Draumalandið

Punktar

Löngufjörur eru draumaland hestamannsins. Vinsælastar eru fjörurnar út frá Snorrastöðum, bæði dagleiðin suður í átt til Hítarness og Akra og dagleiðin vestur yfir Saltnesál og Haffjarðará í Skógarnes. Hestum líður vel á þessari leið, þeir teygja sig á góðgangi og hafa margir gaman af að sulla eins og börn. Gamlir klárhestar verða ágætlega meðfærilegir á tölti, skeiðhestum er att saman og lausu hrossin æða áfram á stökki eins og þau eigi lífið að leysa. Erfitt er að hemja fjörið á leirunum og þá er ráðið að leita upp í gróðursælar eyjar til að hvíla gæðingana.