Blessuð nýlendukúgunin.

Greinar

Því hefur verið haldið fram, að Íslendingar hafi verið tiltölulega lánsamir að hafa Dani að herraþjóð á hinum myrku öldum. Nýlendukúgunin hafi verið fjarlæg og væg.

Á þessum tímum var almenningur í Evrópu kúgaður af nálægum yfirvöldum og var sú kúgun sízt minni en hin fjarlæga nýlendukúgun hér á landi. Í mannkynssögunni vill eymd almennings oft gleymast, þegar fjallað er um glæsta hershöfðingja og listamenn.

Önnur þjóð getur um þessar mundir hugsað með. söknuði til síns gamla nýlenduveldis. Kambódíumenn geta minnzt velmegunar og friðar þess tíma, er Frakkar fóru þar með völd.

Verst varð kúgun Kambódíumanna, þegar hún var orðin heimatilbúin. Sú innlenda yfirstétt, sem þar hefur ráðið síðustu árin, var hin langsamlega grimmasta, er sögur fara af á þeim slóðum.

Kambódíumenn eiga ekki von á góðu undir hinni nýju stjórn Vietnama. Milli þessara frændþjóða hefur löngum ríkt geigvænlegt hatur. En fáir trúa því þó, að Vietnamar verði grimmari en Rauðu khmerarnir, sem nú hafa hrakizt frá völdum.

Í stórum hlutum þriðja heimsins er eymd og kúgun almennings mun meiri nú en hún var á tíma hinna evrópsku nýlenduvelda. Afríka er sorglegt dæmi um þetta.

Þar hefur framleiðslan minnkað um 10% á áratugnum 1967-1977. Samt dregur hin innlenda yfirstétt til sín mun meira fé en hin evrópska gerði áður. Stéttaskiptingin hefur aukizt.

Þar á ofan nýtur almenningur ekki lengur réttarverndar gamalla evrópskra lagahefða. Leiðtogarnir, sem engir eru lýðræðislega kjörnir, stjórna af harðneskju og geðþótta.

Amin og Bokassa eru frægastir. En þeir eru ekki einir um hituna. Nyerere í Tanzaníu er talinn með skikkanlegri leiðtogum álfunnar, en þætti ekki til fyrirmyndar, ef hann væri einræðisherra á Íslandi.

Nyerere lætur herlögregluna reka bændur frá löndum þeirra og brenna hús þeirra og uppskeru. Með þeim hætti reynir hann að þröngva þeim til þáttöku í samyrkjubúum. Gífurlegur fjöldi landsmanna rotnar nú í fangabúðum Nyereres.

Flestir leiðtogar álfunnar eiga það sameiginlegt að hafa leikið þjóðarhag grátt. Þeir klippa ekki sauði sína, heldur flá þá. Efnahagslífið í flestum löndum Afríku er í rúst.

Sums staðar hafa Evrópumenn ekki enn verið hraktir úr landi og annars staðar hafa þeir verið kallaðir til hjálpar. Í Zambíu, þar sem býr hálf sjötta milljón manna, halda 300 evrópskir bændur uppi matvælaframleiðslunni og 4000-5000 evrópskir námumenn koparframleiðslunni.

Þessi hjálp stendur tæpast lengi. Leiðtogarnir þurfa að skella skuldinni á forna nýlendukúgun og halda því áfram að æsa þjóðir sínar upp gegn Evrópumönnum. Þeir verða því myrtir eða hraktir úr landi.

Yfirstéttin í löndum þessum lifir í meiri vellystingum en auðstéttir Vesturlanda. Hún fyrirlítur landsfólkið eins og hunda. Eymd og volæði almennings snertir hana ekki hið minnsta.

Ráðamennirnir kenna vondum útlendingum, sem haldi niðri verði á hráefnum og matvælum, um hið slæma ástand. Lygin bætist þannig við spillinguna og getuleysið sem einkennistákn yfirstéttarinnar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið