Mikil var stemmningin á stofnfundi Arnarflugs, þegar áhugamenn komu saman til að leysa hið dauðvona Air Viking af hólmi og leggja hlutafé af mörkum til að hamla með réttu eða röngu gegn ofurvaldi Flugleiða.
Arnarflug átti af veikum mætti að reyna að veita Flugleiðum samkeppni í leiguflugi, íslenzkum sólarlandaförum til hagsbóta. Stofnendur töldu það vara náttúrulögmál, að samkeppni lækki verð á vöru og þjónustu. Það er líka náttúrulögmál.
Örlögin verða hins vegar seint reiknuð út. Hugsjónamennirnir sjá nú skyndilega, að Flugleiðir hafa í kyrrþey eignazt meirihluta í samkeppnisfélaginu og að framlag hluthafanna verður framvegis notað í þágu Flugleiða.
Samkeppni í leiguflugi til útlanda hefur verið brotin á bak aftur. Náttúrulögmál samkeppninnar segir okkur, að fyrr eða síðar muni það leiða til hærra verðs á leiguflugi, hversu siðugir menn sem standa að því.
Menn hljóta að hafa áhyggjur af þessu skrefi í átt til einokunar, þótt þeir hafi að öðru leyti ekkert út á Flugleiðir að setja. Í öllum vestrænum ríkjum eru í gildi ströng lög, sem hamla gegn hringamyndun af þessu tagi.
Hér á landi er málið sérstaklega alvarlegt vegna hinna nánu hlutafjártengsla Flugleiða og Eimskipafélags Íslands og vegna beinnar aðildar ríkisvaldsins að þessum risum íslenzkra samgangna. Líta má á fyrirtækin tvö sem laustengdan hring, studdan velvilja ríkisvaldsins, og nú síðast með þátttöku SÍS.
Þessi fyrirtæki spanna ekki aðeins yfir meginþorra samgangna Íslendinga í lofti og á legi. Einnig eru innan hringsins nokkur hótel, bílaleiga, ryðvarnarstöð, flugfélög úti í heimi og skrifborðsskúffufyrirtæki í öðrum heimsálfum. Þetta er ekki bara ríki í ríkinu, heldur ríki utan ríkisins.
Hvarf Arnarflugs í faðm hringsins minnir töluvert á tilraun til sölu Hafskips í hendur Eimskipafélagsins fyrir nokkrum árum. Þar var einnig um að ræða samkeppnisfyrirtæki, sem menn höfðu lagt fé í til að hamla gegn ofurvaldi Eimskipafélagsins á vörusamgöngum við útlönd.
Þar vöknuðu menn upp við þann vonda draum, að verið var að selja litla fyrirtækið stóra samkeppnisaðilanum, á þeim forsendum, að Hafskip væri illa statt. Með snarræði var komið í veg fyrir söluna.
Síðan hefur Hafskip verið starfrækt, án þess að illspár hafi rætzt. Og með því að halda uppi samkeppni við Eimskipafélagið á Hafskip þátt í að halda niðri verði á vöruflutningum til Íslands og frá, samkvæmt fyrrnefndu náttúrulögmáli.
Samgöngur eru Íslendingum svo mikilvægar, að við höfum ekki efni á að fela þær að verulegu leyti í hendur eins hrings, þótt innlendur sé. Við þurfum a.m.k. þrjá öfluga og sjálfstæða aðila að flugsamgöngum og jafnmarga í kaupskipaútgerð.
Sameining Flugfélagsins og Loftleiða á sínum tíma var hættulegt skref, stigið að undirlagi ríkisvaldsins og undir aðhaldi þess. Sú sameining tengdi þessi stóru flugfélög, Eimskipafélagið og ríkisvaldið í laustengdan hring.
Gleyping Arnarflugs ætti að vekja þjóðina til vitundar um, að hringamyndun á þessu sviði hefur gengið allt of langt hér á landi. Forstjórar hringsins geta nú vitnað lauslega í orð fyrrum forstjóra General Motors og sagt: “Það sem er gott fyrir Flugleiðir og Eimskip, er gott fyrir íslenzka ríkið”!
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið