Beruvík

Frá Arnarstapa að Rifi.

Þetta heitir að fara fyrir Jökul. Hér gnæfir Snæfellsjökull upp úr landinu, klæddur snævi og hraunbreiðum. Hér segja margir, að sérstakur kraftur sé í andrúmsloftinu. Við förum framhjá eyðibýlinu Laugabrekku, þar sem fæddist víðförulasta kona heims á miðöldum, Guðríður Þorbjarnardóttir. Hún bjó í Grænlandi og Ameríku og hélt suður, til Rómar eða Compostela, en dó í Skagafirði. Við förum um fornar verstöðvar, þar sem hundruð manna bjuggu á vertíðartíma, einkum á Hellnum og Dritvík. Við förum einstigi um Valhraun og Prestahraun og um sléttar grundir í Beruvík. Við getum áð og brugðið okkur niður að einstæðum Lóndröngum og Dritvík. Leiðin er að mestu utan bílvega. Að Arnarstapa liggur forn þjóðleið frá Búðum um Búðahraun, Hraunlandarif og Sölvahamar.

Byrjum á þjóðvegi 574 hjá Arnarstapa á Snæfellsnesi. Förum vestur með þjóðveginum yfir Hellnahraun og áfram norðan við Bárðarlaug. Fyrst förum við norðan vegar og síðan sunnan vegar framhjá Dagverðará. Þegar kemur að horni Háahrauns förum við norður yfir þjóðveginn og inn á reiðslóð eftir einstigi vestur um Valhraun. Þegar komið er að Purkhólum, förum við vestur yfir þjóðveginn og síðan um Seljahraun yfir afleggjara að Lóndröngum og Dritvík. Tvo kílómetra förum við norður með þjóðveginum um Beruvíkurhraun og síðan vestur af honum í átt að Hólahólum. Þaðan liggur reiðslóðin Miðvegur til norðvesturs um Kothraun í átt að Klofningsrétt í Beruvík. Áfram förum við upp á Miðveg og síðan meðfram þjóðvegi langan kafla framhjá Forna-Saxhóli og Saxhóli. Beygjum síðan á hliðarveg til austurs inn Eyvindardal. Þegar við komum að Rauðhóli, beygjum við til norðurs eftir reiðslóðinni Prestahraunsgötu. Við Saxhamar beygjum við til austurs í átt að eyðibýlinu Skarði og síðan til norðurs í átt að flugvellinum að Hellissandi. Áður en við komum að honum, beygjum við til vesturs og síðan til norðurs að hesthúshverfinu á Hólsbreið hjá Rifi og Hellissandi. Einnig er hægt að fara beint norður frá Saxhamri í Ingjaldshól.

39,5 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægir ferlar: Klettsgata.
Nálægar leiðir: Jökulháls, Malarrif, Öndverðarnes, Ennisdalur, Ólafsvíkurenni.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Herforingjaráðskort