Báðir hafa tapað

Greinar

Einföldustu mannréttindi eru að hafa til hnífs og skeiðar. Þau mannréttindi voru á oddinum í samningum Alþýðusambandsins og atvinnurekenda í sumar. Lægstu launaflokkar nokkurra verkalýðsfélaga voru svo svívirðilega lágir, að allir sanngjarnir menn sáu, að láglaunastefna samninganna var nauðsynleg.

Þetta viðhorf er ekki eins þungt á metunum í samningum starfsmanna ríkisins. Þar eru lægstu flokkarnir tiltölulega háir í samanburði við almennan vinnumarkað, þótt aðrir flokkar séu lakari. Þess vegna fjallar núverandi vinnudeila ekki um einföldustu mannréttindi eins og deilan í sumar.

Að vísu tók sáttanefndin þessa staðreynd of bókstaflega í tillögunni, sem felld var. Þar var hagsmuna hinna lægst launuðu ríkisstarfsmanna ekki gætt til jafns við aðra ríkisstarfsmenn. Að öðru leyti mátti líta á sáttatillöguna sem tiltölulega sanngjarna.

Ríkisstjórnin hefur nú stigið nokkur skref út fyrir sáttatillöguna. Það hljóta að vera henni þung spor eftir hörð ummæli stuðningsblaða hennar um verðbólguáhrif samninga Vinnuveitendasambandsins í sumar. Hún hefur nú sjálf sett fram tilboð, sem hlýtur að fela í sér enn meiri verðbólguáhrif, einfaldlega af því að tilboðið er mun hærra en samningarnir í sumar.

Að vísu er gagnrýnin á samningana í sumar í fyllsta máta óréttmæt. Það er gamalgróin Morgunblaðslygi, að kjarasamningar séu endilega undirrót verðbólgu. Í mörgum tilvikum er þetta öfugt og þannig var það í sumar.

Ríkisstjórnin hefur í nokkur ár haft forustu í verðbólgunni með sífelldri útþenslu á rekstri og framkvæmdum hins opinbera. Hún getur aldrei þvegið hendur sínar af því, né klínt sökinni á þá, sem gera kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Enn síður getur hún það, þegar hún býður betur sjálf.

Vissulega á hún erfitt með að verjast hinni sterku röksemd ríkisstarfsmanna, að þeir hafi dregizt aftur úr öðrum starfshópum í launum. Hún þarf samt engan veginn að fallast á að brúa þetta bil í einu vetfangi. En sanngjarnt virðist að stefna að minnkun bilsins í áföngum á nokkrum árum.

Þá verður líka að taka tillit til atriða, sem flestir ríkisstarfsmenn hafa umfram aðra. Þar á meðal er æviráðningin og ríkisgreidd verðtrygging lífeyrissjóðs. Ennfremur fá hlutfallslega mun fleiri ríkisstarfsmenn en aðrir mat á hálfvirði í mötuneytum.

Úr því sem komið er verða deiluaðilar að fylgja fordæmi úr mörgum bæjarfélögum, þar sem samningar hafa verið samþykktir undanfarna daga. Úr þessum samningum, sem eru misjafnir, þarf að finna eitthvert meðaltal, er verið getur leiðarljós í samningi ríkis og ríkisstarfsmanna.

Báðir aðilar hafa þegar tapað nóg á verkfallinu. Ríkisstjórnin hefur þegar glatað möguleikanum á að kenna öðrum um verðbólguna. Ríkisstarfsmenn hafa þegar glatað samúð annarra launamanna og launum í að minnsta kosti eina viku. Þess vegna er nú ráð að semja á grundvelli meðaltals samninga í framangreindum bæjarfélögum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið