Berserkjagata

Frá Hrauni að Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi.

Götunnar er getið í Heiðarvígasögu og Eyrbyggju. Eyrbyggja segir, að Víga-Styr á Hrauni hafi tekið við tveimur skapstirðum berserkjum af bróður sínum, Vermundi í Bjarnarhöfn. Til að bæta geð þeirra fékk hann þeim verk að vinna og skyldi annar þeirra fá dóttur hans að launum. Verkefnið var að ryðja veg yfir hraunið til Bjarnarhafnar. En Víga-Styr efndi ekki loforðið, heldur drap berserkina, er þeir voru í gufubaði. Síðan dysjaði hann þá við götuna. Enn í dag sést þessi dys greinilega, enda hafa vegfarendur bætt steinum í hana í tímans rás. Berserkjagata er mikið mannvirki og er enn farin á hestum. Dysin hefur verið rofin og fundust þar bein af tveim lágvöxnum, þreknum mönnum. Þessi gata er elsti manngerði vegurinn á Íslandi, yfir þúsund ára gamall.

Byrjum á gatnamótum þjóðvega 54 og 577 sunnan Stykkishólms. Förum með þjóðvegi 577 um Skeið, norðvestur undir Staðarbakka og síðan vestur að Kóngsbakka og áfram vestur fyrir Hraunháls að heimreið að Bjarnarhöfn. Þar á gatnamótunum hefst Berserkjagata hin forna og liggur hún norðan og austan heimreiðar. Hún liggur um eyðibýlið Brúarholt og endar í Bjarnarhöfn.

11,7 km
Snæfellsnes-Dalir

Nálægar leiðir: Hraunsfjörður, Vatnaheiði, Kerlingarskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort