Vantraust fólksins á kjörnum fulltrúum þess og stofnunum lýðræðisins hefur aukizt á undanförnum árum. Þessi þróun er mjög hættuleg, því að lýðræði er, þrátt fyrir spillingu og vangetu, langskásta þjóðskipulag, sem þekkist í sögunni.
Vandamálið er ekki hjá efagjörnum almenningi né þeim, sem flytja fréttir af ástandinu og verða þannig til að auka vantraustið enn. Vandamálið er hjá stjórnmálamönnum og embættismönnum, sem með gerðum sínum eða aðgerðaleysi eiga vantraust skilið.
Alþingismenn verða að sýna, að þeir séu ekki að eyða tíma sinum í fánýtt þras, meðan Róm brennur. Almenningur er farinn að Iíta á Alþingi sem eins konar hallargarð, þar sem daglega séu haldnar burtreiðar, – þar sem miðaldariddararnir leiki sér án vitundar um það, sem er að gerast utan hallarveggjanna.
Það fer ákaflega í taugar fólks að fá ekki að vita sannleikann um ástandið í efnahagsmálunum. Menn vilja ekki láta segja sér, að hallinn á ríkisbúskapnum verði tæplega l,3 milljarðar á árinu, þegar síðan kemur í ljós tveimur til þremur vikum síðar, að hann er að verða 4 milljarðar á árinu.
Menn súpa hveljur, þegar allt í einu kemur í ljós, að skuldir ríkisins við Seðlabankann hafa aukizt um tvo milljarða í október einum saman og eru orðnar hvorki meira né minna en átta milljarðar. Þessar tölur eru ekki aðeins óheyrilega háar, heldur benda einnig til þess, að fjármál íslenzka ríkisins séu komin í öngþveiti.
Ljóst er orðið, að niðurskurður sá, sem ráðgerður var í fyrravetur, hefur farið út um þúfur. Ríkissjóður er orðinn að sjúklingi, sem þjóðarbúið stendur engan veginn undir. Hvergi virðist vera unnt að bremsa í útgjöldum, þótt allir prediki hver um annan þveran um hina brýnu nauðsyn þess.
Þegar fulltrúar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins voru hér á landi fyrir mánuði, var þeim sagt, örugglega í góðri trú, að hallinn á ríkisbúskapnum yrði rúmlega milljarður á þessu ári. Þeir voru að vonum sáróánægðir með það og töldu Ísland ekki geta slegið meiri lán erlendis fyrr en úr þessu hefði verið bætt.
Hvað segja svo þessir lánardrottnar okkar, þegar skyndilega kemur í ljós, að hallinn á ríkisbúskapnum er að verða fjórir milljarðar á árinu? Er ekki öruggt, að lánstrausti þjóðarinnar hefur verið stefnt í óbætanlegan voða með því að láta reka svona á reiðanum?
Nauðsynlegt er, að upplýst verði til hlítar, hvernig skuld ríkissjóðs við Seðlabankann fær að aukast um tvo milljarða á einum mánuði og hvernig það virðist koma embættismönnum og stjórnmálamönnum á óvart, að halli ríkissjóðs er að verða fjórir milljarðar. Ennfremur er nauðsynlegt, að alþingismenn fari að átta sig á, að alvara er á ferðum í fjármálum ríkis og þjóðar. Nú er kominn tími til að byrja að vinna fyrir nýju trausti þjóðarinnar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið