Author Archive

Fjölgun í möppudýralandi.

Greinar

Vilmundur Gylfason hefur efnt til ókeypis lögfræðiaðstoðar handa almenningi. Hann hefur ráðið valinkunnan flokksbróður til að fræða fólk um myrkviði lögfræðinnar. Það er sérdeilis fallega hugsað.

Ekki sakar, að Finnur Torfi Stefánsson er í Alþýðuflokknum. Hann féll í síðustu kosningum og hefur verið atvinnulaus að undanförnu. Er nú séð fyrir því, að hann getur horft björtum augum til framtíðarinnar.

Meginatriði þessa máls er, að Vilmundur hefur hlaðið mikilvægum steini í þá kenningu, að þeir séu allir eins, þegar þeir komist til valda. Virðist nú loku fyrir það skotið, að Vilmundur skrifi fleiri kjallaragreinar um spillingu.

Eitthvað virðist hinum nýja lögfræðiráðgjafa hafa orðið á í messunni, þegar hann hélt, að verkefni sitt ætti að vera að halda dómstólum við efnið, senda þeim bréf með siðaprédikunum úr gömlum kjallaragreinum.

Nú vill svo til, að samkvæmt stjórnarskránni er það ekki verkefni dómsmálaráðuneytisins að aga dómara landsins. Í því plaggi þykir mikilvægt, að dómstólar séu tiltölulega óháðir stjórnvöldum.

Við vitum, að dómarar landsins eru almennt nokkuð seinlátir, hafa langa kaffitíma og löng sumarfrí. Fyrir það getum við saumað að þeim í kjallaragreinum, en tæpast með áminningum úr dómsmálaráðuneytinu.

Það virðist sameiginlegt Finni Torfa og Vilmundi, að þeir telja þetta nýja embætti vera eins konar tilraun til umboðsmanns almennings. Vísa þeir til slíkra embættismanna, sem hafa gert garðinn frægan á Norðurlöndum.

Nágrönnum okkar hefur hins vegar ekki dottið í hug, að umboðsmaður almennings gæti verið aðstoðarmaður ráðherra, allra sízt flokkspólitískur aðstoðarmaður. Þar er umboðsmaðurinn ekki angi af framkvæmdavaldinu.

Finnur Torfi Stefánsson er orðinn starfsmaður í stjórnarráðinu. Sem slíkur er hann fulltrúi framkvæmdavaldsins, einmitt þess valds, sem hættulegast er almenningi. Sem umboðsmaður almennings er hann því milli steins og sleggju.

Það er athyglisvert, hversu yfirborðsleg er þekking núverandi dómsmálaráðherra. Hann veit, að umboðsmenn almennings eru mikilvægir á Norðurlöndum. Síðan heldur hann, að hann geti búið til slíkan mann í ráðuneytinu hjá sér.

Þar úti er umboðsmaðurinn skipaður af þingi. Hann tekur við kærum almennings út af valdníðslu framkvæmdavaldsins, til dæmis dómsmálaráðuneytisins. Hann er hvorki undirmaður Vilmundar Gylfasonar né Baldurs Möller.

Finnur Torfi er örugglega ekki minnsti vísir að umboðsmanni almennings. Hann er einfaldlega pólitískur aðstoðarmaður ráðherra. Enda hefur hann sagt það eðlilegt, að flokkspólitík ráði vali í þetta starf.

Vilmundur hefur reynt að telja okkur trú um, að siðbót sé fólgin í þessari uppákomu hans. Ef hann trúir því sjálfur, er hann einfaldur. Og trúi hann því ekki, er hann einfaldlega eins og hinir, siðspilltur pólitíkus.

Svo virðist sem Vilmundur og Finnur Torfi hafi áttað sig á mistökunum. Háloftamálin eru úr sögunni og umboðsmaðurinn sér um ókeypis lögfræðiaðstoð við almenning. Það er án efa þarft starf, ef það heitir réttu nafni.

En kjarni málsins er sá, að alþýðuflokksmaður hefur fengið vinnu hjá kerfinu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Vopnaður aðsúgur.

Greinar

Yfirmönnum bandaríska herliðsins á Keflavíkurflugvelli ber augljós skylda til að sjá um, að löggæzlumenn þeirra virði samninga Íslands og Bandaríkjanna um herstöðina. Fræðsla í þeim efnum á að vera grundvallaratriði þjálfunarinnar.

Blátt áfram er furðulegt, að þar syðra skuli vera skipað til starfa löggæzlumönnum, sem hafa annaðhvort ekki hugmynd um svæðisbundin takmörk lögsögunnar eða telja sig geta komizt upp með að virða ekki þessi takmörk.

Ef bandarískir herlögreglumenn á Keflavíkurflugvelli ímynda sér, að skotið sé á þá úr launsátri utan flugvallarsvæðisins, eiga þeir að snúa sér til íslenzkra lögregluyfirvalda, sem meðal annars hafa lögsögu á þjóðvegum landsins.

Þegar bandarískir hermenn gera vopnaðan aðsúg að íslenzkum borgurum á alfaraleið, er skörin farin að færast upp í bekkinn. Þá er kominn tími til að gera strangar ráðstafanir til að koma í veg fyrir hliðstæð atvik í framtíðinni.

Því miður hafa viðbrögð varnarmáladeildar og utanríkisráðherra verið með hinum hefðbundna undirlægjuhætti gagnvart herliðinu syðra. Málið hefur aðeins verið tekið til rannsóknar og sennilega síðari tíma svæfingar.

Auðvitað átti utanríkisráðherra umsvifalaust að kalla flotaforingjann á sinn fund og veita honum þungar ákúrur. Hann átti jafnframt að gera kröfur um réttarhöld yfir hinum byssuglöðu mönnum og allri keðju yfirmanna þeirra.

Finna þarf, hvar bresturinn er. Brutu bandarísku herlögreglumennirnir samning, sem þeir vissu um? Eða hafði einhverjum ofar í kerfinu láðst að fræða þá um nauðsynleg smáatriði í viðskiptum við sjálfstætt ríki?

Með ræfildómi sínum í máli þessu eru íslenzk stjórnvöld beinlínis að hvetja bandaríska flotaforingja á Keflavíkurflugvelli til að leyfa undirmönnum sínum að fara sínu fram og haga sér eins og þeim þóknast hverju sinni.

Dæmigerð eru viðbrögð Perry Bishop, blaðafulltrúa herliðsins: “Við töldum ástandið mjög alvarlegt”. Það er bara ekkert hans mál að meta, hvenær ímyndanir skjólstæðinga hans komast á það stig, að þeir megi taka að sér íslenzka lögsögu.

Ennfremur kennir þetta dæmi okkur, að við þurfum að koma lögsögu íslenzkra dómstóla yfir afbrot bandarískra hermanna utan Keflavíkurflugvallar. Hún gerir það ekki nú og það auðveldar yfirgang af bandarískri hálfu.

Svokallaðan “varnarsamning” þarf að endurskoða í ótal atriðum. Lögsaga dómstóla er eitt þeirra.

Freisting á ferð.

Þjóðhagsstofnun hefur spáð, að fyrirframgreiðsla tekjuskatta þurfi á þessu ári að vera 62% af álögðum gjöldum síðasta árs til að skattbyrði manna verði jöfn báða hluta ársins. þetta er hin rétta viðmiðun.

En stofnunin hefur líka spáð, að fyrirframgreiðslan þurfi að vera 66% til að hið opinbera fái jafnar tekjur báða hluta ársins. Slík viðmiðun væri út í hött, því að samkvæmt verðbólgu ættu útgjöld ríkisins að vera meiri síðari hlutann.

Hér er vakin athygli á þessu, ef það gæti stuðlað að því, að stjórnvöld freistuðust síður til að skattpína borgara landsins umfram tekjuaukningu þeirra milli fyrri hluta þessara tveggja ára.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Sextán dagar, sæmilegt það.

Greinar

Geir Hallgrímsson er búinn að slá Steingrími Hermannssyni við í tímalengd stjórnarkreppunnar. Steingrímur gafst upp eftir 15 daga tilraunir til myndunar stjórnar. Geir hefur nú þegar verið að í 16 daga og er kominn álíka langt og Steingrímur var á þriðja degi.

Með sama áframhaldi má búast við, að það taki Geir allar götur fram undir páska að feta sömu leið og Steingrímur hljóp á tveim vikum fyrir jól. 16 dagar hafa farið í athugun málsins, undirbúning þess, og hugsanlegar tilraunir til að koma á formlegum viðræðum!

Örlitil hreyfing komst á viðræður um helgina, þegar Geir byrjaði fyrst að þinga með viðsemjendum sínum. Málið er þó ekki komið lengra en svo, að í gær sagði Geir um fyrirhugaðan fund í dag: “Ég legg áherzlu á, að þetta eru ekki formlegar stjórnarmyndunarviðræður.”

Það er semsagt tæpast ljóst enn, hvort tilraunir Geirs til stjórnarmyndunar eru hafnar eða ekki. Það er ekki heldur ljóst, hvort tvær leiðir í efnahagsmálum, sem hann hefur sent Þjóðhagsstofnun til útreiknings, eru eins konar tillögur eða bara reikningsæfingar.

Um þokuna yfir þessu andaglasi má vitna til orða Geirs. Í gær sagði hann í sínum sérstæða stíl, “að þar væri ekki um tillögur Sjálfstæðisflokksins að ræða, heldur einungis upplýsingamiðlun til að kanna fleti, sem upp kynnu að koma í sambandi við þjóðstjórnarviðræður”.

Þessar tvær lausaloftshugmyndir, sem enginn ber ábyrgð á, eru í svipuðum stíl og fyrri tillögur Framsóknarflokks og Alþýðuflokks. Þær ganga heldur lengra í hjöðnun verðbólgunnar og í kjaraskerðingu. En þær fela líka í sér stærri félagsmálapakka, og þá væntanlega meiri skatta.

Tillögur Framsóknarflokksins gera ráð fyrir 38% verðbólgu á árinu, Alþýðuflokksins 34% og tvær hugleiðingar (?) Sjálfstæðisflokksins 31% og 28%. Kjararýrnun tillagna Framsóknarflokksins er áætluð 4,2%, Alþýðuflokksins 6,2% og Sjálfstæðisflokksins 8,2%.

Líklegt er, að leið Framsóknarflokksins sé Alþýðubandalaginu minnst á móti skapi, af því að hún dregur minnst úr verðbólgunni og lífskjörunum. Þetta skiptir máli, þegar verið er að reyna við þjóðstjórn, þótt Alþýðubandalagið hafi raunar áður einmitt hafnað tillögum Framsóknarflokksins.

Þjóðstjórn er mikilvæg forsenda allra tillagnanna, því að þær gera alls ekki ráð fyrir neinum grunnkaupshækkunum á árinu. Þær standast því ekki, nema vinnudeiludeild Alþýðubandalagsins verði geymd niðri í skúffu meðan bandalagið tekur á sig stjórnarábyrgð.

Þar sem Alþýðubandalagið er í eðli sínu ábyrgðarlítill stjórnarandstöðuflokkur, eru daufar líkur á, að það verði teymt inn í þjóðstjórn. Að vísu getur svo farið, að þolinmæði þjóðarinnar þrjóti svo, að bandalagið sjái sér þann kost vænstan að sýna ábyrgð.

Hitt er svo ljóst, að mismunandi tillögur eru ekki því til fyrirstöðu, að hinir flokkarnir þrír geti myndað stjórn. Þessar tillögur eru raunar aðeins mismunandi afbrigði sömu hugmyndar. Auðvelt ætti að vera að ná samkomulagi um það eitt og takast síðan á við vinnudeiludeild bandalagsins.

Auðvitað endar svona stjórnarkreppa einhvern tíma með því, að einhverjir stjórnmálaflokkar skammast sín, gleypa í sig stóru orðin og axla ábyrgðina, sem þeir eru kjörnir til að bera. Málin hafa þokazt í áttina, meira að segja á aðgerðaleysistíma Geirs Hallgrímssonar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Grillið

Veitingar

Stjörnusalur Hótel Sögu siglir þöndum seglum í vetur sem endranær. Í áratug hefur “Grillið” verið uppáhaldsveitingastofan mín. Og sem betur fer er hún núna jafngóð og hún hefur bezt verið áður.

Sumar veitingastofur aðrar hafa risið upp fyrir hana um tíma, en hún hefur haft bezt úthald allra til langs tíma. Ég hef aldrei orðið fyrir tilfinnanlegum vonbrigðum með matinn í Grillinu.

Nýlega gerði ég úttekt á veitingum Stjörnusalar og prófaði ellefu rétti af fastamatseðlinum, matseðli dagsins og kínverska matseðlinum. Þessi athugun er hugsuð sem upphaf að hringferð milli þeirra veitingahúsa í Reykjavík, er máli skipta frá sjónarmiði matargerðarlistar.

Frábær þjónusta

Bezt er að heimsækja Grillið á rólegum tíma, annað hvort í hádeginu eða að kvöldi dags með vinnudegi næsta morgun. Þá hefur starfsliðið beztan tíma og þá er þjónustan bezt.

Starfsliðið hefur svo mikið að gera, þegar salurinn er fullur á föstudags- og laugardagskvöldum, að ýmis smáatriði vilja falla fyrir borð. Á móti kemur þó sjarminn, sem fylgir líflegu kvöldi á áttundu hæð.

Stjörnusalurinn er í sjálfu sér ekki notalegur staður. Hann er eins kuldalegur og geimstöð og verður ekki sæmilega notalegur fyrr en hann er orðinn fullur af fólki. En útsýnið er alltaf jafn ánægjulegt.

Þjónustan í Grillinu endurspeglaði staðgóða menntun Hótel- og veitingaskóla Íslands. Ég fékk ísvatn á borðið um leið og ég settist. Og jafnóðum var bætt vatni í glösin eftir þörfum. Meðferð veitinga og mataráhalda var með gallalausum, hefðbundnum hætti.

Hið eina, sem út á þjónustuna var að setja, er hið sama og annars staðar hér á landi. Vínglös voru fyllt að þremur fjórðu hlutum í stað helmings. Ilmurinn í glasinu nær ekki fullri reisn, þegar glös eru hellt svona full.

Lystaukar
Meðferð hanastéla var í góðu lagi á barnum. Daiquiri var búið til á réttan hátt úr ekta sítrónum og með sykurrönd, fallegur drykkur og bragðgóður. Auðvitað getur þú beðið um, að sykurröndinni sé sleppt, ef þér hentar það afbrigði betur.
Ekkert var heldur athuga vert við annað hanastél, þurran Martini. Hins vegar var þurra sérríið borið fram of gamalt og við stofuhita. Þurrt sérrí er viðkvæmur drykkur, sem á að geyma í kæliskáp og ekki nema örfáa daga í átekinni flösku. Hin ranga meðferð er sorgleg, því að þurrt sérrí er hinn fullkomni lystauki, miklu hentugri en hanastél.

Graflax
Graflaxinn var mjög góður, fremur mildur og einstaklega mjúkur. Sinnepssósan var mun betri en hér áður fyrr, þegar hún var nánast eins og eldur og brennisteinn.
Ég tel þó, að hún sé enn of bragðsterk. Þú verður að umgangast hana með varúð, svo að hún yfirgnæfi ekki hógvært bragð graflaxins. Að því tilskildu er enginn annar graflax betri en þessi.
Verðið er 3.790 krónur sem forréttur og 4.655 sem aðalréttur.

Humarhalar
Glóðarsteiktir humarhalar í skelinni, með ristuðu brauði og smjöri, voru góðir eins og jafnan áður. Það er þó raunalegt að sjá humarinn minnka frá ári til árs vegna hinnar miklu rányrkju, sem stunduð er á honum.
Ekki líkaði mér við brauðmylsnuna og steinseljuna í bráðnu smjörinu. Þú skalt endilega biðja um, að þessari kryddsmjörblöndu sé ekki ausið á humarinn. Hún er mun betri án hennar, alveg eins og hann var borinn fram hér fyrr á árum.
Verðið er 7.550 krónur sem forréttur og 11.690 krónur sem aðalréttur.

Hörpuskelfiskur
Glóðaður hörpuskelfiskur með rækjum og sveppum í léttri sósu var mjög vel heppnaður. Hann var bæði meyr og hélt sínu náttúrlega bragði, þrátt fyrir meðlæti og sósu. Þessi glóðaði hörpuskelfiskur var sannarlega matur, sem mig langar til að prófa aftur.
Í framhjáhlaupi má benda á, að kokkar Grillsins virðast kunna vel með sósur að fara, því að ég rakst þar ekki á þungar hveitisósur, hristar né uppbakaðar. Skelfisksósan var gott dæmi um þetta.
Verðið er 3.830 krónur sem forréttur og 5.010 sem aðalréttur.

Smálúða
Hápunktur sjávarrétta í þessari prófraun var soðið smálúðuflak Dieppoise með sveppum, rækjum, kræklingi og hollandaise-eggjasósu. Þessi réttur, sem var á matseðli dagsins, var frábær á bragðið, mildur og þægilegur, greinilega ekki úr frystikistunni.
Ef smálúðan hefði verið soðin í aðeins styttri tíma, hefði hún ekki verið frábær, heldur fullkomin. Þá hefði heldur ekki þurft með henni sveppi, rækjur og krækling.
Verðið er 4.730 krónur sem aðalréttur, borinn fram á diski.

Lambalæri
Grillsteikt lambalæri með béarnaise-sósu, ostuðum seljurótarleggjum, ertum, gulrótum og ofnbökuðum kartöflum var á matseðli dagsins. Þetta voru vonbrigði dagsins, því að lærið var of hversdagslegt.
Þar kom fram sami matreiðsluvandi og í smálúðunni, bara magnaðri: Of löng steiking. Lambakjöt á að bera fram ljósrautt, en ekki grátt, þótt Íslendingar hafi vanið sig á hið síðara. Grásteikingin hrekur allan safa úr lambakjötinu.
Ostuðu seljurótarleggirnir voru hins vegar góðir, svo og sósa sú úr þeyttum og sýrðum rjóma, sem fylgdi kartöflunum.
Verðið er 4.730 krónur sem aðalréttur, borinn fram á diski.

Nautalundir
Gamall kunningi, tournedos béarnaise nautalundasneið með belgbaunum, hrásalati og djúpsteiktum lauk olli engum vonbrigðum, þótt það gleymdist að spyrja um óskir viðskiptavinarins um steikingartíma.
Kjötið kom rautt og meyrt og frábært eins og endranær í Grillinu. Það var mér nóg, svo að ég hafði litlar áhyggjur af meðlætinu.
Djúpsteikta laukinn lét ég eiga sér, enda þefjaði hann óþægilega af steikarfeiti. Hrásalatið var hins vegar einfalt og gott, lítillega olíuvætt. Þessi réttur var á fastamatseðlinum.
Verðið er 12.450 krónur sem aðalréttur, borinn fram á diski.

Grísakjöt
Af kínverska matseðlinum prófaði ég steikt grísakjöt í súrsætri sósu. Mér fannst það vel frambærilegt. Einkum átti sósan vel við ananas og sýrða gúrku, sem fylgdu kjötinu.
Hrísgrjónin, sem fylgdu með, voru mjög vel heppnuð, einföld í matreiðslu og stinn, alveg laus við að vera ofsoðin. Það hefur semsagt ekki tekizt enn að spilla kínverska kokkinum með íslenzkum ósiðum.
Verðið er 4.800 krónur sem aðalréttur.

Kjúklingur
Enn betra af kínverska seðlinum reyndist kjúklingur í ostrusósu. Kjúklingurinn var að vísu mauksoðinn að austrænum hætti, en ostrusósan átti alveg einstaklega vel við hann, gaf réttinum sérstakan sjarma. Ekki fann ég þó neitt ostrubragð að sósunni.
Ég tel, að með slíkum réttum eigi kínverskur matseðill fullan rétt á sér sem hliðarseðill á Grillinu.
Verðið er 4.800 krónur sem aðalréttur.

Ís
Sólberjaís var á matseðli dagsins, dálítið sérstakur vegna sólberjanna, ágætis tilbreyting frá ávaxta- og berjaísum þeim, sem kunnari eru.
Verðið er 1.200 krónur.
Mun betri var þó appelsínu-kraumísinn eða sorbet-inn, sem var á fastamatseðlinum. Hann var einstaklega vel gerður, alveg svifléttur og hressandi í munni og maga og ekki of bragðsterkur. Ég hef ekki fengið betri kraumís hér á landi.
Það er synd og skömm, að Íslendingar skuli vilja þunga eftirrétti. Það er eins og menn vilji kýla svo vömbina á veitingahúsum, að þeir geti tæpast staðið upp. Tilgangur eftirrétta er hins vegar sá að létta menn og hressa. Og það gerir sorbet hiklaust.
Verðið er 1.575 krónur.

Ostur
Ostabakki með kexi og smjöri var á fastamatseðlinum. Þetta var fjölbreyttur bakki með gráðaosti, camembert, port salut, mysuosti og fleiri ostum, svo og ýmsum tegundum af kexi. Þetta var góður bakki. Meira að segja camembertinn var þroskaður í gegn, sjaldgæf sjón á íslenzku veitingahúsi.
Verðið er 2.665 krónur.

Vín

Vínlistinn á Grillinu er ekki nógu góður, einkum í rauðvínum. Þar vantar Chateau Talbot, Geisweiler Grand Vin og einkum þó hið ódýra Trakia.

Merkinu halda uppi Chateau Paveil de Luze, Chateauneuf-du-Pape og Chianti Classico. Í hvítvínum er ástandið betra, því að þar fást Wormser Liebfrauenstift Kirchenstück, Gewürztraminer, Chablis og Bernkasteler Rosenberg eða Schlossberg.

Meðal annarra frambærilegra vína á lista Grillsins eru Saint Emilion, Paralelle 45, Geisweiler Reserve og Mercury af rauðvínum og af hvítvínum Riesling og Auxerrois frá Luxembourg, Sauternes og Rüdesheimer Burgweg.

Með skeldýraréttum Stjörnusalar mæli ég með Chablis á 4.675 krónur, með fiskréttunum mæli ég með Gewürztraminer á 4.010 krónur og með kjötréttunum mæli ég með Chianti Classico á 3.340 krónur.

Ekki dýrt

Í samanburði við hliðstæða veitingasali í Vestur-Evrópu norðan Alpafjalla er Stjörnusalur Hótel Sögu ekki tiltakanlega dýr.

Aðalréttur af matseðli dagsins með súpu og eftirrétti kostar að meðaltali innan við 9.000 krónur. með kaffi og Chianti vínflösku, hálfri á mann, til viðbótar kostar hann um 12.000 krónur. Af kínverska matseðlinum mundi hliðstæð máltíð kosta um 9.000 krónur.

Á fastamatseðlinum er verð fimmtán forrétta, súpa og eggjarétta að meðaltali um 3.400 krónur, verð 26 aðalrétta úr fiski eða kjöti að meðaltali um 8.500 krónur og verð átta eftirrétta að meðaltali um 2.100 krónur. Með kaffi og hálfri vínflösku ætti meðalmáltíð af fastaseðlinum að kosta um 16.000 krónur á mann.

Í hádeginu býður Grillið upp á sérstakan heimilismat, yfirleitt súpu og aðalrétt, á rúmlega 4.000 krónur. Það er sérlega lágt verð, en ég hef því miður ekki haft tíma til að prófa gæðin.

Á framtíðarvegi

Hin hefðbundna, franska matargerðarlist, sem ræður ríkjum hjá íslenzkum matreiðslumönnum í þunglamalegri, danskri útgáfu, hefur síðasta áratug vikið í upprunalandinu fyrir hinu svonefnda “nýja, franska eldhúsi”, sem hefur haldið innreið sína í velflest beztu veitingahús Frakklands.

Hér heima er greinilegt, að Grillið á Hótel Sögu hefur losað sig undan ofurþunga hinnar hefðbundnu matreiðslu og stigið nokkur skref í átt til hinnar léttu og nýju matreiðslu.

Léttar og hveitilausar sósur, hrásalat í stað mauksoðins dósagrænmetis, ferskur fiskur og vel gerður, mjólkur- og rjómalaus kraumís eru nokkur dæmi um þessa þróun.

Sykurbrúnuð eða smjörsteikt brauðmylsna er hins vegar dæmi um steingervinga eldri tíma, svo og djúpsteiktu laukhringirnir.

Næsta skref Grillsins gæti falist í nákvæmari og styttri eldunartíma. Vonandi aðstoða viðskiptavinirnir hina ágætu eldunarmeistara í viðleitni þeirra í fleiri skrefum þeirra á brautinni til æðri matargerðarlistar og betra heilsufars viðskiptavina.

Þjónustunni á Grillinu mátti gefa níu í einkunn, matseldinni átta og vínlistanum sex. Með hliðsjón af mikilvægi matseldarinnar í mati á veitingahúsum tel ég heildareinkunn veitingastofunnar vera átta af tíu mögulegum.

Jónas Kristjánsson

Vikan

15 dagar jafngilda þremur.

Greinar

Fjölmiðlar hafa að undanförnu verið gagnrýndir fyrir að segja ekki jafn nákvæmlega frá tilraunum Geirs Hallgrímssonar til stjórnarmyndunar og þeir skýrðu frá tilraunum Steingríms Hermannssonar fyrir jólin.

Á vinstri væng stjórnmálanna hafa heyrzt þær skoðanir, að óháðir fjölmiðlar séu í raun hægri sinnaðir. Þeir vilji ekki veita Steingrími starfsfrið til myndunar vinstri stjórnar. Hins vegar vilji þeir gefa Geir næði og þegi því núna.

Ennfremur er sagt, að mismunur fréttamagns um tilraunir Steingríms og Geirs eigi að telja fólki trú um, að illindi, óeining og upplausn fylgi vinstri flokkunum, en ró og festa fylgi Sjálfstæðisflokknum.

Á hægri væng stjórnmálanna er sumpart trúað þessari ró og festu. Geir er þar líka hrósað fyrir að hafa lag á að forðast fjölmiðla. Enda séu þeir bara til bölvunar á viðkvæmum tímabilum í stjórnmálunum.

Allt eru þetta skemmtilegar skýringar. Svo framarlega sem menn fara ekki að trúa því, að óháðir fjölmiðlar séu hægri sinnaðir. Og svo framarlega sem menn fara ekki að trúa því, að banna beri fjölmiðlun viðkvæmra stjórnmálafrétta.

Staðreyndin er hins vegar sú, að mikið var um að vera í tilraunum Steingríms Hermannssonar til stjórnarmyndunar, en hins vegar gerði Geir Hallgrímsson ekki tilraun til stjórnarmyndunar fyrstu tíu daga umboðs síns.

Hjá Steingrími héldu flokkarnir formlega fundi og lögðu fram formlegar tillögur. Flokkarnir kölluðu til sérfróða menn eftir þörfum og létu meira að segja Þjóðhagsstofnun spá í afleiðingar þessara tillagna.

Geir gerði hins vegar nánast ekkert í tíu daga. Hann leitaði að vísu ráða hjá mönnum eins og Einari Olgeirssyni, Haraldi Steinþórssyni og Gylfa Þ. Gíslasyni. En slíkar hleranir eru bara undirbúningur að tilraunum.

Geir talaði ekki við Steingrím í heila viku. Og Lúðvík sagðist ekki lengi hafa heyrt neitt frá Geir. Á tímabili héldu alþýðuflokksmenn, að Geir væri að tala við alþýðubandalagsmenn. Hinir síðarnefndu héldu, að. hann væri að tala við hina fyrrnefndu.

Svo áttuðu menn sig á því fyrir síðustu helgi, að þetta var allt saman misskilningur. Geir hafði ekki verið að gera neitt. Fréttaleysið í blöðunum stafaði einfaldlega af því, að ekkert hafði gerzt.

Engir formlegir fundir voru haldnir og engar tillögur lagðar fram. Af símtölum Geirs mátti þó ráða, að hann hefði fyrst og fremst áhuga á myndun þjóðstjórnar og nýsköpunarstjórnar til vara. Allt var þetta þó þokukennt.

Dagblaðið skýrði jafnóðum frá hugmyndum Geirs, fyrst um þjóðstjórn og síðan nýsköpunarstjórn. Síðan skýrði blaðið frá því, að Geir hefði loksins rætt við Steingrím og gefið Leiftursóknina á bátinn. Þetta var fyrir síðustu helgi.

Eftir helgina hefur Dagblaðið skýrt frá því, að formlegir fundir séu hafnir. Ennfremur, að Geir hafi lagt til frestun vísitölu og öfugan tekjuskatt. Einnig, að hann hafi neitað óskum um nánari útfærslu þessara efnahagstillagna.

Þessar fréttir Dagblaðsins af undirbúningi og tilraunum Geirs hafa ekki verið ónákvæmari en fréttirnar af tilraunum Steingríms. Engar hulduaðgerðir hafa farið fram hjá lesendum blaðsins. Geir hefur einfaldlega lítið sem ekkert gert. 15 dagar Geirs jafngilda fyrstu þremur dögum Steingríms.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Nytsamt sakleysi víki.

Greinar

Linnulaus útþenslu- og nýlendustefna Rússa er helzta og raunar eina umtalsverða ógnunin við heimsfriðinn. Íhlutun og bylting Rússa í Afganistan er nýjasta og grófasta staðfestingin á þessari ógnun.

Fyrsta aldarfjórðunginn eftir heimsstyrjöldina síðari voru Rússar önnum kafnir við að festa í sessi nýlenduveldi sitt í Austur-Evrópu. Þar hafa hinar hötuðu leppstjórnir þeirra stundum rambað á barmi falls.

Síðustu árin hafa Rússar fært sig upp á skaftið. Hingað til hafa þeir þó látið leppríki sitt á Kúbu um skítverkin. Þeir hafa borgað og útbúið hernaðaríhlutun Kúbumanna í Angóla, Eþiópíu og Jemen.

Þessi gríma er fallin í Afganistan. Þar er Rauði herinn sjálfur beinlínis kominn í eldlínu nýrra landvinninga. Markmiðið er að festa þar í sessi leppstjórn, sem Rússar komu þar á fót í byltingu, sem þeir framkvæmdu sjálfir.

Þetta er köld vatnsgusa framan í þá nytsömu sakleysingja, sem hafa trúað því, að Rússar hefðu ekki áhuga á frekari útþenslu, vildu friðsamlega sambúð austurs og vesturs, stöðvun vígbúnaðarkapphlaups og gagnkvæman samdrátt herafla.

Salt-samkomulagið er af hálfu Rússa ekkert annað en styrjöld með öðrum aðferðum en hinum venjulegu til bráðabirgða. Slíkir samningar við Vesturlönd eru hugsaðir sem svefnþorn, sem ræktun nytsams sakleysis í vestri.

Rússar hafa ekki haft árangur sem erfiði í Vestur-Evrópu. Atlantshafsbandalagið er þar enn fast fyrir, þótt alþýðubandalagsmenn og Evrópukommúnistar allra landa reyni stöðugt að grafa undan því.

Rússar hafa ekki heldur haft árangur sem erfiði á austurlandamærunum. Þar hafa Kínverjar brotizt undan veldi þeirra og stöðvað útþensluna til austurs. Jafnframt eykst þar samstarf Kínverja og Japana með hverju árinu.

Vegna þessa hefur nýlendustefna Rússa einkum beinzt til suðurs, þar sem fyrirstaða er minni. Þeir hafa komið sér upp leppstjórn í Vietnam með hinu venjulega, stalínska grimmdarsniði. Og þeir hafa komið sér upp slíkri stjórn í Afganistan.

Atlantshafsbandalagið og Kína hafa komið í veg fyrir aðgang Rússa að hentugum og íslausum flotahöfnum við Atlantshaf og Kyrrahaf. En Rússar hyggjast koma sér upp slíkum höfnum við lndlandshaf, þar sem fyrirstaðan er minni.

Eftir töku Afganistan eiga Rússar aðeins eftir eitt skref að lndlandshafi. Þrýstingur þeirra mun þá sennilega einkum beinast að Íran, því að þar er ruglingsstjórn Khomeinis völt í sessi og íranskir kommúnistar bíða átekta.

Í kjölfar hernaðar Rússa í Afganistan eigum við nú að láta af nytsömu sakleysi. Við eigum að endurvekja þrótt Atlantshafsbandalagsins. Og við eigum að efla sem mest hernaðarsamráð og önnur samskipti við Kínverja.

Við eigum að draga úr þeirri virðingu, sem við sýnum Rússum í margvíslegum samskiptum. Alþjóðlega ólympíunefndin gerði mikil mistök, þegar hún leyfði ólympíuleika í Berlín árið 1936. Hún hefur endurtekið þau mistök núna.

Í augum valdshyggjumanna eru friðsamleg samskipti af slíku tagi aðeins biðleikir í hernaðarskákinni. Og ólympíuleikarnir í Moskvu hafa að bakgrunni þá takmarkalausu og tilfinningalausu kúgun, sem veldi Rússa byggist á.

Fyrir alla muni skulum við láta Afganistan okkur að kenningu verða. Við skulum sjá linnulausa útþenslu- og nýlendustefnu Rússa í réttu ljósi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Þjóðbrautin rofnar.

Greinar

Þáttaka Íslands í fluginu yfir Atlantshafið var ánægjulegur kafli í lífi þjóðarinnar. Halastjarna Loftleiða færði Íslendinga nær umheiminum. Hún svipti okkur raunar í þjóðbraut velmegunarlanda heims.

Nú er kafla þessum senn lokið. Ferðirnar vestur um haf eiga nú senn að verða þrjár í viku í stað rúmlega tuttugu á velgengnisárunum. Kaupmannahöfn er aftur að verða gluggi okkar að umheiminum.

Verðstríðið á flugleiðum Atlantshafsins hefur bakað Flugleiðum meira tjón en menn gera sér grein fyrir. Það er svo mikið, að endar næðust ekki saman, þótt sagt yrði upp öllu starfsliði þess þáttar, öðrum en flugliðum um borð.

Þegar hefur verið sagt upp fimmta hverjum starfmanni Flugleiða á Íslandi. Það gerðist í tveimur megináföngum, á miðju síðasta ári og í lok þessa. Ekkert bendir samt til þess, að samdrátturinn sé á leiðarenda.

Við hljótum að fagna því, að stjórnendur Flugleiða segjast ekki vilja láta fyrirtækið leggjast upp á ríkið og að þeir ganga hart fram í að reyna að draga saman útgjöld til samræmis við tekjur.

Í atvinnulífi Íslendinga híma ýmsar freistingar landbúnaðarkerfis. Ríkissjóður er nú þegar að sligast undir landbúnaðinum einum, þótt flugið og aðrar atvinnugreinar bætist ekki ofan á þá atvinnubótavinnu, sem fyrir er.

Það er betra að höggva frá sjúka þætti fyrirtækisins en leyfa þeim að eitra reksturinn í heild. Há fargjöld í innanlandsflugi og Evrópuflugi mega ekki til lengdar halda uppi vonlitlu Atlantshafsflugi.

Þann fyrirvara verður þó að hafa, að við getum ekki treyst rekstrarupplýsingum stjórnenda Flugleiða frekar en fyrri daginn. Fjölþjóðafyrirtæki getur hagað viðskiptum systur- og dótturfélaga eflir hentugleikum.

Hugsanlegt er, að Flugleiðir hafi með slíkum hætti farið halloka í viðskiptum sínum við Cargolux, Air Bahama, Hekla Holdings og ýmis önnur fyrirtæki, sem Flugleiðir hafa staðið að í ýmsum heimsálfum.

Þegar Flugleiðum gengur illa á sama tíma og ýmsum systur- og dótturfyrirtækjum í útlöndum gengur vel eða sæmilega, er mjög erfitt að átta sig á, að hve miklu leyti tapið felst í bókhaldsþáttum innri viðskipta samsteypunnar.

Ekki verður heldur hjá því komizt að gagnrýna ýmis ytri viðskipti stjórnenda Flugleiða. Þeir ollu félaginu miklu tjóni með því að beina eldsneytiskaupum til vafasams ævintýrafyrirtækis á Bahamaeyjum.

Verstu mistökin virðast felast í kaupunum á breiðþotu. Þar hlýtur að hafa misreiknazt kostnaður á hvern farþega, samfara ótrúlegu vanmati á varanleika verðstríðsins á flugleiðum Atlantshafsins.

Sömuleiðis verða stjórnendur Flugleiða gagnrýndir fyrir að eyða stundum meiri tíma í innri valdabaráttu og tafl um stuðningsmenn í áhrifastöður innan fyrirtækisins. Þetta hefur lamað vinnugleði starfsmanna.

Ekki má heldur gleyma hneykslanlegum þætti flugmanna. Í fyrra bökuðu þeir félaginu hundraða milljóna króna tjón með ýmsum fjárhagslegum hryðjuverkum og vissu þó vel um vandamálin.

Á sakamannabekknum sitja einnig stjórnvöld landsins, sem á sínum tíma neyddu flugfélögin til sameiningar. Það voru stærstu mistökin.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Hjálpað eftir föngum.

Greinar

Tómt mál er að tala um, að Rauði krossinn og kirkjulegar hjálparstofnanir hafi ekki staðið sig nógu vel í hjálparstarfi í lndókína. Þessar stofnanir reyna sitt bezta við einstaklega erfið stjórnmálaskilyrði.

Umfangsmest hefur hjálparstarfið verið í nágrannalöndunum. Það hefur einkum beinzt að svonefndu bátafólki, en það er fólk af kínverskum ættum, sem hefur verið hrakið frá Vietnam í smáum og stórum bátum út á hafið.

Upp á síðkastið hafa Thailendingar gefið hjálparstofnunum aukið tækifæri til að koma til skjalanna á landamærum Thailands og Kampútseu, þar sem hrannast upp fólk á flótta undan borgarastyrjöldinni í Kampútseu.

Alþjóðlegar hjálparstofnanir geta ekki starfað gegn vilja ráðamanna á viðkomandi stöðum . Þess vegna hefur enn sem komið er tiltölulega lítill hluti hjálparstarfsins verið unninn innan landamæra Kampútseu.

Sumpart er þar um að ræða erfiðleika, sem oft fylgja borgarastyrjöldum. Hinir stríðandi herir gera hjálpargögn upptæk til sinna eigin þarfa og reyna að hindra, að hjálp berist íbúum á yfirráðasvæði hins aðilans.

Þar á ofan bætast deilurnar um réttarstöðu Pol Pots ríkisstjórnarinnar, sem er studd af Kínverjum og Heng Samrin ríkisstjórnarinnar, sem er nánast leppstjórn Víetnama. Sú deila hefur borizt inn á vettvang Sameinuðu þjóðanna.

Ísland og ýmis önnur ríki á Vesturlöndum studdu hjá Sameinuðu þjóðunum það sjónarmið, að Pol Pot stjórnin væri hin gilda ríkisstjórn í Kampútseu. Þetta hefur spillt fyrir vestrænu hjálparstarfi á svæðum Heng Samrin stjórnarinnar.

Nú verða menn að hafa í huga, að stjórnmálaleg viðurkenning ríkisstjórna felur ekki í sér neitt samþykki á stefnu hennar eða störfum. Við viðurkenndum stjórnir Sovétríkjanna og Tékkóslóvakíu, þótt við séum ekki sammála þeim.

Í viðurkenningu Íslands á Pol Pot ríkisstjórninni felst ekki hin minnsta viðurkenning á einstæðum grimmdarverkum hennar. Í viðurkenningunni felst aðeins staðfesting á því, að þessi stjórn hafi raunverulega verið við völd.

Í borgarastyrjöldum er stundum matsatriði, hvaða ríkisstjórn skuli teljast vera gild. Oft hefur þá verið miðað við þá stjórn, sem hefur höfuðborgina á sínu valdi. Samkvæmt því gæti verið tímabært að viðurkenna Heng Samrin stjórnina.

Við slíkt mat skiptir ekki máli, hvor ríkisstjórnin er meiri leppstjórn erlendra aðila. Ennfremur er vafasamt að starfsaðstæður hjálparstofnana geti haft umtalsverð áhrif á slíkt mat.

Íslenzka ríkisstjórnin verður ekki sökuð um að spilla fyrir hjálparstarfi í Kampútseu með atkvæði Íslands í þágu Pol Pots stjórnarinnar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Í mesta lagi má saka hana um vanmat á valdastöðu í Kampútseu.

Ofan á öll vandræðin, sem fylgja borgarastyrjöldum bætast þau, sem tengd eru skefjalausri hugmyndafræði deiluaðila í Kampútseu. Hugsjónir fjöldamorðingjanna eru svo víðtækar, að engar mannlegar tilfinningar sitja eftir.

Við þessar aðstæður er aðeins hægt að treysta því, að fagmenn hjálparstarfsins nái þeim árangri, sem mögulegur er hverju sinni, og því beri okkur að styðja þá, svo sem við höfum gert á undan förnum vikum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Hugsjón og heimsvaldastefna.

Greinar

Þau lönd, sem nú heita Víetnam, Laos og Kampútsea, voru einu sinni kölluð franska lndókína. Sá heimshluti hefur sýnt í hnotskurn þrjár samfelldar kynslóðir heimsvaldastefnu, samfara miklu og vaxandi blóðbaði.

Fyrst reyndu Frakkar árangurslaust að hindra hrun hins hefðbundna, evrópska nýlenduveldis. Síðan komu Bandaríkjamenn til skjalanna með nýlendustefnu eftirstríðsáranna, undir merkjum hins alþjóðlega löggæzlumanns.

Þegar hin bandaríska útgáfa heimsvaldastefnunnar hrundi í lndókína, kom í ljós hin þriðja og nýjasta, sú eina, sem skiptir máli í heiminum um þessar mundir. Það er rússneska heimsvaldastefnan að baki stórvíetnamsks leppríkis.

Þessi heimsvaldastefna er mismunandi opinská. Sums staðar í heiminum fólst hún í beinni hernaðaríhlutun, svo sem um þessar mundir í Afganistan. Víðar eru þó hafðir leppar á oddinum, svo sem Kastró og Kúbustjórn.

Rússland kostaði hernað Kúbumanna í Angóla og Eþiópíu, alveg eins og það kostar núna tilraunir Víetnama til að gleypa Laos og Kampútseu og koma á fót stór-víetnömsku ríki á öllu landi hins gamla, franska Indókína.

Valdaskákin í lndókína er hefðbundin. Menn gera bandalag við þá, sem eru hinum megin við nágrannann til að dreifa kröftum hans á fleiri landamæri. Líklega er þetta elzta aðferðin í stappi milli ríkja.

Rússland kom sér upp leppríki í Vietnam til að þrengja að nágranna sínum og andstæðingi, Kína, úr hinni áttinni, úr suðri. Kína svaraði með því að koma sér upp leppríki að baki Víetnams, hinni illræmdu Kampútseu.

Með þessu binda Rússar nokkurn hluta hernaðarmáttar Kína á suðurlandamærunum og Kínverjar binda nokkurn hluta hernaðarmáttar Víetnams á suðvesturlandamærum þess og í Kampútseu. Þetta er hreint skólabókardæmi.

Heimsvaldastefna Rússlands er ekki ný af nálinni. Hún er eðlilegt framhald af stefnu keisaradæmisins. Sovétríkin og leppríki þeirra eru eins konar Stór-Rússland undir hugmyndafræðilegri skikkju stalínismans.

Hin hugmyndafræðilega skikkja er alltaf að verða mikilvægari þáttur heimsvaldastefnu. Eiginhagsmunirnir voru opinskárri í tíð gömlu, evrópsku nýlenduveldanna, þótt óljóst væri talað um nauðsyn siðmenntunar villimanna.

Bandaríska heimsvaldastefnan var nýtízkulegri, klædd í fögur klæði frelsis og mannhelgi. Bandaríkin voru hinn hvítklæddi riddari, sem varði þjóðir heims gegn hinum eldspúandi dreka stalínismans.

Heimsvaldastefna stalínistanna í Kína og Rússlandi hvílir á enn mótaðri hugmyndafræðilegum grunni. Hugsjónin er svo sterk, að heilum stéttum manna hefur verið útrýmt í Kampútseu. Sagt er, að rífa þurfi niður til að byggja upp nýtt.

Vaxandi hugmyndafræði í heimsvaldastefnu hefur gert hana mun grimmari en áður. Fjöldamorð og þjóðarmorð eru framin með köldu blóði í þágu hinnar miklu hugsjónar, þúsund ára ríkis stalínismans.

Engum nema sannfærðum hugsjónamönnum getur dottið í hug að útrýma heilum stéttum manna í landi sínu. Engum nema slíkum getur dottið í hug að leggja óyfirstíganlega steina í götu alþjóðlegs hjálparstarfs.

Íbúar lndókína hafa nú á nokkrum áratugum mátt þola þrjár kynslóðir heimsvaldastefnu, hverja þeirra magnaðri hinum fyrri. Örlög þessa fólks eru hörmulegri en orð fá lýst.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Okkur sjálfum að kenna.

Greinar

“Ef starfað væri af manndómi, mundi þjóðin hlíta leiðsögn”, sagði Eggert Haukdal alþingismaður í áramótaviðtali við Dagblaðið. Auðvitað er þetta kjarni vandamála Íslendinga við upphaf níunda áratugar aldarinnar.

Við lifum í draumaheimi, þar sem lausafé er líkþrátt, sparendur hafðir að háði og spotti og brjóstvit Lúðvíks Jósepssonar dýrkað. Áramótagrein hans fjallaði um fiskifræðinga og aðra vonda fræðinga, sem ættu sök á böli Íslands.

Þjóðin hefur auðvitað Lúðvík Jósepsson og aðra leiðtoga, sem hún á skilið. Við höfum kosið þessa menn yfir okkur og höfum raunar ekki yfir neinu að kvarta, sem er ekki sjálfum okkur eingöngu að kenna.

Við höfum meira að segja gert Ólaf Jóhannesson að dýrlingi, þann mann, sem skipulegast hefur unnið að því að segja sem fæst af viti, tala í gátum og lélegum bröndurum, en mest þó hreinlega út í hött.

Ekki er okkur og leiðtogum okkar þó alls varnað. Einna eftirminnilegast frá árinu 1979 er “samstarf þingmanna úr ólíkum flokkum og víðsýnna dagblaða (sem) skóp nýjan tillögugrundvöll af hálfu okkar og málstað okkar Íslendinga í Jan Mayen málinu var borgið, a.m.k. í bili”.

Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson alþingismaður í áramótaviðtali við Dagblaðið. Hann átti þátt í því með Eyjólfi Konráð Jónssyni alþingismanni og fleiri mönnum innan og utan flokka, síðast einnig Ólafi Jóhannessyni, að uppgjafarstefna Benedikts Gröndal náði ekki fram að ganga.

Við heilsuðum hinu nýja ári með því að hlusta á forseta okkar, Kristján Eldjárn, segja almenningi frá því, sem hann sagðist vera búinn að segja ráðamönnum “fyrir nokkrum mánuðum”, að hann mundi ekki gefa kost á sér aftur.

Dagblaðið var raunar búið að segja frá þessari ákvörðun fyrir nokkrum mánuðum. Það er einmitt hlutverk Dagblaðsins á þessum erfiðu tímum að segja almenningi frá því, sem eingöngu er ætlað eyrum fínu mannanna í stjórnmálunum.

Við höfum þrótt, þegar við mætum nýju ári. Við höfum möguleika á að bjarga í horn mjög góðum málstað okkar í Jan Mayen málinu. Við getum náð tökum á varðveizlu fiskistofna okkar, upphafs og endis nútímalífs í landinu.

Kannski er það kostur hinna köldu og myrku veðra hér á landi, að Íslendingar eru manna duglegastir, hamhleypur til allra verka. Áreiðanlega er hvergi í heiminum unnið eins mikið og hér. Á þessum dugnaði lifum við, þótt okkur séu mislagðar hendur í stjórnmálum.

Eitt mega líka leiðtogar okkar eiga. Þeir hafa stuðlað að fullri atvinnu í landinu fram að þessu. Þetta afrek verður seint ofmetið. Hvað yrði líka um okkur, ef lát yrði á endalausri bjartsýni okkar og sjálfsbjargarviðleitni?

Við sitjum nú og horfum á upphafsþátt þess skrípaleiks, sem kallaður er “tilraunir til stjórnarmyndunar” af herramönnum þeim, sem við höfum kosið yfir okkur. Sá leikur virðist ætla að standa fram eftir vetri.

Sá kostur fylgir þó, að við völd er stjórn, sem engu stjórnar og ekkert má gera. Lao Tse sagði einu sinni, að sú stjórn væri bezt, sem léti þegnana í friði. Megi sá friður haldast.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Átta og hálfur tími.

Greinar

Hvernig hefðu björgunarstörf gengið þriðjudaginn 18. desember, ef leita hefði orðið slysstaðar í myrkri og hríð? Í fjöllum og óbyggðum, fjarri alfaraleiðum?

Enginn vafi er á, að flugslysin tvö á Mosfellsheiði verða skipuleggjendum björgunarmála alvarlegt umhugsunar- og umræðuefni. Við það tækifæri fóru of mörg atriði í handaskolum.

Löngu fyrir síðara slysið mátti ljóst vera, að frekari notkun þyrlu yrði erfiðleikum bundin, úr því að hún varð veðurteppt í Reykjavík. Samt tók björgunin alls átta og hálfa klukkustund.

Okurtollar á talstöðvum björgunarsveita eru þáttur vandans. Græðgi ríkissjóðs veldur því, að talstöðvar kosta tæpar tvær milljónir króna hver í stað tæprar einnar milljónar króna.

Fjarskiptin voru einmitt sá þáttur, sem einna mest fór í handaskolum, sumpart vegna fátæktar björgunarsveita. Tvö kerfi voru í notkun og var sambandslaust milli þeirra.

Þar á ofan var haldið uppi samkeppni milli móðurstöðva með tilheyrandi samslætti og lélegu sambandi. Þar kom í ljós agaskortur, sem og á ýmsum öðrum sviðum aðgerðanna.

Skilaboð milli sjúkrahúsa og lækna á slysstað voru ekki flutt um fjarskiptakerfin. Og læknar á slysstað fengu raunar litlu ráðið um aðhlynningu hinna slösuðu.

Í talstöðvum sjúkrabíla stönguðust fyrirskipanir á. Ýmist var sagt, að aka ætti fólki til Borgarspítalans eða Landspítalans. Eins og í öðrum þáttum virtust allir stjórna í senn.

Viðkomandi lögregluyfirvöld virtust ekki fela neinum ákveðnum aðila stjórn mála á slysstað. Þar ríkti hin hefðbundna samkeppni björgunarsveita, sem áður hefur verið til vandræða.

Útbúnaður björgunarmanna var ekki í lagi . Slökkviliðsmenn voru í einkennisbúningi án hlífðarfata og á blankskóm. Engin skófla var í björgunarsveitarbíl, sem sat fastur.

Þrek sumra björgunarmanna var mun minna en nauðsyn krafði. Sumpart veldur því hin mjög svo tímafreka fjársöfnun þeirra í tolla handa ríkissjóði, sem dregur úr tíma til þjálfunar.

Skipuleggjendur björgunaraðgerða virtust ekki hafa gert sér grein fyrir kostum vélsleða við björgunarstörf að vetrarlagi. Þeir voru heppnir, að einkaaðilar komu með slík tæki á vettvang.

Reynt var að brjótast með fjallatrukka á slysstað, þótt ljóst mætti vera, að vegna veltings og hristings yrði ekki hægt að flytja sjúklinga í þeim til baka.

Hugsanlegt er, að björgunarstörf hér á landi séu orðin svo háð þyrlum, að menn hafi misst sjónar á skynsamlegum vinnubrögðum, þegar fara þarf landleiðina með slasað fólk.

Enn eitt atriðið, sem kallar á skoðun, er tenging almannavarna við björgunaraðgerðir. Opnun stjórnstöðvar almannavarna eftir síðara slysið virtist auka flækjur málsins.

Skipuleggjendur björgunarmála þurfa nú að læra sameiginlega af þeirri reynslu, sem fékkst af átta og hálfs tíma handaskolum vegna slyss í nágrenni þjóðvegar og nágrenni Reykjavíkur.

Afnám tolla á talstöðvum er mikilvægur þáttur endurbóta, en engan veginn hinn eini. Allir aðilar björgunarmála þurfa að líta í eigin barm, svo að betur megi takast næst.

En ekkert er svo með öllu illt, að ekki sjáist bjartar hliðar. Eftirminnilegt er t.d. afrek Skúla Karlssonar, sem sýndi mikið snarræði, þegar hann slökkti á aðalrofa þyrlunnar og kom þannig sennilega í veg fyrir eldsvoða.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Bitur reynsla og þó góð.

Greinar

Löngum hafa viðhorf Íslendinga til stóriðju skipzt í tvö horn. Menn hafa annaðhvort verið með henni eða á móti. Þetta hefur verið eins konar trú á báða bóga.

Þar sem allir stjórnmálaflokkar hafa nú lagt hönd á plóginn við að byggja upp stóriðju hér á landi, ætti að vera hægt að tala af meiri skynsemi um frekari útþenslu á því sviði.

Stóriðja, sem er að meira eða minna leyti í eigu svonefndra “erlendra auðhringa”, er engin allra meina bót í atvinnulífinu. En hún er gagnlegt hjálpartæki, ef varlega er farið og rétt á málum haldið.

Rómantískir þjóðernissinnar hafa málað svartar myndir af náttúrubörnum, sem breytist í gráan múg við katla og færibönd stóriðjunnar. Þeir hafa málað svartar myndir af Íslandi í erlendri áþján.

Í rauninni eru þetta rangar myndir, þótt reynsla okkar af álverinu í Straumsvík hafi að ýmsu leyti verið neikvæð. En sú bitra reynsla hefur svo aftur komið okkur að gagni í málmblendiverinu á Grundartanga.

Alvarlegasti hnekkirinn í Straumsvík var raforkusamningurinn, er löngum hefur verið afsakaður sem fyrsta tilraun. En það er ekki nema hluti af sannleik í þeirri afsökun.

Á þeim tíma var ris okkar svo lágt, að samningamenn ríkisins gagnvart álverinu komu síðar í ljós í stjórn þess. Slíkt gat aðeins gerzt á Íslandi og í Kardimommubæ.

Álverið fékk í haust 220 volta forgangsorku með 8000 stunda nýtingartíma á 2,05 krónur. Það er innan við helmingur af því, sem sambærilegir viðskiptamenn, þ.e. stærstu rafveiturnar, þurftu að greiða, 4,41 krónur.

Þessi verðmunur er út í hött. Og leitt er til þess að vita, að leyfð skuli frekari stækkun alversins, án þess að verðið í heild sé fært í rétt horf. Við greiðum niður orku til álversins, hvað sem öllum bókhaldssjónhverfingum líður.

Öðru vísi var staðið að málum, þegar samið var um orkuverð til Grundartanga, sem notar að hálfu forgangsorku og að hálfu afgangsorku. Þar náðist útkoma, sem er í samræmi við annað orkuverð í landinu.

220 volta forgangsorka með 8000 stunda nýtingartíma kostaði í haust 4,41 krónur í heildsölu. Afgangsorkan kostaði mun minna eða 1,02 krónur í heildsölu. Málmblendiverið ætti því að borga bil beggja eða 2,71 krónu.

Í rauninni greiddi það 2,49 krónur fyrir orkuna. Það er heldur lág tala, en samt nálægt því að vera í samræmi við annað orkuverð í landinu. Við þurfum ekki að vera óánægð með þann árangur í annarri tilraun.

Stóriðjan á Íslandi hefur að ýmsu leyti verið til fyrirmyndar í mannlegum samskiptum. Lífskjör og aðbúnaður starfsfólks er mun betri en gengur og gerist í landinu. Þar er ekki um að ræða neina færibandaþræla.

Álverið varð sér til stórskammar með því að reyna að skjóta sér undan eðlilegum mengunarvörnum og gat slegið þeim á frest. Svo virðist hins vegar, að á Grundartanga séu mengunarvarnir frú upphafi í betra lagi en í öðrum iðnaði á Íslandi.

Rangt væri að kenna mismunandi eignaraðild um muninn á reynslunni af álverinu og málmblendiverinu. Við eigum framvegis að geta haldið okkar hlut, þótt sumt af stóriðju framtíðarinnar verði algerlega í erlendri eigu.

Við eigum nú að gerast djarfari í viðskiptum við svonefnda “erlenda auðhringa” og haga málum svo, að hver framkvæmdin á því sviði geti viðstöðulaust tekið við af annarri.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Týnda stéttin

Greinar

Þorri Islendinga er vel stæður. Mikill meirihluti fjölskyldna á íbúð og bíl og leyfir sér ýmsan munað umfram nauðþurftir, svo sem ferðir til sólarstranda, aðra afþreyingu eða þátttöku í menningarstarfi.

Margt af þessu fólki er stundum eða alltaf í kröggum. En það er ekki vegna fátæktar, heldur vegna of mikils hraða í fjárfestingu í bíl, íbúð eða munaði. Fjárskortur hindrar ekki þetta fólk í að horfa með bjartsýni til framtíðar.

Þjóðin er mjög vel sett, að þessi öfluga miðstétt skuli vera alls ráðandi og að eiginleg auðstétt í erlendum stíl skuli tæpast vera til. Allur þorri þjóðarinnar er sjálfbjarga fólk með þeirri reisn, sem slíku fylgir.

Aðgangur Íslendinga að þessari vel stæðu miðstétt er hins vegar ekki sjálfvirkur. Fólk verður að fylla ákveðin skilyrði til að öðlast þátttöku í nútímanum og í vonum um bjartari framtíð. Um nokkrar leiðir er að velja.

Einn hópurinn er hátekjufólk vegna ábyrgðar, menntunar eða aðstöðu. Annar hópurinn er fólk með ríflega möguleika á uppmælingu eða aukavinnu. Þriðji hópurinn er fólk, þar sem eiginmaður og -kona vinna bæði úti.

Lífsstill nútímans á Íslandi krefst þess, að fólk fylli einhvern þessara þriggja flokka. Og það gerir raunar mikill meirihluti þjóðarinnar. Einmitt þess vegna vill oft gleymast sá hluti hennar, sem á engan þessara aðgöngumiða.

Veikt tryggingakerfi veldur því, að nokkur hópur fólks hefur ekki aðgang. Það er sumt eftirlaunafólk og lífeyrisþegar, aðrir en opinberir starfsmenn, svo og sumir öryrkjar, einstæðar mæður og fjölskyldur ofdrykkjumanna.

Annar hópur manna, sumpart sama fólkið, hefur ekki aðgöngumiða vegna hinna lágu launataxta á mörgum sviðum þjóðlífsins, einkum í þjónustu, verzlun og iðnaði. Lágmarkslaun eru hreinlega of lág hér í hátekjuþjóðfélaginu.

Láglaunafólk getur lifað míðstéttarlífi, ef það hefur góða möguleika á aukavinnu eða ef hjón vinna bæði úti. Tekjukerfi þjóðfélagsins byggist raunar á því, að einhvern veginn hafi hver fjölskylda að minnsta kosti hálfar aðrar launatekjur.

Sumt fólk á efri árum hefur ekki heilsu til aukavinnu fyrir aðgöngumiða. Annað fólk er í flokki einstæðra foreldra, sem bara hafa einfaldar tekjur, þurfa að sjá um heimili og geta því ekki stundað aukavinnu.

Tryggingakerfið, Mæðrastyrksnefnd, félagsmálastofnanir og fleiri aðilar reyna að hjálpa fólki, sem er utanveltu í nútíma Íslands. En þetta starf nýtur ekki nægilegs stuðnings hins fjölmenna meirihluta velsældarfólks.

Utangarðsfólkið er ekki eins áberandi í þjóðfélaginu og á kreppuárunum fyrir heimsstyrjöldina. Menn lesa frásögn Sigurðar A. Magnússonar um ævi barna undir kalstjörnu, en taka ekki eftir slíku ástandi nú.

Staðreyndin er sú, að undirstéttin í þjóðfélaginu er orðin svo fámetln, að hún hefur týnzt í hugum fólks. Menn sjá hana ekki í nágrenni sínu og halda, aó hún sé ekki til. Þetta athugunarleysi dregur úr mætti gagnaðgerða.

Enn eru börn að alast upp í húsnæði, sem ekki er heilsufarslega sómasamlegt. Enn eru börn að alast upp við fæði, sem ekki veitir nægan þroska. Og enn eru börn að alast upp við fjárskort, sem skipar þeim á óæðri bekk.

Ef við vildum sjá þessar staðreyndir íslenzks þjóðfélags, gætum við bætt verulega úr skák, einmitt af því að týnda stéttin er svo fámenn og velsældarstéttin fjölmenn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Eintal Steingríms.

Greinar

Í stjórnarmyndunarviðræðunum sitja fulltrúar Framsóknarflokksins nánast á eintali. Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkurinn hafa ekki áhuga á þáttöku í stjórninni að þessu sinni og fara sér að engu óðslega.

Ekki vantar að Steingrímur Hermannsson rembist eins og rjúpan við staurinn. Hann hefur lagt fram kosningaloforð Framsóknarflokksins, útskýrt þau og látið reikna þau út í Þjóðhagsstofnun.

Hinir flokkarnir tveir hafa að vísu líka sett fram sín kosningaloforð, Alþýðubandalagið skriflega og Alþýðuflokkurinn munnlega. En þeir hafa að öðru leyti haldið að sér höndum í viðræðunum við Framsóknarflokkinn.

Ágreiningur Alþýðuflokks og Alþýðubandalags er hatrammari en nokkru sinni fyrr. Hjá Alþýðubandalaginu fær hann sem fyrr útrás í blóðugum skömmum í fjölmiðlum. Og hjá Alþýðuflokknum fær hann útrás í atkvæðagreiðslum á þingi.

Alþýðuflokkurinn hefur ekki viljað haga sér á alþingi eins og vinstri stjórn væri aftur komin til valda. Hann hefur farið einförum í atkvæðagreiðslum um forseta og nefndir. Og þrisvar hefur hann hlaupið út undan sér til hægri.

Lystarleysi Alþýðuflokksins er því nokkuð ljóst, enda má búast við, að honum verði kennt um, að ekki tekst að mynda vinstri stjórn í þessari umferð. Lystarleysi Alþýðubandalagsins er ekki eins augljóst, en samt engu minna.

Ef talsmenn Alþýðubandalagsins væru að stefna að vinstri stjórn, mundu þeir tempra skammirnar í garð Alþýðuflokksins, að minnsta kosti í bili. Í stað þess segja þeir nánast, að Alþýðuflokkurinn sé óalandi og óferjandi.

Að svo miklu leyti , sem málefnaágreiningur er í spilinu, er hann milli Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. Hinar vonlitlu tilraunir til stjórnarmyndunar ættu að felast í hjöðnun þessa málefnaágreinings.

Stefna Framsóknarflokksins skiptir minna máli, því að hún er hvort sem er einkar sveigjanleg og gefur flokknum möguleika á að mynda meirihluta innan ríkisstjórnar með hinum flokkunum á víxl, alveg eins og í síðustu vinstri stjórn.

Það er því skrítið, að togleður Framsóknarflokksins skuli vera þungamiðja viðræðnanna. Það þýðir lítið fyrir Steingrím að vera á eintali, þegar vandamálin felast einkum í sérsjónarmiðum hinna flokkanna.

Og ekki verður sagt, að útreikningar Þjóðhagsstofnunar auki lystina á stefnu Framsóknarflokksins, nema þá hjá hörðum verðbólgusinnum. Verðbólgan á nefnilega að verða um 40% í lok næsta árs, þrátt fyrir nokkra kjaraskerðingu.

Ekki verður sagt, að markið sé hátt sett í slíkri stefnu. Hermann Jónasson hefði sett markið nokkru hærra. Og sá samanburður skiptir máli, úr því að Steingrímur telur sér í öðrum atriðum skylt að starfa að hætti Hermanns.

Ýmislegt bendir til, að Steingrímur sé farinn að átta sig á, að honum muni ekki takast að mynda stjórn í þessari umferð. Hann er farinn að tala um að skila af sér fyrir jól, í stað þess að rembast fram eftir janúar.

Erfitt er að spá um, hvernig öðrum leiðtogum muni ganga eftir áramótin. Eitt er þó ljóst. Foringjar stjórnmálaflokkanna hyggjast ekki hlíta aðvörunarorðum forseta Íslands frá síðustu viku:

“Ef til vill eru mjög langdregnar stjórnarmyndunarviðræður það, sem einna mest reynir á þolinmæði fólks og vinnur áliti alþingis mest tjón.”

En það er þó áfangi, að eintali Steingríms skuli senn lokið.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Hörmulegt einsdæmi.

Greinar

Þegar síðari heimsstyrjöldin brauzt út, voru sendimenn óvinaríkja taldir friðhelgir. Þeim var ekki haldið sem gíslum, heldur var þeim leyft að fara úr landi. Nazistar og kommúnistar fóru eftir þessari reglu eins og aðrir.

Þegar gerðar voru upp sakir heimsstyrjaldarinnar, voru sendimenn hinna sigruðu einnig taldir friðhelgir. Haldin voru réttarhöld stríðsglæpa yfir stjórnmálamönnum, embættismönnum og herforingjum, en ekki sendimönnum.

Þessi regla stóðst öldum og árþúsundum saman. Jafnvel kaþólska kirkjan, sem stundum var í meira lagi ofstækisfull, viðurkenndi friðhelgi sendimanna. Sama er að segja um Grikki og Rómverja fornaldar.

Allan þennan tíma hefur mönnum verið ljóst eðli og gildi sendimanna. Menn hafa vitað, að skilaboð eru nauðsynleg, þrátt fyrir hatur og hagsmunastríð. Hvarvetna hafa ríkisstjórnir haldið þessu til streitu.

Stundum hefur soðið upp úr meðal almennings. Íslendingar réðust einu sinni með orgum og grjótkasti að sendiráði Breta. Engin athöfn skaðaði málstað Íslands í þorskastríðunum jafn grimmilega og sú árás.

Íslenzk stjórnvöld sendu lögreglu á vettvang til að vernda sendiráðið. Slíkt gera stjórnvöld um allan heim, þegar ofstæki almennings leitar útrásar gegn sendimönnum hataðs ríkis. Nema klerkaveldi Khomeinis í Íran.

Atburðirnir í Íran eru einsdæmi í sögu siðmenningarinnar. Þar er sendiráð tekið herskildi og starfsmönnum þess haldið sem gíslum. Og stjórnvöld landsins gera ekkert í málinu, heldur segjast skilja reiði ofbeldismanna.

Þráteflið um bandaríska sendiráðið í Teheran hefur staðið svo lengi, að ljóst er orðið, að stjórnvöld í Íran hafa ekki gert minnstu tilraun til að ná siðmenningarlegum tökum á ástandinu. Þvert á móti hafa þau reynt að hagnýta það.

Khomeini erkiklerkur er enginn geðsjúklingur. En ofbeldishneigð hans er einstök í sinni röð. Og furðuleg er sú þjóð, sem lætur stjórnast mánuðum saman af slíku ofstæki. Það er eins og Íranir séu haldnir illum anda.

Hingað til höfum við minnzt Persíu sem lands Þúsund og einnar nætur, merkasta ævintýrasafns veraldar. Við höfum minnzt Persíu sem lands Ómars Khayam, hins angurværa nautnaskálds, sem íslenzk stórskáld hafa keppzt um að þýða.

Hvað er orðið af eldfornri menningu Persíu? Það er eins og Íranir nútímans ætli að strika yfir hana, magnaðir af illum anda trúarbragðanna. Allur heimurinn fordæmir þá, svo sem þeir eiga skilið.

Carter Bandaríkjaforseti hefur staðið sig vel í þessari raun. Hann hefur ekki látið æsta landa sína ýta sér út í neina vitleysu. Hann veit líka, að máttur Bandaríkjanna er takmarkaður. En það vita sumir landar hans ekki.

Það er gott til þess að vita, að forsetastóll Bandaríkjanna er skipaður manni, sem í senn er greindur og góðviljaður og ekki hefur safnað að sér neinum hópi valdalostamanna á borð við Kissinger, fyrrum utanríkisráðherra.

Margir Bandaríkjamenn hafa talað illa um Carter og gera enn. Hann er í fyrirlitningartón kallaður hnetubóndi. Kannski gerist þar enn hið fornkveðna, að enginn veit, hvað átt hefur, fyrr en misst hefur.

Og vonandi lætur Carter ekki taka sig á taugum í þessu einstæða og hörmulega Íransmáli.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið