Blóm í eyðimörkinni

Greinar

Á eyðimerkurferðum hlýtur að vera yndislegt og hressandi að sjá blóm, þótt ekki sé nema eitt lítið blóm. Slíkt getur fengið menn til að gleyma stað og stund og leitt huga þeirra að fjarlægum vinjum.

Íslenzkir skattgreiðendur njóta lítils unaðar á eyðimerkurgöngu sinni. Síðustu árin hefur aukinn rekstur, framkvæmdir og fjáraustur hins opinbera kallað á síhækkaða skatta.

Í hagskýrslum má greinilega sjá, hvernig hið opinbera hrifsar til sín sífellt stærri geira þjóðarkökunnar. Þessi sjálftekt er engin ímyndun, heldur óhrekjanleg staðreynd.

Á einum stað á landinu hefur komið í ljós viðleitni til að hamla gegn þessu. Á Seltjarnarnesi hafa útsvör verið lækkuð niður í 10% að frumkvæði Magnúsar Erlendssonar, forseta bæjarstjórnar, og með stuðningi allra flokka.

Þar sem útsvör annars staðar á landinu eru 11%, felst í lækkuninni tugþúsund króna sparnaður fyrir verulegan hluta skattgreiðenda á Seltjarnarnesi. Það munar um slíkan blóðmörskepp í sláturtíðinni.

Auðvitað þýðir þetta, að minna verður um framkvæmdir en ella væri. Á Seltjarnarnesi eru næg verkefni eins og annars staðar. En það er hvort sem er ekki hægt að gera allt í einu.

Segja má, að bæjarstjórn Seltjarnarness sé tiltölulega vel í stakk búin, þar sem henni hefur árum saman haldizt vel á fé. En hún hefur samt ekki lækkað útsvörin meira en önnur sveitarfélög gætu gert, ef þau vildu rifa seglin ofurlítið.

Útsvarslækkunin á Seltjarnarnesi er ögrun og áskorun í garð annarra sveitarstjórna. Þær standa andspænis sínum skattgreiðendum, sem vita nú í fyrsta skipti, að útsvör er unnt að lækka.

Fyrst og fremst hefur boltanum þó verið varpað í fang ríkisstjórnarinnar, mesta eyðsluseggs í landinu. Þar er fitan mest og þar er auðveldast að spara.

Hér í þessum dálki hefur ótal sinnum verið bent á fjárlagaliði upp á milljarða króna, sem eru óþarfir með öllu. Ríkisstjórnin þarf bara að hafa kjark til að hrista af sér þrýstihópana.

Kjarkmikil ríkisstjórn ætti þess kost að safna í sjóð sparnaðinum af niðurskurði og draga þannig úr verðbólgunni. Hún ætti þess líka kost að láta skattgreiðendur njóta þessa, almenningi til lífskjarabóta.

Duglaus ríkisstjórn á hins vegar enga slíka kosti. Hún rekst bara undan straumum og vindi og gætir þess eins, að laun og skattsvik þingmanna aukist meira en annarra manna.

Duglausir ráðamenn í ríkisstjórnum og sveitarstjórnum breyta lífi í eyðimerkur. Þeir auka skattakúgunina á kostnað almennings og atvinnuvega, unz hrikta fer í sjálfum undirstöðunum.

Eitt lítið blóm, sem sprettur í slíkri eyðimörk, er til þess fallið að efla kjark manna og trú þeirra á, að eyðimörkina sé unnt að rækta.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið