Þótt lög séu vitlaus, þarf að fara eftir þeim. Þess vegna verða gámavinir og aðrir ferskfiskmenn að fara eftir lögum um aflamiðlun, þótt þau séu afar vitlaus og skaði þjóðarhag. Gegn vitlausum lögum þarf að berjast á pólitískum vettvangi, en ekki með því að brjóta þau.
Lögin um aflamiðlun eru að því leyti bót á fyrra ástandi, að nú eru skömmtuð leyfi fyrir opnum tjöldum. Hagsmunaaðilar sitja sjálfir við skömmtunarborðið og rífast þar. Umsóknir og leyfisveitingar eru birtar. Áður var þetta gert undir borði í utanríkisráðuneytinu.
Í skömmtunarstjórninni er tekizt á um hagsmuni sjómanna og útgerðarmanna af háu verði á ferskum fiski í útlöndum og um hagsmuni fiskverkafólks og fiskverk enda af því að fá verkefni í úrelta vinnslu á vöru, sem er fullunninn í sjálfu sér frá náttúrunnar hendi.
Þjóðhagslega er heppilegast, að ekki sé skammtað. Þá bregzt frjáls markaður sjálfkrafa við breytingum, sem ekki er hægt að gera í kvótakerfi, hverju nafni sem nefnist. Það er einmitt vegna þessa, að þjóðir Austur-Evrópu eru sem óðast að leggja niður kvóta og miðlun.
Undanfarin ár hefur flutninga- og geymslutækni breytzt ferskfiski í hag og vinnslufiski í óhag. Þetta hefur lyft verði á ferskfiski og gert Íslendingum kleift að fá meiri verðmæti fyrir minni fyrirhöfn. Um leið hefur þetta spillt stöðu vinnslunnar og fiskverkafólks.
Aflamiðlunin er tilraun til að gæta hinna ýmsu hagsmuna og halda jafnvægi milli þeirra. Um leið er aflamiðlunin tilraun til að draga úr röskun í þjóðfélaginu með því að koma í veg fyrir, að úrelt fiskvinnsla leggi upp laupana í samkeppni við útflutning á ferskum fiski.
Þessi jöfnun, þessi skömmtun, þessi miðlun er þjóðhagslega óhagkvæm. Röskun er í sjálfu sér ekki vond, heldur góð. Hún á að fá að hafa sinn gang í friði. Með röskun getum við bezt eflt lífskjör þjóðarinnar. Með henni lögum við okkur hraðast að nýjum aðstæðum.
Við eigum ekki að halda aftur af þróuninni með því að setja upp skömmtunarstofur á borð við aflamiðlun. Við eigum að koma okkur fyrir á öldufaldi þróunarinnar og vera alltaf skrefi á undan öðrum þjóðum að taka upp nýjungar, sem tækni og markaður færa okkur.
Þótt kvótar séu skaðlegir, eru þeir minna skaðlegir en ella, ef þeir mega ganga kaupum og sölum. Aflakvótakerfið skrimtir, af því að kvótar geta innan þröngra marka gengið kaupum og sölum. Landbúnaðurinn gengi örlitlu skár, ef kaupa mætti og selja fullvinnslurétt.
Sama er að segja um aflamiðlunina. Það er rétt hjá Jóni Baldvin Hannibalssyni utanríkisráðherra, að betra er að úthluta hverju skipi útflutningsprósentu, sem síðan megi ganga kaupum og sölum. Þá þarf enga skömmtun, ekkert rifrildi, enga spillingu, engin lögbrot.
Útflutningsprósenta er mun skárri kostur en aflamiðlun. Hún leysir þó ekki alla skömmtun af hólmi, því að einhver aðili þarf að ákveða, hversu há prósentan á að vera. Sá aðili þarf að meta, hversu mikið eigi að flytja út af ferskfiski og hversu mikið af vinnslufiski.
Slíka ákvörðun getur enginn tekið af neinu viti. Þetta er dæmi um atriði, sem ekki á að ákveða með handafli, heldur láta markaðinn um að ákveða. Útflutningsprósenta hefur réttlætið umfram aflamiðlunina, en hins vegar ekkert umfram hana í hagkvæmni fyrir þjóðina.
Fyrir þessu eiga menn að berjast í stjórnmálum. Þegar vitleysan hefur orðið ofan á, er hins vegar ófært að brjóta lögin, því að þá er rofinn þjóðarfriður.
Jónas Kristjánsson
DV