndarbrag.
Jónas Kristjánsson
Vísir