Póstur og sími er ágætt dæmi um opinbera einokunarstofnun, sem losnar úr tengslum við eigendur sína og viðskiptavini, fólkið i landinu. Stofnun þessi er rekin af embættismönnum og hefur ekki einu sinni stjórn yfir sér. Hún metur sjálf tekjuþörf sína og fer að flestu leyti sínu fram. Hún er ríki í ríkinu.
Einokunarstofnanir af þessu tagi þurfa að vera undir stöðugu og ströngu eftirliti. Annars er óhjákvæmilegt, að ráðamenn þeirra venjist á óhóflegan lúxus í rekstri og vafasöm vinnubrögð í innkaupum á búnaðí. Slíkar stofnanir verða gróðrarstía spillingar, jafnvel þótt ráðamennirnir reyni að spyrna við fótum.
Póstur og sími notar flókinn og dýran búnað, sem margir framleiðendur gætu útvegað. Samt er þessi búnaður ekki keyptur í opnu útboði til þess að koma kostnaðinum niður. Það er því engin furða, þótt viðskiptavinir Pósts og síma stynji undan álögum hans.
Eitt skýrasta dæmið um vasklega framgöngu Pósts og síma í verðhækkunum er leigan á fjarritum og búnaði til þeirra. Fyrir réttu ári nam ársfjórðungsleigan á búnaði til fjarritunar 40.936 krónum, en núna nemur hún hvorki meira né minna en 112.460 krónum. Þetta er 175% hækkun á einu ári og geri aðrir betur.
Þessi hækkun er ekki í nokkru samræmi við innlenda verðbólgu, gengisbreytingar né erlendar verðhækkanir. Hún felur hins vegar í sér örvæntingarfulla fjáröflunartilraun stofnunar, sem getur ekki lengur haldið kostnaði sínum í skefjum.
Fyrir árí var leiguverðið á búnaði til fjarritunar ekki verulega ólikt því, sem var í nágrannalöndunum. Í Danmörku er ársfjórðungsleigan 39.000 krónur og í Bretlandí 41.700 krónur. Hér hefur leigan hins vegar hækkað úr 40.936 krónum í 112.460 krónur.
Í öllum þessum tölum er innifalinn söluskattur eða virðisaukaskattur og allar fela þær í sér sams konar aukabúnað, þann aukabúnað, sem nauðsynlegur er og algengastur er. Og í engum þessum tölum felst nokkurt notkunargjald. Þetta er grunnleigan eins og hún er, ef tækin eru ekkert notuð.
Af þessu má vera augljóst, að Póstur og sími á Íslandi hefur ekki meiri kostnað af leigu búnaðar til fjarritunar en hinar hliðstæðu stofnanir í Danmörku og Bretlandi. Verðið ætti því að vera rúmar 40.000 krónur hér á landi. Hinn ársfjórðungslegi einokunarhagnaður Pósts og síma af hverjum fjarrita nemur þvi um það bil 70.000 krónum.
Fjarritar eru meðal heppilegustu og hagkvæmustu samgöngutækja, sem völ er á. Hvarvetna i umheiminum eru tæki þessi meðal hornsteinanna í rekstri fyrirtækja. Hér á landi væri þjóðhagslega hagkvæmt að auka notkun fjarritunar. En þeirri þróun er haldið niðri með hinum gífurlega háu gjöldum.
Grátlegast við þetta er ef til vill, að Póstur og sími hagnast ekki einu sinni á okrinu. Einokunarhagnaðurinn drukknar i eftirlitslitlum og óhagkvæmum rekstri þessarar einu af mörgum sjálfhreyfivélum verðbólgunnar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið