E. Villages – Chinatown

Borgarrölt, New York
Mott Street, New York

Fisksali á Mott Street

Mott Street

Gönguferðina um Chinatown hefjum við á Chatam Square á Bowery. Það er suðurendinn á Skid Row, rónabæli borgarinnar. Skid Row er heiti neðsta hluta Bowery, frá Chatam Square norður til 4th Street. Rónarnir eru meinlausir, en sums staðar þarf að sæta lagi við að klofa yfir þá.

Chatham Square, Bowery, New York

Chatham Square, Bowery

Við ætlum ekki að skoða Bowery, heldur förum til vesturs frá Chatam Square inn í Mott Street, ás kínverska hverfisins. Þar mætir okkur krydduð matarlykt úr verzlunum og veitingahúsum, hafsjór óskiljanlegra auglýsingaskilta á kínversku og símaklefar með kínversku pagóðu-þaki.

Við förum rólega, lítum inn í tvær þvergötur til hægri, Pell og Bayard Streets, og njótum þess að vera um stundarsakir í allt annarri heimsálfu, þar sem meira að segja blöðin sjö í söluturnunum eru á kínversku. Við höfum valið sunnudag til gönguferðarinnar, því að þá koma Kínverjar úr öðrum hverfum og þá er mest um að vera í Mott Street.

Við fáum okkur að lokum hádegismat á einhverju hinna betri veitingahúsa, Hee Sung Feung, Say Eng Look, Hwa Yuan Szechuan, Canton eða Phoenix Garden.

Næstu skref