Endalaus langa með graut

Veitingar

Fiskheildsalinn, sem sér góðum veitingahúsum fyrir fiski dagsins á morgnana, er alltaf með löngu. Fínn fiskur, sem kokkarnir elda meistaralega. Þeir elska að hafa bygggraut með löngunni. Þess vegna er langa með bygggraut ævinlega fiskur dagsins á góðum stöðum. Í sjálfu sér herramannsmatur. Er þá lengur hægt að tala um fisk dagsins? Nokkuð skárra en að tala um plokkfisk sem fisk dagsins? Borða svo oft úti, að ég er fyrir löngu búinn að fá upp í kok af löngu með bygggraut. Í gamla daga settu verkamenn í laxadrætti í samninga, að ekki væri lax í matinn alla daga. Svo má góðu venjast, að vont þyki. Mótmæli dagsins hér með afgreidd.