Dýrasti skafl í heimi

Punktar

HVANNADALSHNJÚKUR VAR MÆLDUR í fyrra og reyndist vera 2111 metrar. Hann var aftur mældur um daginn og reyndist vera 2110 metrar. Skýringin er, að mældur var skafl, sem er mismjafnlega þykkur eftir árstímum. Mælingin í fyrra var mánuði fyrr en mælingin í ár og skaflinn var þá hærri.

Í FYRRA TÓK ÞRJÁ TÍMA að mæla hnjúkinn. Það gerðu Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur og fleiri. Í ár tók þrjá daga að mæla hann með aðstoð þyrlu, Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra, blaðamanna og fleira sæmdarliðs. Við það tækifæri varð viðfangsefnið að dýrasta skafli í heimi.

HUGMYNDINA ÁTTI MAGNÚS Guðmundsson, sem veður í peningum óþarfra Landmælinga Íslands. Ný tækni hefur gert stofnunina úrelta. Einkafyrirtæki geta leyst verkefnin ódýrar, mælt skaflinn á 15 mínútum. Magnús var að framleiða fjölmiðlun og beitti frægðarheftum forsætisráðherra fyrir vagninn.

HALLDÓR ÁSGRÍMSSON HEFUR svo margar spunakerlingar og blaðurfulltrúa á sínum vegum á kostnað ráðuneytisins, að þeir ættu að geta varað hann við, þegar óprúttnir greifar í kerfinu vilja misnota hann til að koma sinni stofnun á framfæri við undirbúning fjárlaga ríkisins fyrir næsta ár.

SKEMMTILEGAST VIÐ ÞETTA marklausa og rándýra ævintýri var að skoða myndirnar af djúpri aðdáun fjölmiðlunga, þegar þeir mændu á Halldór Ásgrímsson segja ekki-fréttina af hæð Hvannadalshnjúks á tröppum stjórnarráðsins. Þannig rann bullið stig af stigi og endaði hjá kúnnum fjölmiðlunga.

EITT ER ÞÓ LJÓST að loknu þessum milljóna króna fjáraustri. Landmælingarnar eru sukkstofnun, sem ekki þarf aukið fé.

DV