Enn einu sinni hefur listahátíð steypzt yfir þjóðina. Enn einu sinni eiga listunnendur erfitt með að velja og hafna, því að viðburðirnir eru svo margir og tíðir, að menn komast ekki yfir allt, sem þeir vilja kynnast.
Listahátíðin er að þessu sinni með sama myndarbrag og jafnan áður, þrátt fyrlr fremur lítinn undirbúningstíma. Hann ollÍ því, að Askhenazy gat ekki komið, né ýmsir vinir hans, sem hafa sett sterkan svip á fyrri listahátíðir. En þrátt fyrir fjarveru sína á Askhenazy drjúgan þátt í komu sumra hinna erlendu listamanna.
Vonandi táknar þessi listahátíð, að hún sé orðin að föstum þætti þjóðlífsins, sem menn megi eiga von á annað hvert ár. Það ætti aö auðvelda allt skipulag slíkra hátíða í framtíðinni og gera heimsstjórnum listanna kleift að gefa Íslandi rúm á stífri stundaskrá þeirra.
Slík festa í listahátíðum gæti einnig hugsanlega orðið til að laða að erlenda listunnendur sem ferðamenn á sama hátt og Edinborgarhátíóin dregur að sér fólk úr öllum álfum. Þetta getur tekið langan tíma, en erfiðustu skrefin hafa þegar verið stigin.
Listahátíðin er hvatning íslenzkum listamönnum. Þeir brjótast út úr hinum lokaða samanburði heimamarkaðsins og eru bornir saman við heimsþekkta listamenn. stundum er þessi samanburður tiltölulega hagstæður hinum íslenzku listamönnum. Og stundum kemur líka í ljós, að listkröfur eru ekki nógu miklar hér á landi. Hvort tveggja er jafn fróðlegt.
Listahátíð hefur þau aukaáhrif, að erlendir skipuleggjendur í listum hafa betri aðstöðu til að uppgötva íslenzka listamenn. Nú hyggst Austurríkismaðurinn Hundertwasser gefa út bók um hinn sérvitra listamann Dunganon, sem ef til vill hefur ekki notið tilhlýðilegrar viðurkenningar landa sinna.
Þessar júníhátíðir koma beint í kjölfar listavertíðar vetrarins. Að minnsta kosti á Reykjavíkursvæðinu hefur í vetur verið gnótt lelklistar, tónlistar og myndllstar. En samt eru menn ekki listþreyttari en svo að lokinni vertíð, að þeir fylla húsin kvöld eftir kvöld á listahátíð.
Helzt er að hin aldna listgrein bókmenntir eigi erfitt uppdráttar, bæði á vetrarvertíð og listahátíð. Bækur íslenzkra höfunda og þýðingar erlendra meistara seljast ekki og aðsókn að upplestri höfunda er lítil. Spurningin er sú, hvort listahátíð þurfi ekki framvegis að hafa sérstakt fjármagn aflögu til að vekja athygli á innlendum og erlendum bókmenntum.
Hin vel skipulagða og vel sótta listahátíð er góður vitnisburður um íslenzka þjóð. Við eigum í erfiðleikum í efnahagsmálum um þessar mundir og þurfum að hafa mikið fyrir því að afla okkur brauðs. En listahátíðin sýnir, að þrátt fyrir þetta vilja Íslendingar ekki lifa á brauði einu saman.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið