Blæja

Frá Botni í Þorgeirsfirði að Látrum á Látraströnd.

Leiðin frá Botni að Látrum er ekki birt hér til að hvetja menn til að fara hana með hesta. Hún er nógu þung gangandi fólki, þótt ekki verði einnig að hafa gát á hrossum. Samt var þetta eina hestfæra leiðin úr Fjörðum til Eyjafjarðar, önnur en heiðin suður að Grýtubakka. Engar sögur fara að vísu af slysum á leiðinni, en hún er skelfilega hrikaleg. Ferðaþjónustuaðilar fara hana samt reglulega með trússhesta. Og útsýnið af leiðinni er stórkostlegt. Ekki sama leið og Uxaskarð milli Flateyjardals og Köldukinnar.

Förum frá Botni í Þorgeirsfirði vestur yfir Mígindiskamb og sneiðinga vestur og upp Háu-Þóru, allt upp í Blæjukamb, þar sem gatan er í bröttum sneiðingum og tæp slóðin fremst á kambbrúninni. Síðan bratt niður í dalverpið Blæju og aftur upp annan kamb enn hærri, Hnjáfjall, einnig í bröttum sneiðingum. Þar erum við í 400 metra hæð og snarbratt niður í sjó. Leiðin liggur svo hjá Messukletti um skriður niður í Keflavíkurdal og suður dalinn meðfram Gjögri að Uxaskarði. Leiðin liggur skáhallt upp í Fossbrekkur, þar sem undirlendið þrýtur. Þar förum við bratt upp í sneiðingum. Uxaskarð heitir lægðin í fjallinu, í 510 metra hæð. Niður af því förum við snarbrattar melbrekkur niður í Fossdal og strax yfir Fossá. Þaðan er greið leið inn að Látrum á Látraströnd í Eyjafirði.

13,4 km
Þingeyjarsýslur

Erfitt fyrir hesta

Skálar:
Þönglabakki: N66 09.120 W18 07.399.
Keflavík: N66 10.055 W18 15.070.
Látur: N66 06.987 W18 18.972.

Nálægar leiðir: Látraströnd, Fjörður.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins