Author Archive

Askur

Veitingar

Beinagrind af kjúklingi milli súlu og veggjar, sem ég sá í hádegismat á Aski, Laugavegi 28, var þar enn um kvöldmatarleytið daginn eftir. Var þetta athyglisvert dæmi um sóðalegt yfirbragð þessarar lélegu matstofu, sem þó hefur haft kjark til að sækja um vínveitingaleyfi.

Nýju eigendurnir hafa ekki enn tekið til hendinni á Aski, Laugavegi 28, þegar þessi grein er rituð. Allt er þar enn við sömu gallana, sem hafa gert mig fráhverfan heimsóknum. Eru eigendurnir nýju þó líklegir til átaka, vonandi frekar fyrr en síðar.

Innréttingar eru stórkarlalegar. Súlur úr grófum við minna á Halta hanann, en eru þó hvergi nærri eins smekklegar. Á Aski vantar samræmi í stílinn. Strigi og steindir gervigluggar eru á veggjum.

Í stórum dráttum virðist þetta fremur óvandað, þreytulegt og vekur jafnvel óþægilegan grun um óþrifnað.

Opið er inn í eldhús og heyrist þaðan hvimleiður hávaði, svo sem hróp og köll milli gjaldkera og matsveina. Fyrir gesti er þetta ónæðissamt og eykur óþægindatilfinninguna frá umhverfi og andrúmslofti Asks.

Afgreiðsla á kassa er fremur kuldaleg og ónákvæm. Ég pantaði litla skammta af tveimur fiskréttum, en var látinn borga fyrir stóra. Það leiðréttist á staðnum, en hitt uppgötvaðist ekki fyrr en of seint, að ég hafði verið látinn borga einn skammt af hrásalati þrisvar sinnum.

Alger sjálfsafgreiðsla er á Aski eins og á Esjubergi. menn rogast fram og aftur með bakka sína. Eru báðir þessir staðir þó mun dýrari en Hornið og Laugaás, sem veita þó matarþjónustu til borðs og bjóða upp á mun betri mat.

Rósinkálssúpa
Rósinkálssúpa var innifalin í verði aðalrétta á matseðli dagsins, þegar ég kom á Ask í hádeginu. Þetta var hversdagsleg hveitisúpa, hvorki góð né vond. Verðið er 650 krónur, ef hún er keypt sérstaklega.

Kjúklingapottréttur
Kjúklingapottréttur með hrísgrjónum og salati var nokkurn veginn sæmilegar. Dósasveppirnir voru ekki óhóflega eldaðir, en hrísgrjónin voru í meira lagi ofsoðin. Hrásalatið var gott og borið fram með skemmtilega sterkri sósu. Hveitisósan var þykk og miður lystug. Kjúklingarnir sjálfir voru nokkuð mikið soðnir, en eigi að síður í lagi. Verðið er 3.600 krónur með súpu innifalinni.

Buff
Buff Lindström með spældu eggi var vel heppnað hakk, ekki steikt meira en svo, að það var rautt að innanverðu. Með fylgdi sama hrásalat og áður var lýst, spælt egg og tvær hvítar kartöflur, allt frambærilegt. Verðið er 3.000 krónur með súpu innifalinni.

Kótiletta
Glóðarsteikt kótiletta var meðal þess, sem valið var af fastaseðlinum í kvöldheimsókninni. Hún var ekki merkileg, enda mjög feit. Verðið er 770 krónur ein kótiletta og 2.200 krónur sem heill skammtur, í báðum tilvikum án meðlætis.
Ef við gerum ráð fyrir ferns konar meðlæti til að búa til aðalrétt, t.d. með kartöflum, hrásalati, sósu og annað hvort hrísgrjónum eða einum öðrum bragðauka, yrði verð aðalréttarins 4.000 krónur. Verð einnar kótilettu með sams konar meðlæti yrði þá 1.670 krónur sem forréttur.

Kjúklingur
Ask-kjúklingur var fremur vondur, enda þrælsteiktur og þurrlegur. Verðið er 1.980 krónur sem lítill skammtur og 3.740 krónur sem heill skammtur, hvort tveggja án meðlætis. Með tvenns konar meðlæti yrði litli skammturinn að forrétti á 2.880 krónur og með ferns konar meðlæti yrði heili skammturinn að höfuðrétti á 5.540 krónur.

Lambasteik
Lambasteik Hawai var ofsalega mikið pipruð steik með ananashring. Þetta var sæmilegasta hráefni, en nokkuð mikið steikt. Verðið er 2.550 krónur sem heill skammtur án meðlætis. Með ferns konar meðlæti yrði úr þessu aðalréttur á 4.350 krónur.

Turnbauti
Turnbauti var meyr, en bragðlaus, framreiddur miðlungi steiktur, þótt beðið væri um hann mjög lítið steiktan. Verðið er 4.850 sem heill skammtur án meðlætis. Með ferns konar meðlæti yrði úr honum aðalréttur á 6.650 krónur.

Pönnukökur
Kínversk pönnukaka var ómerkileg og köld, en ekki beinlínis vond. Verðið er 670 krónur ein pönnukaka og tvær á 1.100 krónur, hvort tveggja án meðlætis. Með tvenns konar meðlæti yrði eina pönnukakan að forrétti á 1.570 krónur og með ferns konar meðlæti yrðu pönnukökurnar tvær að aðalrétti á 2.900 krónur.

Fiskur
Innbakaður fiskur orly var sérstaklega vondur, grimmileg steiktur af kokkum, sem virtust hata fisk. Hann var afgreiddur hálfkaldur. Verðið er 400 krónur sem lítill skammtur og 1.000 krónur sem heill skammtur, hvort tveggja án meðlætis. Með tvenns konar meðlæti yrði litli skammturinn að forrétti á 1.300 krónur og með ferns konar meðlæti yrði heili skammturinn að höfuðrétti á 2.800 krónur.

Meiri fiskur
Djúpsteiktur fiskur í brauðmylsnu var annað dæmi um djúpa óbeit eldhússins á fiski. Þetta var grjóthörð plata, sem var á bragðið eins og léleg feiti. Hún var afgreidd hálfköld. Verðið er 350 krónur sem lítill skammtur og 1.000 krónur sem heill skammtur, hvort tveggja án meðlætis. Með tvenns konar meðlæti yrði litli skammturinn af forrétti á 1.250 krónur og með ferns konar meðlæti yrði heili skammturinn að höfuðrétti á 2.800 krónur.

Pitsa
Pitsa Ask-speciale var of þykk og of hörð, of brennd og of köld. Þar á ofan fannst ekkert oregano né annað skylt kryddbragð. Þetta var versta pitsa ævinnar og er þá ekki lítið sagt. Verðið er 2.200 krónur án meðlætis.

Meðlæti
Ég prófaði ýmislegt meðlæti, sem gestir panta og borga sérstaklega.
Hrísgrjónin voru alveg köld og ekki góð á bragðið. Skammturinn kostar 400 krónur.
Hvítu kartöflurnar voru einnig alveg kaldar og lítt lystugar. Verðið er 350 krónur.
Sveppirnir voru úr dós. Verðið 440 krónur.
Paprikan var ný og bragðaðist sæmilega. Verðið er 220 krónur.
Franskar kartöflur voru kaldar, en ekki brenndar, alveg ætar. Verðið er 450 krónur.
Hrásalat var sómasamlegt, jafnvel gott. Verðið er 450 krónur.
Béarnaise-sósa var þykk og vond. Verðið er 700 krónur.
Kryddsmjör var tæpast eðlilegt á bragðið, ekki veit ég hvers vegna. Verðið er 450 krónur.

Meðalverð kartöfluskammta er 400 krónur, salata 500 krónur, hrísgrjóna og ýmissa bragðauka 400 krónur. Samtals ætti því ferns konar meðlæti að kosta 1.800 krónur aðmeðaltali og tvenns konar 900 krónur að meðaltali.

Til þess að gera verð “heilla skammta” á Aski sambærilegt við verð, sem gefið er upp á öðrum veitingahúsum, er rétt að bæta við það 1.800 krónum. Er þá gert ráð fyrir kartöflum, hrásalati, sósu og hrísgrjónum eða einum bragðauka á borð við sveppi, lauk eða papriku.

Þess vegna bæti ég 900 krónum við verð “lítilla skammta” til að finna forréttaverð og 1.800 krónum við verð “heilla skammta” til að finna aðalréttaverð.

Eftirréttaleysi

Kaffi eftir mat er selt á 400 krónur og má missa sig. Ekki er boðið upp á neina eftirrétti, nema kannski tertur nokkrar í glerskáp.

Tvírétta máltíð með kaffi af matseðli dagsins ætti að kosta 2.800-4.300 krónur. Á fastaseðlinum verða upphæðirnar hærri. Meðalverð forrétta og smárétta með tvenns konar meðlæti er um 1.900 krónur. Meðalverð aðalrétta með ferns konar meðlæti er um 4.800 krónur. Tvírétta máltíð með kaffi af matseðli dagsins ætti því að kosta að meðaltali 6.700 krónur.

Aðalréttur á vínveitingahúsunum Sögu, Loftleiðum, Holti, Nausti og Borg kostar að meðaltali 7.700-8.500 krónur. Á Esjubergi og Aski kostar hann 4.700 krónur. Á Horninu og Laugaási kostar hann hins vegar ekki nema 3.600 krónur.

Það er athyglisvert, að milliverðsstaðirnir Esjuberg og Askur veita ekki þjónustu til borðs. Það eykur tilfinningu mína fyrir því, að endurbóta og verðlækkunar þurfi við á báðum stöðum.

Matseldin á Aski fær þrjá í einkunn og umhverfið þrjá. Vegin meðaleinkunn veitingastofunnar er tveir, lægsta einkunn, sem hingað til hefur verið gefin.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Norsk útþensla

Greinar

Hugmyndir norskra stjórnvalda um 200 mílna efnahagslögsögu kringum Jan Mayen eru út í hött. Smáeyja, sem frá ómunatíð hefur hvorki haft innfædda íbúa né sérstakt efnahagslíf, getur ekki skert rétt þjóðríkja í nágrenninu.

Þetta lögmál gildir, hvort sem menn telja Jan Mayen íslenzka eyju eða norska. Réttur, tengdur eignarhaldi á þessari eyju, getur ekki skert mikilvægari rétt strandríkjanna umhverfis, Noregs, Íslands og Grænlands.

Í leiðara Dagblaðsins í gær voru rifjuð upp nokkur hin sögulegu rök þess, að Jan Mayen væri íslenzk eyja. Í rúmar sjö aldir voru það Íslendingar, en ekki Norðmenn, sem heimsóttu eyjuna og drógu þaðan björg í bú.

Aðeins síðustu hálfa öldina hafa Norðmenn haft ítök á Jan Mayen. Á þriðja áratugnum lét danska krúnan undir höfuð leggjast að gæta hagsmuna Ítslendinga, þrátt fyrir yfirlýsingar tveggja forsætisráðherra Íslands.

Ítök Íslendinga hafa þó haldizt, því að þeir hafa umfram aðra nýtt fiskistofna við Jan Mayen. Þar sást tæpast norskt fiskiskip fyrr en í fyrra. Ísland hefur því haldið efnahagshefð sinni við Jan Mayen allt fram á þennan dag.

Slík efnahagshefð er raunar meira virði en skrípaleikur viðurkenningar hæstaréttar Noregs árið 1933 á eignarhaldi Birgis Jacobsen og kaupa norska ríkisins árið 1952 á eynni af erfingjum hans. Birgir átti ekkert í Jan Mayen.

Verið getur, að alþjóðadómstóllinn í Haag mundi telja hefð komna á útþenslu Noregs inn í íslenzkt efnahagssvæði. Dómstóllinn hefur fengið orð fyrir að vera hallur undir nýlendustefnu, ef hún hefur náð að festa sig í Ísessi.

Jón Magnússon forsætisráðherra áskildi þó árið 1924 Íslendingum jafnan rétt á Jan Mayen við hverja aðra. Og árið 1927 tilkynnti Jón Þorláksson forsætisráðherra, að Jan Mayen væri á íslenzku hafsvæði og tengdist íslenzkum efnahagsmunum.

Slíkar yfirlýsingar kunna að vera lítils virði, þegar menn standa andspænis vel heppnaðri útþenslustefnu Noregs. Fráleitt væri þó annað en að láta reyna á gildi þeirra, sem og alla átta alda sögu afskipta Íslendinga af Jan Mayen.

Færi svo, að eignarhald Íslands yrði viðurkennt, mundi það hvorki skerða efnahagslögsögu né hafsbotnsréttindi Noregs né Grænlands. Aðeins útþenslusinnuðum Norðmönnum dettur í hug, að slíka frekju megi byggja á Jan Mayen.

Öll þessi strandríki, Noregur, Ísland og Grænland hafa rétt til óskertrar 200 mílna efnahagslögsögu í átt til Jan Mayen, óháð því, hver telst eiga eyjuna. Og sú lögsaga, sem þá er eftir við Jan Mayen, á að vera íslenzk.

Sú skoðun byggist ekki aðeins á fornum landafundum eða formlegu eignarhaldi, heldur fyrst og fremst á þeirri staðreynd, að það eru Íslendingar, sem frá ómunatíð hafa nýtt haf og land við Jan Mayen. Átta alda hefð er löng.

Ekki er síður ljóst, að Ísland á allan hafsbotninn umhverfiSs Jan Mayen. Hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna er í stórum dráttum sammála um, að botnsréttindi strandríkja nái að 360 mílum út eftir landgrunni og landsökkli þeirra.

Jan Mayen er á landgrunni Íslands, næsta nágranna sínðs. Hún er eldfjallsey á Mið-Atlantshafshryggnum. Mikið hafdýpi skilur hana bæði frá Noregi og Grænlandi. Hún situr á landfræðilegum hluta Íslands, að skilningi hafréttarráðstefnunnar.

Vegna alls þessa er Jan Mayen íslenzk eyja.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Jan Mayen er íslenzk

Greinar

Jan Mayen er íslenzk eyja á íslenzka landgrunninu og á íslenzku hafsvæði. Jan Mayen hefur verið íslenzk, síðan Íslendingar fundu hana árið 1194 og nefndu Svalbarð. Um þetta er fjallað í Landnámabók og fleiri fornum heimildum.

Nær allar götur síðan höfðu Íslendingar einir öll gögn og gæði af eyjunni, ef frá er skilið skammvinnt tímabil hollenzkra hvalfangara, sem gáfu henni nafnið Jan Mayen. Það var rekaviður, sem Íslendingar sóttu norður þangað.

Það er út í hött, að norskur sérvitringur að nafni Birger Jacobsen hafi eignazt Jan Mayen árið 1921, þótt hann hafi haft þar viðkomu. Ekki var þá lengra síðan en 1918, að íslenzkir rekaviðarmenn voru á eyjunni.

Hæstiréttur Noregs hefur enga lögsögu yfir íslenzku landi. Því er markleysa ein sá úrskurður réttarins frá 1933, að Birger Jacobsen ætti Jan Mayen. Jafn mikil markleysa felst í kaupum Noregs á eyjunni af erfingjum Jacobsens árið 1952.

Á millistríðsárunum réð útþenslustefna ríkjum hjá norskum stjórnvöldum. Þau gerðu meira að segja kröfu til hálfs Grænlands. Danir gátu hnekkt þeirri kröfu fyrir alþjóðadómstólnum í Haag árið 1933. Og Íslendingar reyndu líka að verjast.

Árin 1924 og 1927 sendu forsætisráðherrarnir Jón Magnússon og Jón Þorláksson bréf til dönsku krúnunnar um hagsmuni Íslands á Jan Mayen og við Jan Mayen. Áskilja þeir þar Íslendingum jafnan rétt til allra gagna og gæða á sjó og landi.

Danska krúnan gætti hins vegar ekki eins vel hagsnuna Íslands við Jan Mayen og sinna eigin hagsmuna við Grænland. Norska stjórnin náði því smám saman tökum á eyjunni á tímanum frá 1924, þegar fyrsta veðurstofan var reist, til 1929, þegar eyjan var formlega innlimuð.

Norska stjórnin tók Jan Mayen af okkur, af því að okkur skorti bolmagn til gagnaðgerða og af því að við vorum ekki sjálfum okkur ráðandi í samskiptum við erlend ríki. Landvinningurinn á Jan Mayen er á ábyrgð norskra og danskra stjórnvalda.

Hinu er því miður ekki að leyna, að islenzk stjórnvöld hafa ekki staðið sig nógu vel eftir daga Jóns Magnússonar og Jóns Þorlákssonar. Það er eins og þau hafi beygt sig fyrir orðnum hlut í útþenslustefnu norskra stjórnvalda.

Íslenzk stjórnvöld mótmæltu ekki einu sinni, þegar þau höfðu gott tækifæri eftir stríð. Þá sneri Atlantshafsbandalagið sér til Noregs, en ekki til Íslands, til að fá reista á sinn kostnað veðurstöð og herstöð á Jan Mayen.

Spurningin er sú, hvort hálfrar aldar undirgefni íslenzkra stjórnvalda nægi til að afsala rúmlega sjö alda yfirráðum Íslands á Jan Mayen. Þetta gætí hugsanlega verið verkefni fyrir alþjóðadómstólinn í Haag.

Því miður hefur dómstóllinn haft tilhneigingu til að styðja heimsvaldasinna, viðurkenna hefð ítaka, sem náðst hafa með yfirgangi eða ofbeldi. Þannig studdi dómstóllinn ítök, sem Bretar höfðu aflað sér á Íslandsmiðum.

Samt er sjálfsagt fyrir ríkisstjórn okkar að kanna ofan í kjölinn möguleika okkar á sviði eignarhalds á Jan Mayen, um leið og hún heldur fast fram öðrum þjóðréttarkröfum okkar á sviði hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.

Norsk stjórnvöld hafa að undanförnu lagt áherzlu á vorkunnsemi i garð Íslendinga í Jan Mayen málinu . En það er auðvelt fyrir hinn volduga að gaspra um frændsemi, þegar hann er búinn að skapa yfirgangi sínum meinta hefð.

Jan Mayen er íslenzk, en ekki norsk.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Laugaás

Veitingar

Laugaás er ódýrt veitingahús, sem býður upp á vandaða matreiðslu og þægilegt umhverfi. Þetta nýja veitingahús að Laugarásvegi 1 markar ásamt Horninu í Hafnarstræti mestu framför síðustu ára í veitingamennsku Íslendinga.

Til skamms tíma urðum við að velja milli fremur dýrra, en fyrsta flokks vínveitingahúsa eins og Holts og Sögu annars vegar og hins vegar ódýrari en fimmta flokks steikarbúla, mettaðra feitibrælu.

Nú eru hins vegar að koma til skjalanna lítil veitingahús eins og Laugaás og Hornið, sem eru ódýrari en steikarbúlurnar, veita þó sómasamlega þjónustu og bjóða upp á mat, er veitir fyrsta flokks húsunum hættulega samkeppni.

Barnahorn, bravó!

Laugaás er lítil stofa, sem tekur ekki nema um það bil 40 manns í sæti. Innréttingar eru bjartar og hreinlegar, en dálítið kuldalegar. Veggir eru hvítir og trégrindur gular, en í loftum er lítt áberandi rauður litur.

Athyglisverðar steinflísar með innbrenndum jurtum eru lagðar í borðin til að hlífa þeim fyrir brennheitum pönnum og diskum, sem gestir borða úr suma réttina. Jurtaskreytingin er skemmtilegt smáatriði, sem lyftir veitingahúsinu.

Laugaás hefur fetað út á sömu, góðu brautina og Esjuberg að hafa sérstakt barnahorn, þar sem ungviðið getur dundað sér við kubba og bækur, meðan foreldrarnir ljúka við kaffið eftir matinn. Þetta framtak er sérstaklega lofsvert.

Mataráhugamenn hafa deilt um gildi tónlistar í veitingasölum. Sumir segja, að lágvær og þægileg tónlist bæti meltinguna. Hinir eru þó sennilega fleiri, sem vilja fá frið frá tónlist, meðan þeir eru að borða.

Hornið í Hafnarstræti kaus að hafa tónlist af bandi að tjaldabaki. Í Laugaási er hins vegar engin tónlist. Þessi verkaskipting er ágæt, því að hvort tveggja þarf að vera til, í þágu valfrelsis gesta.

Kokkar í sal

Fullkomin þjónusta er ekki veitt í Laugaási. Menn panta við diskinn og taka sér þar hnífapör, handþurrkur og drykkjarföng. Síðan fá menn matinn inn á borð til sín, alveg eins og á venjulegu veitingahúsi.

Gestir fá því mikilvægasta þátt þjónustunnar. Eftir að þeir eru seztir til borðs, þurfa þeir ekki að standa upp til frekari útréttinga. Þeir þurfa heldur ekki að óttast, að höfuðréttur kólni meðan súpan er sopin.

Matreiðslumennirnir annast þjónustuna sjálfir að nokkru leyti. Það hefur þann kost, að gestir fá tækifæri til að spjalla við þá um matinn og forvitnast um, hvernig hann verður til. Mín reynsla er, að erfitt sé að trúa því, sem þjónar segja um slík mál.

Að vísu finnst mér, að gestir ættu ekki að þurfa að bera sjálfir hnífapör og glös til borðs. Ég held, að það mundi ekki auka fyrirhöfn starfsliðs að ráði, þótt gestum yrði gert það til geðs að færa þeim þessa hluti að borði.

Sómi sjávarrétta

Á matseðli dagsins eru að jafnaði fjórir eða fimm réttir og er súpa innifalin í verðinu. Þar fyrir utan er sérstakur fastamatseðill með 24 réttum, auk ýmissa hamborgara, pitsa og samloka. Þetta er meira en fullnægjandi fjölbreytni.

Sjávarréttum er sýndur mikill sómi, bæði á matseðli dagsins og fastaseðlinum, líkt og á veitingahúsinu Horninu. Það þykja mér gleðileg tíðindi, því að svo fer fyrir flestum matfróðum, að fiskur verður þeim smám saman hugstæðari en kjöt.

Ég heimsótti Laugaás með ráðgjöfum mínum bæði í hádegi og að kvöldi til að deila reynslunni með lesendum Vikunnar. Í bæði skiptin var fullt og fjörugt hús. Um kvöldið var mikið af hjónakornum og heilum fjölskyldum.

Létt vín er ekki á boðstólum í Laugaási og verða ekki á næstunni. Eigendur vilja bíða átekta og fylgjast með, hvernig reynslan verður í öðrum veitingahúsum, sem hugsanlega eru að fá leyfi til veitinga léttra vína.

Karfi
Pönnusteiktur, nýr karfi, bakaður í ostasósu, var á matseðli dagsins í hádeginu. Ég rak auðvitað upp stór augu, enda hef ég ekki áður séð slíka dirfsku í veitingamennsku hér á landi.
Þetta var frábær matur, alveg mátulega lítið steiktur og mjúkur sem rjómi. Einnig voru góðar hvítu kartöflurnar, sem fylgdu, hæfilega slítið soðnar. Hrásalatið var vel sómasamlegt, sem og hreðkurnar, en súpan var hversdagsleg grænmetissúpa, þykkt með hveiti.
Verðið er 2.200 krónur með súpunni.

Ýsa
Soðin ýsuflök með rækjusósu voru á sama matseðli dagsins. Þau voru góð, þótt þau jöfnuðust ekki á við karfann, enda trúlega soðin dálítið of lengi. Ýsunni fylgdi sama meðlæti og sama súpa og getið er hér að framan.
Verðið er 2.200 krónur með súpunni.

Sjávarréttir
Sjávarréttir, bakaðir í ostasósu, voru á fastaseðlinum. Þeir voru bornir fram í sjóðheitri leirpönnu. Þar mátti finna djúpsjávarrækju, litlar rækjur, ýsu, kræklinga og dósasveppi. Allt var þetta mjög gott, nema djúpsjávarrækjan, sem hafði verið geymd of lengi.
Verðið er 1.750 krónur sem forréttur.

Pitsa
Pitsan var ágæt, þótt hún næði ekki gæðum pizzunnar á Horninu. Brauðið var hæfilega þunnt, dálítið hart, líklega of lengi hitað í ofninum. Þessi pitsa var með kræklingum og rækjum, en ýmsar aðrar fyllingar eru einnig á boðstólum.
Verðið er 2.100 krónur.

Lambalæri
Laugaás-lambalærissneið var borin fram á sjóðheitum diski. Þetta var hápunktur heimsóknarinnar, einstaklega ljúfur réttur. Sneiðin var nákvæmlega rétt matreidd, ljósrauð í sárið og með örlitlum votti af blóði, þegar hnífi var þrýst á hana. Enda var kjötið bæði meyrt og bragðmikið.
Lambalærissneiðin var borin fram í eigin safa og bökuð í ostasósu, óhóflega mikilli. Með fylgdi smásoðið hrásalat, lítillega sítrónuvætt, svo og franskar kartöflur, mjög lítið steiktar og ljósar, án lyktar af aldraðri olíu. Bæði salatið og kartöflurnar voru sómasamleg.
Verðið er 3.850 krónur.

Turnbauti
Turnbauti með béarnaise sósu var einnig sérdeilis vel heppnaður, mjög lítið steiktur, meyr og góður. Honum fylgdi sama hrásalat og kartöflur, sem getið er hér að framan. Ennfremur béarnaise sósa, sem var þynnri, léttari og betri en ég á að venjast hér á landi.
Sem betur fer fylgdi ekkert dósagrænmeti turnbautanum og ekki heldur öðrum réttum, sem prófaðir voru í Laugaási. Eini maturinn úr dós voru sveppir, er voru í mjög hóflegum mæli í meðlæti kjötréttanna.

Verðið er 5.950 krónur.

Eftirréttir
Laugaás er stikkfrí í eftirréttum, býður aðeins upp á ís, í þremur útgáfum. Væri þó með einföldum hætti unnt að auka fjölbreytnina með t.d. ferskum ávexti dagsins, ostsneið dagsins eða jafnvel kraumís dagsins.

Kaffi
Kaffið var sómasamlegt, en ekki merkilegt. Venjulega kostar það 350 krónur. en panti menn einn bolla án ábótar eftir mat, kostar hann ekki nema 175 krónur. Það er athyglisverð tillitssemi við fjárhag matargesta.

Ódýrt og gott

Meðalverð sjö forrétta í Laugaási er 1.000 krónur, sextán aðalrétta 3.600 krónur og þriggja eftirrétta 700 krónur. Ef pizzur á 2.100 krónur og hamborgarar á 1.100-1.600 krónur væri talið með aðalréttum, mundi meðalverð þeirra vera 3.400 krónur.

Þriggja rétta máltíð, sem hvorki felur í pizzur né hamborgara, mundi því kosta 5.300 krónur. Að kaffi meðtöldu mundi meðalmáltíð í Laugaási kosta um 5.500 krónur.

Laugaás er því í sama verðflokki og Hornið, töluvert ódýrari en Esjuberg og Askur og helmingi ódýrari en vínveitingahús. Bæði Laugaás og Hornið hafa einstaklega gott hlutfall verðs og gæða.

Munur þessara tveggja staða, fyrir utan tónlistina, sem áður er getið, er sá, að Laugaás hafði heldur betri matreiðslu, en Hornið heldur betri þjónustu og skemmtilegra umhverfi.

Einstaklega vel matreiddur turnbauti, lambalærissneiðar og karfi eru dæmi um fyrsta flokks matreiðslu í Laugaási. Með slíkum réttum vantaði ekkert nema glas af léttu víni til að gera máltíðina frábæra.

Með Laugaási og Horninu er kominn vísir að hinum litlu og vönduðu veitingastofum, sem einkenna svo mjög matargerðarlist í útlöndum. Og í Laugaási elda og þjóna eigendur sjálfir, eins og í heimsins fremstu veitingahúsum.

Matargerð ætti raunar að flokkast með hinum fögru listum. Vaxtarbroddur þessarar listgreina er í litlum 40-50 sæta veitingahúsum, þar sem tveir eigendur, stundum hjón, deila með sér ábyrgð í eldhúsi og sal.

Það væri ánægjulegt, ef fleiri íslenzkir matreiðslumeistarar stigju slíkt skref í þágu neytenda og um leið í þágu íslenzkrar menningar.

Laugaás fær sjö í einkunn fyrir matreiðslu, sex fyrir þjónustu og sjö fyrir umhverfi. Vegin meðaleinkunn veitingastofunnar er sex.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Sameinast um óvissuna.

Greinar

Það, sem greinir í sundur fjármálaráðherrana Matthías Mathiesen, Tómas Árnason, Sighvat Björgvinsson og Ragnar Arnalds, er, að þeir eru hver í sínum stjórnmálaflokki. Samanlagt spanna þeir allt svið íslenzkra stjórnmála.

Þegar þessi staðreynd hefur verið bókuð, er ekki auðvelt að finna fleiri atriði, sem greina þá í sundur. Hins vegar er mjög auðvelt að finna atriði, sem sameina þessa fjóra stjórnmálamenn, eins og raunar flokka þeirra í heild.

Samanlagt hafa þessir fjórir menn verið fjármálaráðherrar síðustu tvö árin. Allir eru þeir sammála um, að þeir hafi verið að setja þjóðinni góð skattalög síðustu daga. Ennfremur eru þeir sammála um, að lögin stefni út í óvissuna!

Ráðherrarnir fjórir hafa verið í tvö ár að sníða þessi lög með aðstoð þingmanna. Matthías kom málinu fyrst á framfæri og síðan hver af öðrum. Sífellt var, að mati ráðherranna, unnið að því að sníða af lögunum meinta galla.

Samkvæmt þessu ætti frumvarpið nú loks að vera orðið gott. Og fjármálaráðherrarnir fjórir eru auðvitað sammála um, að nýju skattalögin séu til bóta. Í rauninni er þetta eina þingmálið, sem allt pólitíska litrófið er sammála um.

Ráðherrunum þykir að vísu miður, að ekki skuli enn vera búið að ákveða skattstiga, mikilvægasta hornstein allra skattalaga. Þeim þykir líka miður, að ekki skuli vera búið að ákveða persónuafslátt og barnabætur, sem skipta alþjóð þó miklu.

Auðvitað þykir þeim líka miður, að ekki skuli enn vera búið að ákveða ýmsa frádráttarþætti á framtali. Þeim þykir semsagt miður, að skattalögin skuli taka “heljarstökk út í náttmyrkrið”, eins og Guðmundur J. Guðmundsson orðaði það.

Samt segja þeir, að nauðsynlegt hafi verið að setja þessi lög, – ekki verði aftur snúið. Ragnar Arnalds hefur þó viðurkennt, að mætir menn hafi hvatt til, að lögunum yrði enn frestað um eitt ár og gömlu lögin látin gilda að sinni.

Einna mestar áhyggjur hafa menn af hinu mikla, meinta framfaraspori, sem átti að felast í sérsköttun hjóna. Í raun virðist sporið stefna að því, að konur hætti að vinna úti, vegna afnáms frádráttar af tekjum þeirra til skatts.

Ragnar Arnalds hefur gefið yfirlýsingu um, að lögin verði endurskoðuð, ef þau leiði til ósanngjarnrar skattbyrðar ýmissa þjóðfélagshópa. Ennfremur, að álagning verði lækkuð, ef skattstigar leiða til meiri ríkistekna en ætlað var.

Nauðsynleg var þessi yfirlýsing Ragnars um, að ráðamenn viti ekki, hvað þeir eru að gera. Hitt vefst meira fyrir áhorfendum, að fjórir fjármálaráðherrar skuli ekki geta útskýrt, hvert stefnir tilraun þeirra í skattamálum.

Í tvö ár er búið að fjalla um þessi lög. Samt er ekki vitað, hvaða áhrif þau hafa. Þjóðin á bara að taka heljarstökk út í náttmyrkrið á grundvelli yfirlýsinga fjögurra fjármálaráðherra um, að lögin séu góð, þótt þeir skilji þau ekki sjálfir.

Því er ekki að neita, að ýmsir skattafróðir menn vona, að hin nýju lög verði til bóta, þótt enginn hafi enn reiknað sig til þeirrar niðurstöðu. Reynslan kann að sýna, að þessar vonir muni rætast. En samt er óvissan alls ráðandi.

Þetta stórkostlega þingmál gæti verið sameiningartákn fjögurra flokka kerfisins. Fjórir flokkar og fjórir fjármalaráðherrar eru einmitt sammála um það eitt þingmál, sem allir játa, að er stökk út í óvissuna.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið

Benzínfreistingar.

Greinar

Þegar bensínverð ætti að hækka hér á landi um 100 krónur vegna erlendra hækkana, hækkar það í rauninni um 220 krónur. Það stafar af því, að ríkissjóður hefur gert olíukreppuna að einni helztu gróðalind sinni í skattamálum.

Álögur hins opinbera á bensín eru reiknaðar í prósentum. Í hvert sinn, sem hin alþjóðlega verðbólga er mögnuð með hækkun á bensíni, magnar ríkissjóður hina innlendu verðbólgu tvöfalt hraðar með prósentukerfi sínu.

Í fyrra rak vinstri stjórnin þessa stefnu gegndarlaust, jafnvel þótt bensínmarkaðurinn í Rotterdam væri kominn úr skorðum. Hún notaði Rotterdam til að fylla í ríkiskassanum ýmis göt, sem ekki komu samgöngum neitt við.

Þegar ríkissjóður leggur 120 krónur ofan á 100 króna bensínhækkun, renna aðeins tæpar 40 krónur hækkunarinnar í vegasjóð. Hinar rúmu 80 krónurnar fara í að greiða kostnað ríkisins við að lifa um efni fram.

Í júlí í fyrra var svo komið, að jafnvel ráðherrarnir voru komnir með samvizkubit. Þeir létu, aðrir en fjármálaráðherra, hafa eftir sér, að nú væri mál að linnti. Ríkissjóður mætti ekki lengur halda fullri prósentuálagningu.

Það fór þó svo, að fjármálaráðherra hafði sitt fram. Hann gat líka bent á, að samvizkubit út af bensíni væri lítils virði, þegar hinir sömu ráðherrar hefðu með öðrum ráðum framleitt þann halla á ríkissjóði, sem bensínið þyrfti að laga.

Nú er enn búizt við hækkun á bensíni. Hin nýja ríkisstjórn á þá tækifæri til að verða fyrsta ríkisstjórnin til að neita ríkissjóði um fullar prósentur af hækkuninni og leyfa til dæmis aðeins sem svarar hlut vegasjóðs.

Slíkt væri dæmi um, að aukið aðhald í ríkisbúskap væri raunveruleiki og ekki óskhyggja. Slíkt væri líka mikilvægt skref í þá átt, að mesti verðbólguvaldur Íslands, ríkisvaldið, tæki forustu í hina áttina, til verðhjöðnunar.

Það er í mörgum atriðum sem þessum, að orð á blaði málefnasamnings mæta dómi reynslunnar og standast hann eða standast ekki.

Áhrifalaust blað.

Morgunblaðið hefur í nærri þrjár vikur hamast á Gunnari Thoroddsen með nokkurri aðstoð Vísis. Gunnari hafa verið valin hin verstu orð. Hver sótraftur hefur þar verið á sjó dreginn. Þetta efni hefur tröllriðið blaðinu dag eftir dag.

Morgunblaðið reyndi jafnvel að gefa í skyn, að ríkisstjórn Gunnars væri mynduð í höfuðstöðvum kommúnismans á Íslandi. Þegar lesendur skildu ekki ópin um Rúbluna, fór blaðið að tala um hægri stjórn Gunnars sem vinstri stjórn.

Þessi æðibunugangur hefur ekki haft hin minnstu áhrif. Gunnar Thoroddsen nýtur stuðnings þjóðarinnar, þar á meðal alls þorra sjálfstæðismanna og óháðra kjósenda. Þetta kom í ljós í skoðanakönnun Dagblaðsins, sem birt var á mánudaginn.

Árangursleysi herferðar Morgunblaðsins gegn Gunnari Thoroddsen er átakanlegt dæmi um, að þetta gamalgróna blað er orðið gersamlega áhrifalaust í stjórnmálum. Það er utan gátta og lifir í gömlum heimi, þar sem orð Morgunblaðsins voru lög.

Fjölmiðlun á Íslandi er nú orðin svo fjölbreytt, að enginn einn aðili getur stjórnað almenningsálitinu, allra sízt Morgunblaðið. Þessi staðreynd hefur bara ekki komizt inn í höfuð flokkseigendafélagsins í kringum Morgunblaðið.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið

Borg

Veitingar

Vafasamt er að tala um Hótel Borg sem veitingahús. Ég þekki engan, sem hefur farið þangað til þess eins að borða. Menn fara þangað í hádeginu, ef þeir eru í Borgarklúbbnum, og á kvöldin, ef þeir eru hótelgestir í föstu eða lausu fæði.

Mikið óskaplega hefur Borg verið glæsilegt hótel, þegar það var reist fyrir hálfri öld. Enn eimir eftir af þessum glæsibrag í veitingasal hússins, sem er í hefðbundnum, evrópskum hótelstíl millistríðsáranna.

Húsbúnaður og innréttingar bera ekki merki þreytu. Viðhald og endurnýjun hefur verið með sóma. Ekki verður þó sagt, að stíllinn sé smekklegur. En hann er ósköp notalegur, góðborgaralegur og umfram allt streitulaus.

Á Borg er reynt að skilja milli borða með blómum. Það er góð hugmynd, betri en grindverk eða hálfir veggir. En gróðurinn í kerjunum er of gisinn og rytjulegur. Kannski hella gestir brennivíni á blómin.

Kjaftamiðstöð þjóðmálanna

Í rauninni er þetta karlaklúbbur fremur en veitingasalur. Þarna hittast fastmótaðir hópar í morgunkaffi, hádegismat eða síðdegiskaffi. Menn eiga þar sína föstu stóla við ákveðin borð. Þeir mundu fá hjartaslag, ef köttur settist í ból bjarnar.

Þetta er ekki staður viðskiptasamninga eins og Holt og Naust. Borgin er hinn rólegi samkomustaður góðborgara, sem eru komnir yfir það að gera viðskipti – eru komnir á leiðarenda í árangursríku starfi og geta slakað á.

Þessu fylgir, að Borgin er kjaftamiðstöð þjóðmálanna. Saumaklúbbsstemningin er áberandi í hádeginu, þegar menn rölta milli borða, staldra við í tvær mínútur og skiptast á sögum um gang opinberra og persónulegra mála landsins.

Borgin er raunar engu lík. Það er kannski út í hött að tala um hana í greinaröð um veitingahús. Borgarklúbbsmenn hafa ekki áhuga á mat og mundu sennilega ganga á dyr, ef matargerðarlist læddist inn í eldhúsið.

Lífið á Borginni fjarar út eftir síðdegiskaffið. Í kvöldmatnum hímir kannski svo sem hálfur annar þingmaður af landsbyggðinni og hálfur annar útgerðarstjóri í bankaleiðangri til höfuðborgarinnar.

Hættulegur fastaseðill

Matseðillinn á Borg tekur ekki hið minnsta tillit til sérstöðu hússins sem klúbbs. Hann gefur ranglega í skyn, að allt sé á fullu í eldhúsinu fyrir stöðugan straum alþjóðlegra gesta, – sem búa raunar og borða annars staðar.

Heilir 38 réttir eru á matseðlinum, fleiri en í Blómsal Hótels Loftleiða. Seðill þessi er eins og efnisyfirlit kennslubókar í hefðbundinni hótelmatreiðslu. En enginn pantar mat eftir honum og enginn ætti að gera það.

Sem dæmi um forneskju matseðils Borgar má nefna fyrirlitningu hans á fiski. Seðillinn gefur í skyn, að eldhúsið greini á milli grísa, nauta og lamba, en ekki á milli ýsu, lúðu og karfa. Fiskur er bara “fiskur” á matseðlinum.

Skynsamlegri er matseðill dagsins, sem er ítarlegri en gengur og gerist á íslenzkum hótelum. Þar er boðið upp á þríréttaðan málsverð fyrir 7.200 krónur, nautasteik fyrir um það bil 9.000 krónur, fiskrétt fyrir um 3.600 krónur og sitthvað fleira, svo og kalt borð í hádeginu á 6.200 krónur.

Matseðill dagsins er raunar alls ráðandi á Borg. Fastaseðillinn er ekki einu sinni dreginn upp í hádeginu, enda mundu Borgarklúbbsmenn þá sennilega grýta honum í höfuð þjónsins. Á kvöldin liggur hann hins vegar á glámbekk.

Vikan prófaði matreiðslu Borgar bæði í hádegi og að kvöldi. Í bæði skiptin var þjónustan kurteis og fagmennskuleg, en áhugalítil. Hún stóðst ekki samjöfnuð við Naust, -hvað þá Sögu.

Vín
Vínlistinn á Borg er mjög lélegur og bendir til dapurlegs smekks matargesta. Þó er hægt að fá þar hvítvínið Chablis á 4.675 krónur og rauðvínin Chianti Classico á 3.340 krónur og Chateauneuf-du-Pape á 5.680 krónur.

Lambageiri
Lambageiri, steiktur á spjóti að hætti Borgar, var þungamiðjan í þrírétta framboði seðils dagsins í hádeginu, þegar Vikan kom í heimsókn. Í þessum rétti voru ágætar, hvítar og hnöttóttar, litlar kartöflur, mátulega soðnar.
Ég missti samt matarlystina við að sjá tróna á diskinum hlemmistóra og eldrauða papriku úr niðursuðudós. Þessi hrikalega skella ofbauð bæði matarskyni mínu og fegurðarskyni. Kokkinum gat ekki verið sjálfrátt.
Á diskinum var einnig dálítið af gulrótum úr dós, svo og mjög þurrt beikon, sem var vafið utan um lambakjötið. Beikonið yfirgnæfði lambakjötið, svo sem oft vill verða við slíkar tilfæringar.
Beikonbragðið var ekki gott og lambakjötsbragðið fannst alls ekki, enda var kjötið grásteikt og alveg safalaust. Þetta var sannarlega ekki merkilegur matur. Og mundi ég heldur matarlaus vera.
Á undan lambageiranum var svokölluð blómkálssúpa, hlutlaus og áreitnislaus kremsúpa úr dós. Á eftir var rommrúsínu-ís án rommbragðs, en með möndlum í. Þetta var semsagt meinlaus ís.
Verðið á þessum þriggja rétta mat er 7.200 krónur.

Buffsteik
Frönsk buffsteik var það, sem yfirmatreiðslumaðurinn mælti með samkvæmt því sem stóð á seðli dagsins. Þar voru aftur á ferðinni kartöflurnar góðu. Og nautakjötið var sæmilegt, hæfilega meyrt.
Kjötið drukknaði hins vegar í gífurlegu magni bráðins steinseljusmjörs, sem spillti nokkuð fyrir ánægjunni. Sama er að segja um grænar baunir og gulrætur, hvort tveggja úr dós. Þegar meðlætið hafði verið lagt til hliðar, varð kjötið frambærilegt.
Verðið er 8.900 krónur.

Graflax
Dillkryddaður lax með sinnepssósu var á fastaseðlinum og freistaði Vikunnar í kvöldheimsókninni. Vonirnar jukust enn, þegar laxinn kom á borðið, ákaflega fallega upp settur á fati. Með laxinum fylgdi mild og þægileg, ljós sinnepssósa.
Hárin risu hins vegar á höfði mér, þegar ég bragðaði laxinn. Eitthvað hafði komið fyrir fiskinn, síðan hann var kryddleginn. Hann minnti ekki í bragði á graflax, heldur hafði hann dauft og torkennilegt geymslubragð.
Líkelga er graflax pantaður einu sinni eða tvisvar á vetri á Borg.
Verðið er 6.300 krónur sem forréttur.

Humarhalar
Hálfir humarhalar í skel, glóðarsteiktir, voru líka snyrtilega fram bornir. Humarinn var heitur og mjög stór, sá stærsti, sem ég hef séð á veitingahúsi í vetur. Annan kost hafði hann ekki.
Humarinn var orðinn grár og sumpart brúnn af elli. Hann var næstum alveg bragðlaus.
Ég varð dálítið hræddur við að fá þetta ómeti ofan í vondan laxinn, því að ég þurfti síðar um kvöldið að fara í beina sjónvarpssendingu. Ég óttaðist, að í miðri umræðu um virðingu alþingis yrði ég að hlaupa fram á afvikinn stað.
Svo fór þó, að ég kenndi mér einskis meins. En líklega verð ég að fara að krefja Vikuna um áhættuþóknun, ef ég á að stíga öllu fleiri skref niður eftir matarmenningu íslenzkra veitingahúsa.
Ekkert sítrónuvatn fylgdi humrinum til að hreinsa fituga fingur. Bendir það til þess, að sjálfsvirðing Borgar sé minni en annarra veitingasala í sama verðflokki.
Verðið er 6.300 krónur sem forréttur og 11.000 krónur sem aðalréttur.

Turnbauti
Nautalundir Berry voru það, sem yfirmatreiðslumaðurinn mælti með á matseðli dagsins þetta kvöldið. Þá kom í ljós, að það var bara misskilningur minn að panta graflax og humar eða yfirleitt nokkurt atriði af fastaseðlinum. Menn eiga eingöngu að halda sér við dagseðilinn.
Þetta var prýðilegur turnbauti. Ég hætti alveg að bölva matreiðslumönnunum. Bautinn var mjög meyr og óvenjulega bragðmikill, enda var gerð kjötsins með grófasta móti.
Hér voru aftur á ferðinni litlu, góðu kartöflurnar og enn einu sinni mátulega lítið soðnar. Í þetta sinn höfðu þær verið smjörsteiktar eftir suðu.
Sveppirnir voru því miður úr dós, en þeim hafði þó ekki verið misþyrmt enn frekar með of langri steikingu. Ennfremur var þarna meiri dósamatur, maís, grænar baunir og gulrætur, einkennistákn íslenzkrar matargerðar. Ojbjakk.
Ég kunni betur við mátulega soðið og sítrónuvætt brokkálið. Sömuleiðis ostað blómkálið. En magnið af öllu þessi meðlæti var eins og fyrir heilan herflokk.
Steinseljusmjörið var líka gott, en óhóflega mikið. Það á ekki að bjóða gesti upp á rúmlega hundrað grömm af smjöri í meðlæti með kjöti. Hann gæti fallið fyrir freistingunni. Þjóðin er löngu hætt að svelta.
Verðið er 9.300 krónur.

Ýsa
Steikt fiskflök Doria voru á seðli dagsins. Þetta var smjörsteikt ýsa, sennilega úr frystihólfi, en eigi að síður bragðgóð. Hún hafði ekki gleymst á pönnunni, eins og oft vill verða hér á landi.
Enn komu í ljós margumtalaðar kartöflur, einnig ferskar, smjörsteiktar gúrkur, nýir tómatar, salatblöð og sítrónur. Hvílíkur léttir eftir allt dósagrænmetið!
Verðið er 3.700 krónur.

Melóna
Kældar melónur með sykri sjást ekki oft á íslenzkum matseðlum. Þær fást þó merkilegt nokk á Borg, prýðilegur eftirréttur, sem fer vel í maga.
Verðið er 1.700 krónur.

Ostabakki
Blandaðir ostar á bakka með brauði og smjöri reyndist vera einn skrautlegasti ostabakki, sem ég hef séð borinn fram fyrir einn mann. Þar var úr nógu að velja, þótt smurostarnir fjórir freistuðu mín ekki.
Þarna gaf að líta gráðaost, gouda- og mysuost, rúgbrauð, hrökkbrauð og ritzkex, smjör, vínber og mandarínur. Þetta var heilt veizluborð, þótt eftirréttur væri.
Ég átel þó, að boðið sé upp á mandarínur úr dós, þegar ferskar mandarínur hafa fengizt í búðum á hverjum einasta degi um margra mánaða skeið.
Verðið er hátt, 4.000 krónur sem eftirréttur.

Kaffi
Kafið á Borg reyndist vera sæmilegt og borið fram með ósviknum rjóma. Hins vegar var írska kaffið nauðaómerkilegt, hálfkalt og illa útlítandi eftir hristing á ferð þess úr eldhúsi inn á borð.

Skýjaverð

Borgin er mjög dýr veitingastofa miðað við gæði. Hún er í sama verðflokki og Holt og Saga, þótt gæðin séu mun síðri.

Að vísu er hægt að fá á Borg þríréttaðan mat fyrir 7.200 krónur af seðli dagsins, en slíkur matur kostar þó ekki nema 5.000-7.600 krónur á Loftleiðum. Með kaffi og hálfri flösku af Chianti Classico á mann mundi þessi matur kosta 9.500 krónur á Borginni.

Meðalverð átján forrétta, súpa og smárétta á Borg er 3.700 krónur, ellefu aðalrétta úr kjöti og fiski 7.700 krónur og níu eftirrétta 2.400 krónur. Samtals eru þetta 13.800 krónur. Með kaffi og hálfri flösku af víni ætti meðalmáltíð af fastaseðli Borgar að kosta 16.100 krónur.

Slík máltíð kostar 16.300 krónur á Sögu, 15.700 krónur á Loftleiðum, 15.100 krónur í Holti og 14.500 krónur í Nausti.

Mismunur rétta á Borg reyndist vera svo mikill, að tæplega er hægt að gefa matreiðslunni einkunn. Að fara meðalveginn og gefa þrjá segir ekki alla söguna, því að gestir geta með lagi komist yfir mat með betri einkunn.

Samt veða þrír að duga í einkunn fyrir mat, því að Borgin fær núll fyrir þann þátt að vara gesti ekki við humri og laxi. Þjónustan á Borg fær sex í einkunn, vínlistinn þrjá og umhverfi og andrúmsloft fá sjö í einkunn. Heildareinkunn Borgar sem veitingahúss er fjórir.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Að gefa brú og bát.

Greinar

Fjármálamunur Íslands og nágrannalandanna beggja vegna Atlantshafsins er einkum sá, að hér er arðvænlegra að hagnast á verðbólgu en arðbærum framkvæmdum. Þess vegna er meiri sókn í lánsfé hér á landi en í nágrannalöndunum.

Þegar lán er að hluta til gjöf, er búinn til jarðvegur spillingar í fjármálum. Íslenzku stjórnmálaflokkarnir hafa sérhæft sig í þessari spillingu. Þeir hafa komið umboðsmönnum sínum fyrir í öllum lánastofnunum þjóðarinnar.

Einmitt vegna þessa geta stjórnmálamenn Íslands ekki náð tökum á verðbólgunni. Hún er undirstaða valds stjórnmálamanna og efnahags gæðinga þeirra. Satt að segja snúast íslenzk stjórnmál að verulegu leyti um viðhald verðbólgu.

Samt er Lúðvík Jósepsson líklega eini stjórnmálamaðurinn, sem viðurkennir þetta opinberlega og berst fyrir meiri verðbólgu, það er að segja lægri vöxtum. Nærri allir aðrir segja, að verðtryggja þurfi sparifé.

Nýja ríkisstjórnin hefur fulla verðtryggingu á stefnuskrá. Vinstri stjórnin í fyrra sagðist stefna að sama marki. Sama er að segja um hægri stjórnina þar á undan. Þessi þykjusta hefur verið föst stefna í nokkra áratugi.

Auðvitað meina þeir ekki neitt með þessu. Síðustu árin hefur verðtrygging verið fjarlægari en nokkru sinni fyrr. Jafnframt hafa stjórnmálaflokkarnir hert tök sin á fjármagni þjóðarinnar. Framkvæmdastofnunin er þar stærsta skrefið.

Málum er hagað þannig, að mjög lítið eigið fé myndast í atvinnulífinu. Það er því í vaxandi mæli komið upp á fyrirgreiðslur lánastofnana, sem blanda saman faglegum arðsemissjónarmiðum og pólitískum gæðingasjónarmiðum.

Með Framkvæmdastofnuninni hefur stjórnmálamönnum tekizt að búa til gífurlega öflugan banka á grundvelli svokallaðra “félagslegra” sjónarmiða samhliða arðsemissjónarmiðum. Þar með er orðið auðveldara en áður að mata gæðingana.

Sjálfstæðisflokkurinn þykist vera á móti hinu pólitíska kommissarakerfi Framkvæmdastofnunar. En það er bara ekkert að marka þá stefnu. Strax og flokkurinn fékk tækifærið, kom hann sínum manni í kommissarastöðu, auðvitað alþingismanni.

Sverrir Hermannsson varð í síðustu kosningabaráttu alræmdur fyrir að segja Austfirðingum bæði opinskátt og undir rós, að þeir mættu gjarnan muna sér margvíslegar framfarir í fjórðungnum, sem stofnunin hefur stuðlað að.

Hugmyndin er sú, að Austfirðingar verði að halda áfram að kjósa Sverri á þing, svo að þeir geti haldið áfram að fá vegi og brýr, verksmiðjur og bryggjur, báta og orkuver. Sverrir og hinn “félagslegi” banki eru runnir saman í eitt.

Þar með er spillingin í samruna stjórnmála og fjármála komin á svo geigvænlegt stig að sjálft lýðræðið er í hættu. Annað hvort heldur þjóðskipulagið áfram út í mafíufenið, eða þá að hinir betri stjórnmálamenn fara að stinga við fótum.

Afnám verðbólgu og björgun lýðræðis er hvort tveggja háð þeirri forsendu, að skilið verði á milli stjórnmálavalds og fjármálavalds. Fyrsta skrefið á þeirri braut er afnám kommissara Framkvæmdastofnunar ríkisins.

Sérhver ný ríkisstjórn hefur tækifæri til að velta þessum bautasteini íslenzkrar spillingar. Nú hefur ný ríkisstjórn tækifæri til að losa Framkvæmdastofnunina við Sverri Hermannsson og það án þess að ráða henni nýja kommissara.

Krafan um þetta er ófrávíkjanleg.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Skipt um hlutverk.

Greinar

Hlegið var um allt land þegar Ragnar Arnalds kom með alvarleg augu á skjáinn og tilkynnti, að enginn grundvöllur væri til grunnkaupshækkana á þessu ári. Kenningin um samningana í gildi hvarf eins og dögg fyrir einum stjórnarskiptum.

Menn hlógu ekki að því, að fjármálaráðherra Alþýðubandalagsins hefði sagt einhverja vitleysu. Hann var bara að lýsa þeirri einföldu og óumflýjanlegu staðreynd, að stöðnun þjóðarhags hlýtur að endurspeglast í stöðnun lífskjara.

Menn hlógu að nýrri staðfestingu þess, að hinn pólitíski farsi sé alltaf hinn sami, hvort sem ríkisstjórnir eru kenndar við vinstri eða hægri eða eitthvað annað. Reynsla okkar á síðasta áratug er, að þessar stjórnir séu allar eins.

Farsinn felst m.a. í því, að heilir flokkar kúvenda við stjórnarskipti. Nú ætlar Alþýðubandalagið að reyna að verða ábyrgur flokkur. Og Sjálfstæðisflokkurinn hyggur á harða andstöðu gegn málefnasamningi, sem er fremur hægrisinnaður.

Mjög gaman verður að fylgjast með ábyrgðarlausri stjórnarandstöðu Sjálfstæðisflokksins, yfirboðum hans í útgjöldum og hvatningum Morgunblaðsins til ófriðar í atvinnulífi, allt frá loðnuskipstjórum til opinberra starfsmanna.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið við hlutverki Alþýðubandalagsins, sem nú þarf á því að halda, að almenningur skipti um þá skoðun, að það sé ábyrgðarlaus flokkur í eðli sínu. Aðhaldsprédikun Ragnars Arnalds er liður í því.

Dálítið er broslegt að það skuli einmitt vera alþýðubandalagsmaður, sem hefur fengið það hlutverk að sitja á kassanum og hindra hina ráðherrana í að láta greipar sópa. Kannski verður það til að breyta áliti manna á Alþýðubandalaginu.

Auðvitað eru þó alvarleg augu á skjánum álíka lítils virði og frómar yfirlýsingar í málefnasamningi um aðhald í ríkisfjármálum, seðlaprentun og skuldasöfnun. Það, sem gildir, eru hinar áþreifanlegu gerðir ríkisstjórnarinnar.

Hún fær á næstunni næg tækifæri til að sýna þjóðinni, hversu föstum tökum hún hyggst taka þetta aðhald. Hún fær ýmis tækifæri til að spara og draga úr spennu af opinberri hálfu. Nefna má nokkur dæmi af handahófi.

Hún getur sparað þjóðinni laun kommissara Framkvæmdastofnunar og efnt þannig gamalkunnugt og margsvikið kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins. Þar með gæti hún líka grafið undan grófustu fjármálaspillingu íslenzkra stjórnmála.

Hún getur neitað sér um aðstoðarráðherra og þar með lækkað ráðherrakostnaðinn frá því, sem var í fyrra. Þá voru ráðherrar níu og aðstoðarmenn fimm eða samtals fjórtán hátekjumenn. Nú eru ráðherrarnir tíu og ættu að standast freistingar.

Hún getur neitað sér um að græða á yfirvofandi hækkun á bensíni og öðru eldsneyti. Hún getur hætt að nota prósentuálagningu og farið að miða við krónutölu. Enda er alveg út í hött, að ríkissjóður lifi á atburðum úti í heimi.

Undir lok síðustu vinstri stjórnar voru allir ráðherrarnir, nema þáverandi fjármálaráðherra, komnir með samvizkubit út af ofsagróða ríkisins af erlendum olíuhækkunum. Þeir viðurkenndu opinberlega, að prósentustefnan hefði gengið sér til húðar.

Þá barði Tómas Árnason okrið í gegn. Nú er aftur á móti Ragnar Arnalds orðinn fjármálaráðherra og ætlar að sýna okkur, hvort eitthvað sé að marka talið um aðhald eða hvort farsi íslenzkra stjórnmála sé alltaf eins.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Gunnar burstaði Geir.

Greinar

Munurinn á fylgi Gunnars Thoroddsen og Geirs Hallgrímssonar er svo hrikalegur, að Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki staðið undir núverandi afstöðu sinni. Þrír af hverjum fjórum sjálfstæðismönnum styðja fremur Gunnar en Geir og þar að auki allur þorri óháðra kjósenda.

Skoðanakönnunum Dagblaðsins getur skeikað um nokkur prósentustig eins og öðrum könnunum af því tagi. En í þetta sinn eru úrslitin svo eindregin, að hugsanlegar skekkjur skipta ekki nokkru máli. 85% sjálfstæðismanna og óháðra styðja Gunnar, en aðeins 15% þeirra styðja Geir.

Þess ber að gæta, að með orðinu “sjálfstæðismenn” er átt við kjósendur Sjálfstæðisflokksins, einnig þá sem ekki eru flokksbundnir. Reikna má með, að fylgi Geirs sé eitthvað skárra meðal flokksbundinna sjálfstæðismanna. Altjend fékk hann þessi 109 atkvæði í flokksráðinu!

Samkvæmt könnuninni eru 30% Íslendinga sjálfstæðismenn og önnur 30% eru óháðir kjósendur. Það er í þessum tveimur hópum, samtals 60% þjóðarinnar, sem Sjálfstæðisflokkurinn Ieitar fylgis í kosningum. Sem kosningavél hlýtur flokkurinn að verða að stokka spilin.

Með Geir Hallgrímssyni nær Sjálfstæðisflokkurinn til fjórða hvers kjósanda flokksins, en ekki hinna þriggja, né til óháðra kjósenda. Með Gunnari Thoroddsen nær flokkurinn hins vegar til mikils hluta sjálfstæðismanna og til nær alls þorra óháðra kjósenda.

Þingflokkur sjálfstæðismanna, miðstjórn og flokksráð hafa því hafnað þeim leiðtoga, sem leitt gæti flokkinn til meirihlutafylgis með þjóðinni. Og valið hinn, sem ekki hefur nokkurn stuðning út fyrir þrengsta hring þeirra, er setja flokkstryggð ofar öllu öðru.

Í könnuninni örlaði á þeirri skoðun, að Gunnar hafi “komið aftan að flokknum og svikið hann” og að það sé “ekki fallega gert af Gunnari”. En ummæli af þessu tagi voru alveg einangruð fyrirbæri. Margfalt algengara var, að hinir spurðu litu á Gunnar sem mikilmenni:

“Gott framtak hjá Gunnari”. “Gunnar hefur sýnt forystuhæfileika”. “Gunnar sýndi kjark”. “Gunnar hefur sannað, að hann er mikilmenni”. “Gunnar er miklu hæfari stjórnmálamaður á allan hátt og hann gerði rétt að rífa sig lausan úr flokksböndunum”. Í þessum dúr var fjöldi svara.

Hins vegar er þetta dæmigert svar um Geir: “Það var ekkert annað en slys, þegar Geir Hallgrímsson varð formaður flokksins. Það er að verða stórslys, að hann skuli ekki geta talað við aðra flokksmenn en einhverja klíku, sem er einangruð frá hinum almenna kjósanda”.

Margir hinna spurðu í könnuninni lögðu til, að Sjálfstæðisflokkurinn lærði eitthvað af slysi sínu: “Styð Gunnar af alefli sem sjálfstæðismaður og vonast til, að þetta verði til að hrista upp í flokknum, honum til góðs”. Samt berja þingflokkur, miðstjórn og flokksráð höfði við stein.

Marklaust væri að vefengja skoðanakönnun Dagblaðsins. Efasemdarmenn ættu fremur að fá flokkinn til að kanna hugi sjálfstæðismanna, heldur en að stirðna í biti hins súra eplis Geirs Hallgrímssonar. Skoðanakannanir er þekking, sem taka verður mark á, eins og annarri þekkingu.

Trúnaðarmenn Sjálfstæðisflokksins naga sig sumir í handarbökin um þessar mundir. Þeir eru að sjá hlutdeild sína í ábyrgðinni á smækkun og einangrun flokksins á eins konar Geirfuglaskeri. Jafnframt sjá þeir, að hinn svonefndi “svikari” er sá, sem kosningavélin þarf á að halda.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Við skulum hvergi fara.

Greinar

Horfur hafa batnað á því, að Vesturlönd sitji heima í sumar, þegar Moskvumenn halda lyfjaþrælasýningu undir fána Alþjóða ólympíunefndarinnar. Gíslar Halldórssynir Vesturlanda kveina að vísu og kvarta, en verða vonandi að láta undan síga fyrir ofurþunga almenningsálitsins.

Lyfjaþrælasýningin er þegar orðin marklítil, úr því að Bretar, Bandaríkjamenn og Kenyamenn segjast hvergi ætla að fara. Þar á ofan eru Vestur-Þjóðverjar komnir á fremstu nöf að hætta og yrði áróðurshátíðin þá endanlega marklaus. Norðmenn og Hollendingar voru áður farnir að tvístíga.

Fyrst eftir innrás Sovétríkjanna í Afganistan reyndu leiðtogar Frakklands og Vestur-Þýzkalands að bjarga leifum slökunarstefnunnar með því að greina milli atburða í Evrópu og Asíu. Þeir fóru undan í flæmingi, nákvæmlega eins og Chamberlain á sínum tíma.

Útlegð Sakharofs virðist hafa opnað augu ráðamanna Frakklands og Vestur-Þýzkalands fyrir því, að ekkert mark er takandi á undirskriftum leiðtoga Sovétríkjanna. Þeir nota ólympíuleikana til kerfisbundinna brota á mannréttindakafla sáttmálans frá Helsinki.

Úr því að Sovétstjórnin hunzar mannréttindasamninga sína og fer með hervaldi inn í önnur ríki, er hún jafnvís að hunza alla þá slökunarsamninga, sem hún hefur undirritað og hyggst undirrita. Innrásin í Afganistan og útlegð Sakharofs voru kornin tvö, sem fylltu skilningsmælinn.

Með fjarveru sinni frá áróðurssýningunni í Moskvu mundu Vesturlönd sýna sovézkum almenningi, að framganga sovézkra valdamanna er fyrirlitin um heim allan. Hugsanlegt er, að Sovétmenn vakni svo smám saman til vitundar um ýmsar hættur, sem fylgja heimsvaldastefnu Sovétstjórnarinnar.

Jafnframt er líklegt, að stöðvuð verði leið ólympíuleikanna niður í svaðið. Undir forustu austantjaldsríkja og með samábyrgð misviturra, vestrænna íþróttastjóra eru þessir leikar orðnir hreint hneyksli. Þeir eru bein andstaða allra hugsjóna, sem íþróttir byggjast á.

Sovézk yfirvöld fara með íþróttafólk sitt sem rómverska skylmingaþræla. Því er misþyrmt á varanlegan hátt með því að dæla í það lyfjum til að auka afköst þess á andartaki keppninnar. Og lyfjaeftirlitið í Moskvu verður algerlega í höndum sovézkra yfirvalda.

Um þetta segir Magnús Torfi Ólafsson: “Enginn, sem kynnt hefur sér atferli sovézkra íþróttayfirvalda, er í vafa um, að það tækifæri verður notað.” Hann segir líka: “Þó tekur fyrst steinninn úr, þegar kemur að dómarastörfum sovézkra keppnisdómara. Framferði þeirra er fyrir löngu alræmt…”

En það er ekki nóg fyrir Vesturlandabúa að vakna til vitundar um þetta. Það er ekki nóg að brjóta niður spillta lyfjaþrælasýningu. Um leið þarf að gefa íþróttafólki sanna leika í staðinn. Og það er hægt með litlum fyrirvara, þótt engin ein borg geti hýst alla leikana.

Stungið hefur verið upp á, að frjálsum leikum verði dreift um heiminn, þannig að hver grein verði á sínum stað, hlaup í Kenya, stökk í Bandaríkjunum o.s.frv. Hinar stóru sjónvarpsstöðvar heims mundu svo sameina alla þessa leika í beina útsendingu um gervihnetti til allra átta.

Síðan geta menn hugleitt, hvort þetta sé hið skynsamlega framtíðarform ólympíuleika sem alþjóðlegs fyrirbæris eða hvort nota beri næstu fjögur ár til að flytja leikana aftur til Grikklands. Ef til vill má sameina aðferðirnar með því að láta framvegis hina táknrænu þætti fara fram í Olympíu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Hornið

Veitingar

Hin nýlega veitingastofa Hornið hefur bezt hlutfall verðs og gæða af þeim stöðum, sem fjallað hefur verið um í gæðaprófun Vikunnar. Þar má fyrir tiltölulega lítið verð fá mat og þjónustu, sem jafnat á við sum vínveitingahúsin og slær önnur þeirra út.

Hornið er lítið og tekur aðeins rúmlega 40 í sæti. Sæmilegt rými er milli borða og hreinlæti í veitingasal er á háu stigi. Andrúmsloftið er viðkunnanlegt og hvetur til langrar setu. Lágvær tónlistin er vel valin.

Innréttingar eru einfaldar og þó djarfar. Mest áberandi eru hinar gífurlegu pappírsljósakrónur yfir borðunum. Og fljótlega beinast augun að innmúruðum peningaskápnum í einu horninu.

Tágastólar eru við smíðajárnsborð með einkar skemmtilegum marmaraplötum. Steinflísar eru á gólfi og grár panill í veggjum og lofti. Á veggjum hangir ýmislegt dót, svo og stór skólatafla, sem á er krítaður réttur dagsins.

Gluggar eru mjög stórir og tjaldalausir, svo að tengslin við umferðina í Hafnarstræti eru náin. Kuldanum frá glugganum er svo mætt með miklu blómaskrúði fyrir innan. Það gefur stofunni tiltölulega hlýlegan blæ, þrátt fyrir gluggana.

Ítalskt
Ítölsk þjónustan var ágæt. Þjónarnir tveir virtust hafa nægan tíma til að sinna gestum, þótt Hornið væri um það bil fullsetið. Þeir voru ekki eins lærðir og íslenzkir fagmenn, en bættu það upp með ljúfmennsku og brosi.

Matseðillinn var furðu stór á svona litlum stað. Hann er saminn undir ítölskum áhrifum, á franskri tungu, – og með íslenzkum skýringum. Boðið var upp á rétt dagsins, sex forrétti, ellefu aðalrétti, fimm pizzur og fimm eftirrétti.

Kjötréttirnir voru aðeins tveir, lamb og kjúklingur. Mest var byggt á sjávarréttum og voru þeir átta af ellefu aðalréttum. Það gladdi auga mitt, því að hér á landi er fiskur og önnur sjávarfæða eitt bezta hráefnið.

Því miður hafði Hornið frystan fisk á boðstólum, en ekki ferskan, sem fékkst þó sama dag í fiskbúðum. Og Hornið gerði ekki skarpan greinarmun á rauðsprettu, smálúðu og ýsu í eldhúsinu, þótt matseðillinn þykist gera það.

Matnum var fallega komið fyrir, oftast í djúpum, skemmtilegum skálum með hrísgrjónum í botni. Tilfinning fyrir lystaukandi útliti matar virtist vera mun meiri en gengur og gerist á íslenzkum veitingastofum. Og maturinn var heitur.

Hörpuskelfiskur
Pönnusteiktur hörpuskelfiskur með hrísgrjónum, ananas og karrísósu var frekar smávaxinn og virtist fremur vera úr dós en frysti. Samt var hann meyr og hafði eðlilegt bragð. Meðlætið var ágætt, seljustönglar, hrásalat og gulrætur.
Þessum rétti sem flestum öðrum fylgdi gott hvítlauksbrauð og grautsoðin hrísgrjón, sem mér fannst lítið til koma. Ég tek stinn hrísgrjón langt fram yfir þessi.
Verðið er 3.800 krónur.

Smálúðuflök
Smálúðuflök í bakaðri kartöflu með rækjusósu báru þess greinileg merki, að þau voru úr frysti. Sem slík voru þau vel matreidd, ekki ofsoðin. Þau hvíldu á mjög stórri, opinni kartöflu. Mér fannst þetta sæmilegt, en fremur bragðdauft.
Verðið er 2.850 krónur.

Ýsa?
Pönnusteikt “smálúða” með kapers, lauk og hvítlauksbrauði var réttur dagsins. Mér fannst lúðan minna mig mjög á ýsu. En hún var mjög góð, mátulega steikt, mjúk og safarík. Með henni fylgdi ágætt hrásalat, gúrka og sítróna, svo og áðurnefndu, grautsoðnu hrísgrjónin.
Verðið er 2.390 krónur, sannkölluð kostakaup.

Humarhalar
Smjörsteiktir humarhalar með banönum og hrísgrjónum voru smávaxnir. Þeir höfðu verið steiktir fulllengi og við of mikinn hita, því að þeir voru allt að því brenndir. Þeir voru þó enn meyrir og reyndust búa yfir ágætu humarbragði.
Verðið er 6.400 krónur, ódýrara en á vínveitingahúsunum, en ekki eins gott.

Spaghetti
Spaghetti með tómötum og hvítlauk reyndist vera spaghetti í sérhannaðri tómatsósu, fremur lítilfjörlegur matur.
Verðið er 2.450 krónur.

Kjúklingur
Ofnbakaður hnetukjúklingur með salati, ofnbakaðri kartöflu og hvítlaukssmjöri var fremur mikið bakaður og þurr, en eigi að síður næstum því frambærilegur. Með honum fylgdi bráðið hvítlaukssmjör. Hnetubragð fann ég hvergi.
Verðið er 4.300 krónur.

Lamb
Lambakjöt að austurlenzkum hætti reyndist vera fyrirtaks matur á góðu verði. Þetta var blanda af kjöti og grænmeti, borin fram í ágætri sósu, ættaðri af tómötum. Kjötið var bæði meyrt og bragðgott.
Verðið er 3.300 krónur.

Pitsa
Ég prófaði pizzuna með tómati, osti, spergli og pepperoni, svonefnda Napólí-pizzu. Það var hápunktur prófunarinnar, því að þetta var langbezta pitsa, sem ég hef fengið hér á landi. Deigbotninn var næfurþunnur og stinnur. Áleggið var í gullnu samræmi. Svo var pitsan sjóðheit, þegar hún kom á borðið. Það var eins og ég væri kominn til Ítalíu.
Verðið er 2.450 krónur. Verð á öðrum pizzum er frá 2.200 krónum upp í 2.900 krónur.

Camembert
Djúpsteiktur camembert-ostur með jarðarberjamauki var mjög vel heppnaður, linur alla leið í gegn.
Verðið er 1.550 krónur sem eftirréttur.

Alvörukaffi
Eins og vera ber á veitingastað undir ítölskum áhrifum var boðið upp á almennilegt kaffi úr espressovél. Þar var venjulegt espresso, café latte með loftþeyttri mjólk og cappucino með súkkulaðidufti. Kaffið eitt er heimsóknar virði.
Verð hverrar tegundar er 450 krónur.

Alvörute
Hornið er eini staðurinn, sem ég þekki hér á landi, sem hefur komið sér upp temenningu. Þar geta gestir valið um tvær tegundir, Earl (misritað Early á matseðli) Gray og hið kínverska Jasmin. Þetta framboð er merk nýjung í veitingamennsku. Kannski fáum við bráðum Lapsang Souchong, Darjeeling og Formosa Oolong.
Verð hvorrar tegundar er 450 krónur.

Hálft verð

Meðalverð sex forrétta er 1.300 krónur, ellefu aðalrétta 3.600 krónur – og 3.200 krónur, ef pizzurnar fimm eru meðtaldar. Meðalverð fimm eftirrétta er 1.500 krónur.

Þríréttuð máltíð án öls og kaffis ætti því að kosta að meðaltali um 6.400 krónur og 7.500 krónur með öli og kaffi.

Þetta eru helmingi lægri tölur en þær, sem tíðkast í vínveitingahúsunum. Hornið er að vísu engin Saga eða Holt, en býður þó fyrir þetta verð upp á mat, sem er í sómasamlegu meðallagi, eftir því sem mínar kröfur gerast, framreiddan á alúðlegan hátt í vingjarnlegu umhverfi.

Vínið vantar

Hornið er án efa meiri háttar innlegg í íslenzkan veitingarekstur, þótt lítið sé. Þar vantar nú fyrst og fremst vínveitingaleyfi. Með góðum, léttum vínum mundi matargerð eldhússins komast mun betur til skila.

Hornið er ágætt dæmi um stofu, sem veita ætti undanþágu fyrir létt vín, alveg eins og Esjuberg og Loftleiðakaffitería hafa fengið og rekið með sóma. Af hverju rugla yfirvöld alltaf saman brennivínum og fylleríi annars vegar og matarvínum og borðhaldi hins vegar?

Hornið fær sex fyrir matreiðslu, átta fyrir þjónustu og átta fyrir umhverfi. Heildareinkunn veitingastofunnar er sex af tíu mögulegum.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Aðhald í tæka tíð.

Greinar

Leiftursókn Sjálfstæðisflokksins gegn verðbólgu náði ekki fram að ganga í kosningunum í desember. Greinilegt var, að kjósendur óttuðust offors og hölluðust fremur að hægfara sókn gegn verðbólgu í stíl Framsóknarflokksins.

Þetta viðurkenndi Morgunblaðið síðar, þegar Sjálfstæðisflokkurinn virtist einangraður. Þá bauð blaðið faðminn til allra átta og talaði meira að segja um nauðsyn “sögulegra sátta” Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags.

Málefnasamningur hinnar nýju ríkisstjórnar dregur dám af þessari staðreynd. Í verðbólgumálum er hann fremur hægfara og raunar óljós. Satt að segja er ekki hægt að átta sig á, hvort hann felur í sér nokkra sókn gegn verðbólgu.

Að vísu er í öðru orðinu talað um útbreiðslu verðtryggingar og sérstaklega nefnd full verðtrygging sparifjár. En í hinu orðinu er sagt, að verðbótaþáttur vaxta skuli ekki hækka 1. marz og síðan jafnvel lækka.

Ef ríkisstjórnin ætlar sér að verðtryggja innlán, en ekki útlán, er hætt við, að reynslan neyði hana til að skipta um skoðun. En trúlega er hér bara um að ræða þessa venjulegu óskhyggju, sem einkennir alla málefnasamninga.

Svo virðist sem ríkisstjórnin viti af hörðustu rótum verðbólgunnar, því að málefnasamningurinn fjallar um stóraukið aðhald í ríkisbúskapnum. Hætta á gegndarlausri peningaprentun í Seðlabanka og hafa hóf á erlendri skuldasöfnun.

Það dugir að vísu ekki eitt sér gegn verðbólgunni að reka ríkissjóð án greiðsluhalla. Framsóknarflokkurinn hafði þá stefnu í síðustu vinstri stjórn. En bættur hagur ríkis fékkst með hækkuðum sköttum og verðbólgan jókst.

Því miður er ekkert rætt um skatta í málefnasamningnum. Það vekur auðvitað ugg um, að einhverjar hækkanir séu fyrirhugaðar. Ummæli samningsins um aðhald í ríkisbúskap gefa þó á móti nokkra von um hófsemi í skattheimtu.

Hinu er þó ekki að leyna, að málefnasamningurinn stefnir í formi verðjöfnunar af ýmsu tagi að auknum álögum á íbúa suðvesturhorns landsins. Það á að verðjafna hitun, rafmagn, síma og meira að segja flutningskostnað.

Ríkisstjórnin þyrfti helzt að hafa tvennt í huga í verðjöfnunarofforsinu. Í fyrsta lagi má verðjöfnun ekki draga úr áhuga manna að leggja í nauðsynlegar framkvæmdir á borð við jarðvarmaveitur á sem flestum þéttbýlissvæðum.

Í öðru lagi hefur verðjöfnun fleiri hliðar en þær, sem getið er um í málefnasamningi. Breiðholtsbúar hafa að meðaltali mun hærri samgöngukostnað vegna vinnu sinnar en íbúar sjávarplássa. Og hvað um jöfnun á tekjum eftir landshlutum?

Hin harða dreifbýlisstefna ríkisstjórnarinnar lýsir sér líka í landbúnaðarkafla málefnasamningsins. Samkvæmt honum á að endurvekja hina fullkomnu sjálfvirkni í fjármögnun landbúnaðar, sem Ingólfur á Hellu kom á í tíð viðreisnar.

En þá voru líka uppgangstímar í landinu. Þjóðin kveinkaði sér ekki svo mjög undan byrðum landbúnaðar. Ástandið er allt annað núna og ríkisstjórnin getur hæglega farið flatt á ofrausn í garð landbúnaðar.

Með þessum athugasemdum er ekki sagt, að málefnasamningurinn sé vondur. Nokkur atriði í honum valda áhyggjum, sem ríkisstjórnin dreifir vonandi, þegar til kastanna kemur. En ekki sakar, að hún fái aðhaldið í tæka tíð.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Í húsi föður míns…

Greinar

Hatrammar yfirlýsingar formanna Sjálfstæðisflokksins og þingflokks hans eru fyrirboði hreinsana. Gunnarsmönnum, Albertsmönnum og öðrum vafamönnum verður vísað úr áhrifastöðum flokksins og tryggum Geirsmönnum skipað til sætis.

Fyrstu skrefin á þessari braut eru yfirlýsingar miðstjórnar flokksins, fulltrúaráðsins í Reykjavík og kjördæmisráðsins á Reykjanesi. Í þeim er harmað framtak Gunnars Thoroddsen og lýst trausti á Geir Hallgrímsson flokksformann.

Hápunktur þessarar hreinsunar gæti verið sérstakur landsfundur flokksins, sem halda mætti þegar í vor. Að slíkum fundi loknum yrði Sjálfstæðisflokkurinn orðinn einhuga og einangraður klúbbur sérviturra íhaldsmanna.

Þar með verður úr sögunni hinn sérkennilegi flokkur Ólafs Thors, hið víðtæka kosningabandalag ýmiss konar íhaldsmanna og frjálslyndra, sem stefndu fremur að miklu fylgi en hreinræktaðri, hægri sinnaðri stjórnmálatrú.

Svo fjölbreyttur flokkur þurfti á að halda leiðtoga eins og Ólafi Thors. Hann var maður, sem gat sameinað stríðandi öfl. Hann var friðarhöfðingi, sem bar klæði á vopnin og hindraði klofning hans í frumeindir.

Þetta breyttist með Bjarna Benediktssyni. Hann hafði allt aðra skapgerð, hataði ævilangt ýmsa flokksbræður sína, ekki aðeins Gunnar Thoroddsen, suma kannski fyrir einn brandara. Bjarni hefði aldrei haldið flokknum lengi saman.

Hið stutta tímabil Jóhanns Hafstein markaði óbeint afturhvarf til sjónarmiða Ólafs Thors. Það var Jóhann, sem sagði: “Í húsi föður míns eru margar vistarverur” og átti við, að flokkurinn yrði að þola innri fjölbreytni.

Geir Hallgrímsson hefur aftur á móti aldrei risið upp úr hlutverki klíkuformannsins. Stjórn hans á flokknum hlaut fyrr eða síðar að enda með þeim ósköpum, að klíkan sæti ein eftir í flokknum, eftir að hafa hrakið aðra á brott.

Það er furðulegt, hvernig Geir og aðrir arftakar Bjarna Benediktssonar hafa getað ræktað með sér og magnað hatur á Gunnari Thoroddsen í nærri þrjá áratugi. Það er furðulega langur hali á lítt merkilegum forsetakosningum.

Þetta sjúklega hatur kom greinilega fram í leiðara Morgunblaðsins á þriðjudaginn. Þar varð aðsetur skrifstofu sonar Gunnars að Laugavegi 18 að hornsteini kenningarinnar um “Rúbluna”, ríkisstjórnina í “höfuðstöðvum kommúnista á Íslandi”.

Ýmislegt má að málefnasamningi stjórnar Gunnars finna, en sízt verða þar fundnir kommúnistatónar. Samningurinn er raunar líkur því, sem búast mætti við í samstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, án aðildar Alþýðubandalags.

Svo virðist sem framtak Gunnars hafi fallið mörgum almennum kjósendum Sjálfstæðisflokksins vel í geð og uppreisnarmenn hans hafi trausta stöðu í kjördæmum sínum. Klofningurinn er því ekki til einnar nætur.

Margir áhrifamenn flokksins utan klíkna hafa hins vegar tilhneigingu til að fylkja sér um formanninn á róstutímum. Það auðveldar Geirsmönnum að efla völd sín í stofnunum flokksins. Þannig mun flokkseigendafélagið loks ná tökum á eign sinni.

Ekki er sjáanleg nein hreyfing til sátta í deilunni um ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen. Þvert á móti er stofnað til víðtækra hreinsana í flokknum, enda vilja Geirsmenn fremur hafa mikil völd í litlum flokki en lítil völd í stórum.

Úr stórum flokki Ólafs Thors verður þá einangrað og fámennt Geirfuglasker.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Þetta er hægri stjórn.

Greinar

Málefnasamningar ríkisstjórna hafa takmarkað gildi. Það gildir um hinn nýja samning eins og aðra fyrri. Við verðum að bíða og sjá, hvernig nýja ríkisstjórnin vinnur úr sínum samningi. Hún verður að fá að spreyta sig.

Málefnasamningur hinnar nýju ríkisstjórnar er bæði góður og vondur. Við skulum láta óskhyggjuna bíða betri tíma. Það, sem ríkisstjórnin vill vinna að og stefna að, eru mál, sem almenningur tekur afstöðu til, þegar þar að kemur.

Ljóst er, að ríkisstjórnin hefur mikinn meðbyr almennings. Fólkið á götunni styður hana að óreyndu. Slíkan óskabyr hafa fáar ríkisstjórnir fengið. Við verðum að vona, eins og Benedikt Gröndal, að hún nái sínum markmiðum.

Að meðaltali er óskhyggja ríkisstjórnarinnar jákvæð. Hún hvílir í föstum ramma vestrænnar samvinnu. Hún stefnir að íslenzkri sókn í landhelgismálum Jan Mayen. Hún byggir á frjálsum samningum aðila vinnumarkaðsins. Og hún vill reyna við Kröflu.

Hitt verður að játa, að landbúnaðarstefna Ingólfs á Hellu svífur yfir vötnum. Handarbrögð Pálma Jónssonar sjást greinilega á málefnasamningnum. Í landbúnaði verður rekin hörð Ingólfska, sem er andstæð sjónarmiðum þessa leiðarahöfundar.

Einnig er ljóst, að byggðastefna verður rekin með meira offorsi en Dagblaðið getur sætt sig við. Auðvitað viljum við, að allir lesendur blaðsins hafi jöfn lífskjör. En það má þó bera bensínkostnað Breiðhyltinga saman við vina okkar á Eskifirði.

Athyglisverðast í málefnasamningnum er þó, að þar gætir alls ekki áhrifa Alþýðubandalagsins. Svo virðist, sem áhugi þess á klofningi Sjálfstæðisflokksins hafi hreinlega valdið missi þess á austrænum áhugamálum.

Þessi málefnasamningur gæti verið saminn af Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum einum saman. Hann er fremur hægri sinnaður og aðhaldssamur. Kannski markar hann þau tímamót, að Alþýðubandalagið gerist loks ábyrgur flokkur.

Greinilegt er, að staða Íslands meðal vestrænna ríkja helzt óbreytt. Endurskoðuninni á reisn flugstöðvar í Keflavík eru allir sammála. Enda stefnir hönnun hinna bandarísku sérfræðinga á 8-10 milljarða kostnað af hálfu Íslendinga.

Svo eru mjög jákvæðar hliðar í málefnasamningnum. Hæst ber þar harða Jan Mayen stefnu eftir 18 mánaða linkind og sviksemi Alþýðuflokksins. Þar er Ólafur Jóhannesson á réttum stað. Við öfundum ekki Norðmenn af því.

Einnig kemur Krafla aftur í sviðsljósið, Dagblaðið hefur oftsinnis kvartað yfir Alþýðuflokknum á því sviði. Við Kröflu er verið að gera djarfa tilraun, sem getur orðið lykillinn að framtíð okkar, ef menn missa ekki móðinn.

Eitt hægri sinnaðasta markmið þessa málefnasamnings eru frjálsir samningar á vinnumarkaðinum. Þar er komið upp markmið, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur gleymt á löngum ferli sínum í möppudýramennsku. Megi það markmið lengi standa.

Það vill líka svo til, að Vinnuveitendasambandið hefur eflzt mjög að undanförnu. Það er orðið að jafngildum aðila og Alþýðusambandið. Þess vegna er nú loks orðinn grundvöllur að því, að þessir aðilar tefli sína skák af sanngirni.

Ríkisstjórnin stefnir að greiðsluhallalausum fjárlögum, fullri verðtryggingu sparifjár, takmarkaðri fjárfestingu og takmarkaðri greiðslubyrði af erlendum lánum. Allt eru þetta hægri sinnuð markmið, svo framarlega sem skattar hækka ekki.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið