Blóðmjólkaðir.

Greinar

Meðan erlend fiskiskip veiða undir herskipavernd á alfriðuðu svæði er komið verkfall á íslenzka fiskveiðiflotanum.. Þetta ástand er dæmi um sjálfseyðingarhvöt þá, sem stundum ber of mikið á hér á landi.

Sjómenn og útgerðarmenn voru búnir að finna lausn á afnámi hins hættulega og illræmda hluta sjóðakerfisins og á tilheyrandi breytingum á fiskverði og skiptaprósentu. Síðan strönduðu samningar þessara aðila á ósamkomulagi um, hvort sjómenn gætu aukið hlut sinn á kostnað útgerðarinnar.

Sjómenn koma vissulega að tómum kofum hjá útgerðarmönnum, sem yfirleitt eru illa stæðir um þessar mundir. Samt er það staðreynd, að sjómenn eru of tekjulágir í samanburði við aðrar stéttir. Þeir eiga skilið að fá meiri tekjur, en útgerðin getur ekki greitt meira,

Sjávarútvegurinn er dráttardýr þjóðfélags okkar. Hann er talinn hinn afkastamesti í heimi svo af ber. Við eðlilegar aðstæður ættu bæði útgerð og sjómenn að safna auði og ekki að þurfa að berast á banaspjótum í deilum um skiptingu á fjármagni, sem ekki er til.

Verðið á fiskinum frá sjávarútveginum til vinnslustöðvanna er helmingi lægra hér á landi en í nágrannalöndunum og í sumum tilvikum er munurinn enn meiri. Þetta stafar af því, að vinnslustöðvarnar fá of fáar krónur fyrir dollarana, sem fiskurinn selst fyrir í útlöndum. Gengi krónunnar er nefnilega of hátt og hefur verið svo áratugum saman.

Þannig blóðmjólkar þjóðfelagið sjávarútveginn og fiskiðnaðinn til þess að halda uppi miklum kostnaði og lúxus á öðrum svióum. Með of háu gengi er fjármagnið flutt frá fiskvinnslustóðvum og fiskvinnslufólki, útgerðarfyrirtækjum og sjómönnum og dreift út í þjóðfélagið.

Með þessum hætti hefur verið hægt að halda uppi dýrri yfirbyggingu á þjóðfélaginu, byggðastefnu og landbúnaði, óhófskjörum í byggingaiðnaði, svo og velferðarstefnu til jafns við hinar auðugu þjóðir Norðurlanda.

Aldrei hefur verið gerð nein vísindaleg úttekt á því, hve miklir fjármunir renna með þessum hætti frá dráttardýrum þjóðfélagsins umfram það, sem eðlilegt er að krefjast af Þeim. Væri þó ekki mjög erfitt að gera samanburð á íslenzkum sjávarútvegi og sjávarútvegi nágrannalandanna.

Afköst þessara greina og rekstrarvörunotkun eru mælanleg. Síðan má finna meðaltal af fiskverði upp úr sió og til útflutning í nokkrum mikilvægum löndum og taka tillit til opinherra styrkja og annarrar fyrirgreiðslu, sem er misjöfn eftir löndum.

Enginn vafi er á, að slík rannsókn mundi leiða í ljós, að árlega renna margir milljarðar frá hinni séríslenzku stóriðju umfram það, sem eðlilegt er að krefjast. Hitt er svo annað mál, hvort þjóðfélagið mundi þola að missa þessa blóðpeninga að einhverju eða öllu leyti.

Ef til vill gætu sjómenn og útgerðarmenn notað eitthvað af þeim peningum, sem þeir deila um, til að kosta slíka rannsókn, svo að þeir geti framvegis beint spjótum sínum að hinum raunverulega arðræningja þeirra, þjóðfélaginu í heild.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið