Djúpárbotnar

Frá Laufskála um Djúpárbotna að Hrauntanga.

Tengileið milli Búrfellsheiðar og Melrakkasléttu. Frá Laufskála liggja leiðir um Búrfellsheiði niður í Þistilfjörð og um Hólsmynni suður að Grímsstöðum á Fjöllum. Frá Heiðarmúla og Hrauntanga liggja leiðir um Melrakkasléttu, niður í Öxarfjörð og til kauptúna á Kópaskeri og Raufarhöfn. Reiðvegurinn er einnig notaður af jeppum.

Skjólsælt er í Djúpárbotnum, sem eru umluktir fjallgörðum á þrjá vegu. Sauðafellsmúlar eru að vestan, Þverfell að norðan og Súlnafjallgarður að austan. Jón Trausti rithöfundur átti um skeið í æsku heima í Hrauntanga.

Förum frá Laufskála í 320 metra hæð til norðvesturs að fjallsrana. Skráða GPS-leiðin liggur upp ranann og síðan niður af honum aftur að austan. Betra er að fara slóðina austan undir rananum, það er fljótlegra og fallegra reiðland. Þar eru Djúpárbotnar, vel gróið land í 300 metra hæð. Slóðin er jeppafær og vel greinileg. Við förum norður úr Djúpárbotnum upp í Þverfell í 400 metra hæð og síðan bratt niður á Öxarfjarðarheiði. Þar förum við til austurs með þjóðvegi að hestagerði við fjallaskála á eyðibýlinu Heiðarmúla. Þaðan er einn kílómetri til norðvesturs um mýrar að eyðibýlinu Hrauntanga, í 220 metra hæð.

20,1 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Laufskáli: N66 02.155 W16 01.309.
Öxarfjarðarheiði: N66 10.209 W16 03.852.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Laufskáli, Rauðhólar, Öxarfjarðarheiði
Nálægar leiðir: Súlnafell, Urðir, Biskupsás, Sléttuvegur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson