Hróplegt ósamræmi er milli stuðnings hins opinbera við keppnisíþróttir annars vegar og almenningsíþróttir hins vegar. Sigurður E. Guðmundsson framkvæmdastjóri vakti athygli á þessari staðreynd í kjallaragrein í Dagblaðinu fyrir skömmu.
Hann benti annars vegar á glæsilega áhorfendapalla sundlaugarinnar í Laugardal og hins vegar á afar frumstæða aðstöðu í búnings- og baðherbergjum almennings. Hann benti annars vegar á 150 milljón króna endurbætur á keppnisaðstöðu í Laugardal og hins vegar á skortinn á skautasvelli fyrir almenning.
Þessi dæmi stjörnudýrkunar eru á ábyrgð Reykjavíkurborgar. Önnur dæmi mætti sjálfsagt finna hjá öðrum sveitarfélögum. Einnig er ekki laust við, að mörg íþróttafélög hugsi nær eingöngu um keppnisíþróttir.
Þess eru ótal dæmi, að börn og unglingar fari að æfa hjá íþróttafélögum, án þess að komast í keppnislið, og hrekist síðan úr félögunum, vegna þess að þau einbeita sér að keppnisliðum.
Stuðning opinberra aðila við íþróttafélög ætti raunar að miða við þann fjölda, sem tekur þátt í æfingum á vegum þeirra. Með þeim hætti væru félögin hvött til að ná til sem flestra, þótt þau eigi þar ekki von í keppnisárangri.
Með þessu er ekki sagt, að allt sé á sömu bókina lært. Opnun almenningssundlauga í Reykjavík og mörgum öðrum sveitarfélögum hefur átt mikinn þátt í að gera sund að almenningsíþrótt. En jafnvel á þessu sviði er margt enn ógert.
Fjöldi fólks hefur slæma aðstöðu til að sækja sundstaði nema um helgar. Einmitt þá daga eru sundlaugarnar skemur opnar en aðra daga og álag því oft mikið. Hvers vegna eru sumar skólasundlaugarnar ekki opnaðar fyrir almenning um helgar?
Sveitarfélög og íþróttafélög hafa einnig gert skíðamennsku að almenningsíþrótt. Skíðasvæðið í Bláfjöllum er stærsta verkefnið á því sviði. Þangað er of sjaldan fært. Og þar þyrfti að setja örar upp lyftur í brekkum, sem henta almenningi.
Ein tegund trimms hefur skyndilega orðið að almenningsíþrótt á fáum árum. Það eru gönguferðir í náttúrunni. Þar eiga mest lof skilið Útivist og Ferðafélagið, sem hafa háð harða keppni á þessu sviði. Hvers vegna skyldu opinberir aðilar ekki styðja þetta trimm, sem á greinilegan hljómgrunn?
Lítið er gert fyrir skokkara, bæði í Reykjavík og annars staðar. Þeir hafa þó fengið nokkurt griðland á Melavelli, síðan hvort tveggja gerðist, að stjörnurnar fóru á teppið í Laugardal og að hætt var við að leggja Melavöll niður.
Það mundi ekki kosta nein ósköp í samanburði við stjörnukostnaðinn að lagfæra hlaupabrautina á Melavelli og koma þar upp nokkrum leikfimitækjum. Þar eru fyrir ágæt böð og búningsklefar, sem mætti nýta mun betur.
Á Reykjavíkursvæðinu vantar líka skautahöll fyrir almenning. Ennfremur volgan sjóbaðstað. Og loks vantar þar hjólreiðabrautir og trimmbrautir í hverfunum. Samanlagt mundu þessar óskir ekki kosta nema lítið brot af því fé, sem nú fer til stuðnings keppnisíþróttum.
Enginn vafi er á, að sveitarfélög og íþróttafélög hafa að verulegu leyti brugðizt almenningi, þótt dæmi séu um hið gagnstæða. Og fólk er nú farið að krefjast þess, að snúið verði við blaðinu.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið