Eitt happ og hvað svo?

Greinar

Staðsetning alþjóðastofnana og alþjóðasamtaka hefur mikil efnahagsleg áhrif, enda bítast borgir og ríki um bitana, sem falla á þessu sviði. Til dæmis veitir Zürich alþjóðasambandi, sem höfundur þessa pistils þekkir vel, ókeypis búsnæði á virðulegasta stað í borginni. Það dugði þó ekki til, því að sambandið hefur flutzt til London.

Enginn einn staður hefur orðið ofan á sem miðstöð alþjóðastofnana og alþjóðasamtaka. Borgir eins og Vín, Genf, London og New York berjast um forustuna og aðrar borgir fylgja fast á eftir. Ísland eða Reykjavík eru þar hvergi á blaði enn.

Alþjóðastofnanir og alþjóðasamtök hafa í för með sér peninga, framkvæmdir og atvinnu. Starfsliðið er venjulega að hluta innlent, auk þess sem það kaupir innlenda vöru og þjónustu. Ráðstefnur eru haldnar og hótelrekstur eflist. Samgöngur batna við umheiminn. Og af allri þessari veltu fá ríki og borg skatta og skyldur.

Af tilviljun hafa myndazt líkur á, að Reykjavík geti orðið aðsetur Alþjóðaskáksambandsins. Það stafar af því trausti og virðingu, sem Friðrik Ólafsson skákmeistari hefur aflað sér víða um heim. Núverandi forseti sambandsins vill gera Friðrik að eftirmanni sínum, sem jafngildir flutningi sambandsins til Íslands. Og þessi hugmynd hefur hlotið góðar undirtektir í Vestur-Evrópu og víðar.

Alþjóðaskáksambandið er lítið samband með lítil umsvif. En það er þó byrjun, sem er þess virði, að ríki og borg leggi töluvert af mörkum til að knýja fram. Sú fyrirgreiðsla mun skila sér til baka í hina opinberu kassa með ýmsum óbeinum hætti. Þar er aðeins um að ræða reikningsdæmi fyrir hagfræðinga ríkis og borgar.

Auðvitað eigum við að reyna að ná Alþjóðaskáksambandinu hingað með öllum tiltækum ráðum. Og við eigum að reyna að ná í stofnanir á vegum Norðurlandaráðs og annarrar norrænnar samvinnu. Við eigum að ná í stofnanir og samtök á ýmsum sviðum, sem geta kallazt sérgreinar Íslendinga, svo sem fiskveiðum, flugi, eldfjöllum og jarðhita.

Einn stærsti þrándur í götu slíkrar stefnu eru hin hneykslanlega háu gjöld á símtölum, skeytum og telexi milli Íslands og umheimsins. Ef þessi gjöld stórlækka ekki í síðasta lagi með fyrirhugaðri jarðstöð, er vonlaust að tala um Ísland sem samkeppnishæft land í rekstri alþjóðlegra samtaka og stofnana.

Annar vandi er sá, að ekki er ljóst, hver geti haft forgöngu í stefnunni, sem hér hefur verið lýst. Þótt undarlegt megi virðast, er sennilegt, að verkefnið komi næst sviði Ferðamálaráðs vegna starfs ráðsins á sviði alþjóðlegra ráðstefna.

Einhvers staðar verður að vinna skipulega að íslenzkri yfirtöku alþjóðlegra stofnana og samtaka. Annars fáum við ekkert nema tilviljun Alþjóðaskáksambandsins.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið