Dýrasta sérvizkan.

Greinar

Eftir umræður þessa árs um landbúnað má öllum vera ljóst, að stefna óheftrar framleiðsluaukningar á kindakjöti og mjólkurvörum hefur gengið sér til húðar. Hún er of dýr í rekstri þjóðfélagi, sem rambar á heljarþröm í efnahagsmálunum.

Ofstopi Stéttarsambands bænda og einkum formanns þess hefur opnað augu margra fyrir því, að sáralítið er til af svörum við þeirri gagnrýni, sem landbúnaðarstefnan hefur sætt á undanförnum mánuðum.

Margir bændur átta sig á, að núverandi landbúnaðarstefna er þeim andstæð, þegar til lengdar lætur. Hún leiðir fyrr eða síðar til uppreisnar þéttbýlisbúanna, sem verða að borga brúsann. Þeir vilja finna málamiðlun, áður en það verður orðið um seinan.

Ekki er heldur ljóst, að það sé bændum neitt hagsmunamál að vera á allan hátt hvattir til að leggja sem mesta áherzlu á framleiðslu kindakjöts og mjólkurvara. Reynslan sýnir, að þessar vörur eru ýmissa aðstæðna vegna óhóflega dýrar í framleiðslu hér á landi.

Samt er byggt upp kerfi, sem hvetur til takmarkalausrar framleiðsluaukningar á þessum afurðum. Milljörðum er varið í niðurgreiðslur til að gera þessar illseljanlegu vörur seljanlegar. Og afgangurinn er fluttur út með óheyrilegum uppbótum úr sameiginlegum sjóði þjóðarinnar.

Salan á hinum niðurgreiddu vörum mundi minnka stórlega, ef niðurgreiðslurnar féllu niður eða væri breytt í fjölskyldubætur, þannig að neytendur hefðu meira val um neyzluvenjur. Þá kæmi fyrst í ljós, hvílík offramleiðsla er á þessum dýru afurðum.

Með niðurgreiðslunum og útflutningsuppbótunum er verið að stuðla að ein-hæfum landbúnaði og koma í veg fyrir, að bændur snúi sér að öðrum búgreinum, sem eru í rauninni hagkvæmari en hin vanabundna framleiðsla á kindakjöti og mjólkurvörum.

Hví skyldu bændur taka áhættu af framleiðslu gróðurhúsaafurða, grasmjöls, heyköggla, eggja, kjúklinga, svína, nauta eða af hrossarækt, þegar þeir losna á sjálfvirkan hátt við allt sitt kindakjöt og alla sína mjólk á tilbúnu verði, sem er algerlega úr sambandi við það verð, sem neytendur vilja borga yfir búðarborðið?

Hver hefur gagn að því, að yfir 4000 bændum er haldið að framleiðslu á kindakjöti og mjólkurvörum? Ef til vill eru það fyrst og fremst vinnslustöðvar landbúnaðarins, en ekki bændurnir sjálfir. Alténd er að þessu ekki neinn hagur fyrir þjóðfélagið, sem verður að borga allmarga milljarða árlega til að halda þessari sérvizku uppí.

Á sama tíma þarf þjóðfélagið hvarvetna starfskrafta á öðrum sviðum atvinnulífsins og jafnvel á sumum þeim sviðum landbúnaðar, sem lítillar sem engrar fyrirgreiðslu þurfa að njóta. Landbúnaðarstefnan er ekki í samhengi við þjóðfélag nútímans og hún verður að víkja fyrir nýjum við- horfum, áður en hún sligar ríkissjóð endanlega.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið