Author Archive

Esjuberg

Veitingar

Esjuberg er heppilegur fjölskyldu-matstaður. Þar er hægt að geyma ungviðið í föndurkrók meðan unglingarnir borða tiltölulega sæmilega hamborgarar og foreldrarnir eggjaköku, kannski með hálfri vínflösku. Eina skilyrðið er, að ekki séu gerðar kröfur til matreiðslunnar.

Þessi hrikalega stóra veitingastofa er ekki eins kuldaleg og við mætti búast. Innréttingar eru snyrtilegar og í senn hæfilega einfaldar og fjölbreyttar. Leikurinn með viðinn í loftinu rýfur einhæfni hússins.

Gott pláss er milli borða og hreinlæti er í bezta lagi. Hávaðasamt getur orðið á annatímum, en samhljómur skvaldursins hefur ekki óþægileg áhrif. Ekkert hindrar þig í að taka lífinu með ró – nema vera skyldi maturinn.

Þegar ég gerði úttekt á Esjubergi fyrir Vikuna um daginn, ríkti fullkominn geðklofi í baktjaldatónlistinni. Úr annarri áttinni heyrðist sinfónían spila Bela Bartók og Antonin Dvorák, en úr hinni áttinni heyrðist spilað úr léttum söngleikjum. Það getur kostað fótaskort að gera öllum til geðs.

Til skamms tíma hefði Esjuberg átt að fá fimm í einkunn fyrir umhverfi og andrúmsloft. En barnakrókurinn er svo skemmtileg og hugnæm nýjung, að ómögulegt er að gefa staðnum minna en átta fyrir þennan þátt. Þrátt fyrir tvöfalda tónlist.

Í barnakróknum eru húsgögn við hæfi barna, bækur og kubbar og púsluspil, litir og pappír. Og listaverk barnanna hanga uppi á vegg. Fyrir þessu er skylt að hrópa húrra, sem og fyrir barnastólunum, sem hægt er að hafa við matborðin.

Gott væri, ef húsráðendur sýndu þá smekkvísi að breyta skiltum, sem á stendur: “Vinsamlega Sýnið Kassakvittun Við Móttöku Sérrétta”. Ofnotkun upphafsstafa getur kannski gengið á amerísku, en engan veginn á íslenzku.

Síld
Marineruð síld með brauði og smjöri reyndist vera eitt síldarflak, stórt og slétt og fallegt, án allrar sósu, en með eggsneið og kartöflu. Þetta var góð síld, bezti maturinn í prófun Vikunnar, ef frá er skilið hrásalatið, sem síðar verður rætt.
Verðið er 2.170 krónur sem forréttur.

Graflax
Graflax með sinnepssósu og ristuðu brauði var vondur á bragðið, hugsanlega skemmdur. Hann var grár í gegn, þurr og bragðlaus. Hann var vafinn utan um linan og bragðlausan spergil úr dós. Gúrkan og sítrónan voru æt og sinnepssósan var í sæmilegu lagi. Í heild var þessi furðulegi réttur upp á hreint núll í einkunn.
Matreiðslumenn Esjubergs virðast hafa tekið eftir því, að í útlöndum er matur stundum vafinn upp á spergil. En þá er um ferskan og ætan spergil að ræða. Slíka matargerð er útilokað að þýða á íslenzku með handafli og dósahníf.
Verðið er 3.380 krónur sem forréttur.

Esjugratín
Esjugratín reyndist vera kræklingur, rækjur og spergilbitar ásamt dálitlu af sítrónu, tómati og steinselju, ofnbakað í osti. Þetta var bragðgóður matur, ef sneitt var hjá sperglinum. Með þessu voru borin fram ágæt hrísgrjón með óhugnanlegri, hvítri hveitisósu með hveitibragði.
Verðið er 3.350 krónur sem aðalréttur og fæst ekki á lægra verði sem forréttur.

Ýsa
Steikt fiskflök með ristuðum rækjum, spergli og hvítvínssósu reyndist vera pönnusteikt ýsa, sæmileg á bragðið og sennilega fersk. Sæmilegasta hrásalat fylgdi, svo og franskar kartöflur. Þær voru með þeim betri, sem ég man eftir, hæfilega steiktar og án aldraðs olíubragðs.
Þessi ýsa hafði ekki verið eyðilögð í matreiðslu. En henni hafði verið spillt með svokallaðri hvítvínssósu. Það var hveitisósa, byggð á grunni mjög lélegs hvítvíns. Það er misskilningur, að komast megi billega frá víni í sósu.
Verðið er 3.460 krónur sem aðalréttur og fæst ekki á lægra verði sem forréttur.

Hrásalat
Hrásalat fylgdi þeim réttum, sem sagt verður frá hér á eftir. Esjuberg hefur komið á hinni skemmtilegu nýjung, sem víða sést í Bandaríkjunum, að hafa sérstakt salatborð, sem gestir eiga sjálfir að sækja í. Getur þá hver blandað sér hrásalat við hæfi.
Á boðstólum var gott ísberg-kál; aldrað hvítkál frá hádeginu; paprika, ekki úr dós eða frysti; sæmilegur maís; bragðlausir skinkubitar; góðar mandarínur; ætir tómatar; vondar sýrugúrkur; ágætar hreðkur; og tvær sómasamlegar sósur, önnur úr tómati og hin úr sinnepi.
Úr þessu gat ég moðað mér salat úr ferskum og góðum hráefnum, því að auðvelt var að forðast hið lélega. Satt að segja var þetta hrásalat hápunktur máltíðarinnar, ágætis auglýsing gegn þeirri firru, að heilnæmur og náttúrulegur matur sé kanínufóður.
Hrásalatið hefði þó auðveldlega getað verið enn betra. Ég saknaði sítrónubáta og olífuolíu, svo að ég gæti hrist olíusósu. Ennfremur var salatborðið fremur óhrjálegt. Til dæmis voru sósurnar með skán. Svona borði þarf að sinna á nokkurra mínútna fresti.
Verðið er 560 krónur, ef hrásalatið er keypt sérstaklega. Það eru langbeztu kaupin á Esjubergi.

Nautamörbráð
Franskt buff með kryddsmjöri, frönskum kartöflum, belgbaunum og hrásalati var ákaflega dularfullur matur. Hráefnið virtist þó vera gott, hvaðan sem það var ættað og kjötið var lungamjúkt og alveg laust við seigju.
Að því leyti hefði það átt að reynast “lítið steikt”. Liturinn var hins vegar grár langt inn í kjöt og bleikur einungis í miðju, alveg eins og kjötið væri mitt á milli “miðlungs” og “fullsteikts”. Svo reyndist það þurrt og gersamlega bragðlaust, eins og um þrælsteikt kjöt væri að ræða.
Á þessu furðuverki hef ég enga skýringu. Einkunnin er hreint núll. Í stíl við kjötið voru svo 100% bragðlausar belgbaunir (úr dós?). Hins vegar slapp ég við hveitisósu. Og frönsku kartöflurnar voru frambærilegar, sem og þær, er fylgdu öðrum réttum Esjubergs.
Verðið er 6.130 krónur, “bortkastede penge”.

Lambalæri
Marineraðar lambalærissneiðar voru á matseðli dagsins, þunnar sneiðar harkalega grillaðar og dálítið brenndar, gráar í gegn og ótæpilega kryddaðar. Samt var enn eftir í þeim dálítil safi, svo að þær voru alveg ætar.
Brúna hveitisósan, sem fylgdi, var harkalega pipruð. og gratineruðu kartöflusneiðarnar voru vægast sagt óhugnanlegur óskapnaður. Það er furðulegt, að starfsfólk í eldhúsi skuli vera látið hafa svona mikið fyrir jafnvondum mat og þarna kom í ljós.
Verðið er 3.600 krónur.

Svínahryggur
Svínahryggur Róberts var einnig á matseðli dagsins og líka með sama óhugnanlega meðlætinu, hveitisósunni og hinum ólýsanlegu kartöflusneiðum og piparsósunni. Einnig fylgdu hinar bragðlausu belgbaunir, sem áður er getið og einn einmana biti af gulrót úr dós.
Svínakjötið sjálft var hins vegar vel meyrt og ágætt á bragðið. Það átti sannarlega ekki meðlætið skilið.
Verðið er 4.770 krónur.

Kínverskar pönnukökur
Kínverskar pönnukökur voru rúsínan í pylsuenda þessarar prófunar, ofsalega vondar á bragðið. Pönnukökurnar voru þykkar og linar og hveitibragðið leyndi sér ekki. Innvolsið var enn ógeðslegra. Það var blanda til helminga af hrísgrjónum og matarolíu.
Ég minnist þess ekki að hafa komizt í snertingu við óhugnanlegri mat á ævinni. Ég fær gæsahúð af endurminningunni. Einkunnin er mínus 21.
Verðið er 2.620 krónur.

Vín

Esjuberg hefur ákaflega takmarkað vínúrval á boðstólum. Innan um eru þar góð vín. Af rauðvínum Chianti Classico á 3.840 krónur og af hvítvínum Chablis á 4.675 krónur og Edelfräulein á 3.840 krónur. Einnig má nefna rauðvínin Mercurey og Saint-Emilion.

Vínveitingar hafa ekki spillt andrúmslofti eða yfirbragði Esjubergs. Hin langa og góða reynsla, sem þar hefur fengizt af hófsemi gesta, ætti að vera yfirvöldum tilefni til að leyfa veitingar léttra vína í fleirum af hinum snyrtilegri veitingahúsum borgarinnar.

Of lítill munur

Meðalverð 10 forrétta, millirétta og eggjarétta er nokkuð hátt á Esjubergi, 2.500 krónur. Það er eins hátt og í Nausti og næstum eins hátt og á öðrum vínveitingahúsum, sem veita þó þjónustu til borðs.

Meðalverð 19 aðalrétta úr fiski eða kjöti er 4.700 krónur á móti 8.000-8.500 krónum á vínveitingahúsunum með þjónustu, Sögu, Holti, Nausti og Loftleiðum. Sá verðmunur virðist vera minni en sem svarar hæfilegri endurspeglun gæðamunar.

Esjuberg býður aðeins upp á fjóra eftirrétti, þar af þrjá hversdagslega ísa og svo skyr. Meðalverðið er tæpar 900 krónur. Auk þess má kaupa þar nokkrar tegundir af tertum. Veitingastofan er því nánast stikkfrí í eftirréttum.

Ef keypt er þríréttuð máltíð með kaffi og hálfri vínflösku (Chianti) á mann, ætti meðalmáltíðin að kosta um 10.300 krónur á móti 14.500-16.300 krónum á hinum vínveitingahúsunum. Þessi munur finnst mér of lítill.

Mér mundi hins vegar ekki finnast hann of lítill, ef matsveinar hússins tækju á sig rögg og byrjuðu að elda af innlifun, starfsgleði, nákvæmni og virðingu fyrir góðum hráefnum. Á það skortir mjög eins og prófunin leiddi greinilega í ljós.

Gallar matreiðslunnar eru þess eðlis, að ekki ætti að vera kostnaðarsamt að bæta úr þeim. Innlifun, starfsgleði, nákvæmni og virðing fyrir hráefnum kosta ekki peninga. Og alténd mætti spara innkaup á dósamat.

Fjölskyldusnarl

Esjuberg er ekki staður til að kaupa sér dýran, flókinn og viðamikinn veizlumat. Enginn ætti að búast þar við matargerðarlist. Kostir staðarins eru á allt öðru sviði.

Þetta er fjölskyldustaður, þar sem hægt er að fá einfalt snarl eins og síld, eggjaköku eða hamborgara fyrir skikkanlegt verð – og jafnvel dreitil af léttu, ef hugurinn er móttækilegur. Og ekki má gleyma frönsku kartöflunum.

Mest um vert er þó, að ráðamenn Esjubergs eru óvenju vinsamlegir í garð barna, eins og hér hefur verið rakið að framan. Barnakrókurinn er ein af athyglisverðustu nýjungum í veitingarekstri hér á landi.

Á Esjubergi kostar marinerað síldarflak 2.170 krónur, eggjakaka 1.500 krónur, hamborgari 1.130-1.370 krónur og smurbrauð 2.090 krónur. En ekki má heldur gleyma því, að hinir vönduðu matsölustaðir bjóða líka upp á tiltölulega ódýra rétti fyrir börn og fullorðna.

Í Nausti kosta þrjár tegundir síldar 2.935 krónur og smurbrauð 2.075 krónur. Í Holti kostar smurbrauð 1.875 krónur, eggjakaka 2.275 krónur og djúpsteiktar rækjur 3.100 krónur. Á Loftleiðum kostar eggjakaka 2.530 krónur og síldarbakki 2.850 krónur. Og á Sögu kostar smurbrauð 1.850 krónur, eggjakaka 2.150 krónur, kræklingur 2.185 krónur, síldarbakki 2.970 krónur og smálúða 3.010 krónur. Hamborgara fyrir börn ætti að vera hægt að fá á þessum stöðum, þótt þess sé ekki getið á matseðlinum.

Matreiðslan á Esjubergi fær tvo í einkunn, vínlistinn tvo, umhverfi og andrúmsloft sjö. Ekkert er gefið fyrir matarþjónustu, því að hún er engin, en fyrir vínþjónustu fær Esjuberg dálitla hækkun. Heildareinkunn hússins er þrír.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Einkaframtak Gunnars.

Greinar

Einkaframtak Gunnars Thoroddsen í tilraunum til stjórnarmyndunar má líta ýmsum augum. Sumir telja hann hafa svikið flokk sinn fyrir stól forsætisráðherra. Aðrir telja hann hafa höggvið þann hnút, sem minni háttar stjórnmálamenn hafi ekki getað leyst.

Eitt er þó víst, að sá tími er liðinn, að Morgunblaðið stjórni almenningsálitinu í máli sem þessu. Menn munu taka afstöðu á svipuðum grunni og þeir tóku áður afstöðu til Gunnars Thoroddsen í valdastreitu hans og Geirs Hallgrímssonar. Hún er nú loksins orðin opinber.

Uppreisn Gunnars er óneitanlega síðbúin. Fyrir síðustu kosningar hafði hann góðan stuðning í þingflokki sjálfstæðismanna. Þá var helmingur þingflokksins talinn hlynntur Gunnari og hinn helmingurinn hlynntur Geir. En nú hafa þar Geirsmenn bæði tögl og hagldir.

Á föstudaginn var klofningurinn ekki orðinn sá, sem hann varð svo um helgina. Í fyrstu gerði Gunnar ekki annað en að óska eftir stuðningi þingflokksins til framhalds viðræðna hans við Framsóknarflokk og Alþýðubandalag, sem höfðu reynzt árangursríkari en tilraunir annarra.

Þingflokkur sjálfstæðismanna gat auðvitað heimilað Gunnari þetta, til dæmis með fyrirvara um forsætisráðherrann. Kannski hefði Gunnar getað myndað stjórn fyrir Geir eins og Ólafur Jóhannesson gerði fyrir hálfu sjötta ári.

Ef það hefðu verið Matthías Bjarnason eða Matthías Mathiesen, sem hefðu náð svona góðu einkasambandi við stjórnmálamenn annarra flokka, gæti flokkurinn hugsanlega sætt sig við aðferðina. En af því að það var Gunnar, var aðferðin móðgun við formann flokksins, Geir Hallgrímsson.

Vegna hinna sérstöku aðstæðna í Sjálfstæðisflokknum hefði umboð til Gunnars jafngilt vantrausti á Geir. Þess vegna kaus þingflokkurinn að ítreka það umboð, sem hann hafði áður veitt Geir til viðræðna við aðra flokka. Þessi afstaða var skiljanleg.

Með töluverðri teygingu ímyndunarafls var tillagan um ítrekað umboð Geirs túlkuð sem breytingartillaga við tillöguna um nýtt umboð Gunnars. Tillaga Gunnars kom því alls ekki til atkvæða. Hlýtur það að teljast ákaflega sérkennileg málsmeðferð.

Þessi sjónhverfing átti að hindra vitneskju fólks um stuðning og hlutleysi í þingflokknum gagnvart framtaki Gunnars. Hún dugar þó skammt, ef Gunnar myndar stjórn, sem verður varin falli af tveimur eða fleiri þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.

Og það var einmitt þessi þingflokksfundur á föstudaginn, sem magnaði klofninginn. Gunnar lét nefnilega ekki segjast, þótt aðild Sjálfstæðisflokksins að stjórn hans væri úr sögunni. Hann hélt áfram að mynda stjórnina sem einstaklingurinn Gunnar Thoroddsen.

Í morgun var ekki vitað, hvort ríkisstjórn hans yrði að veruleika. Framsóknarflokkurinn hefur samþykkt að taka þátt í henni og búizt er við svipaðri niðurstöðu í Alþýðubandalaginu í dag. Þá reynir á, hvaða hlutleysi Gunnar getur tryggt sér meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Óneitanlega ber þingflokkur sjálfstæðismanna ábyrgð á því, að stjórnarkreppan er ekki leyst með samstjórn Alþýðubandalags, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Þingflokkurinn hafði meiri áhuga á spennunni milli Gunnars og Geirs en á sjálfum þjóðmálunum. Flokkurinn hefur teflt sér í patt.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Sá tuttugasti skiptir litlu.

Greinar

Hinir óþolinmóðu, sem telja tímabært að taka ráðin um stjórnarmyndun af alþingi og fela þau Jóhannesi Nordal eða einhverjum slíkum, ættu að minnast þess, að stjórnarkreppan hefur ekki aðeins staðið í tvo mánuði, heldur nítján mánuði. Í slíkri kreppu skiptir einn viðbótarmánuður litlu.

Árið 1978 tók það allan júlí og ágúst að mynda vinstri stjórn gegn vilja Alþýðuflokks, sem vildi nýsköpunarstjórn.

Síðan fór allur september í deilur um andstöðu þingmanna Alþýðuflokks við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þessi stjórnarandstaða varð langlíf. Síðan fóru október og hálfur nóvember í gagnrýni Alþýðuflokks og Alþýðubandalags á fjárlagafrumvarp Framsóknarflokks. Urðu guðfeður ríkisstjórnarinnar í Verkamannasambandinu að sætta málin. Þær sættir entust þó ekki nema fram í miðjan desember.

Á meðan hlé varð á fjárlagadeilum undu stjórnmálamenn sér í deilur um vísitölu, er stóðu frá miðjum nóvember til miðs desember. Voru þar fyrst sammála Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur, en síðan kúventi Ólafur Jóhannesson yfir til Alþýðubandalags við mikla reiði Alþýðuflokks.

Um miðjan desember hékk stjórnin á bláþræði vegna skattadeilna og síðan var aftur tekið til við fjárlagadeilu. Alþýðuflokkur vildi niðurskurð ríkisútgjalda og efnahagsaðgerðir til langs tíma. Ólafur friðaði loks flokkinn með loforði um athugun í janúar.

Upp úr áramótum hófst svo lengsta deilan, um efnahagsfrumvarp, og lauk henni ekki fyrr en í marzlok með samþykkt svokallaðra Ólafslaga. Þessi deila byrjaði með þriggja manna ráðherraslag, sem lyktaði með sérbókunum til allra átta. Í febrúar kastaði Ólafur svo fram sínu eigin frumvarpi.

Í fyrstu hallaðist frumvarpið að Alþýðuflokki. Í byrjun marz kom svo Ólafur til móts við Alþýðubandalag, Alþýðuflokki til mikillar gremju. Snéri þá Ólafur aftur í átt til Alþýðuflokks. Samkomulag náðist um miðjan marz, en svo féll Alþýðubandalag skyndilega frá því.

Guðfeðurnir reyndu nú enn málamiðlun í formi láglaunapakka og voru þá Ólafslög samþykkt með breytingum í lok mánaðarins, að vísu við nokkra gremju Alþýðubandalags. Hófust þá deilur um, hvort banna ætti fyrirhuguð verkföll með lögum. Þær deilur stóðu fram í miðjan júní.

Á meðan fór maí í vel heppnaðar tilraunir Alþýðuflokks til að stöðva landbúnaðarfrumvarp Framsóknarflokks. Varð sögufrægt upphlaup á síðasta starfsdegi þingsins. Gátu stjórnmálamenn þá snúið sér heilum og óskiptum að deilum um bráðabirgðalög gegn verkföllum.

Þá féllust loks í faðma Ólafur Jóhannesson og Vilmundur Gylfason, en þeir biðu lægri hlut og farmenn voru sendir á sjó. Í júlí og ágúst varð Benedikt Gröndal tvisvar að éta ákvarðanir ofan í sig, fyrst þegar hann sleppti hermönnunum út og síðan þegar hann gaf Norðmönnum eftir Jan Mayen.

Í júlí og ágúst mögnuðust deilur. Þá var rifizt um prósentur ríkisins af bensíni og um hækkun olíugjalds, um hækkun vaxta og hækkun skatta. Hafði Framsóknarflokkur allar hækkanir í gegn, ýmist í trássi við Alþýðuflokk eða Alþýðubandalag.

Hinn 6. október sleit svo Alþýðuflokkur stjórnarsamstarfinu rétt á undan Alþýðubandalagi. Hófst þá kosningabarátta, þingforsetadeilur og síðan tilraunir þær til stjórnarmyndunar, sem enn standa yfir. Þar með hefur stjórnarkreppan náð nítján mánaða aldri og versnar varla í febrúar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Naustið

Veitingar

Í Nausti eru notalegustu húsakynni veitinga á Íslandi. Og þjónusta er þar með hinni beztu, sem þekkist á landinu. Þeim mun sorglegra er, að matreiðslan er iðulega kæruleysisleg og engan veginn samboðin öðrum þáttum hússins.

Innréttingar Sveins Kjarval eru hreinasta listaverk. Alls staðar eru bogalínur í stað beinna lína, svo að eftirlíking skipsskrokksins verður næsta fullkomin. Hér er staður með söltu og magnþrungnu andrúmslofti.

Síðari tíma básarnir á miðju gólfi hafa lánast miklu betur í Nausti en í Holti. Þeir eru nógu háir til að spilla hvorki yfirsýn um salinn né stærðarhlutföllum hans.

Gestagalli

Eini “gallinn” við innréttingarnar er raunar sá, að þær eru of notalegar! Gestir hafa tilhneigingu til að gerast of þaulsætnir og sumir hverjir of drukknir. Þetta á enn frekar við um barinn uppi á lofti.

Margir forðast barinn á Nausti af ótta við ölvun gesta. Þeir fara þá á mis við ágæta fagmenn, þar sem eru þeir Símon og Viðar, er standa ekki neinum starfsbræðrum að baki í blöndun hinna misjafnlega göróttu drykkja, sem kallast hanastél.

Símon var í brúnni, þegar ég gerði um daginn úttekt á Nausti og veitingum þess í svipuðum dúr og ég hafði áður gert á hótelunum Sögu, Loftleiðum og Holti. Það var góð byrjun á annars fremur misjöfnu kvöldi.

Hann hristi einn hinn bezta Daiquiri, sem ég og ráðgjafar mínir höfðu smakkað. Safinn var úr raunverulegri sítrónu og sykurröndin gleymdist ekki eins og víðast annars staðar. Dry Martini reyndist líka í fremstu röð. Þurra sérríið Tio Pepe var ferskt og hafði ekki fengið að gamlast í átekinni flösku. En það kom ekki úr kæliskáp fremur en á öðrum börum landsins. Íslenzkum barþjónum virðist ókunnugt um, að þurrt sérrí er jafnaðarlega drukkið sæmilega kalt og ekki að ástæðulausu.

Ljómandi góð þjónusta

Þegar niður af barnum í veitingasalinn kom, tók við ljómandi góð þjónusta, vingjarnleg og áreynslulaus, fljótvirk og kunnáttusöm. Þetta var sannarlega fyrsta flokks þjónusta, svipuð og í Stjörnusal Hótel Sögu.

Önnur atriði, sem sérstaka athygli vöktu, voru þessi: Vínglös voru ekki fyllt óþægilega mikið né ört. Ekki var boðið upp á ísvatn með matnum eins og á Sögu. En reikningurinn var greinilega skrifaður og sundurliðaður með nafni og verði hvers einstaks réttar.

Í upphafi var drykkjuskapur nálægra gesta til smávægilegra óþæginda, en það lagaðist mjög, þegar á máltíðina leið. Þetta er áhætta, sem við tökum, þegar við sækjum heim íslenzk veitingahús, en óneitanlega er hún meiri í Nausti en víða annars staðar.

Allt væri þetta í góðu lagi, ef ekki væri tilefnið einmitt að fá sér snæðing. Á því sviði bilaði Naustið í prófuninni eins og raunar oftar áður á undanförnum árum. Þar virðist endurskipulagning eignaraðildar ekki enn hafa hreinsað til.

Á rólegu kvöldi er Naustið raunar upplagður staður fyrir elskendur, sem vilja aðeins borða létta brauðsneið, sötra létt vín, haldast í hendur, horfast í augu, njóta góðrar þjónustu og drekka í sig einstætt andrúmsloft staðarins.

En matmenn hafa hingað lítið að sækja. Þeir mega búast við hversdagslegri matreiðslu og meðfylgjandi vonbrigðum. Rétt er þó að taka fram, að hinn kunni Ib Wessman var ekki við stjórnvölinn, þegar prófunin var gerð. En maturinn kostar þó hið sama án hans.

Óhæfilega langur matseðill

Naust býður ekki upp á matseðil dagsins nema í hádeginu og um helgar á kvöldin. En fastaseðillinn er þeim mun lengri og telur heila 57 rétti. Það er ævintýralega há tala og raunar mun hærri en eldhúsið ræður við.

Þetta er undarlegra fyrir þá sök, að Naust er ekki hótelveitingastaður og hefur ekki skyldur slíks staðar við hótelgesti, sem ekki eru að fara út að borða, heldur að fullvissa sig um, að þeir séu staddir á alþjóðlegu hóteli með svissneskum formúlumatseðli.

Blómasalur Loftleiða er meira en nógu vel settur með 30 rétta matseðil. Naust ætti ekki að þurfa svo marga rétti, en ætti þá að ráða mun betur við matreiðslu þeirra. Að þessu leyti er matseðill Nausts gersamlega úreltur.

Við vitum auðvitað, að hinir löngu matseðlar byggjast á óhæfilegri notkun frystiklefa og niðursuðudósa. Enda leggja flest vönduðustu veitingahús heims stolt sitt í að hafa ekki fasta maseðla, heldur matseðla dagsins með ferskum og síbreytilegum hráefnum.

Naust er raunar svo frábærlega innréttaður staður og býr yfir svo góðri þjónustu, að það er synd, að í matreiðslu skuli hann ekki hafa stolt til að byggja upp orðspor í vandaðri meðferð beztu hráefna, – og þá einkum úr sjó, vegna nafnsins Nausts.

Hið furðulega kom svo í ljós í prófuninni, að réttir á matseðlinum voru meira eða minna ekki fáanlegir. Ekki var til neinn turnbauti, þótt hann væri til á Sögu, Holti og Loftleiðum. Þar með féllu út tveir réttir af matseðlinum.

Sama gilti um humarinn, sem fékkst þó bæði í skelinni og utan hennar í fyrrnefndum þremur veitingasölum og raunar líka í mörgum verzlunum. Þar með féllu út fjórir humarréttir af matseðli Nausts, ein humarsúpa og sennilega líka blönduðu sjávarréttirnir.

Loks var ekki til neinn nýr fiskur, þótt þetta sé stundum kallað sjávarréttahús og ætti að vera það. Þetta var að vísu á þriðja í nýári og aðeins einn vinnudagur að baki. En Holt hafði þó nýja smálúðu á erfiðari degi, á þriðja í jólum, gífurlega ljúffengan rétt.

Síld
Þrjár tegundir af síld með brauði og smjöri voru góð byrjun. Þetta voru síld í olíu, í tómat og í karríi. Allar voru þær góðar og bezt sú fyrstnefnda. Bragðið var milt og beizkjulaust. Þetta var síld í sama klassa og á Sögu.
Verðið er 2.935 krónur sem forréttur.

Lauksúpa
Bökuð, frönsk lauksúpa er þekkt fyrirbæri á íslenzkum matseðlum. Hér var hún með betra móti. Ostahúðin var hæfilega þunn og lauksoðið undir henni hafði margbrotið og viðkunnanlegt bragð.
Verðið er 1.675 krónur.

Heilagfiski
Glóðarsteikt heilagfiski a la Naust með ristuðum rækjum, sítrónu og kryddsmjöri valdi ég auðvitað á eigin ábyrgð, upplýstur um skortinn á ferskum fiski.
Eins og við mátti búast úr frystiklefa var lúðan fremur þurr og lítið spennandi, en samt mun skárri en sumt, sem átti eftir að fylgja í kjölfarið. Meðlætið með fiskinum var líka rúmlega sómasamlega matreitt. Einkum voru gúrkur mildilega sýrðar og bragðgóðar.
Verðið er 2.880 krónur sem forréttur og 5.760 krónur sem aðalréttur.

Graflax
Graflax með sinnepssósu og ristuðu brauði var misheppnaður. Hann virtist vera of lítið leginn, var dumbrauður að lit, hrár á bragðið og dálítið seigur. Sinnepssósan var hins vegar ágæt.
Verðið er 4.695 krónur sem forréttur.

Hrásalat
Hrásalatið, sem boðaði komu aðalréttanna, var gott, eitt hið bezta í þessari prófun Vikunnar, til dæmis mun betra en í Holti. Sósan var nokkuð ákveðin og gaf salatinu hæfilega spennu í bragði.

Svínahryggur
Svínahryggsneið bohemienne með tómat og steiktum laukhringjum var sæmilegasti matur. Kjötið var meyrt, en að öðru leyti ekki í frásögur færandi. Það var borið fram í hluta sósunnar og óþörf var sósuskálin fulla, sem fylgdi.
Verðið er 7.280 krónur.

Kjúklingur
Glóðaður kjúklingur hússins með steinseljusmjöri, en hvorki með ristuðum spergli né smjörsteiktum kartöflum, eins og stendur á matseðlinum, heldur með ýmsu hvimleiðu gumsi og ofnbökuðum kartöflum, var fremur ómerkilegur matur.
Kjötið var ekki nógu meyrt og ekki nógu laust frá beinunum. Vaneldun er ákaflega sjaldgæf synd í veitingaeldhúsum landsins! Bragð kjúklinganna var hæfilega eindregið, sennilega sumpart vegna hins skamma eldunartíma.
Óhugnanlegasti hluti gumsins, sem fylgdi kjúklingnum, voru grænar dósabaunir, bragðlausar og gráleitar í hefðbundnum, íslenzkum stíl. Þetta er orðin sjaldgæf sjón á vínveitingahúsum, sem hneigjast fremur að frystum baunum. Þær eru bæði fegurri og miklum mun bragðmeiri og -betri.
Verðið er 7.475 krónur.

Lambageiri
Lambageiri með kryddsmjöri, grænmeti og frönskum kartöflum var illa matreiddur, í meira lagi ofsteiktur, ekki beinlínis vondur, en ekki til að sækjast eftir á veitingahúsi.
Verðið er 6.455 krónur.

Nautalundir
Nautahryggvöðvasteik eða entrecote með kryddsmjöri og frönskum kartöflum var einstaklega dapurleg. Beðið var um hana “rare”, en hún kom samt “medium”. Hún var grá rúmlega hálfa leið í gegn og dauflega bleik aðeins innst inni. Eins og við mátti búast var kjötið fremur seigt og ólystugt.
Verðið er 10.465 krónur.

Meðlæti
Meðlæti með öllum aðalréttunum var nokkurn veginn hið sama, þrátt fyrir misjafnar lýsingar á matseðlinum. Það var rósakál, gulrætur, grillaðir tómatar, bakaðar kartöflur og franskar kartöflur.
Rósakálið og gulræturnar voru ekki eins mikið og illa soðið og sums staðar er vani hér á landi, en ekki gott samt. Grilluðu tómatarnir og bökuðu kartöflurnar voru í lagi.Frönsku kartöflurnar voru með þessu venjulega aldraða steikarolíubragði.
Verst var, að þetta meðlæti myndaði gífurlegan hrauk á diskinum, sem gæti glatt Belsenfanga, en deyfir matarlyst nútíma Íslendinga. Það er á svona meiningarlausu jukki, sem þjóðin hefur hlaupið í spik.

Djúpsteiktur camembert
Djúpsteiktur camembert ostur með tekexi og sultu var fremur vondur og með hörðum kjarna innan í, óendanlega síðri matur en hliðstæður réttur á Holti. Ég hef líka grun um, að hann hafi kynnzt feitinni úr potti frönsku kartaflnanna.
Verðið er 1.695 krónur sem eftirréttur.

Ostur
Tvær ostategundir með kexi og smjöri voru hins vegar ágætar. Þær voru raunar þrjár, því að þar mátti finna Port Salut, gráðaost og Gouda. Ostabakkinn var ennfremur snyrtilega byggður upp.
Verðið er 1.785 krónur sem eftirréttur.

Ísar
Prófaður var blandaður rjómaís með ískexi á 1.430 krónur og súkkulaðiís með Créme de menthe líkjör á 1.575 krónur og reyndust báðir fremur hversdagslegir.

Kaffi
Ekki má gleyma kaffinu, sem var afar vont. Í fyrstu atrennu var það svo þunnt, að vel sást í botn. Í annarri atrennu var það lítið eitt skárra, en samt lapþunnt. Hvílíkur munur var alvörukaffið í Holti!

Vín
Vínlistinn í Nausti er mjög slæmur, verri en í hinum húsunum þremur, sem hér hefur verið getið, og voru þeir þó ekki góðir. Einu sæmilegu rauðvínin, sem fengust voru Chianti Classico, Saint-Emilion, Geisweiler Reserve og Mercury, en öll beztu rauðvínin vantaði.

Heldur betra var ástandið í hvítvínunum. Úr hópi beztu hvítvína fengust Wormser Liebfrauenstift Kirchenstück, Chablis og Edelfräulein. Og meðal sæmilegra hvítvína fengust Rüdesheimer Burgweg, Sauternes og Tokai. Tvö hin síðastnefndu eru þó dessertvín, en ekki matarvín.

Með skeldýrum Nausts mæli ég með Chablis á 4.675 krónur, með fiskréttunum mæli ég með Gewürztraminer á 4.010 krónur, með kjötréttunum mæli ég með Chianti Classico á 3.340 krónur og með raunar hverju sem er mæli ég með Edelfräulein á 4.340 krónur.

Heldur ódýrara

Naust er lítillega ódýrara veitingahús en Holt, Loftleiðir og Saga. Að vísu er ekki hægt að fá þar matseðil dagsins á kvöldin, nema um helgar. En þríréttaður matur af fastaseðli með kaffi og hálfri flösku af Chianti á mann ætti að kosta um 14.500 krónur að meðaltali í Nausti, á móti 15.000 krónum í Holti, 15.700 krónum á Loftleiðum og 16.300 krónum á Sögu.

Meðalverð 15 forrétta og súpa í Nausti er 2.500 krónur, 33 aðalrétta úr fiski eða kjöti 8.000 krónur og 8 eftirrétta 1.700 krónur. Allar tölurnar eru samkvæmt verðlagi í janúar 1980.

Verkefnin eru næg

Af þessu öllu má ráða, að prófunin leiddi ekki í ljós neinn sérstakan tilgang með borðhaldi í Nausti. Maturinn var yfirleitt ákaflega hversdagslegur og náði hvergi þeirri reisn, sem einkenndi suma og jafnvel marga rétti á hinum stöðunum.

Hins vegar er Naust sem fyrr ákaflega rómantískur staður, sem býður upp á góða þjónustu. Hann er tilvalinn fyrir þá, sem vilja notalegt umhverfi og góða þjónustu og hafa takmarkaðan áhuga á matargerðarlist.

Ef hinsvegar eldhúsið væri rækilega tekið í gegn og komið þar upp aga, nákvæmni, hráefnistilfinningu, svo ekki sé talað um nýjar hugmyndir í matargerð, ætti Naustið ekki að vera í vandræðum með að skara fram úr.

Það væri raunar upplagt að nota endurskipulagningu eignaraðildar til að koma Nausti enn á ný í forustu íslenzkrar matargerðarlistar. En þar er mikið verk að vinna.

Matreiðslan í Nausti fær fjóra í einkunn, þjónustan níu, vínlistinn fjóra og innréttingar níu. Heildareinkunn veitingastofunnar eru sex af tíu mögulegum. Naustið er þrátt fyrir allt eitt af hinum fjóru stóru í Reykjavík.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Þolinmæðin þrautir vinnur…

Greinar

Það getur tekið sinn tíma að framkvæma lýðræði, jafnvel hjá þjóð, sem hefur aðeins fjóra stjórnmálaflokka á þingi. Hugsið ykkur vandamál þeirra lýðræðisþjóða, sem hafa tíu til fimmtán stjórnmálaflokka á þingi. Þar geta stjórnarkreppur orðið mun hastarlegri en hjá okkur.

Við þurfum ekki að örvænta, þótt stjórnarkreppan hafi nú staðið í átta vikur. Ástandið hefur sínar sögulegu og sálrænu skýringar og kallar engan veginn á utanþingsstjórn að viku liðinni eða tveimur. Krafan um utanþingsstjórn er óþolinmóðari en efni standa til.

Leiðir þriggja stjórnmálaflokka af fjórum lágu saman fyrir rúmlega 83 vikum, í þingkosningum ársins 1978. Upp úr þeim var búin til vinstri stjórn með sífelldum garra og stórviðrum. Sumir höfundar þessa samstarfs eru enn að furða sig á, hvað hafi farið úrskeiðis.

Mestur hluti átta vikna kreppunnar hefur farið í lífgunartilraunir vinstri stjórnar. Stjórnmálamenn þurftu að fá þetta tækifæri til að gera upp reikninga vinstri kantsins og sannfæra sjálfa sig um, að vinstri stjórn sé úr sögunni í bili. Og sumir eru raunar ekki sannfærðir enn.

Enn hefur sáralítill tími verið notaður til athugana á myndun hægri stjórnar þriggja flokka. Geir Hallgrímsson velti fremur vöngum yfir þjóðstjórn. Það er raunar Benedikt Gröndal einn, sem hefur fitlað við möguleika á stjórn Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Þrátt fyrir stór og stráksleg orð er lítill munur á efnahagstillögum Framsóknarflokks og Alþýðuflokks. Og Sjálfstæðisflokkurinn hefur fallizt á viðræður um stjórnarmyndun á málefnagrundvelli Alþýðuflokksins. Kreppan er því engan veginn alger eða óleysanleg.

Á síðustu árum hefur Lúðvík Jósepsson einu sinni myndað stjórn fyrir Ólaf Jóhannesson og Ólafur Jóhannesson einu sinni fyrir Geir Hallgrímsson. Þá litu menn svo á, að verkstjóri viðræðna um stjórnarmyndun þyrfti ekki endilega að vera sjálfur forsætisráðherraefni.

Benedikt Gröndal hefur ekki snið forsætisráðherra, allra sízt þegar framundan eru langar og strangar viðræður við Norðmenn um Jan Mayen. Í þær viðræður þurfum við harðlínumann sem forsætisráðherra. Og það hlutverk getur Benedikt Gröndal aldrei leikið.

Ef til vill hefði Benedikt átt að leggja meiri áherzlu á, að hann væri sjálfur ekki endilega forsætisráðherraefnið. Og ef til vill hafði hann bara ekki tíma til þess vegna bráðlætis Steingríms Hermannssonar í að hafna verkstjórn Benedikts.

Steingrímur er líklegasta forsætisráðherraefni hægri stjórnar. Hann hefur hins vegar stefnt svo eindregið í aðra átt, að hann þarf meiri tíma og magnaðri stjórnarkreppu til að geta varið kúvendingu til hægri. Hann verður að geta sagt, að hann hafi ekki átt annars kost.

Fari svo, að frekari viðræður um myndun hægri stjórnar fari út um þúfur, er enn hugsanlegt, að minnihlutastjórn geti starfað með vinsamlegu hlutleysi eins eða fleiri annarra flokka. Stjórnarmynztrin hafa engan veginn verið könnuð til hlítar á átta vikum.

Altjend er það skylda alþingis, með aðeins fjóra flokka um borð, að mynda þingræðislega stjórn, jafnvel þótt einstaka þingmenn hafi látið sér detta annað í hug. Þjóðin verður ekkert frekar á hverfanda hveli eftir tvær eða fjórar vikur en hún er nú. Þetta tekur allt sinn tíma.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Leiðin frá Moskvu er fær.

Greinar

Tvö ljón eru í vegi vestrænna ráðamanna, sem stefna að því að fá íþróttamenn ríkja sinna til að láta ólympíuleikana í Moskvu eiga sig. Í fyrsta lagi vilja íþróttamenn ekki neita sér um þáttökuna. Í öðru lagi skortir stað, sem gæti fyrirvaralaust komið í stað Moskvu.

Mikill fjöldi vestrænna íþróttamanna hefur lagt hart að sér við æfingar undanfarna mánuði og misseri. Þessi þjálfun byggist á drauminum um árangur á ólympíuleikunum. Íþróttafólkið mun verða fyrir miklum vonbrigðum, ef því verður beint eða óbeint meinuð ferðin til Moskvu.

Vesturlönd geta ekki boðið íþróttafólki sínu upp á neina eina borg sem gæti komið í stað Moskvu. Í borgum eins og Montreal og München hefur gistiaðstöðu fyrri ólympíuleika fyrir löngu verið breytt í íbúðir heimamanna. Og tíminn er of skammur til að byggja upp nýja aðstöðu.

Eina færa leiðin til að hunza hina pólitísku harðstjóra í Moskvu er að halda ólympíuleika þessa árs á mörgum stöðum í senn. Í því fælist um leið viðurkenning á, að tækni nútímans hefur gert úrelt hið hefðbundna form, að ein borg sé gestgjafi allra ólympiuleikanna.

Það eru milli 100 og 200 þúsund manns, sem horfa beint á ólympíuleikana hverju sinni. Þetta er bara dropi í haf þeirra 500 milljón manna, sem horfa á ólympíuleikana í sjónvarpi. Staðreyndin er sú að leikarnir hafa þegar að verulegu leyti færzt inn í sjónvarpið.

Brezka tímaritið Economist hefur lagt til, að sjónvarpsstöðvar Vesturlanda sameinist um beina og samtengda útsendingu frá uppreisnar-ólympíuleikum þeirra þjóða, sem geta ekki sætt sig við framkomu keisaranna í Moskvu heima fyrir og erlendis.

Velja mætti hverjum þætti þessara ólympíuleika eða heimsleika stað með hliðsjón af áhugamálum heimamanna. Kapphlaupin gætu farið fram í Bandaríkjunum, sundið í Ástralíu, fimleikarnir í Japan, pólóið í Pakistan og boxið í Zaire, svo að nokkur dæmi séu nefnd.

Skipulag ólympíuleikanna verður gífurlega mikið léttara, ef þeim er dreift á marga staði og sjónvarpið látið sjá um að tengja þá. Fjölmargar borgir geta fyrirvaralítið hýst einn þátt ólympíuleikanna, þótt þær geti ekki hýst alla leikana. Þetta er raunar eina færa leiðin.

Ef að minnsta kosti 20 vestræn ríki taka saman höndum um að halda eigin heimsleika undir nafni Ólympíu, mun athygli vestrænna sjónvarpsnotenda beinast mun meira að þeim en leikunum í Moskvu. Uppreisnarleikarnir mundu skyggja á Moskvuleikana.

Ef 20 vestræn ríki gera þetta, mun andstaða ólympíunefnda þeirra hrynja. Alþjóða ólympíunefndin mun klofna í vestrænan og austrænan hluta. En þannig fer líka fyrir mönnum, sem ekki hafa vit á að læra lexíuna frá ólympíuleikum Hitlers í Berlín árið 1936.

Þessi uppreisn er nauðsynleg. Hún er eina leiðin til að sýna sovézkum almenningi hina takmarkalausu fyrirlitningu, sem við höfum á Brezhnev og glæpaflokki hans. Hún er eina leiðin til að sýna heimsvaldasinnum og fangabúðastjórum austurs, að þeir hafa gengið of langt.

Síðan er hægt að athuga fram til ársins 1984, hvort ólympíuleikarnir haldi áfram í þessu nýja formi sjónvarpsleika á mörgum stöðum eða hvort byggja eigi upp varanlega aðstöðu í Olympíu á Grikklandi. Altjend hafa Moskvumenn endanlega kálað núverandi gerð leikanna.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Sovét-svartnættið.

Greinar

Svartnættið færist ört yfir Sovétríkin. Þar eru harðlínumenn og nýstalínistar smám saman að taka völdin. Knésetning Afganistans og frysting Sakharofs eru dæmi um magnaðri heimsvaldastefnu og harðstjórn.

Sovétstjórnin tekur ekki hið minnsta mark á samningi austurs og vesturs, sem kenndur er við Helsinki. Þriðjungur þess samnings fjallaði um mannréttindi, skoðanafrelsi og upplýsingafrelsi. Og allt er þetta fótum troðið.

Ofsóknirnar gegn Sakharof eru ekkert einangrað dæmi. Á síðasta ári lét ógnarstjórnin fangelsa meira en hundrað andófsmenn. Hún vinnur ötullega að því að kaffæra mannréttindahreyfinguna í svartnætti Sovétríkjanna.

Aðgerðirnar gegn Sakharof vekja meiri athygli en aðrar, af því að hann er einn stórmenna nútímans. Hann er einn þekktasti kjarnorkuvísindamaður heims og friðarverðlaunamaður Nóbels fyrir störf að mannréttindum.

Íslendingum er vel kunnugt um annað dæmi um glæpi harðstjórnarinnar gegn manréttindum. Það eru ofsóknirnar gegn skákmeistaranum Kortsjnoj og fjölskyldu hans í Sovétríkjunum. Þar hefur villimennskan komið vel í ljós.

Ef sonur Kortsjnojs færi í herinn, mundi honum vera meinuð brottför vestur fyrir járntjald á þeim forsendum, að hann vissi um hernaðarleyndarmál. Þess vegna vill hann ekki fara í herinn og fær dóm fyrir liðhlaup.

Þetta minnir á hina alkunnu aðferð, þegar ógnarstjórnin rekur andófsmenn úr vinnu og dæmir þá síðan fyrir að vera sníkjudýr. Hún rekur þá úr húsnæði og dæmir þá síðan fyrir flæking. Hún er gersamlega siðlaus.

Víðar er glæpalýður við völd en í Sovétríkjunum. En heimsins voldugustu glæpamenn eru þó Brezhnev og Andropov og flokksfélagar þeirra. Ráðamenn Sovétríkjanna einir eru verulega hættulegir heimsfriðnum.

Öll samningsgerð þeirra við Vesturlönd er markleysa ein, hvort sem hún fjallar um hermál, mannréttindi eða önnur mál. Undirskriftir harðstjóranna í Moskvu eru nákvæmlega einskis virði, bæði fyrr og nú.

Brezhnev skrifar undir Helsinki-sáttmála, ef hann telur það geta svæft Vesturlönd. Hann skrifar undir sovézka stjórnarskrá til að flagga framan í útlendinga, en tekur ekki mark á einu orði í henni.

Vesturlönd geta ekki keypt andófsmönnum og gyðingum frelsi með viðskiptum og tækniaðstoð. Þau geta ekki keypt sér svefnfrið með samningum um gagnkvæman samdrátt herafla. Harðstjórarnir hlæja að eigin undirskriftum.

Þeir treysta sér meira að segja til að halda ólympíuleika í fangelsi sínu. Þeir eru að flytja úr Moskvu hverja einustu sál með sjálfstæða hugsun. Eftir sitja þeir einir, sem hafa ekki hugmynd um frelsisbaráttu mannsandans.

Hér vestra vísum við til Voltaires og segjumst fyrirlíta skoðanir hver annars, en vera reiðubúnir að deyja fyrir rétt hver annars til að hafa þessar skoðanir. Eystra láta ráðamenn sér nægja að fyrirlíta skoðanir.

Milli hugsjóna austurs og vesturs er gjá, sem seint verður brúuð. Og hún verður ekki brúuð af íþróttamönnum. Enda munum við horfa í undrun á þá íþróttamenn, sem fara til Moskvu til að gefa villimönnum blóm í hnappagatið.

Við skulum aldrei víkja frá því, að allir menn hafi rétt til að fá og flytja upplýsingar og skoðanir og vera öðruvísi en aðrir.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Stefnt að Stefaníu.

Greinar

Svavar Gestsson, hinn nýi leiðtogi Alþýðubandalagsins, hefur opinberlega bent hinum flokkunum þremur á að mynda hægri stjórn. Alþýðubandalagið ætlar á næstunni að hossa sér í stjórnarandstöðu meðan hinir skerða lífskjörin.

Í síðustu viku lagði Alþýðubandalagið fram efnahagstillögur, sem fyrirfram var vitað, að væru Framsóknarflokknum og Alþýðuflokknum mjög á móti skapi. Enda höfnuðu þeir tillögunum í öllum atriðum, sem máli skiptu.

Svavar Gestsson reyndi ekki að ná málamiðlun. Hann hætti strax tilraunum sínum til stjórnarmyndunar og sagði Alþýðubandalagið ekki vilja taka þátt í ríkisstjórn upp á ráðherrastólana eina. Hann skarst hreinlega úr leik.

Með þessu hefur Alþýðubandalagið búið sér til sérstöðu, sem gefur því tækifæri til að magna vinnudeilur á næstu mánuðum og undirbúa jarðveginn fyrir sigur í næstu kosningum. Vinstri stjórn hentar bandalaginu ekki.

Tillögur Alþýðubandalagsins voru sumpart óskhyggja út í loftið, svo sem hugmyndin um 7% aukningu framleiðni á þessu ári. Það gæti alveg eins lagt til, að jörðin verði færð til á braut sinni um sól.

Að öðru leyti fólu tillögurnar í sér rothögg á kaupfélögin, flótta sparifjár úr bönkum, auknar niðurgreiðslur og félagsmálapakka án fjáröflunar á móti. Þær áttu greinilega ekki að freista samstarfsflokkanna.

Athyglisvert er, að Alþýðubandalaginu tókst að sprengja vinstri viðræðurnar á verðbólgunni einni saman. Ekkert var byrjað að tala um hið hefðbundna ágreiningsefni, herliðið í Keflavík og þátttökuna í Atlantshafsbandalaginu.

Einnig er athyglisvert, hvernig Alþýðubandalaginu hefur tekizt að kippa fótunum undan Steingrími Hermannssyni, sem virðist hafa gengið með vinstri stjórn á heilanum allt frá föðurgarði. Sú stjórn er úr sögunni eftir 578 daga styrjöld.

Allt frá kosningunum 25. júní 1978 hefur verið reynt að gera út vinstri stjórn. Formlega séð var slík stjórn mynduð. En innihaldið var ekkert nema endalaust upphlaup og rifrildi, launsátur og bræðravíg.

Samt hefur hinn nýi formaður Framsóknarflokksins varla opnað svo munninn í vetur, að hann hafi ekki óskað eftir vinstri stjórn. Hvað gerir hann nú, þegar Alþýðubandalagið er búið að vísa honum veginn til hægri stjórnar?

Fólk kvartar um, að stjórnarkreppan hafi staðið of lengi eftir síðustu kosningar, 52 daga. En í rauninni hefur hún staðið miklu lengur. Það hefur tekið 578 daga að komast að því einu, að vinstri stjórn gengur ekki.

Nú má búast við, að Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn fari að athuga í alvöru, hvort þeir eigi ekki að fara að ráðum Svavars og mynda hægri stjórn. Ágreiningur í verðbólgumálum ætti ekki að þvælast fyrir.

Allir þessir flokkar hafa sett fram keimlíkar tillögur um minnkun verðbólgu í áföngum, meðal annars með skerðingu lífskjara. Alþýðubandalagið vildi hins vegar fullar verðbætur upp í hæstu skala, að vísu án hækkunar grunnkaups.

Vonandi verða flokkarnir þrír ekki nýja 578 daga að komast að því, hvort hægt er að gera út hægri stjórn af Stefaníugerð. Hvorki er reisn né kjarkur í tillögum þeirra, en þær eru þó betri en ekki neitt.

Og ný Stefanía er óneitanlega margfalt betri en utanþingsstjórn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Holt

Veitingar

Líklega er hér á landi hvergi betri mat að fá en í veitingasal Hótel Holts, þegar Skúli Hansen er í eldhúsinu og leggur sig fram. Þá fer saman hugkvæmni og vandvirkni, sem stundum vill annars bila, líkt og þjónustan á staðnum.

Nýlega gerði ég úttekt á veitingasal Holts á svipaðan hátt og ég hafði áður gert á Stjörnusal Sögu og Blómasal Loftleiða. Eldamennskan á Holti reyndist vera með miklum glæsibrag.

Auðvitað er ekki fyllilega sanngjarnt að bera saman þessa þrjá staði á kvöldum, þegar Sigurvin er ekki á vakt á Sögu og Þórarinn ekki á Loftleiðum, en Skúli í miklum ham á Holti. En tilviljun ein fékk að ráða þessum mismun.

Þá velunnara mína, sem hafa áhyggjur af ofáti, vil ég hugga með því að upplýsa, að ég hef ráðgjafa í athugunum mínum á vettvangi og geri sjálfur ekki annað en borða fjórðung af hverjum rétti.

Brokkgeng þjónusta

Orðsporið af Holti hefur ekki verið vinsamlegt undanfarna mánuði. Gengið hafa gamansögur, sem einkum hafa beinzt að þjónustunni á staðnum. Hún hefur um nokkurt skeið þótt fremur áhugalaus, aðallega vegna stjórnleysis og agaskorts.

Slík vandamál komu lítt fram, þegar úttektin var gerð. Þjónninn kunni vel til verka og hafði snör handtök. Meira máli skipti þó, að hann var bæði vinsamlegur og hjálplegur. Kom það sér vel, þegar matseðill borðsins var mótaður.

Þar með er ekki sagt, að þjónustan hafi verið eins góð og á Sögu. Sá, sem reyndi að búa til Daiquiri á barnum hefur verið eitthvað annars hugar og vatn kom ekki á borðið fyrr en í miðri máltíð. Og pantaður vindill birtist aldrei. Svo er það gamla sagan með fleytifullu vínglösin, sem ekki er unnt að ná úr fullnægjandi ilmi. Á Holti var þar að auki stöðugt verið að fleytifylla þau, alveg eins og óskað væri eftir því, að gestir færu á skallann.

Eitt hafði Holt í þessum efnum fram yfir suma aðra staði. Reikningurinn fyrir veitingarnar var greinilega skrifaður og sundurliðaður með nafni og verði hvers einstaks réttar. Reikningurinn á Loftleiðum minnti hins vegar á óskiljanlegar stærðfræðiformúlur.

Básarnir spilla

Andrúmslofti og innréttingum hefur farið aftur á Holti, síðan settir voru upp eins konar Angus-Steak-House-básar í miðjum sal, svo háir, að ekki sést um salinn. Hann virðist því bæði þröngur og ofhlaðinn.

Enn sem fyrr er þó veitingastofan þægileg og notaleg vistarvera, að barnum frátöldum. Og dauf tónlistin að tjaldabaki stuðlar að þeirri tilfinningu gesta, að þeir sitji að virðulegri veizlu, þar sem vænta megi góðrar matargerðarlistar.

Djarfasti matseðillinn

Matseðillinn á Holti er hinn skemmtilegasti á landinu. Hann er djarfari og hugmyndaríkari en aðrir slíkir og raunar lengri líka. Á fastaseðlinum voru 57 réttir og sex að auki á seðli dagsins.

Ég held það hljóti að vera ofurmannlegt að halda úti slíkri fjölbreytni dag eftir dag. Matargerðarlistin hlýtur oft að bila við slíkar aðstæður. Enda eru hinir löngu matseðlar orðnir úreltir. Sums staðar hafa fastaseðlarnir alveg horfið, einkum á beztu veitingahúsum heims.

Lystaukar

Þurra sérríið á barnum hafði ekki fengið að gamlast í átekinni flösku. Þar á ofan var það kælt. Hef ég hvorki fyrr né síðar orðið vitni að slíkri siðmenningu á íslenzku veitingahúsi. En kannski var þetta bara tilviljun.

Hanastélið Daiquiri var á bragðið eins og hreinn og magnaður sítrónusafi. Rommbragðið fannst hvergi í gegn. Áreiðanlega hefur þetta verið heilsusamlegur drykkur, en ekki rétt gerður eftir formúlunni.

Graflax
Svo margt var spennandi á seðlinum, að ég varð að sleppa graflaxinum. Veit ég þó af annarri reynslu, að hann er jafnbeztur á Holti. Vinningurinn umfram Sögu felst þó líklega helzt í öllu betri sinnepssósu.
Verðið er 3.825 krónur sem forréttur og 4.695 krónur sem aðalréttur.

Sniglar
Sniglar úr hvítlaukssmjöri voru náttúrlega úr dós. Sem slíkir voru þeir tæplega sæmilegir, líklega fulllengi bakaðir og gífurlega kryddaðir. Bráðna kryddsmjörið, sem fylgdi með, var alveg óþarft.
Verð sex snigla í forrétt er 3.275 krónur.

Hörpuskelfiskur
Hörpuskelfiskur í hvítvíni með spergli, sveppum og sýrðum rjóma, svo og dálitlu sítrónubragði, var konunglegur réttur. Skelfiskurinn var stór og lungamjúkur. Og rjómasósan, sem hann var framreiddur í, átti vel við.
Verðið er 3.675 krónur sem forréttur.

Rækjur
Djúpsteiktar rækjur í orly-deigi með beikoni og piparrótarsósu voru sniðugar og glæsilegar, en ekki nógu góðar – fyrir minn smekk. Að mínu viti spillir beikon mildu sjávarréttabragði. Þegar ég bið um rækjur, vil ég rækjubragð, en ekki beikonbragð. Þar er vandratað meðalhófið.
Sósan með rækjunum virtist vera rjómuð olíusósa, fislétt og fín. Hrísgrjónin, sem fylgdu, voru soðin hæfilega skamman tíma, sem og önnur hrísgrjón, sem boðið var upp á þetta kvöld.
Verðið er 3.100 krónur sem forréttur.

Humar
Glóðarsteiktir humarhalar í skelinni voru stórir og góðir, lausir við óþarfa sull og krydd og ekki ofsteiktir. Þannig finnst mér þeir eiga að vera. Bragð humars er svo viðkvæmt, að ekki má spilla því með misþyrmingu í matreiðslu.
Sennilega er mér óhætt að segja, að humarinn á Holti hafi verið örlítið, en bara örlítið betri en á Sögu og Loftleiðum.
Verðið er 8.250 krónur sem forréttur og 14.285 sem aðalréttur.

Fyrri smokkfiskur
Smokkfiskur, steiktur í olíu, með sveppum, spönskum pipar og hrísgrjónum, er ein af ágætum nýjungum Holts. Þetta er skemmtilegur réttur, sem ýmsir kannast við frá útlöndum, matreiddur á hefðbundinn hátt. Smokkfiskbragðið hvarf fullmikið á bak við paprikuna.
Verðið er 3.895 krónur sem forréttur.

Síðari smokkfiskur
Fylltur, heilsteiktur smokkfiskur er ekki á fastaseðlinum, en var á matseðli dagsins. Þessi útgáfa reyndist enn betri en hin og var hreinlega frábær.
Hið eiginlega og ágæta bragð smokkfisksins kom mjög vel fram, jafnvel þótt fyllingin væri ótæpilega krydduð með karríi. Þetta var dæmi um, hvernig nota má mikið krydd, án þess að yfirgnæfa grunnbragðið.
Verðið er 3.775 krónur sem forréttur.

Hliðarréttir
Hrásalat er borið fram á undan aðalréttum Holts, en ekki með þeim. Ég kann vel við þennan sið, sem víða tíðkast í Frakklandi og Bandaríkjunum. Hins vegar þótti mér minna til salatsins koma en þess, sem ég hafði fengið á Sögu og Loftleiðum.
Á borðum var óvenjulega skemmtilegt brauð úr heilhveiti og með grófum saltkornum að ofan. Það fékkst bæði nýtt og ristað, hvort tveggja með smjöri, og var sérlega bragðgott.

Smálúða
Gufusoðin smálúðuflök í hvítvínssósu, með rækjum, spergli og sveppum voru mjög góð, mjúk og fersk á bragðið, sennilega ekki úr frysti, þótt dagurinn væri þriðji í jólum.
Ef lúðan hefur verið úr frysti, hefur matreiðsla hennar verið yfirnáttúruleg. Og hafi hún verið ný, hefur eldhúsið ótrúlega góð sambönd. Ég hallast að hinu síðara.
Flökin voru vafin utan um dósaspergil. Ég skil ekki þá áráttu að spilla góðu hráefni með bragðlausu og ræfilslegu meðlæti úr dósum. Ég skil raunar ekki, hvaða erindi dósahnífar eiga í eldhús veitingastofa af þessu tagi. Ég get haft dósahníf heima hjá mér, ef mig langar í dósamat.
Verðið er 4.525 krónur sem aðalréttur.

Grísalundir
Heilsteiktar grísalundir, gratineraðar í sósunni, voru ágætis matur. Þær voru snyrtilega á borð bornar, en að öðru leyti ekki sérstaklega í frásögur færandi, svo sem raunin er oftast um svínakjöt.
Verðið er 9.050 krónur sem aðalréttur.

Turnbauti
Nautalundir með béarnaise sósu voru sérstaklega meyrar og rauðar. Þetta var gott hráefni og vel matreitt, líkt og á Sögu og Loftleiðum. Brokkálið, sem fylgdi, var hins vegar ofsoðið og sósan var lítt spennandi.
Spurningin er, hvaða íslenzkur matreiðslumaður verður fyrstur til að láta sér detta í hug turnbauta með annarri ídýfu en béarnaise sósu, sem tröllríður velflestum veitingahúsum landsins.
Verðið er 11.925 krónur sem aðalréttur.

Lambainnlæri
Kryddlegið lambainnlæri með piparsósu var hápunktur matarprófunarinnar. Þar fékk ég bezta lambakjöt ævinnar, ekki bara bleikt að innan, heldur rautt, eins og rétt matreitt nautakjöt.
Þar með hélt kjötið safa sínum og bragði á einstæðan hátt. Bragðið hélt alveg sínu í samkeppni við skemmtilegan glóðarkolakeiminn frá grillinu. Með kjötinu var létt og þunn sósa. Þetta var ótvírætt meistaraflokks-matur með tíu í einkunn.
Þér grásteikingarmenn, þrælsteikingarmenn og aðrir ofsteikingarmenn: Farið í Holt og komist að raun um, hvernig matreiða á lambakjöt!
Verðið er6.575 krónur sem aðalréttur.

Dósasveppir
Ekki verður hjá því komizt að kvarta yfir dósasveppum, sem fylgdu í óhóflegum mæli lambakjötinu og flestum kjötréttunum, sem prófaðir voru, alveg eins og hliðstæðum réttum á öðrum veitingahúsum.
Það á ekki að kaffæra rétti í sveppum, allra sízt ofsteiktum. Þá á að nota í hófi og þá auðvitað ferska, innlenda sveppi, sem eru á boðstólum flesta daga. En þjóðin er víst búin að venja sig á að úða í sig dósamat, jafnvel á dýrum veitingahúsum.

Skötuselur
Skötuselur, soðinn í rjóma, er spennandi nýjung á matseðli Holts. Því miður fékkst hann ekki þetta kvöld, svo að ég verð að reyna hann við annað tækifæri.
Verðið er 4.975 krónur sem aðalréttur.

Ís
Prófaður var annars vegar vanilluís með ananas og Royal Mint líkjör og hins vegar blandaður ís með eplum, hnetum, rommi og heitri karamellusósu. Hvort tveggja var glæsilegt í útliti og gott á bragðið.
Verðið er 1.625 krónur fyrrnefndi ísinn og 2.085 krónur sá síðarnefndi.

Ostur
Djúpsteiktur camembert-ostur með rifsberjahlaupi var vel heppnaður og góður. Sennilega er þetta heppilegasta meðferð íslenzks camembert, því að hann mislukkast oft til neyzlu á venjulegan hátt, þroskast ekki alveg inn að miðju.
Verðið er 1.525 krónur.
Loks má ekki gleyma kaffinu, sem er óvenju gott á Holti, minnir á ítalskt kaffi.

Vín
Vínlistinn á Holti er ekki nógu góður, einkum í rauðvínum. Þar vantar Chateau Talbot, Geisweiler Grand Vin og einkum þó hið ódýra Trakia. Merkinu halda uppi Chateau Paveil de Luze, Chianti Classico og Chateauneuf-du-Pape. Það síðasta fékkst þó ekki þetta kvöld.

Í hvítvínum er ástandið betra, því að þar fást Wormser Liebfrauenstift Kirchenstück, Gewürztraminer, Chablis og Edelfräulein.

Meðal annarra frambærilegra vína á lista Holts eru Saint Emilion, Geisweiler Reserve, Mercurey og Hospices de Beune og af hvítvínum Rüdesheimer Burgweg, Sauternes og Tokai.

Með skeldýraréttum Holts mæli ég með Chablis á 4.675 krónur, með fiskréttunum mæli ég með Gewürztraminer á 4.010 krónur og með kjötréttunum mæli ég með Chianti Classico á 3.340 krónur.

Svipað verð

Á Holti er ekki hægt að fá tiltölulega ódýran matseðil dagsins eins og á Loftleiðum og Sögu. Á matseðli dagsins eru tómir sérréttir og á svipuðu verði og fastaréttirnir.

Meðalverð 19 forrétta, súpa og eggjarétta á Holti er 2.800 krónur, 26 aðalrétta úr fiski eða kjöti 8.100 krónur og tólf eftirrétta 1.800 krónur.

Með kaffi og hálfri flösku af Chianti Classico ætti þriggja rétta meðalmáltíð af fastaseðli og dagseðli að kosta um 15.000 krónur á Holti á móti 15.700 krónum á Loftleiðum og 16.300 krónum á Sögu.

Því má segja, að allir þessir staðir séu í sama verðflokki. Allar tölurnar eru samkvæmt verðlagi í janúar 1980.

Aðallega “bravó”

Matreiðslan á Holti var að mörgu leyti frábær. Hæst bar meðferð lambakjötsins, en einnig var frábær hörpuskelfiskurinn, humarinn og fyllti smokkfiskurinn. Mjög góð matreiðsla var líka á venjulega smokkfiskinum, smálúðunni og turnbautanum.

Aðeins í sniglum, soðnu grænmeti og sveppum fóru tímasetningar í matreiðslu úr skorðum. Á öllum öðrum sviðum ríkti nákvæmni. En ég endurtek gagnrýni á ofnotkun dósasveppa, sem ekki eru í stíl hússins.

Meira máli skiptir þó, að Holt þarf að koma betri stjórn á þjónustuna í sal, svo að hún sé í meira samræmi við þau listaverk, sem framin eru í eldhúsinu.

Matreiðslan á Holti fær níu í einkunn, þjónustan sjö og vínlistinn sex. Innréttingar og andrúmsloft fá sjö eins og Stjörnusalur og Blómasalur. Heildareinkunn Holts sem veitingastaðar er átta af tíu mögulegum.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Moskvuleikjum má fórna.

Greinar

Íþróttum og stjórnmálum er oft blandað saman og hvergi meira en einmitt á ólympíuleikunum. Allt frá skrautsýningu Hitlers í Berlín 1936 hafa ólympíuleikarnir verið vettvangur áróðurs valdhafa stórveldanna.

Moskva á í þetta sinn að gegna hlutverki Berlínar. Allur heimurinn á að dást að afrekum svonefndrar sovézkrar æsku. Með því heiti er átt við hóp ríkislaunafólks, sem í hefur verið kýlt lyfjum um nokkurt árabil.

Afreksfólk af þessu tagi er eins langt frá hinni forngrísku ólympíuhugmynd og hugsazt getur. Það býr við algera harðstjórn þjálfara sinna og má ekki sjálft taka hinar minnstu ákvarðanir. Afreksþrælar væri nákvæmara orð.

Á þessu óhugnanlega sviði hafa eigendur Sovétríkjanna einkum att kappi við eigendur Austur-Þýzkalands. Íþróttastjórar Vesturlanda eru ekki heldur saklausir af þessu kapphlaupi, sem hefur leitt til úrkynjunar ólympíuleikanna.

Gamlir hræsnarar á borð við Killanin lávarð horfa á þjálfaða þræla og ímynda sér, að þeir sjái frjálsborna Forn-Grikki. Þeir neita að viðurkenna, að undir þeirra forsjá er verið að búa til vélmenni.

Mörg önnur er pólitíkin á þessu sviði. Um nokkurt árabil hefur verið vinsælt að útiloka þjóðir frá fjölþjóðaleikum, þar á meðal ólympíuleikum. Þriðji heimurinn og arabaríkin hafa gengið harðast fram í slíku.

Þessar aðgerðir hafa einkum beinzt að ríkjum á borð við Ísrael og Suður-Afríku. Þær hafa líka verið notaðar gegn öðrum ríkjum, sem ekki hafa fengizt til að taka þátt í frystingu Ísraels, Suður-Afríku og slíkra ríkja.

Í rauninni er það einkum þessi útilokun annarra, sem menn eiga við, þegar þeir minna á, að íþróttir og stjórnmál fari ekki saman. Slíkar aðfarir eru mun grófari en þær, þegar ríki neita sjálfum sér um þáttökku.

Carter Bandaríkjaforseti er ekki að taka ákvörðun fyrir útlendinga, þegar hann segist ætla að vinna gegn þátttöku Bandaríkjanna í olympíuleikunum í Moskvu. Hann er ekki að útiloka aðra, allra sízt Sovétríkin.

Að vísu hvetur hann vestræna ríkisstjórnir til að feta í fótspor sín. En hver þeirra ræður sinni niðurstöðu. Frakkar ætla að senda fólk til Moskvu, en á ýmsum öðrum stöðum í Vestur-Evrópu er enn verið að hugsa málið.

Gott væri, ef framtak Carters leiddi til þess, að olympíuleikar legðust af í núverandi mynd úrkynjunar. Betra væri, að þeir yrðu síðan endurvaktir með föstu aðsetri við Ólympíu á Pelopsskaga í Grikklandi.

Slík gagnbylting mundi draga úr skrautsýningum og Pótemkintjöldum stórvelda, svo og togstreitu þeirra um gestgjafaréttinn. Hún mundi draga úr möguleikum á uppákomum eins og þeirri, sem hertaka Afganistan hefur leitt af sér.

En hún nægir ekki ein sér. Einnig þarf að koma í veg fyrir, að fólk mæti á ólympiuleikana í fylkingum sem fulltrúar ríkja sinna. Það á að fá að mæta þar sem einstaklingar, jafnvel gegn vilja ráðamanna viðkomandi ríkja.

Og þar á ofan væri þrælahaldið enn óleyst. Áfram munu mæta þar opinberir atvinnumenn, afmyndaðir af lyfjaáti og undir algerri stjórn þjálfara sinna. En því miður hefur enn ekki fundizt nein leið til að losna við þátttöku vélmenna.

Altjend er hugsjón ólympíuleikanna orðin svo gatslitin og hræsnisfull, að Moskvuleikjunum má vel fórna til minningar um Afganistan.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Hæfileikasnauða stéttin

Greinar

Enn eru þeir að tala um vinstri stjórn rúmum sjö vikum eða 50 dögum eftir kosningar. Enginn veit með vissu, hver niðurstaðan verður eða hvenær. Á meðan rambar þjóðfélagið jafn stjórnlaust og það gerði fyrir kosningar.

Stjórnarkreppan hefur raunar staðið lengur. 109 dagar eru síðan samstarf vinstri flokkanna rofnaði formlega með sérstakri samþykkt í þingflokki Alþýðuflokksins. Í 100 daga hefur ekki yerið starfhæfur meirihluti á þingi.

En þetta segir ekki alla söguna. Þjóðfélagið var jafn stjórnlaust fyrir 5. október og það hefur síðan verið. Það hefur raunar verið stjórnlaust í 576 daga, – frá alþingiskosningunum 25. júní 1978.

Sú vinstri óstjórn Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags, sem þá komst til valda, innleiddi 576 daga samfellda óreiðu í stjórn landsins. Einkenni hennar voru sífelld upphlaup, úlfúð og illindi samstarfsflokkanna.

Þessi óstjórn leysti af hólmi hægri óstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem naut svo lítillar virðingar, að hún var jafnvel talin verri en næsta vinstri óstjórn þar á undan. Þannig hafa stjórnmálin verið í heilan áratug.

Stjórnarkreppa síðustu vikna er þáttur í hruni íslenzkra stjórnmála, sem staðið hefur í um það bil áratug. Stjórnmálamennirnir hafa smám saman verið að missa síðustu tök á verkefni sínu og vita nú hvorki í þennan heim né annan.

Munurinn á lélegum efnahagsstefnum flokkanna er þó ekki slíkur, að góðir samningamenn ættu að geta brætt saman meirihluta á skömmum tíma. En forustumenn flokkanna eru bara ekki góðir samningamenn, ekki góðir stjórnmálamenn.

Talningarnæturþáttur sjónvarpsins af kosningafundinum illræmda á Vestfjörðum sýndi íslenzka stjórnmálamenn í hnotskurn. Þar réði ríkjum fullkomin lágkúra. Þeir voru kjaftforir í ræðustól eins og strákar á málfundi.

Hugmyndaskortur íslenzkra stjórnmálamanna endurspeglast í hinum gamalkunnu íhaldsúrræðum, sem þeir hafa um að tefla í tilraunum til stjórnarmyndunar. Öll ganga þessi úrræði beint og óbeint út á að banna verðbólgu með lögum.

Hvergi er í stjórnmálunum að sjá þá reisn, er dugi til að fylkja þjóðinni að baki. Margir ágætir menn eru í hópi 60 þingmanna. En einkennisvera hópsins er samt hugmyndasnauður skrípakarl, sem getur sagt klámsögur í ræðustól.

Ofan á þetta böl óskýrrar hugsunar hleðst svo böl spillingar og samtryggingar, er þessir menn hreiðra um sig og sína í öllum þeim stofnunum, sem lána og gefa peninga, – með kommissara Framkvæmdastofnunar efsta á haugi.

Íslendingar eru ekki hæfileikasnauðari en aðrar þjóðir. Hæfileikarnir hafa beinzt að vísindum og listum, læknis- og verkfræði, veiðimennsku og skáktafli. Og því miður eru þeir farnir að beinast að landflótta.

Vaxtarbroddur hæfileika hefur um langt árabil ekki verið í stjórnmálum. Reisn þeirrar stéttar hefur farið sígandi. Stjórnmálin freista ekki manna, sem þjóðin þarf á að halda sér til forustu, manna með hæfileika, víðsýni og reisn.

Verið getur, að þjóðin eigi þá stjórnmálamenn, sem hún á skilið. Okkur kjósendum til afsökunar má þó benda á, að kosningakerfi raðaðra lista gerir okkur nánast ókleift að velja þá menn, sem við treystum bezt.

Það væri spor í rétta átt úr lægðinni, ef við fengjum stjórnarskrá og kosningalög, sem útilokuðu hina fyrirfram röðuðu lista í kosningum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Svart er höfuðið.

Greinar

Mjög erfitt er að hugsa sér, að menn, sem taka þátt í hvassri umræðu fjölmiðla um menn og málefni, geti um leið gefið greinum sínum bein eða óbein siðferðisvottorð frá siðareglunefnd Blaðamannafélags Íslands.

Gagnrýni er umtalsverður þáttur í þjóðmálaumræðu. Hún hlýtur meira eða minna að beinast að fólki, sem er í sviðsljósinu. Óhjákvæmilegt er, að þessu fólki finnist stundum með réttu eða röngu of nærri sér höggvið.

Markmiðið með stofnun siðareglunefndar Blaðamannafélagsins var m.a. að gefa fólki tækifæri til að koma á framfæri kvörtunum sínum í garð fjölmiðla – og hugsanlega fá nefndina til að veita áminningu, ef efni stæðu til.

Það var aldrei ætlunin, að ritstjórar eða gagnrýnir dálkahöfundar sætu í þessari nefnd, eigandi yfir höfði sér að þurfa að úrskurða í eigin máli. Slíkt þótti óviðeigandi siðleysi í þá daga, hvað sem nú viðgengst.

lndriði G. Þorsteinsson skrifar greinar um þjóðmál, bæði undir eigin nafni og dulnefni, sem hann hefur oft en óformlega viðurkennt sem sitt. Í þessum greinum er, sumpart í skjóli dulnefnis, vegið að mönnum á opinberum vettvangi.

Nú er ekkert við það að athuga, að höfundur skjóti sér undan formlegri ábyrgð og komi henni yfir á viðkomandi ritstjóra. Ekkert er heldur við það að athuga, að menn noti til málamynda dulnefni, sem eiga raunar ekki að dylja neitt.

Ekki er hins vegar hægt að skilja, hvernig lndriði G. Þorsteinsson telur sér siðferðilega fært að sitja í siðareglunefnd. Þar á hann sífellt á hættu að verða að fjalla um eigin sök, bæði vegna nafnlausra greina og undir nafni.

Það leysir engan vanda að bjóðast til að víkja úr sæti í slíkum málum. Í siðareglunefnd eiga alls ekki að sitja neinir menn, sem eru á kafi í dægurþrasi fjölmiðlanna, hvort sem er fyrir opnum tjöldum eða úr felum.

Það hlýtur að vera óþægilegt fyrir hina mennina í siðareglunefnd að úrskurða í máli nefndarfélaga síns, þótt hann sé úti á gangi á meðan. Slíkan skrípaleik þarf að hindra, áður en slysið gerist.

Svo kastar tólfunum, þegar formleg nafnleynd nefndarmanns er þáttur í aðferð til að vísa máli frá af tæknilegum ástæðum, svo sem nú hefur verið gert. Slíkt hlýtur að stríða gegn tilfinningu manna fyrir réttlæti.

Fólk mun telja þetta atvik dæmi um, að siðferði blaðamannastéttarinnar sé ekki í nógu góðu lagi. Það mun telja siðareglunefndina vera lið í samtryggingarkerfi og að þangað sé tilgangslaust að vísa málum.

lndriða G. Þorsteinssyni kann að þykja sniðugt að sleppa fyrir tæknilegt horn í skjóli dulnefnis. Og hann kann að bresta skilning á fáránleika aðstöðu hans í siðareglunefnd blaðamannafélagsins.

En þá ber félaginu að hafa vit fyrir honum og skipa í nefndina eingöngu menn, sem ekki eiga í neinum útistöðum um menn og málefni, til dæmis menn með reynslu í blaðamennsku, en starfandi á öðrum sviðum þjóðlífsins.

Seta lndriða G. Þorsteinssonar, með eða án dulnefnis, í siðareglunefnd er til skammar fyrir íslenzka blaðamenn. Þeir eiga nóg undir högg að sækja, þótt þeir smíði ekki sjálfir vopnin gegn sér.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Nýtt raunsæi.

Greinar

Svavar Gestsson mun fá kaldar kveðjur í stjórnarmyndunarviðræðunum, ef hann ýtir á flot hugmyndum um endurskoðun svokallaðs “varnarsamnings” við Bandaríkin. Viðhorf Íslendinga til umheimsins hafa breytzt á fáum vikum.

Til skamms tíma var andstaða Alþýðubandalagsins við herstöðina í Keflavík og Atlantshafsbandalagið viðurkennd sérvizka minnihlutahóps. Menn voru reiðubúnir að ræða þetta áhugamál 20% þjóðarinnar eins og önnur vandamál.

Að vísu var aldrei nein hætta á, að Alþýðubandalagið næði árangri á þessu sviði. Þingmenn þess hafa líka verið fljótir að viðurkenna minnihlutastöðuna og samþykkja stjórnaraðild án endurskoðunar Keflavíkursamninga.

Fyrir nokkrum vikum hefðu menn hlustað af kurteisi á Svavar Gestsson og síðan beint orðum sínum að verðbólgunni og öðrum nærtækum vandamálum. Þeir hefðu ekki talið Svavar neitt verri fyrir að impra á nauðungarhugsun Alþýðubandalagsins.

Núna yrði slík þjónusta Svavars við hagsmuni Sovétríkjanna talinn dónaskapur. Samningamenn hinna flokkanna mundu hreinlega ganga út í fússi, ef Svavar færi að tala um nauðsyn á endurskoðun svokallaðs “varnarsamnings”.

Aðfarir Rússa í Afganistan hafa nefnilega opnað augu Íslendinga eins og annarra Vesturlandabúa fyrir því, að eftirgjafastefnan gagnvart heimsvaldastefnu nýlenduveldisins var út í hött. Hún beið skipbrot í Afganistan.

Við höfum nú öll áttað okkur á, að Rússland stefnir að heimsyfirráðum og mun ekki síður gera það í náinni framtíð, þótt nýr keisari taki við af Brezhnev. Við vitum, að heimsvaldastefnan er grunnmúruð í Moskvu.

Við horfum á ártölin. Ungverjaland árið 1956, Tékkóslóvakía árið 1968 og Afganistan árið 1979. Með þremur fantabrögðum hafa Sovétríkin eytt hverjum snefli af samúð nytsamra sakleysingja á Vesturlöngum.

Afganistan er þó sýnu verst þessara mála. Í hinum tveimur tilvikunum gátu Moskvumenn vísað til þegjandi samkomulags við misvitra stjórnmálamenn á vesturlöndum um skiptingu Evrópu í áhrifasvæði austurs og vesturs.

Afganistan staðfestir hins vegar þá stefnu Sovétríkjanna, að þau geti komið til skjalanna hvar sem er í heiminum, ef þjóðir rísa upp gegn leppstjórnum þeirra. Afganistan staðfestir raunverulegt innihald Brezhnev-kenningarinnar.

Handan áhrifasviðs keisaranna í Moskvu geta menn ákveðið í kosningum, hvort þeir vilja kapítalisma, kommúnisma eða eitthvað annað. Hafi aftur á móti kommúnismi komizt til valda einhvers staðar, í byltingu eða á annan hátt, verður ekki aftur snúið, að mati Brezhnevs.

Hér á Vesturlöndum viljum við halda áfram að velja þá stjórnmálamenn, sem við eigum skilið. Við viljum, að Svavar Gestsson reyni stjórnarmyndun í dag. Við viljum kannski, að Geir Hallgrímsson reyni stjórnarmyndun eftir næstu kosningar.

Eftir Afganistan vitum við, að þessi lífsstíll á Vesturlöndum er í hættu . Við vitum, að valdasjúklingarnir í Moskvu hafa ekki sett sér nein takmörk. Annað veifið tala þeir um frið, en hitt veifið ráðast þeir á lægsta garðinn.

Nú er úr sögunni öll óskhyggja um, að Brezhnev Rússakeisari meini nokkuð með viðræðum um gagnkvæman samdrátt herafla og friðsamlega sambúð í heiminum. Þetta nýja raunsæi mun verða okkur að leiðarljósi næsta áratuginn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Blómasalur

Veitingar

Blómasalur Hótel Loftleiða er kominn í röð þeirra veitingahúsa, sem taka verður alvarlega. Þar er kominn nýr matseðill með ýmsum óvæntum réttum. Hann er ánægjulegt skref á uppleið salarins á undanförnum misserum.

Nú er hægt að fá mjög góðan mat í Blómasalnum. En þar er líka hægt að fá afleitan mat. Það er eins og jafnvægið skorti í flugtakinu. Góðum vilja er ekki fylgt nógu vel eftir í sjálfsaga og úthaldi.

Blómasalinn skortir festu og áreiðanleika Stjörnusalar Hótel Sögu, bæði í þjónustu og mat. Einstaka réttir eru betri á Loftleiðum en Sögu. En í heild skortir framboðið hin tiltölulega jöfnu gæði á Sögu.

Sumpart á þetta sínar sögulegu skýringar. Blómasalurinn hefur of lengi verið færibandastöð erlendra ferðahópa, tafafarþega og “stopover”-manna. Slíkt hlutverk hlýtur að draga úr sjálfsaga.

Nú eru Flugleiðir komnar með beint flug yfir Atlantshafið. Það rýrir erlenda veltu í Blómasal og kallar á fjölgun innlendra viðskiptavina. Og framför salarins á undanförnum misserum skapar einmitt grundvöll þess.

Notalegur staður

Nýlega gerði ég úttekt á veitingum Blómasalarins og prófaði tólf rétti af fastamatseðlinum og matseðli dagsins. Sömuleiðis reyndi ég að meta þjónustu og andrúmsloft staðarins.

Blómasalurinn er notalegri en Stjörnusalurinn á Hótel Sögu. Flóruveggur, timburveggir og hin opna innrétting gefa salnum hlýlegan blæ, einkum á kvöldin. Mér líður þar eins og mér liggi ekkert á.

Þjónustan í Blómasal er einkar vingjarnleg og kunnáttusamleg. Hún er hins vegar ekki eins kunnáttusöm og í Grillinu, né er yfirstjórn hennar eins nákvæm. Þetta kemur fram í móttöku gesta og svörum við spurningum þeirra um nánari atriði að baki lýsinga á matseðli.

Í Blómasal Hótel Loftleiða fékk ég ekki sjálfkrafa ísvatn á borðið um leið og ég hafði komið mér fyrir. Og ég sá þar hvergi vatn á borðum. Slík ódýr og smá, en mikilvæg atriði segja oft margt um reisn veitingastofu.

Á einu sviði þjónustunnar skaraði Blómasalur fram úr öðrum vínveitingastöðum. Vínglös voru hellt hálf, en ekki fyllt að þremur fjórðu hlutum, svo að gestir höfðu meiri möguleika en ella að ná ilmi úr víni.

Glösin hindruðu hins vegar, að árangur næðist af þessari hugulsemi. Þau eru ekki vínglös, sem þrengjast að ofan og safna ilmi, heldur eins konar vatnsglös á fæti.

Sjónvarp, því miður

Hótelbarinn fyrir framan Blómasal er viðkunnanlega innréttaður. Eini gallinn er sjónvarpið, sem truflar töluvert, þótt það sé haft í tiltölulega afskekktu horni.

Þarna var meðferð hanastéla í góðu lagi. Og þurra sérríið var ekki orðið gamalt og fúlt, svo sem oft vill brenna við á íslenzkum börum. En því miður var það eins og annars staðar hér landi geymt uppi í hillu, en ekki í kæli.

Graflax
Graflaxinn í Blómasal var sæmilegur, en ekkert umfram það. Sinnepssósan með honum var sérstaklega vel heppnuð, mun mildari en gengur og gerist. Sósan má ekki yfirgnæfa milt bragðið af graflaxinum og hún gerði það ekki heldur. Þar á ofan var hún fremur létt í sér.
Graflaxinn var vafinn utan um spergil. út af fyrir sig er það hugmynd. En spergill úr dós eða krukku er bara enginn spergill, allra sízt í köldum rétti. Ég lagði hann til hliðar eftir fyrsta bitann.
Verðið er 4.450 krónur sem forréttur.

Humarhalar
Glóðarsteiktir humarhalar í skelinni með rjómahvítvínssósu komu þægilega á óvart. Þeir voru í fyrsta lagi óvenju stórir, alveg eins og í gamla daga, fyrir öld rányrkju. Eldhúsið virðist hafa óvenju góð sambönd á þessu sviði.
Bragðið sveik heldur ekki. Humarinn var mjúkur og bragðgóður og ekki ofsteiktur. En hann hefði gjarna mátt vera borinn fram heitur, eins og yfirleitt er venja. Hér var hann varla volgur.
Þegar matseðill segir, að rjómahvítvínssósa sé með humarhölum, býst maður við slíkri sósu á borðið. Hún leit hins vegar ekki dagsins ljós og þjóninum var ekki kunnugt um tilvist hennar.
Verðið er 7.150 krónur sem forréttur og 14.300 krónur sem aðalréttur.

Soðin ýsa
Soðin ýsuflök upprúlluð með humarsósu voru á matseðli dagsins. Þau voru góð á bragðið, þótt köld væru, en engan veginn neitt sérstök. Ekki voru þau tiltakanlega ofsoðin. Ýsan hefði verið mjög frambærileg, ef hún hefði verið heit.
Það bezta við þennan rétt var humarsósan. Hún var þunn og létt, með mildu og réttu humarbragði og bjargaði alveg ýsuflökunum. Slík sósa á greinilega vel við soðinn fisk.
Verðið er 5.000 krónur og er þá innifalin súpa á undan og eftirréttur, það er að segja heil þrírétta máltíð.

Steikt heilagfiski.
Sniglar í hvítlaukssmjöri með Pernod-líkjör voru á matseðlinum, en fengust ekki. Þótti mér það skrítið, því að hér er um dósamat að ræða. Ekki fékkst heldur rauðvínið Chateauneuf-du-Pape, sem var þó á vínlistanum.
Hellusteikt heilagfiski með rækjum og kryddsmjöri var pantað í stað sniglanna. Sá réttur var algerlega misheppnaður. Fiskurinn hafði verið steiktur langt umfram eðlilegan tíma. Þessi indæli og eðlisgóði matur var orðinn skraufaþurr og ólystugur.
Verðið er 4.640 krónur sem aðalréttur.

Lambakótilettur
Lambakótilettur með fylltum tómötum voru á matseðli dagsins. Sem betur fer höfðu rifin verið fituskorin, en samt var óhóflega mikil fita enn eftir.
Kótiletturnar voru hæfilega steiktar og rauðar inn við beinið. Samt voru þær bragðdaufar og hversdagslegar. Sósan með þeim var hæfilega þunnt, brúnt soð, sem átti vel við og var létt í maga.
Ég er lítið hrifinn af dósagrænmetinu, sem tröllreið kótilettunum sem og öðrum kjötréttum Blómasalar. Mér finnst óþarfi að bjóða upp á bragðlaust rósakál úr dós eða glasi, þegar nýtt rósakál fæst í hverri matvöruverzlun.
Ennfremur voru dósasveppir ósköp ómerkilegur matur í samanburði við nýja, innlenda sveppi, sem fást flesta daga í sumum verzlunum. Og gulrætur úr dósum eru blátt áfram hræðilegar í samanburði við nýjar gulrætur, sem fást í öllum búðum.
Kjötréttir Blómasalar hefðu verið nokkru betri á bragðið, ef rósakál, sveppir og gulrætur hefðu ekki verið að flækjast fyrir á diskunum. Hér var um að ræða hreina misnotkun á dósaopnurum.
Aðra sögu er að segja af hrásalatinu, er fylgdi kótilettunum sem og öðrum kjötréttum. Það var ferskt og gott og með skemmtilega snarpri sósu af þeirri tegund, sem í Ameríku er kölluð frönsk dressing.
Verðið er 6.400 krónur og er þá innifalin súpa á undan og eftirréttur, það er að segja heil þrírétta máltíð.

Lambalundir
Svokölluð Bökuð lambabuffsteik í smjördeigi, fyllt með rjómasoðnum fjallagrösum og borin fram með rauðvínssósu var langtum betri réttur. Sú steik sýndi, að eldhús Blómasalar getur vel meðhöndlað lambakjöt.
Að vísu er ég ekki viss um, að hráefnið í réttinum sé alltaf lambalundir, eins og var, þegar ég prófaði réttinn. En þið getið alténd spurt, áður en þið pantið.
Lambalundirnar voru frábærar, mátulega steiktar, meyrar og bragðgóðar, svo og snarpheitar innan í smjörbakstrinum. Með þeim var þunn og góð rauðvínssósa. Þessi réttur kom okkur þægilegast á óvart, sannkallaður herramannsmatur.
Verðið er 7.580 krónur sem aðalréttur.

Kjúklingabringa
Djúpsteikt kjúklingabringa, fyllt með hrísgrjónum og borin fram með rjómasveppasósu var líka skemmtilegur réttur, sem kom á óvart. Kjúklingurinn var meyr og bragðmikill, hóflega kryddaður með karrí. En sósan var köld, þegar hún kom á borðið.
Verðið er 8.200 krónur sem aðalréttur.

Turnbauti
Tournedos béarnaise reyndist hátindur prófunarinnar. Þessi turnbauti var einn hinn allra bezti, sem ég hef fengið hér á landi, alveg í frönskum og bandarískum klassa. Kjötið var snöggsteikt og undurmeyrt, eðlisgott og vel með farið.
Ég er orðinn nokkuð leiður á hinni eilífu béarnaise-sósu með turnbauta. Íslenzkum eldunarmeisturum hlýtur að geta dottið í hug fleiri útgáfur af turnbauta. en þessi sósa var með bezta móti, óvenju létt og fór vel við kjötið.
Verðið er 11.330 krónur sem aðalréttur.

Tvíeinn ís
Eftirréttaskrá matseðilsins var með fátæklegasta móti. Af fimm réttum voru tveir ísar, sem reyndust þó aðeins vera einn, þegar á hólminn var komið. Það var sósan, sem var mismunandi, og svo var annar ísinn á marensbotni.
Ísarnir hétu annars vegar Rjómaís á marensbotni með appelsínulíkjör og hins vegar Rjómaís Peter Heering. Báðir voru þeir mjög frambærilegir, einkum hinn síðarnefndi.
Verðið er 2.080 krónur á hinum fyrra og 1.870 krónur á hinum síðara.

Pönnukaka
Íslenzk pönnukaka með rjóma var á matseðli dagsins. Hún var nákvæmlega eins og ég átti von á, svona eins og pönnukaka er venjulega. Sem eftirréttur er hún vel viðeigandi.,
Verðið er ekki gefið upp sérstaklega, þar sem pönnukakan var hluti af þriggja rétta matseðli.

Ostur
Ostur og kex ollu mér vonbrigðum. Ostabakkinn var ekki vitund aðlaðandi, þótt þar væri boðið upp á margt, gráðost, mysuost, hnetuost, camembert og nokkrar tegundir af kexi.
Camembertinn var greinilega beint úr kæli, pinnstífur og ekkert byrjaður að þroskast. Mér finnst tilgangslaust að bera fram þennan ost í slíku ástandi.
Verðið er 2.360 krónur.

Hraunkaffi

Loks er að geta sérgreinar Blómasalar á ættmeiði Írska kaffisins. Það er Hraunkaffi eða Lavakaffi. Kaffi er hellt í leirkrús. Í það er síðan látinn Grand Marnier appelsínulíkjör og kveikt í honum. Síðan er flórsykur settur í og síðast þeyttur rjómi. Þetta er hressandi og skemmtileg tilbreyting frá öðru áfengiskaffi.

Vín

Vínlistinn í Blómasal er ekki nógu góður, einkum í rauðvínum. Þar vantar Chateau Talbot, Chateau Paveil de Luze og einkum þó hið ódýra Trakia, sem fæst þó í kaffiteríunni frammi. Merkinu í Blómasal halda uppi Geisweiler Grand Vin og Chianti Classico.

Í hvítvínum er ástandið betra, því að þar fást Wormser Liebfrauenstift Kirchenstück, Gewürztraminer, Chablis og Edelfräulein.

Meðal annarra frambærilegra vína á lista Blómasalar eru Saint Emilion, Geisweiler Reserve, Mercurey og Chateau de Saint Laurent af rauðvínum og af hvítvínum Riesling og Auxerrois frá Luxemborg, Sauternes og Rüdesheimer Burgweg.

Með skeldýraréttum Blómasalar mæli ég með Chablis á 4.675 krónur, með fiskréttunum mæli ég með Gewürztraminer á 4.010 krónur og með kjötréttunum mæli ég með Geisweiler Grand vin á 4.675 krónur eða Chianti Classico á 3.340 krónur eða jafnvel Chateau de Saint Laurent á sama verði.

Fastaseðillinn er betri

Matseðill dagsins er einkar ódýr í Blómasal. Þar er unnt að velja milli þriggja þríréttaðra máltíða á 5.000 krónur, 6.400 krónur og 7.600 krónur. með kaffi og hálfri vínflösku (Chianti) á mann verða þetta 7.300 krónur, 8.700 krónur og 9.900 krónur.

Þó má ráða af matarlýsingunum hér að framan, að minna er vandað til þessa matseðils í eldhúsinu en til fastaseðilsins. Dagsseðillinn er fremur miðaður við hótelgesti, sem þurfa að borða til að lifa, en ekki við aðra gesti, sem eru beinlínis að fara út að borða.

Matseðill dagsins var semsagt ekki áhugaverður frá sjónarmiði matargerðarlistar.

Hinir betri réttir, sem eru á fastamatseðlinum, eru líka miklu dýrari, næstum því eins og í Stjörnusal Hótel Sögu. Meðalverð 14 forrétta, súpa og eggjarétta í Blómasal Hótel Loftleiða er 2.900 krónur, 11 aðalrétta úr fiski og kjöti 8.300 krónur og 5 eftirrétta 2.200 krónur.

Með kaffi á 600 krónur og hálfri vínflösku ætti meðalmáltíð af fastaseðli að kosta um 15.700 krónur í Blómasal á móti 16.300 krónum í Stjörnusal. Allar þessar tölur eru samkvæmt verðlagi um áramótin.

Hífopp

Matseðillinn í Blómasal er að því leyti skynsamlegur, að samtals eru aðeins á honum 30 réttir á móti 47 í Stjörnusal. Því færri sem réttirnir eru, þeim mun auðveldara er að afla ferskra hráefna og meðhöndla þau á réttan hátt.

Turnbautinn og lambalundirnar eru dæmi um, að matreiðsla Blómasalar getur verið mjög góð, jafnvel hin bezta á landinu. Ef allt væri í þeim stíl, mundi ég hiklaust gefa staðnum níu í einkunn.

Ráðamenn staðarins ættu nú að leggja áherzlu á jafnari gæði í matreiðslunni, einkum nákvæmari tímasetningar í matreiðslu fiskrétta og minni notkun dósagrænmetis.

Sömuleiðis þarf að tryggja, að heitur matur sé enn heitur, þegar hann kemur á borð gestanna. Og auðvitað þarf Blómasalur að geta boðið gestum vínglös að drekka úr.

En Blómasalur hefur farið batnandi að undanförnu og getur áreiðanlega batnað enn. Sem stendur fær matreiðslan þar sex í einkunn, sömuleiðis þjónustan og vínlistinn. Umhverfið á staðnum fær hins vegar átta. Meðaleinkunn Blómasalar Hótel Loftleiða er sex af tíu mögulegum.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Við þurfum þolinmæði.

Greinar

Meira fjör færist tæplega í stjórnarmyndunarleikinn, þótt boltinn hafi komizt í hendur Lúðvíks Jósepssonar. Er þó í fersku minni, hversu rösklega hann gekk til verks í fyrra, þegar hann myndaði stjórn fyrir Ólaf Jóhannesson.

Lúðvík situr ekki lengur á þingi og vísaði boltanum áfram til Svavars Gestssonar. Svavar kann að verða fljótari en Steingrímur og Geir að komast að niðurstöðu, en tæpast eins fljótur og Lúðvík hefði orðið.

Leikurinn hefur einfaldazt. Alþýðubandalagið hefur nú síðast flokka lagt fram áætlun um minnkun verðbólgunnar. Í viðræðunum hafa því allir flokkarnir um áþreifanleg atriði að ræða. Þeir ættu þá að geta komið sér að efninu fyrr en ella.

Í rauninni er ekki hægt að sjá, að óyfirstíganlegar hindranir séu milli áætlana flokkanna um minni verðbólgu á þessu ári. Oft hefur sézt samið um svartara en þennan mun. Að því leyti hlýtur stjórnarkreppan að teljast óeðlileg.

Auðvitað fæst niðurstaða að lokum. Einhverjir leiðtoganna munu grafa stríðsaxirnar og koma sér saman eins og menn um myndun þingræðislegrar stjórnar. Þeir munu gera það áður en raddir um utanþingsstjórn verða of háværar.

Ekki skiptir öllu, hvort þetta tekst fyrr eða síðar. Verðbólguáætlanir allra flokkanna eru hvort sem er vettlingatök. Það verða engin þáttaskil, þótt þeir taki við af núverandi stjórnleysi. Við getum því tekið lífinu með ró.

Óskhyggja er kjarni tillagna flokkanna í verðbólgustríðinu. Þær ganga í raun allar út á, að verðbólgan verði bönnuð, að sjúkdómseinkennin verði bönnuð. Þær fela í sér meiri eða minni frystingu á launum og verðlagi.

Áætlanir flokkanna lúta ekki að orsökum sjúkdómsins, svo sem þenslu í opinberum rekstri, óhóflegri seðlaprentun, misnotkun frystifjár í Seðlahankanum og sjálfvirkum peningaaustri til forréttindaatvinnugreina.

Minnzt er á slík atriði í tillögum sumra flokkanna, en þá á marklítinn og óáþreifanlegan hátt. Sú stjórn, sem mynduð verður, er ekki líkleg til að ná meiri árangri gegn verðbólgunni en núverandi starfsstjórn, sem ekkert má gera.

Ýmsar niðurstöður koma til greina, mismunandi sennilegar. Samstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks yrði friðsöm helmingaskiptastjórn við kjötkatlana. Hún gæti enzt út kjörtímabilið, en hún fyndi tæpast lausn á kjördæmamálinu.

Samstjórn Sjálfstæðis-, Framsóknar- og Alþýðuflokks mundi byggjast á auðveldu samkomulagi um verðbólgutillögur. En hún mundi verða að horfa á Alþýðubandalagið leika lausum hala í vinnudeilum og ábyrgðarlausri stjórnarandstöðu.

Nýsköpunarstjórn Sjálfstæðis-, Alþýðubandalags og Alþýðuflokks mundi finna lausn á kjördæmamálinu. En illindin milli síðarnefndu flokkanna mundu lama störf hennar alveg eins og vinstri stjórnar.

Nýsköpunarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags er mun sennilegri, því að þar veit hvor flokkur um sig nokkurn veginn hvar hann hefur hinn. Sú stjórn mundi leysa kjördæmamálið og efla frið og framleiðni í atvinnulífinu.

Geir Hallgrímsson hefur þó rétt fyrir sér, þegar hann mælir með þjóðstjórn. Búast má við öðru og betra samstarfi í þjóðstjórn en þriggja flokka stjórn, enda markmiðin takmarkaðri og starfstíminn styttri.

En þá á enn eftir að taka sinn tíma að finna niðurstöðuna.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið