Bloggið á toppnum

Punktar

Darryl Plummer hjá Gartner ráðgjöfum segir, að bloggið muni toppa á næsta ári. Flestir, sem áhuga hafi á slíku, séu þegar farnir að blogga. Sumir muni halda því áfram, en öðrum fari fljótt að leiðast. “Allir telja sig hafa eitthvað að segja, unz þeim er afhentur ræðustóllinn,” segir Plummer. Samkvæmt þessu mun nýjabrumið fljótlega fara af blogginu. Plummer spáði líka, að kostnaður við tölvur muni lækka um helming á næstu fjórum árum. Og að í lok næsta árs verði tölvubúnaður 75% fyrirtækja sýktur af varanlegum veirum, sem ekki er hægt að finna eða hreinsa út.