Bitið í fingur

Greinar

Ef ritstjórar Þjóðviljans bitu í fingur forgöngumanns í undirskriftasöfnun Varins lands, mundu þeir verða að greiða nokkur þúsund króna skaðabætur. Þeir mundu ekki segja, að þessir peningar væru verðgildi forgöngumannsins. Aðeins væri um meiðsli að ræða, sem mundu gróa aftur. Hafliði allur yrði mun dýrari.

Meiðyrði meiða æru manna á skyldan hátt og sagt er frá í dæminu hér að ofan. Æran eyðileggst ekki, heldur verður fyrir meiðslum, sem gróa síðan. Þetta verður að hafa í huga, þegar forgöngumanni í undirskriftasöfnun Varins lands eru dæmdar 2.500 króna skaðabætur fyrir meiðandi ummæli í Þjóðviljanum.

Það er gróf fölsun í Þjóðviljanum, þegar blaðið heldur því fram, að dómstóllinn hafi metið æru forgöngumanngins á 2.500 krónur. Það voru meiðslin á ærunni, sem dómstóllinn mat á 2.500 krónur. Fölsun af þessu tagi er dæmigerð fyrir vinnubrögð Þjóðviljans, þegar persónuhatrið er látið ráða ferðinni.

Skaðabótaupphæðin skiptir raunar minnstu máli í meiðyrðadómum. Það er ómerking hinna meiðandi ummæla, sem skiptir mestu. Enda óska sumir þeir, sem höfða meiðyrðamál, ekki eftir skaðabótum, heldur aðeins ómerkingu. Til dæmis krafðist Dagblaðið ekki skaðabóta, þegar það höfðaði mál gegn Guðjóni Styrkárssyni fyrir meiðyrði.

Mörgum hættir til að ofmeta skaðann, sem æra þeirra verður fyrir vegna meiðyrða. Ekki sízt á þetta við um opinberar persónur, sem eru í sviðsljósinu og kalla þannig á lof og last. Persónur, sem bera pólitíska og þjóðfélagslega ábyrgð vegna stöðu sinnar í kerfinu, hljóta að sæta gagnrýni, þar á meðal óvæginni gagnrýni.

Forgöngumenn undirskriftasöfnunar Varins lands hlutu að vita, að afskipti þeirra af viðkvæmu, pólitísku máli mundu verða höfð þeim til áfellis. Þeir kusu að koma fram í sviðsljósið og máttu þar af leiðandi eiga von á fúleggjum úr áhorfendasalnum.

Orðbragð Þjóðviljans fór út fyrir mörk almenns velsæmis. En hvaða áhrif hafði þetta orðbragð í rauninni á æru forgöngumanna Varins lands? Urðu þeir minni í augum fjölskyldu sinnar, vina, kunningja, starfsbræðra eða skoðanabræðra? Nei, þvert á móti er líklegt, að æra þeirra hafi fremur vaxið í augum flestra þessara aðila.

Ástæða er til að efast um, að nokkurt mar sjáist eða hafi nokkru sinni sézt á æru forgöngumanna undirskriftasöfnunar Varins lands vegna meiðyrða Þjóðviljans. Því er hér spurt, hvort 2.500 króna skaðabætur séu ekki í rauninni of mikið, – hvort ómerking ummælanna ein hefði ekki átt að nægja?

Meiðyrðalögin voru ekki sett til þess að opinberar persónur í sviðsljósinu gætu gert sér þau að féþúfu. Þau voru sett til að draga mörk velsæmis í ummælum um menn og málefni. Kjarni þeirra fjallar um, hvenær skuli ómerkja og hvenær skuli ekki ómerkja. Fjármálahliðin er þar algert aukaatriði.

Þetta hafa dómarar réttilega haft í huga í úrskurðum sínum í meiðyrðamálunum vegna Varins lands.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið