Banvæn ríkisfaðmlög

Greinar

Eitt einkenni er meira áberandi en flest önnur, þegar fyrirtæki og heilar atvinnugreinar fara á höfuðið hér á landi. Það er, að þessir aðilar hafa notið óeðlilega hlýrra faðmlaga hins opinbera, sjóða þess, styrkjakerfis, ríkisbanka og ráðuneyta. Slík faðmlög eru banvæn í eðli sínu.

Álafoss er nýtt dæmi um álögin, sem fylgja heitum faðmlögum ríkisvaldsins. Það hefur pumpað í fyrirtækið hlutafé, styrkjum og lánum og meira að segja sent ýmsa helztu montkarla efnahagslífsins til að sitja í stjórn þess. Þetta dæmi gat ekki farið öðru vísi en illa.

Frægasta dæmið um ríkisfaðmlög er Samband íslenzkra samvinnufélaga, sem löngum hefur haft óheftan aðgang að ráðherrum og stærsta banka landsins. Þessa miklu ást hefur Sambandið ekki þolað. Það er nú að grotna í sundur og leysast upp í frumeiningar sínar.

Heil atvinnugrein er nú að fara á höfuðið eftir hlý faðmlög hins opinbera. Það er fiskeldið, sem hefur um árabil verið helzta tízkugrein stjórnmálanna. Undir fána þessa dekurbarns hafa menn vaðið í sjóði og banka og sitja núna uppi með átta milljarða króna hrun.

Afleiðingar faðmlaga ríkisins lýsa sér í ótal myndum. Ein er heilsuhæli Náttúrulækningafélagsins, sem er að verða eign ríkis og læknafélags, af því að það var orðið svo vant sjálfvirkri peningahlýju húsdýrs hins opinbera, að það getur ekki lifað úti í náttúrunni.

Þessa dagana er varla hægt að opna svo dagblað eða skrúfa frá útvarpi og sjónvarpi, að ekki fréttist af nýjum gjaldþrotum og neyðarópum frá fyrirtækjum og atvinnugreinum, sem ekki geta staðið við fjárskuldbindingar sínar. Þessi hrina á sínar eðlilegu skýringar.

Þegar fráfarandi ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók við völdum síðari hluta ársins 1988, var stigið risaskref í átt til velferðarríkis atvinnuveganna. Þá voru slegnir margir milljarðar í útlöndum til að koma á fót Atvinnutryggingarsjóði og Hlutafjársjóði.

Þessir nýju sjóðir bættust við fyrri Framkvæmdasjóð og Byggðasjóð og ríkisbankana. Í þessum stofnunum öllum sitja stjórnmálamenn og sérstök stétt ábyrgðarlausra embættismanna og hafa hamast við að faðma að sér einstök fyrirtæki og heilar atvinnugreinar.

Á sama tíma var fólkið í Austur-Evrópu unnvörpum að kasta af baki sér hliðstæðu velferðarkerfi atvinnulífsins, sem fólst eins og hér í, að ríkið sá fyrirtækjunum fyrir lifibrauði, en markaðurinn var skekktur og skældur. Við fórum í austur meðan aðrir fóru í vestur.

Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var versta ríkisstjórn Íslandssögunnar af því að hún vann skipulegar en aðrar að uppbyggingu velferðarríkis atvinnuveganna. Í meira mæli en aðrar ríkisstjórnir lét hún byggja gróðurhús utan um atvinnuvegi og fyrirtæki.

Þótt velferðarkerfi kunni að vera nothæft í félagsmálum, er það algerlega óhæft sem rammi utan um atvinnulíf. Fyrirtæki blómstra aðeins úti í náttúrunni, þar sem skiptast á skin og skúrir, sumar og vetur; þar sem síbreytilegar markaðsaðstæður efla fólk til dáða.

Hinn hefðbundni landbúnaður er dæmi um atvinnugrein, sem er orðinn svo fastur í álögum hins opinbera, að hann er orðinn að hreinni félagsmálastofnun. Faðmlög ríkisins við aðrar atvinnugreinar eru einnig að gera þær ófærar um að lifa samkvæmt markaðslögmálum.

Helzti lærdómur núverandi gjaldþrotahrinu er, að faðmlög hins opinbera eru hættuleg í atvinnulífinu og að hlýjustu faðmlög þess eru í eðli sínu banvæn.

Jónas Kristjánsson

910618

Kerfið þjónar Flugleiðum

Flugleiðir hafa náð þeirri aðstöðu, að hið opinbera tekur hagsmuni þeirra fram yfir almannahagsmuni, hvenær sem Flugleiðir telja sig þurfa á því að halda. Flugleiðir hafa fulltrúa í Flugráði og eru í mjög nánu og innilegu sambandi við samgönguráðuneytið.

Nýjasta málið í langri röð er einokun Flugleiða á afgreiðslu flugvéla á Keflavíkurvelli. Flugleiðir hafa notað þessa einokun til að ýta samkeppni í burtu og þannig meðal annars komið í veg fyrir, að íslenzkir atvinnuvegir eigi kost á ódýru vöruflugi til útlanda.

Um tíma opnaðist hér markaður Japansviðskipta með millilendingu flugvéla, fyrst frá Flying Tigers og síðan frá Federal Express. Þessa samkeppni drápu Flugleiðir í skjóli einokunar sinnar á vöruafgreiðslu á Keflavíkurvelli. Nú er sömu aðferð beitt gegn Pan American.

Óeðlilegt er, að eitt flugfélag hafi slíka aðstöðu til að stjórna möguleikum þjóðarinnar á að nýta sér æskilega og nauðsynlega samkeppni í flugi. Öll þjónusta í landi, hvort sem er við skip eða flugvélar, á að vera í höndum þriðju aðila, sem ekki hafa annarra hagsmuna að gæta.

Það skiptir engu máli, þótt vilhallir embættismenn samgönguráðuneytisins rembist við að reyna að trúa útreikningum Flugleiða um, að afgreiðslugjöld séu ekki of há hér á landi í samanburði við útlönd. Slíkir útreikningar leiða alltaf til hinnar pöntuðu niðurstöðu.

Afgreiðsla flugvéla á að vera frjáls og afgreiðslugjöld eiga að ráðast af markaðsaðstæðum. Það á ekki að vera í verkahring Flugleiða eða stuðningsliðs þeirra í samgönguráðuneytinu að reikna, hver þessi gjöld eigi að vera. Slík verðákvörðun er úrelt sovétfyrirbæri.

Athyglisvert er, að verndarmúrinn, sem hið opinbera slær um hagsmuni Flugleiða gegn hagsmunum neytenda og framleiðenda, er aldrei hærri en þegar Sjálfstæðisflokkurinn er við völd. Sá flokkur hefur reynzt vera sverð og skjöldur einokunar gróinna fyrirtækja.

Þingflokkur sjálfstæðismanna, sem minnir mjög á Alþýðubandalagið, lýsti beinlínis yfir andstöðu við skerðingu á einokun Flugleiða fyrir nokkrum árum, þegar vísir að samkeppni var í millilandaflugi og til umræðu var að veita fleiri áætlunarleyfi til annarra.

Á svipuðum tíma gengu tveir fulltrúar Flugleiða ekki af fundi í Flugráði, sem rétt hefði verið af siðsemisástæðum, þegar hagsmunamál eigin flugfélags var í húfi, heldur greiddu atkvæði gegn áætlunarleyfi til annarra aðila og mynduðu beinlínis meirihlutann í ráðinu.

Til þess að geta nýtt okkur upprennandi markaði, sem eru langt í burtu, svo sem Japan, þurfum við að eiga aðgang að stórum flugvélum með mikla burðargetu og leyfa viðkomandi aðilum að haga afgreiðslu flugvélanna hér á landi á þann hátt, sem þeim þykir hagkvæmastur.

Ekki má heldur gleyma, að núverandi kerfi gagnkvæmrar einokunar meira eða minna ríkisrekinna eða ríkisstuddra flugfélaga stríðir gegn Rómarsáttmála Evrópubandalagsins. Einkaréttarkerfi í flugi verður þess vegna fyrr eða síðar afnumið, hvað sem hver segir hér.

Þótt Evrópubandalagið hafi hingað til leyft, að einokunarflugfélög skipti með sér Evrópumarkaði og haldi þar uppi háu verði í skjóli einokunarhringsins IATA, hefur dómstóll Evrópubandalagsins úrskurðað, að þetta sé ólöglegt, ekki í samræmi við Rómarsáttmálann.

Hæfileg æfing fyrir aðild okkar að Evrópumarkaði er, að við skerum okkur ekki lengur úr hópi annarra og afnemum einokun eins flugfélags á flugafgreiðslu.

Jónas Kristjánsson

DV