Bloggarar verða steinhissa

Greinar

Mörgum finnst þeir vera heima hjá sér, þegar þeir setjast við tölvuna og rasa út á heima- eða bloggsíðu sinni. Þegar undarlegar skoðanir þeirra og ruddaleg framsetning þeirra vekja athygli úti í bæ, koma þeir af fjöllum og segja þessi skrif vera sitt einkamál, sem komi engum við nema sér.

Sá, sem fer út á veraldarvefinn með óheflaðar skoðanir á mönnum og málefnum, er auðvitað kominn á opinberan stað, þar sem allir geta séð hann. Þótt menn sitji heima hjá sér og bölsótist innan veggja heimilisins, er allt þetta orðið eign heimsins, þegar ýtt hefur verið á takkann “submit”.

Persónuvernd hefur að vísu þá skoðun, að einkaheimur fólks fylgi því eins og blaðra út af heimilinu inn á kaffihús og skemmtistaði, sundstaði og reiðskóla. Sú skoðun styðst hins vegar ekki við neinn raunveruleika á Vesturlöndum og nýtur ekki neins stuðnings í dómvenju dómstóla á Vesturlöndum.

Ef til vill gæti Persónuvernd á fimmta glasi gert sér í hugarlund, að þessi blaðra einkaheimsins fylgdi bloggi og öðru skítkasti út um allan veraldarvefinn. En trauðla finnst ábyrgur aðili í samfélaginu, sem léti sér detta slíkt í hug. Veraldarvefurinn getur aldrei orðið einkamál eins né neins.

Auðvitað er tekið upp í fjölmiðlum, þegar menntaskólakennari bloggar og kallar nemendur í tilgreindum bekk rassálfa, sem hún þurfi að brjóta snyrtilega niður, segir þá vera ólæsa með öllu og svo framvegis. Eða þegar hún segir Barnaland vera uppáhaldsheimasíðu “matsjó” karla í verkamannavinnu.

Auðvitað er líka tekið upp í fjölmiðlum, þegar forstjóri útvarpsins á Suðurlandi bloggar og fer hörðum orðum um persónur og leikendur í fréttum líðandi stundar. Hvorki forstjórinn né menntaskólakennarinn geta komið af fjöllum, þegar ruddaleg ummæli þeirra vekja athygli fjölmiðla.

Að undirlagi Persónuverndar er komið í tízku að segja allt vera einkamál. Fólk er talið vera í einkamálablöðru, þegar það fer af heimilum sínum út á opinbera staði, svo sem skemmtistaði og kaffihús. Stutt er í, að fólk verði talið búa í einkamálablöðru, er það opinberar fordóma í bloggi.

Niðurstaðan verður þó sú, að sérhver verður að gera sér grein fyrir, að birting efnis í ólæstu formi í bloggi á netinu er útgáfa, sem lýtur sömu lögmálum og önnur útgáfa.

DV