Brotið niður og byggt upp

Greinar

Hinn félagslegi markaðsbúskapur, sem nú ríkir á Vesturlöndum, er hjónaband kapítalismans og sósíalismans, barna iðnbyltingarinnar, sem sameiginlega hafa frelsað alþýðu manna frá hinni almennu þrælkun, sem einkenndi mannkynssöguna fram að iðnbyltingu.

Bæði kapítalisminn og sósíalisminn hafa valdið ólýsanlegum þjáningum, einkum á fyrstu áratugum valdaskeiða sinna í viðkomandi löndum. Þessi börn iðnbyltingarinnar lögðu gamla menningu og hefðir í rúst. En í staðinn hafa þau búið allri alþýðu manna nýtt og betra líf.

Sumt ungt fólk dreymir óraunsæja drauma um fagurt mannlíf fyrir iðnbyltingu. Það sér fyrir sér hægláta handverksmenn, ósnortna af taugaveiklun og lífsgæðakapphlaupi. En þannig var lífið ekki í gamla daga.

Aðeins lítið brot, innan við 10% manna, voru handverksmenn. Þeir lifðu raunar við svo þröngan kost, að vekja mundi skelfingu ungs fólks nú á dögum. Um eða yfir 80% manna lifðu svo eins og þrælar eða dýr undir svipuhöggum umboðsmanna sárafámennrar yfirstéttar.

Þegar við tölum um gömul menningarskeið, erum við að tala um þessa yfirstétt, sem yfirleitt nam um eða innan við 5% fólksins. Er þá Grikkland gullaldarinnar ef til vill undanskilið. Þessi yfirstétt kúgaði almenning, fór í stríð, stofnaði hákirkjur og dýrðarveldi, skóp listir og bókmenntir og skrifaði mannkynssöguna fyrir sig.

Þegar menn hrífast af hátindum menningar hennar, gleyma menn herðunum, sem hún hvíldi á. Almenningur menningarsögunnar bjó í eymd og volæði. Flestir dóu á fyrsta aldursári eða í bernsku. Fáir komust á fullorðinsár og ævin var endalaus vinnuþrælkun. Og þetta var hlutskipti að minnsta kosti níu manna af hverjum tíu.

Hið sama er að segja um stórveldi þau og smáríki, sem nú hafa sogazt inn á áhrifasvæði iðnbyltingarinnar. Forn menning og fornar hefðir hafa verið lagðar í rústir. Yfirleitt hefur þetta verið menning og hefðir fámennrar yfirstéttar, sem þrælkaði almenning. Undantekningar eru eskimóar og margir aðrir þjóðflokkar, sem bjuggu við svo þröngan kost, að ekki var einu sinni efnahagslegt pláss fyrir yfirstétt.

Sú bylting vísinda, tækni, skipulags, stjórnunar og sölu, sem við köllum iðnbyltingu og geisað hefur með vaxandi hraða á Vesturlöndum í 200 ár, er nú rétt að byrja að geisa í löndum þriðja heimsins. Hún hefur hvarvetna brotið niður menningu og hefðir, sem almenningur átti lítinn hlut í.

Á Vesturlöndum hefur hún í formi félagslegs markaðsbúskapar frelsað alla alþýðu manna frá vonlausu striti. Þetta hefur henni enn ekki tekizt að gera í löndum þriðja heimsins. Iðnbyltingin er og verður þriðja heiminum enn sársaukafyllri en hún var Vesturlöndum, því að í þriðja heiminum kemur hún utan frá, en ekki innan.

En samt er iðnbyltingin eini vonarneistinn í aldalangri eymdarsögu almennings í ríkjum þriðja heimsins.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið