Bezta tryggingin

Greinar

Mikilvægur þáttur almenns öryggis er viðbúnaður gegn óvæntu brottfalli aðflutninga á vörum, sem skipta miklu í rekstri efnahagslífsins. Aðflutningar gætu hæglega lagzt niður um langan eða skamman tíma, ef heimsstyrjöld brytist út. Þótt líkur á slíkri styrjöld séu sáralitlar, er óráðlegt að taka áhættuna af því að fljóta sofandi að feigðarósi.

Fyrsta stig viðbúnaðarins þarf ekki að kosta mikið fé. Þetta fyrsta stig felst í mati á vandamálinu og kortlagningu þess. Afla þarf upplýsinga hjá stjórnendum raforkuvera og hitaveitna um, hve mikið þurfi að vera til í landinu af mikilvægum rekstrarvörum til að tryggja rekstur þessara stofnana um nokkurt árabil, ef aðflutningar stöðvast.

Ef rekstur orkuveranna er tryggður, ætti um leið að vera unnt að tryggja rekstur frystiklefa hraðfrystihúsa víðs vegar um land. Þar með ætti þjóðin að geta átt nægan matarforða til nokkurra ára.

Til viðbótar kemur til greina, að hinn sameiginlegi sjóður þjóðarinnar festi nokkurt fé til að tryggja, að ævinlega séu vissar lágmarksbirgðir af hraðfrystum fiski til í landinu. Ekki mætti þá afskipa örar en niður að þessu lágmarki.

Rekstur orkuveranna er líka undirstaða þess, að húsnæði þjóðarinnar haldist hlýtt og bjart. Ennfremur eru orkuverin forsenda þess, að áfram geti haldizt margvíslegur iðnaður, sem notar rafknúnar vélar.

Aðgerðir á þessum sviðum ættu ekki að þurfa að kosta mikið fé. En þær mundu ekki koma í veg fyrir, að sjávarútvegur, landbúnaður og sam göngur stöðvuðust vegna eldsneytisskorts. Þess vegna þarf líka að byggja aðstöðu til að geyma innanlands feikilegt magn af olíum og benzíni.

Söfnun eldaneytisbirgða kostar verulegt fjármagn. Það er líka ljóst, að mjög erfitt verður að tryggja rekstur sjávarútvegs, landbúnaðar og samgangna í langan tíma með þessum hætti. Eldsneytisnotkun okkar er svo mikil.

En hálfs til heils árs birgðir gætu tryggt okkur gegn því, að skammvinnur ófriður úti í heimi stöðvaði atvinnulífið hér heima fyrir. Til greina kæmi einnig að safna miklum birgðum af öðrum vörutegundum, sem skipta miklu, svo sem korni.

Ef ófriður brytist út og stöðvaði aðflutninga til Íslands, væri fyrsta skrefið að opna eldsneytisgeymana og skammta olíuna til nauðsynlegustu þátta atvinnulífsins. Ef þetta dygði ekki vegna langvarandi ófriðar, væri síðara skrefið fólgið í því að fara að skammta af freðfiskbirgðum frystihúsanna.

Ekki virðist óskynsamlegt að stefna að því, að atvinnulífið geti starfað óhindrað í heilt ár og að matarbirgðir séu þjóðinni til lífsviðurværis í tvö til þrjú ár í viðbót. Jafn skynsamlegt virðist vera að hraða sem mest orkuuppbyggingu landsins, svo sem stjórnvöld eru raunar þegar farin að gera.

Tryggingastarfsemi af þessu tagi kostar mikið fé. En því fé er ekki kastað á glæ, því að vörubirgðir koma í staðinn. Og það eru einmitt slíkar tryggingar, sem eru mikilvægastar allra trygginga.

Jónas Kristjánsson

Vísir