Doktor Atkins

Greinar

Megrunarkóngurinn Robert Atkins var 117 kíló, þegar hann dó. Það sannar ekki, að kúr hans sé óhollur, því að hann dó af slysförum 72 ára gamall. Hann hefði getað orðið 80 ára með sín 117 kíló. Hins vegar sýnir þyngdin, að aðferðin virkaði ekki til lengdar sem megrunarkúr fyrir hann sjálfan.

Atkins-kúrinn skiptir máli, því að hann er með vinsælli kúrum megrunarsögunnar og hefur öðlast áhrifamikla áhangendur hér á landi. Miklu fleiri megrunaraðferðir eru notaðar, einkum í Bandaríkjunum, þar sem menn hafa mest vit á megrun og næringarfræðum og eru feitastir allra manna.

Í venjulegri bókabúð í Bandaríkjunum eru í boði yfir hundrað mismunandi titlar megrunarbóka með yfir hundrað mismunandi kúrum. Ef ein af þessum aðferðum virkaði, væru ekki allar þessar hundrað bækur á boðstólum. Þetta eitt segir raunar allt sem segja þarf um árangur megrunarkúra yfirleitt.

Eitthvað er það, sem vantar í allar þessar bækur. Og það er ekkert leyndarmál. Sumir kúrar gefast sæmilega eða vel í fyrstu, en enginn dugar til lengdar. Bækurnar megna ekki að halda fólki í þyngdinni, sem það nær með átaki. Bækurnar og kúrarnir í þeim hjálpa notendum ekki í langtíma úthaldi.

Næringarfræðin er engu skárri. Hún þykist vera fræðileg og telur hitaeiningar, þótt sýnt hafi verið fram á, að hitaeining er ekki sama og hitaeining. Og hún er að því leyti verri en megrunarkúrarnir, að hún veitir engan andlegan, sálrænan eða félagslegan stuðning í þjáningunni.

Einfalt er að geta sér til um ástæðuna fyrir vandræðum megrunarfólks. Hana er að finna í biblíunni, þar sem segir: Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki. Menn geta einfaldlega ekki staðist allar freistingar. Sumir geta það lengur, aðrir skemur, en fáir geta það ævinlega, ekki einu sinni Atkins.

Eðlilegasta skýringin á ástandinu er, að fíkniefni séu í fæðunni, alveg eins og fíkniefni eru í áfengi, tóbaki og ýmsum efnum, sem fást samkvæmt lyfseðli eða eru seld á svörtum markaði. Fíkniefni í fæðunni þarf að skilgreina, aðallega sykur og líklega nokkur fleiri, og vara við þeim.

Sumir hafa líkamlegar, andlegar, sálrænar eða félagslegar forsendur, sem kallaðar eru áhættuþættir fíkna. Þetta hefur ekkert með viljastyrk að gera. Sumir viljahundar drekka sig í hel, meðan viljadaufir sleppa úr klóm áfengis. Þetta er reynslan af þeim fíknum, sem mest hafa verið kannaðar.

Gegn offitu gagnast hvorki hefðbundin næringarfræði né megrunarkúrar Atkins eða annarra. Leita verður í þekkingarforða meðferðar á sviði annarra fíkna. Ennfremur þarf að finna fíkniefnin í fæðunni og kippa þeim út.

Jónas Kristjánsson

DV