Bláskógavegur

Frá Sæluhúsmúla á Reykjaheiði um Keldunesheiði að Undirvegg og Eyvindarstöðum í Kelduhverfi.

Bláskógavegur liggur um grónar heiðar Kelduhverfis, sundurskornar af gjám, sem liggja norður í framhaldi af Gjástykki. Þetta er dulmagnað heiðarland. Bezt er að fylgja slóðum dráttarvéla, því að víða leynast gjár undir grónu yfirborði. Einnig af því, að víða er kargaþýfið erfitt yfirferðar. Heiðin er óvenjulega vel gróin, þótt hraunið standi sums staðar upp úr. Hér er mikið af litskrúðugum blómum. Beitilyng, krækiberjalyng, sortulyng og fjalldrapi, gulvíðir og grávíðir, birki og reyniviður. Og mikil fugladýrð, þrestir, maríuerlur, sólskríkjur og margar fleiri tegundir.

Förum frá Sæluhúsmúla austur Bláskógaveg, en förum heldur sunnar, í austnorðaustur. Komum að Undirvegg í Kelduhverfi og förum þaðan norður að eyðibýlinu Eyvindarstöðum við þjóðveg 85.

22,5 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Sæluhúsmúli: N65 57.686 W17 02.070.

Nálægir ferlar: Keldunesheiði, Þeistareykir.
Nálægar leiðir: Sæluhúsmúli, Hrútafjöll.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort