Bíldsárskarð

Frá Kaupangri eða Þórustöðum í Eyjafirði að Sörlastöðum í Fnjóskadal.

Tignarlegur fjallvegur með frábæru útsýni yfir Eyjafjörð og Eyjafjarðarsveit. Brött reiðleiðin milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals um Bíldsárskarð hefur ætíð verið fjölfarin. Núna er hún helzta tengileið hestaferðamanna milli Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslna. Akureyringar fara þessa leið til Sörlastaða. Það er eyðibýli í umsjá hestamannafélagsins Léttis innarlega í Fnjóskadal, rétt sunnan við mynni Timburvalladals. Í Bíldsárskarði eiga engir bílar að geta verið á ferð. En hér hafa menn böðlazt um á torfæruhjólum og skemmt leiðina.

Byrjum á þjóðvegi 829 sem liggur suður Eyjafjörð austan Eyjafjarðarár. Skilti merkt reiðleiðinni er við þjóðveginn nálægt Þórustöðum sunnan við Kaupangur. Sneiðum norður hlíðina að Bíldsá og förum með henni bratt um sneiðinga upp skarðið. Síðan austur skarðið um Axlir í rúmlega 620 metra hæð. Þaðan förum við til norðausturs sunnan við Sölvagil og fljótt suðaustur frá gilinu niður hlíðarnar að Grjótárgerði í Fnjóskadal. Þar förum við með þjóðvegi 833 suður að Illugastöðum og yfir brú á Fnjóská. Höldum áfram austan ár eftir reiðgötum um eyðibýlið Belgsá suður að mótum Fnjóskár í Bleiksmýrardal og Bakkaár í Timburvalladal. Förum yfir Bakkaá ofan við ármótin og síðan með línuvegi vestan árinnar inn Timburvalladal. Unz við komum að Snæbjarnarstöðum, sem eru andspænis Sörlastöðum austan árinnar. Förum þar austur yfir ána og beint að Sörlastöðum, sem eru í 240 metra hæð. Einnig er hægt að ríða með jeppaslóð austan Bakkaár og fara aldrei yfir ána.

27,1 km
Eyjafjörður, Þingeyjarsýslur

Skálar:
Sörlastaðir: N65 33.420 W17 40.400.

Nálægir ferlar: Fnjóskadalur, Hellugnúpsskarð.
Nálægar leiðir: Melgerðismelar, Gönguskarð vestra, Gásasandur, Hellugnúpur.

Skrásetjari: Sæmundur Eiríksson
Heimild: Jónas Kristjánsson, Herforingjaráðskort og Sæmundur Eiríksson