Eldraun Breiðholtsins

Greinar

Ný borg er að rísa með undraverðum hraða á Reykjavíkursvæðinu. Þetta eru Breiðholtshverfin, sem fullbyggð eiga að hýsa um 25.000 manns, engan smáfjölda á íslenzkan mælikvaða. Nú eru liðin um sex ár síðan íbúðabyggingar hófust í þessum móum og holtum. Annar áfangi af þremur er kominn vel á veg og hraðinn er svo mikill, að þriðja áfanga lýkur sennilega áður en áratugur er liðinn frá fyrstu byggingaframkvæmdum.

Fyrir allmörgum árum var alls ekki búizt við því, að svona örar byggingaframkvæmdir þyrfti í Reykjavík. Aðalskipulagið fyrir tímabilið

1962-1983 gerði ráð fyrir, að Breiðholt mundi endast til loka tímabilsins. Nú stendur Reykjavíkurborg hins vegar andspænis því að undirbúa lóðir til úthlutunar á alveg nýjum svæðum, löngu fyrir lok skipulagstímans.

Hinn ameríski hraði framkvæmdanna í Breiðholti hefur skapað Reykjavíkurborg annan vanda. Hún hefur orðið að hraða verulega sínum eigin framkvæmdum í Breiðholti, svo að þær væru í takt við aðrar framkvæmdir. Þetta hefur á skömmum tíma kostað borgina veruleg útgjöld og skjótvirkan undirbúning. Og hún hefur reynzt vandanum vaxin.

Hraðinn á framkvæmdum borgarinnar hefur raunar verið enn meiri en hraðinn á íbúða- byggingunum. Í Breiðholti náði borgin þeim

merkilega áfanga að vera komin með malbikaðar götur í hverfi áður en byggingaframkvæmdir hófust. Nú er hún líka búin að koma frágangi gangstíga fram úr innflutningi fólks í einu hverfinu. Og ekki þarf að spyrja að því, að hitaveita er komin í hvert hús áður en fólkið flytur inn, alveg eins og aðrar leiðslur, rafmagn, sími, vatn og frárennsli.

Leikvellir, gæzluvellir, dagheimili og skólar þjóta upp í Breiðholti í kapphlaupi við innflutning fólksins. Þarna er allt að yfirfyllast af börnum, svo að borgin hefur mátt taka á öllu sínu til að dragast ekki aftur úr. Hún er komin langt framúr áætlun um hraða þessara framkvæmda, en á samt erfitt með að hafa við mannfjölguninni. Fólk er orðið svo fljótt að ganga frá íbúðum sínum, að þörfin fyrir skóla og dagheimili vaknar miklu fyrr en áður var.

Reykjavíkurborg hefur staðizt eldraun Breiðholtsins. Hún hefur séð fyrri áætlanir fara úr skorðum vegna eftirspurnar eftir lóðum. Hún hefur gert Breiðholti kleift að byggjast upp á nærri helmingi skemmri tíma en ráð var fyrir gert. Samt hefur hún ekki dregizt aftur úr með þjónustu sína, heldur þvert á móti unnið á, svo sem í frágangi gatna og gangstíga.

Nú fer borgin að hafa ráðrúm til að sinna gróðurbeltunum og -svæðunum í Breiðholti. 0g þegar er farið að hugsa um þörfina á stuðningi

við í þróttastarf fyrir börn og unglinga. Það er því hugsað fyrir mörgu, þótt Reykjavíkurborg hafi ekki bolmagn til að gera alla hluti í einu. Stundum hljóta að myndast flöskuhálsar, t.d. í skólabyggingum, en það er aðeins tímabundinn vandi.

Reykjavík hefur 84.000íbúa. Það er greinilega mikið átak fyrir slíka borg að byggja 25.000 manna úthverfi á aðeins einum áratug. Það er eins og að bæta við sig einum Kópavogi, Hafnarfirði og Akranesi. Þetta virðist borginni ætla að takast framar öllum vonum.

Jónas Kristjánsson

Vísir