Einföld lausn Jóns

Greinar

Ýmsir dálkahöfundar hafa á undanförnum vikum mælt með sameiningu prófkjara og almennra kosninga. Eru þeir sammála um, að með slíkum hætti sé unnt að auka áhrif kjósenda og forðast um leið ýmis vandamál, sem fylgt geta prófkjörum.

Jón Skaftason alþingismaður hefur lagt fyrir alþingi tillögu um þetta efni. Hún hefur þann ágæta kost, að hún felur ekki í sér stjórnarskrárbreytingu, heldur aðeins breytingu á kosningalögunum.

Þingmenn gætu því afgreitt tillögu Jóns strax, ef þeir kærðu sig um. Hún þarfnast ekki hinnar flóknu málsmeðferðar stjórnarskrárbreytingar. Hún er einföld bráðabirgðalausn á knýjandi vandamáli.

Stjórnarskrárnefndin starfar ógnar hægt. Hún þarf að taka til meðferðar ágætis tillögu um svokallað írskt kosningakerfi, sem ungliðasamtök þriggja af fjórum helztu stjórnmálaflokkunum hafa lagt til, að komið verði á fót.

Írska kerfið er vafalaust fullkomnara en tillaga Jóns Skaftasonar. En kjósendur hafa ekki tíma til að bíða eftir Godot stjórnarskrárnefndarinnar. Þeir vilja bráðabirgðalausn strax. Sem slík er tillaga Jóns afar heppileg.

Tillagan felur í sér að flokkarnir raði ekki frambjóðendum sínum innan listanna. Flokkarnir ráði því aðeins, hverjir taki sæti á listunum. en ekki röð frambjóðenda.

Sennilega yrði frambjóðendum raðað á lista í stafrófsröð og hlutkesti látin ráða, hvar í stafrófinu yrði byrjað hverju sinni.

Síðan er það verkefni og réttur hins almenna kjósanda að tölusetja nöfn frambjóðenda í þeirri röð, sem hann vill kjósa þá. Reynslan úr prófkjörunum sýnir, að kjósendur átta sig flestir vel á þessari kosningaaðferð.

Kjósandinn getur tölusett alla frambjóðendur listans eða færri að eigin vild. Hinir ótölusettu frambjóðendur fá þá allir jafnt hlutfall atkvæða á þeim kjörseðli.

Þessi kosningaaðferð er notuð í Danmörku og hefur gefizt vel. Þar eru flokkarnir að vísu ekki skyldaðir til að hafa óraðaða framboðslista. Það gera þó allir flokkar, sem máli skipta, af ótta við kjósendur.

Einn helzti sérfræðingur landsins í stjórnarskrárfræðum. Gunnar G. Schram prófessor, segir í nýútkominni bók um endurskoðun stjórnarskrárinnar. að lagabreyting í þessu efni sé einföld í framkvæmd og að hana megi gera án stjórnarskrárbreytingar.

Vandinn er svo auðvitað sá, að þingmenn kæra sig alls ekki um réttarbót á þessu sviði. Það hefur greinilega komið fram Í umræðum á Alþingi um tillögu Jóns Skaftasonar.

Þingmenn og ráðherrar slá úr og í. Markmið þeirra er að tefja málið að minnsta kosti fram yfir kosningar. Sumir þeirra vita líka, að þeir ættu sjálfir aldrei afturkvæmt á Alþingi af óröðuðum framboðslistum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið