Ballið er rétt að byrja

Greinar

Við getum ekki treyst því, að heils milljarðs ríkisábyrgð í tengslum við Hvalfjarðargöng sé lokaáhætta skattgreiðenda vegna þeirra. Ekki fremur en við gátum treyst formanni Spalar fyrir tveimur árum, þegar hann fullyrti, að ríkið þyrfti hvergi að koma nærri.

Þá sagði formaður fyrirtækisins skýrt og skorinort: “Því hefur alltaf verið ljóst og út frá því gengið, að ef í þessa framkvæmd yrði ráðizt, þyrfti hún að fjármagnast af öðrum aðilum en ríkinu, án ríkisábyrgða, og endurgreiðsla kæmi af vegtolli af umferðinni.”

Þessi skýru orð komu ekki í veg fyrir, að ríkið lánaði Speli peninga til að hefja undirbúning við gerð Hvalfjarðarganga. Fyrst voru það 50 milljónir króna og síðan 70 milljónir króna fyrr á þessu ári. Og nú ætlar ríkið enn að liðka fyrir málinu með milljarði í ríkisábyrgð.

Núverandi samgönguráðherra hefur verið eins fullyrðingasamur um áhættu- og áhyggjuleysið og formaður fyrirtækisins. Í hittifyrra sagði hann: “þær séu innan þeirra arðsemismarka, að ekki þurfi að koma til ríkisábyrgðir, en umferðin greiði kostnaðinn við göngin”

Nú hefur komið í ljós, að allt var það lygi, sem sagt var um þetta mál. Áhugamenn málsins eru smám saman að gefast upp og ríkið er smám saman að taka Hvalfjarðargöng á sínar herðar. Þetta gerist skref fyrir skref. Í hvert skipti er fullyrt, að það skref sé hið síðasta.

Dæmigert fyrir málið er, að fjórum dögum fyrir þinghlé var tillögunni um milljarðinn kastað inn á Alþingi, rétt fyrir aðra umræðu um lánsfjárlög ríkisins á næsta ári. Engin aðvörun hafði áður verið gefin um, að hugmynd um ríkisábyrgð væri á leiðinni inn á þing.

Alþingi staðfesti síðan þá gamalgrónu skoðun, að það sé afgreiðslustofnun ríkisstjórnarinnar. Það skilgreindi að vísu nánar, hvernig milljarðurinn mætti skiptast eftir verkefnum, en samþykkti að setja hann í lánsfjárlög. Þannig er Alþingi líka sokkið á kaf í Spalarfenið.

Eftir fyrri reynslu af jarðgöngum á Íslandi getur engum heilvita manni dottið í hug, að verkið undir Hvalfirði gangi vandræðalaust. Og hliðstæð reynsla annarra þjóða sýnir, að fjárhagsáætlanir slíkra verka eru út í hött. Við erum því ekki búin að bíta úr nálinni.

Skattgreiðendur munu endanlega þurfa að kveðja allan milljarðinn, áður en yfir lýkur. Á þeim tíma verður búið að tvöfalda allar tölur um kostnað og ríkið verður orðið helzti hluthafinn í ruglinu. Þetta mun gerast skref fyrir skref og hvert skref talið “óhjákvæmilegt”.

Auðvitað er miklu heppilegra og hagkvæmara að leggja fínan veg um Hvalfjörð og niðurgreiða ferju milli Reykjavíkur og Akraness, heldur en að borga 800 milljónir króna í veg að Hvalfjarðargöngum og taka á sig áhættu af að fá í fangið skuldasúpuna af sjálfum göngunum.

Þátttakan í ruglinu kemur í veg fyrir almennilegan veg um Hvalfjörð og kippir grundvellinum undan rekstri niðurgreiddrar Akranesferju. Öll eggin lenda í einni körfu Hvalfjarðarganga. Engin leið er að henda reiður á fórnarkostnaði þjóðfélagsins af breytingunni.

Í stað þess að liðka fyrir framkvæmdum við Hvalfjarðargöng væri nær fyrir ríkið að skattleggja þær til að safna í sjóð til að liðka óbeinar afleiðingar erfiðleika, sem upp kunna að koma, svo sem til að standa undir bótum til starfsmanna gjaldþrota verktakafyrirtækja.

Því miður er málið á fullri ferð og lítið hægt að gera annað en að safna ummælum þeirra, sem á hverjum tíma sjá um að ljúga málið milli þrepa inn í ríkisrekstur.

Jónas Kristjánsson

DV