Baráttan gegn sjálfsmorðsárásum

Greinar

Hasib Hussain var 19 ára, þegar hann sprengdi sig með öðru fólki í strætó í London 7. júlí. Hann hafði aldrei gengið í skæruliðaskóla á vegum al Kaída eða Osama bin Laden. Germaine Lindsay var líka 19 ára, þegar hann sprengdi sig við sama tækifæri, sonur kristinna foreldra frá Jamaíku.

Komið hefur í ljós, að skæruliðar sjálfsmorðsárása eru ekki endilega frá Afganistan og Írak. 11. september 2001 á Manhattan voru þeir frá Egyptalandi og Sádi-Arabíu, sem eru bandamannaríki. 7. júlí 2005 í London voru þeir heimamenn, fæddir á Bretlandi. Hvenær verða þeir innfæddir og hvítir?

Ráðþrota eru þeir, sem hafa atvinnu af að gæta öryggis fólks á Vesturlöndum. Þeir hafa engar frambærilegar ráðagerðir um að koma í veg fyrir, að almenningur bíði bana í árásum aðila, sem hafna vestrænu samfélagi og vilja hefna vestrænna hernaðaraðgerða í útlöndum. Þeir hafa reynt að nota útlitið.

Ekki tókst betur til en svo, að brezkar sérsveitir skutu til bana rafvirkja frá Brasilíu, Jean Charles de Menezes, sem aldrei hafði komið nálægt hryðjuverkum. Megum við eiga von á meiri aðgerðum af því tagi, árásum sérsveita, lögreglu og almennings á fólk, sem útlits vegna gætu verið múslimar?

Aðgerðir vegna útlits fólks eru ekki til þess fallnar að draga úr hættu á hryðjuverkum. Í bezta falli leiða þær til fjölgunar í hópi hinna ofsareiðu. Er þó nóg unnið að því fyrir í Afganistan og Írak að fjölga í þeim hópi. Þar framleiða herir Vesturlanda hundruð skæruliða daglega.

Óvinurinn er orðinn heimasmíðaður. Hussain og Lindsay urðu ofstækismenn í Bretlandi, ekki í þriðja heiminum. Slíkir læra á netinu, hvernig á að búa til sprengju úr áburði. Þeir lesa þar, hvers vegna þeir eigi að fórna lífinu í þágu trúarbragða, sem túlkuð eru ofsafengið gegn vestrinu.

Til þess að vinna gegn sjálfsmorðsárásum þurfum við að skilja, hvers vegna hryðjuverkamenn hafa öruggt skjól af vinveittu fólki, hvort sem er í Írak eða í London. Við þurfum að átta okkur á, að eitthvað mikið er að, þegar venjulegt fólk heldur hlífiskildi yfir fjöldamorðingjum.

Lausnin er ekki í hernaðar- og lögregluaðgerðum, heldur í auknum skilningi á því, hvað það er, sem gerir skæruliðum kleift að valda blóðbaði í Bagdað og London og New York.

DV