Einkamála- og spillingarvæðing

Greinar

Fyrir þremur árum hætti ég í daglegri blaðamennsku. Þá var hún í sæmilegum metum í þjóðfélaginu. Fáir blaðamenn settu efni og auglýsingar í einn graut og skilgreining á einkalífi var þrengri en hún er orðin núna, þegar ég kem aftur inn í þjóðfélag, sem er nýtt fyrir mér og næsta óviðkunnanlegt.

Fyrir 1990 var óþekkt, að blaðamenn litu fjárlegsaugum á starf sitt. Ég man eftir einum ungum manni á síðasta áratug aldarinnar, sem kom í starfið og hélt, að hann hefði fengið lén til að hossa vinum sínum. Hann missti starfið á sekúndubroti og fleiri fylgdu ekki í kjölfarið í minni tíð.

Þá var litið á einkalíf, sem eitthvað, sem færi fram á heimilum, en ekki á opinberum stöðum. Sagt var frá fyllríi ráðherra í Leifsstöð, þegar Íslendingar fengu Bermúdaskál í bridge-verðlaun. Núna þykir mörgum skelfilegt, er blöð eða tímarit birta myndir af frægu fólki við slíkar aðstæður.

Svo brenglað er fréttamatið orðið, að helzti álitsgjafi þjóðarinnar kvartar um, að slegið sé upp ómerkilegum smáatriðum í fréttum, svo sem að posi hafnaði krítarkorti ríkasta manns landsins og að landsliðsþjálfari í handbolta hafi gerzt flugdólgur og farið frá borði í fylgd lögreglu.

Allt varð vitlaust, þegar sagt var frá skilnaði opinberasta manns landsins. Þótt hann sé orðin að deild í Sjóvá með skilmálum um einkalífið og þótt hann hafi í áratugi ort og sungið um nánustu einkamál sín, telja álitsgjafar, að ekki megi segja frá, er konan í ástarljóðunum hefur makaskipti.

Bullið í almenningsáliti nútímans er stutt af álitsgjöfum og fjölmiðlungum, sem hafa sannfærzt um, að meira máli skipti í fjölmiðlun að taka tillit til fólks en að segja sannleikann. Það bull er nýtt fyrir mér, rétt eins og mér kemur á óvart, hversu frjálslega fjölmiðlugar umgangast landamæri efnis.

Á örfáum árum hafa öll mörk riðlast milli auglýsinga og efnis. Þetta byrjaði í sjónvarpi, hefur tröllriðið litlum útvarpsstöðvum og einkennir flest tímarit, sem stofnuð hafa verið. Jafnvel aldraður góðborgari á borð við Árvakur lætur leggja textreklame á borð við Lifun inn í Morgunblaðið.

Álitsgjafar og fjölmiðlugar hafa litlar áhyggjur sýnt af slíkri spillingu, en þeim mun meiri áhuga á að efla svigrúm einkalífs á kostnað sannleikans. Svei þeim öllum saman.

DV