Bófahasar eða flokkapólitík.

Greinar

Til skamms tíma hefur vinnuveitendasambandið verið rólegt og hægfara félag, lítið gefið fyrir bófahasar. Sambandið hefur forðazt að magna öldur í vinnudeilum og lítt svarað í sömu mynt. Verkföll hafa verið algeng, en verkbönn fátíð.

Hinir meiri slagsmálamenn í sambandinu hafa verið einkar óánægðir með þessa stefnu. Þeir hafa heimtað auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Og þeir virðast vera með á heilanum löngu úreltar verkfallasögur af Guðmundi jaka.

Utan frá að sjá verður að viðurkennast, að vinnuveitendasambandið hefur lengi verið of syfjulegt. Það hefur ekki sýnt næga festu í samningum og meira eða minna leitað á verðhækkananáðir ríkisvaldsins.

Nú er orðin á þessu breyting með nýjum herrum. Vinnuveitendasambandið vill ekki lengur sæta hlutverki litla bróður í þríhyrningnum gagnvart launamannasamtökum og ríki. Það er skyndilega komið úr ökkla í eyra í bófahasar.

Fyrsta merki um þetta var verkbannið á undirmenn kaupskipaflotans til að mæta verkfalli yfirmanna á flotanum. Þetta gaf til kynna, að stefnan yrði sú, að auga kæmi fyrir auga og tönn fyrir tönn.

Hófsamari menn hafa viðurkennt, að verkbann hafi átt nokkurn rétt á sér, en telja það hafa gengið of langt. Vinnuveitendasambandið hefði átt að fara heldur vægar í sakirnar, ekki kúvenda alveg í samningastefnunni.

En nú á ekki lengur að rota, heldur dauðrota. Vinnuveitendasambandið hefur boðað allsherjar verkbann í landinu frá og með 18. júní. Á það að lama allt athafnalíf, að minnsta kosti á Reykjavíkursvæðinu.

Skylt er að geta þess, að mikilvægar undantekningar eru á verkbanninu. Varða þær einkum öryggismál, samgöngur, orkudreifingu og fjölmiðlun. Stefna þessar undanþágur að því, að varanlegt tjón hljótist ekki af verkbanninu, bara tímabundið.

Aðgerðin er sögð miða að því að knýja fram úrslit í vinnudeilum. Sem stendur eru þetta mjög fámennar vinnudeilur. Aðeins farmenn og mjólkurfræðingar eru í verkfalli. Verkbannið er því mikið svar af litlu tilefni.

Vinnuveitendasambandið hafði áður svarað verkfalli farmanna með auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Telja verður því, að nýja verkbannið sé í rauninni svar við verkfalli mjólkurfræðinga. Það er eina verkfallið, sem hefur bætzt við verkfall farmanna.

Allsherjar verkbannið er vanhugsað. Það er allt of harkalegt fráhvarf frá fyrri stefnu vinnuveitendasambandsins. Sérstaklega er varhugavert að svara léttum höggum með þungum höggum, svo sem nú á að gera.

Hin boðaða aðgerð mun magna ófrið á vinnumarkaði. Forráðamenn vinnuveitendasambandsins virðast vilja fara að leika Guðmund jaka gamla tímans. Það er eins og þeir hafi óhóflega þörf fyrir bófahasar.

Því miður er hitt jafn líklegt, að Sjálfstæðisflokkurinn standi að nokkru leyti að baki. Hann beiti vinnuveitendasambandinu fyrir sig til að bregða fæti fyrir ríkisstjórnina. Slíkrar skemmdarfýsnar hefur um of gætt hjá flokknum.

Markmiðið væri þá að koma samningamálum í slíkt öngþveiti, að ríkisstjórnin viðurkenni staðreyndir og hrökklist frá, – fáum harmdauði. Og Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú meiri tök á vinnuveitendasambandinu en verið hefur um langt skeið.

Hvort sem orsök stóra verkbannsins er flokkapólitík eða bófahasarhneigð, þá er hætt við, að almenningsálitið snúist gegn vinnuveitendasambandinu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið