Byttuskarð

Frá Brú á Jökuldal til Möðrudals á Jökuldalsheiði.

Gömul þjóðleið, stundum kölluð Fremri-Hestleið til aðgreiningar frá Ytri-Hestleið um Hvannárgil sunnan Brattafjallgarðs. Vörðubrot sjást enn á leiðinni vestur af Byttuskarði og síðan um Grjót að Bæjaröxl. Þar suður af öxlinni þræðir gatan um eins konar hlið milli tveggja varða á klettum uppi.

Leiðin liggur beint við þeim, sem fyrr á öldum fóru beint frá Bæjaröxl norðvestur að Jökulsá á Fjöllum við Ferjufjall, þegar þar var ferja yfir á Biskupaleið yfir Ódáðahraun. Í Hrafnkels sögu Freysgoða segir, að Sámur fór norður til Brúar á Jökuldal og þaðan yfir Möðrudalsheiði og gisti þar um nótt. Þaðan til Herðubreiðartungu og fyrir ofan Bláfjall, síðan í Króksdal og suður Sprengisand til Sauðafells og loks til Þingvalla.

Förum frá Brú á Jökuldal eftir jeppaslóð norður múlann fyrir vestan Þverá og að Svínabúðalæk. Þar beygjum við af slóðinni norðvestur að fjallgarðinum vestan Matbrunnavatns. Þar skiljast leiðir. Brattifjallgarður liggur um Leiðaskarð og Hvannárgil til Möðrudals. En við förum beint vestur á fjallið og síðan vestur yfir þveran Langadal í Byttuskarð í Mynnisfjallgarði. Þaðan förum við um Byttugil vestur um fjallgarðinn. Þegar við erum komin vestur úr honum, förum við til norðvesturs með Eggertshnjúki norðaustanverðum og á jeppaslóð, sem liggur milli Möðrudals og Arnardals. Fylgjum þeirri slóð til Möðrudals eða höldum áfram norðvestur að Jökulsá á Fjöllum við Ferjufjall.

21,4 km
Austfirðir

Nálægir ferlar: Grágæsadalur, Sænautasel.
Nálægar leiðir: Leiðaskarð, Sótaskarð, Gestreiður, Miðgötumúli, Hvannstóðsfjöll, Kárahnjúkar, Aðalbólsleið.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins