Bændur launaðir beint

Greinar

Ríkið mundi spara sér 3,2 milljarða króna á ári með því að hætta afskiptum af landbúnaði og borga í þess stað hverjum bónda 1,5 milljónir á ári. Jafnframt mundu tekjur bænda hækka, þótt þeir hættu allri framleiðslu. Í slíkar ógöngur er landbúnaðarstefna stjórnmálaflokkauna komin.

Ríkið leggur á þessu ári um 10 milljarða til landbúnaðar. Eru þá innifaldir um 5 milljarðar til niðurgreiðslna á landbúnaðarafurðum, enda heyrast varla lengur þær raddir, að þær séu landbúnaðinum óviðkomandi. Lífeyrissjóður bænda er á þeim lið. Þar á ofan hefur formaður Stéttarsambands bænda lagt til, að niðurgreiðslum á afurðum bænda verði breytt í niðurgreiðslur á hráefnum og öðrum aðföngum bænda. Er því orðið tímabært að færa niðurgreiðslurnar á réttan stað í landbúnaðarbálki fjárlaganna.

Sanngjarnt er að draga nokkra liði frá 10 milljörðunum. svo sem skógrækt, landgræðslu, fiskirækt, Rannsóknastofnun landbúnaðarins og búnaðarskólana. Eftir standa þá 8,7 milljarðar króna, sem er framlag ríkisins til landbúnaðar umfram það, sem eðlilegt er.

Forustumenn landbúnaðarins hafa upplýst, að ekki séu eftir nema 3.700 raunverulegir bændur í landinu, þegar ýmsir sportmenn hafi verið dregnir frá. Það mundi kosta ríkið 5,5 milljarða að greiða hverjum einasta þessara 3.700 bænda 125 þúsund króna mánaðarlaun eða 1,5 milljóna árslaun.

Ríkið ætti þá samt eftir 3,2 milljarða afgangs, sem nota mætti til að lækka söluskatt og þar með allt verðlag í landinu.

Með þessum launagreiðslum ætti ríkið að vera laust allra mála. Það gæti því leyft innflutning landbúnaðarafurða, enda er slíkt leyft víðast hvar í heiminum. Það er bara rugl að beita yfirdýralækni sem Grýlu í því banni, sem hér gildir, enda eru hinar raunverulegu forsendur þess eingöngu atvinnupólitískar.

Innflutningur landbúnaðarafurða mundi gera landbúnaðarvörur flestar mun ódýrari en þær eru nú niðurgreiddar. Innlendir bændur mundu lækka verð afurða sinna til samræmis, enda hefðu þeir hvort sem er föst laun hjá ríkinu. Þannig mundi verðlag í landinu lækka töluvert umfram 3,2 milljarða lækkun söluskatts. Verðbólga stjórnmálaflokkanna mundi verða fyrir alvarlegu áfalli.

Offramleiðslan í innlendum landbúnaði mundi hverfa eins og dögg fyrir sólu, ef þetta yrði gert. Mundi þá sparast gífurlegur gjaldeyrir í rándýrum rekstrarvörum landbúnaðarins, svo sem eldsneyti, áburði og fóðurbæti. Þennan gjaldeyrissparnað má nota til að fjármagna innflutning landbúnaðarafurða.

Svo virðist sem næg verkefni séu í íslenzku atvinnulífi fyrir þá, sem nú hafa atvinnu af landbúnaði eða vinnslu landbúnaðarafurða og mundu kæra sig um að hverfa til annarra starfa. Slík tilfærsla mundi verða þjóðarbúinu töluverð lyftistöng.

Eini gallinn við þetta reikningsdæmi er, að það tekur ekki tillit til félagslegra sjónarmiða. En það sýnir þó ljóslega, hversu fáránleg landbúnaðarstefnan er.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið