Ekki von, að vel fari.

Greinar

Yfirlýsing framkvæmdastjórnar Framsóknarflokksins um aðgerðir gegn verðbólgu, vinnudeilum og harðindum er heiðarleg tilraun til að benda á, hvernig fresta megi vandamálunum fram til næstu áramóta.

Við ríkjandi aðstæður eru bráðabirgðalausnir að sjálfsögðu betri en engar lausnir. Þær veita að minnsta kosti svigrúm, sem hugsanlega mætti nota til varanlegri lausna. En því miður skortir pólitískan vilja til slíkra lausna.

Framsóknarflokkurinn vill vísitöluþak á laun, líklega við 400 þúsund króna mánaðarlaun, og hleypa 3% grunnkaupshækkun á línuna. Það er auðvitað því skilyrði háð, að grunnkaup haldist að öðru leyti óbreytt til áramóta.

Flokkurinn vill fresta kjaradeilum til áramóta, bæði þeim, sem nú standa, og hinum, sem á eftir munu fylgja. Síðan verði stefnt að tveggja ára kjarasamningum um næstu áramót. Þessar tillögur eru þungamiðja yfirlýsingarinnar.

Þá vill flokkurinn takmarka verðhækkanir, einfalda kjarasamninga og setja skyldusparnað á hæstu laun. Þetta eru minni háttar atriði eins og 3%-in og vísitöluþakið. Frysting vinnudeilna til áramóta er kjarni málsins.

Alþýðubandalagið er sammála 3%-unum og vísitöluþakinu og vill setja um það sérstök bráðabirgðalög. Hin atriðin séu ekki vettvangur laga, heldur væntanlega samkomulagsatriði við þrýstihópa í þjóðfélaginu.

Draga verður í efa, að unnt sé með góðu að ná slíku samkomulagi við einstaka hópa. Farmenn og mjólkurfræðingar eru ekki á þeim buxunum að fórna kjarabótum umfram 3%-in. Og fái þeir eitthvað umfram, munu aðrir hópar fylgja á eftir.

Að vísu hafa farmenn lýst því yfir fyrirfram, að þeir muni ekki láta frysta kjör sín með bráðabirgðalögum. Þeir muni einfaldlega líta á slíkt sem ólög og ekki virða þau. Þetta veikir hugmyndina um bráðabirgðalög í stað samkomulags.

Ríkisstjórnin getur auðvitað reynt að sýna farmönnum og mjólkurfræðingum fram á tilgangsleysi svokallaðra kjarabóta. Allir aðrir hópar muni fylgja á eftir og fá að minnsta kosti hið sama. Þar með séu kjarabæturnar orðnar einskis virði.

Reynslan sýnir bara, að í vinnudeilum eru menn ekki næmir fyrir röksemdum af þessu tagi, þótt réttar séu. Menn ímynda sér jafnan í vinnudeilum, að þeir séu að ná einhverju sérstöku umfram aðra.

Segjum svo, að farmenn og mjólkurfræðingar nái 20% kjarabótum. Aðrar stéttir munu síðan ná þessum kjarabótum líka. Þá verður verðbólgan um eða yfir 60% í stað 43%. Allir sitja þá eftir í sömu sporum og áður. Verðbólgan ein græðir.

Reynslan sýnir meira að segja, að þeir fá oft minnst, sem fyrstir brjóta ísinn. Eftir samninga fyrstu hópanna verður það keppikefli hinna síðari að fá heldur meira. Þetta skilja í rauninni allir, nema þeir, sem eiga í vinnudeilu hverju sinni.

Ástandið er afleitt, jafnvel þótt ríkisstjórninni tækist að knýja fram kjarafrystingu til áramóta með góðu eða illu. Verðbólgan verður samt um 43%, meiri en efnahagslífið þolir.

Þar við bætast svo harðindin, sem vafalítið munu leggja þungar byrðar á opinbera sjóði og skattgreiðendur. Og í olíuverðhækkunum erum við alls ekki búin að bíta úr nálinni.

Við höfum ríkisstjórn, sem virðist ekki geta náð neinu raunhæfu samkomulagi um að stjórna. Við höfum stjórnarandstöðu, sem virðist ætla að freistast til að spilla fyrir í vinnudeilum. Og við höfum þrýstihópa, sem eru einkar skammsýnir.

Við slíkar aðstæður er ekki von, að vel fari.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið