Bjallavað

Bjallavað er eina reiðfæra vaðið á Tungná.

Vaðið er ekki lengur riðið, því að menn fara á brú yfir ána mun neðar. Byrjum þar sem fjallabaksleiðin frá Sigöldu liggur að Tungnaá rétt norðan við vegamót Dyngjuleiðar vestur í Valagjá. Við ána er bátaskýli, þar sem áður var ferjustaður.

“Séu menn ríðandi og áin ekki í vexti, kjósa flestir að fara hana á vaði, sem er 100-200 metra neðan við ferjustaðinn. Þetta er eina vaðið, sem nú er vitað um á allri Tungnaá, kallað Bjallavað, og hefur eigi breytzt að ráði í manna minnum. Er þá farið út í við litla vörðu, sem er á árbakkanum sunnan megin, og þess gætt, að ekki beri undan straumi. Þegar komið er yfir ca. 1/3 árinnar, er farið skáhallt móti straum og stefnt ofanvert við vörðu eða réttarbrot á norðurbakkanum. Þegar komið er yfir ána, er farið yfir Bjalla og niður allbratt klif að austan og er þá komið niður á öldóttan gróðurlausan sand, er heitir einu nafni Vatnaöldur, og haldið í austur-landnorður. Slóð fyrri vegarenda sést eigi … Aftur má í sæmilegu veðri hafa stuðning af allháum ölduhrygg, er kemur bráðlega í ljós á vinstri hönd og gnæfir Þóristindur þar yfir. Brátt kemur og annar ölduhryggur, hærri og lengri, á vinstri hönd. Leiðin liggur milli þessara ölduhryggja, þó svo að smám saman nálgast þann, sem er til hægri. (Steinþór Sigurðsson jarðfræðingur, Árbók FÍ 1940, bls.11). Þar er komið á jeppaslóðina að Skyggnisvatni.

9,2 km
Rangárvallasýsla

Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk

Skálar:
Bjallar vestur: N64 06.576 W19 06.284. Ónýtur.
Bjallar austur: N64 06.583 W19 05.954. Ónýtur

Nálægir ferlar: Dyngjur.
Nálægar leiðir: Sigalda, Skyggnisvatn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins