Author Archive

Í vitlausri röð.

Greinar

Sennilega verður Háskóli Íslands búinn að útskrifa hundraðasta félagsfræðinginn áður en hann útskrifar fyrsta sjávarútvegsfræðinginn. Í þessu efni fylgir skólinn þeirri kenningu, að bókvitið verði ekki í askana látið.

Auðvitað þarf háskólinn að mennta félagsfræðinga eins og aðra fræðinga. Hitt er þó ekki síður augljóst, að skólinn hefur tekið verkefnin í vitlausri röð. Fræðsla í þágu atvinnuveganna hefur verið látin sitja á hakanum.

Norðmenn hafa annan hátt á þessu. Þeir eru ekki eins háðir sjávarútvegi og við erum. Samt reka þeir skipulega kennslu í sjávarútvegi allt frá fjölbrautaskólum upp í doktorsgráður. Og þar er mjög sótzt eftir sjávarútvegsfræðingum.

Í Noregi er sérstakur sjávarútvegsháskóli, sem kennir skipulag veiða og vinnslu, hagfræði veiða og vinnslu, tækni veiða og vinnslu, fiskirækt, fiskilíffræði, fiskifræði og matvælafræði auk ýmissa annarra greina.

Norðmenn tengja þessa kennslu vísindalegum rannsóknum, sem stefna að auknum árangri sjávarútvegs. Til dæmis eru þeir að vinna að aðferðum til að auka nýtingu þorsks og loðnu og búa á þann hátt til milljarðaverðmæti.

Þeir hyggjast auka nýtingu þorsks úr 37% í 62% með því að búa til fiskimassa úr þeim hlutum, sem ekki nýtast í flök. Í íslenzkum tölum mundi þetta auka verðmæti 300 þúsund tonna af þorski um 20 milljarða íslenzkra króna.

Þeir eru þegar búnir að reisa tilraunaverksmiðju til vinnslu loðnumassa í fiskibollur til manneldis. Með því geta þeir aukið verðmæti 100 þúsund tonna af loðnu úr fimm milljörðum íslenzkra króna í átján milljarða.

Þetta eru aðeins tvö af ótal dæmum um, að Norðmenn taka sjávarútveg alvarlega og vísindalega. Þeir hafna þeirri bábilju, að brjóstvitið eitt dugi til að gera sjávarútveg samkeppnishæfan við aðrar greinar og útveg annarra landa.

Þetta gera Norðmenn með því að kenna sjávarútveg á öllum stigum framhaldsskóla. Þetta gera þeir með því að afla sér langskólagenginna sjávarútvegsfræðinga og nýta kunnáttu þeirra í atvinnulífi og rannsóknastofnunum.

Þeir Norðmenn, sem um þessi mál fjalla, furða sig mjög á afskiptaleysi og áhugaleysi Íslendinga. Þeir furða sig meðal annars á, að Háskóli Íslands skuli ekki hafa reynt að fylgjast með framtaki Norðmanna í sjávarútvegsfræðum á háskólastigi.

Þeir furða sig á, hve lítinn áhuga fulltrúar Íslands í Norðurlandaráði hafa sýnt tillögum Færeyinga um norrænan sjávarútvegsháskóla. Þeir telja, að það standi raunar fiskveiðiþjóðinni Íslendingum næst að hafa frumkvæði að slíku samstarfi.

Margir eiga sök á því, að við höfum látið Norðmenn skjóta okkur ref fyrir rass í sjávarútvegi. Það eru stjórnmálamennirnir og flokkarnir. Það eru embættismenn menntamála og ráðamenn embættismanna-framleiðslunnar í Háskóla Íslands.

Við eigum vísi að sjávarútvegsfræðslu í Fiskvinnsluskólanum og í útgerðartæknideild Tækniskólans. Nú verðum við að hlúa að þessum vísi og gera unga fólkinu kleift að fjölmenna í nám á öllum sviðum sjávarútvegs.

Ef við gerum þetta ekki, drögumst við aftur úr. Sjálft íslenzka þjóðfélagið verður ekki lengur samkeppnishæft við önnur. Þess vegna þurfum við að setja okkur það mark að útskrifa fleiri sjávarútvegsfræðinga en félagsfræðinga.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið

Skrínan

Veitingar

Skrínan við Skólavörðustíg er sérkennilegur veitingasalur, engan veginn stílhreinn, en þó með skemmtilegu siglingaþema í innréttingum. Matreiðslan er svona upp og ofan, aðallega tilviljanaleg. Og afgreiðslan bendir til, að eigendur séu víðs fjarri, ef til vill í forstjóraleik.

Dimmt er inni í Skrínunni. Lýsingin er dauf frá skemmtilegum krónum úr netakúlum. Sérstaklega há og brött sófabök úr svörtu leðurlíki stúka salinn sundur þvers og kruss. Teppi á gólfum dempa enn frekar andrúmsloftið.

Aðall staðarins eru skreytingarnar, stór skipslíkön, myndir af skútum, gamlar blakkir, lágmynd af fiskibátum og sitthvað fleira, sem fer vel saman við gróft timbur í veggjum og lofti. Þetta þema er þó allt að því ofgert.

Ókunnugur gæti haldið, að þetta væri sjávarréttastofa. En í rauninni er Skrínan alveg laus við slíkt. Hún er steikarhús eins og flestar þær veitingastofur, sem opnaðar hafa verið undanfarinn áratug. Hún er hamborgarahorn í sparifötum.

Upp á síðkastið hefur verið nokkur losarabragur á Skrínunni, enda virðist gestum hafa fækkað frá því, sem áður var. Afgreiðslan er meðal annars í höndum stúlkna, sem virðast annars hugar, líkt og svo margar afgreiðslustúlkur hér á landi.

Fyrir Vikuna prófaði ég Skrínuna með ráðgjöfum mínum bæði í hádegi og að kvöldi. Niðurstaðan var tvíræð, svört í hádeginu og grá að kvöldinu. Fyrir bragðið var ekki auðvelt að gefa staðnum einkunn fyrir matreiðslu.

Í hádeginu voru pantaðir réttir af matseðli dagsins, en að kvöldinu af fastaseðlinum. Eftir reynslu minni að dæmi ætti að vera skárra, en auðvitað dýrara, að panta af fastaseðlinum. Kokkarnir vanda sig betur við slíka rétti.

Súpa
Súpa, nafnlaus í hádegisprófuninni, var sérkennileg hveitisúpa, hugsanlega blönduð úr súpu gærdagsins og nýrri súpu dagsins. Í henni kenndi grænna bauna, gulróta og spergils, en einkum þó hveitis. Þetta var leiðindasúpa. Verðið var 660 krónur.

Fiskur
orly fiskur í sama hádegi var djúpsteiktur með kokkteilsósu, frönskum og hrásalati. Þetta var ólystugur fiskur í ákaflega harðri skorpu og fylltur með einhverju ljósbrúnu farsi, sem var of bragðlaust til að ég gæti nafngreint það. Verðið var 2.120 krónur.

Gúllas
Gúllas í þessu hádegi reyndist vera lambakjötsbitar, of saltaðir og of brasaðir, fljótandi í brúnni hveitisósu. Með fylgdu belgbaunir úr dós, sæmilegt hrásalat og ágæt kartöflustappa, hæfilega múskatkrydduð. Verðið var 3.280 krónur.

Síld
Þá er komið að kvöldheimsókninni. Marineruð síld var einföld og ágæt, tvö flök borin fram með lauk og salatbrauði, svo og -viti menn- sætu franskbrauði, en ekki rúgbrauði. Hvít kartafla átti að fylgja, en var ekki til. Með henni hefði verðið verið 1.540 krónur, en án hennar var það 1.280 krónur.

Rækjukokkteill
Rækjurnar voru góðar, lítið kramdar og fremur myndarlegar. Undir þeim var salatblað og ofan á sósa úr sýrðum rjóma og tómatsósu. Verðið var 1.510 krónur.

Lambageiri
Lambageiri með grilluðum sveppum hafði rétt lambahryggsbragð, var bæði meyr og bragðmikill, en óhóflega feitur. Með honum voru dósasveppir, þolanlegar dósabaunir, fallega ljósar franskar kartöflur, svo og hrásalat, sem jóðlaði of mikið í sætri sósu. Verðið var 3.790 krónur.

Turnbauti
Turnbauti með béarnaise-sósu var með alveg sama meðlætinu og lambageirinn, að viðbættum spergli. Þetta var sæmilegur bauti, rétti hársteiktur, en jafnframt alveg blóðlaus og bragðdaufur. Á þessu hef ég enga skýringu. Béarnaise-sósan var mjög þykk og mjög feit, fremur óhugnanleg. Verðið var 6.290 krónur.

Ís
Vanilluís með perum og súkkulaðisósu var vel frambærilegur, þótt peran væri úr dós. Súkkulaðisósan var heit. Verðið var 790 krónur.

Kaffi
Kaffi var bara nokkuð gott. Það kostaði 390 krónur.

Verðhækkun

Þess ber að geta, að milli hádegisheimsóknar og kvöldheimsóknar hækkaði verð á mörgum veitingahúsum lítillega í kjölfar dýrari landbúnaðarafurða. Þetta verður að hafa í huga, þegar verð í Skrínunni eru borin saman við verð, sem gefin hafa verið upp fyrir aðra staði í þessum greinaflokki.

Meðalverð tveggja rétta máltíðar af seðli dagsins er 3.700 krónur. Meðalverð þriggja rétta máltíðar af fastaseðlinum er 6.600 krónur. Er þá meðalverð sex súpa og eggjarétta 1.600 krónur, tuttugu aðalrétta úr fiski og kjöti 4.200 krónur og fjögurra eftirrétta 800 krónur. Með kaffi á eftir fer slík máltíð upp í 7.000 krónur.

Matseðillinn í Skrínunni er langur, telur tæplega 50 rétti, að samlokum og hamborgurum meðtöldum. Þegar á reyndi, voru sumir þessara rétta ekki á boðstólum, svo sem við má búast, þegar matseðlar eru of langir.

Með nokkrum fyrirvara er Skrínunni gefnir fjórir í einkunn fyrir matreiðslu og sjö fyrir umhverfi og andrúmsloft. Vegin meðaleinkunn staðarins er þrír.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Sameiginleg eða engin

Greinar

Norðmenn og Íslendingar eru sammála um, að hyggilegt sé að semja strax í vor til bráðabirgða um tilhögun fiskveiða umhverfis Jan Mayen. En það er langt frá því sama, hvernig slíkt samkomulag verður orðað.

Heppilegast væri, að ríkisstjórnir beggja ríkjanna gæfu út sameiginlega yfirlýsingu. Þar stæði, að þau tvö ríki, sem ein hefðu hagsmuna að gæta við Jan Mayen, væru að gera út um þau mál sín í milli.

Ennfremur stæði þar, að til bráðabirgða hefðu ríkisstjórnirnar tvær ákveðið að taka sér fiskveiðilögsögu á öllu svæðinu, bæði til að ákveða leyfilegan heildarafla og til að skipta honum milli hinna tveggja málsaðila.

Með þessum hætti gætu Norðmenn og Íslendingar hindrað veiði annarra þjóða á fiskislóðum við Jan Mayen. Einkum þó væri unnt að koma í veg fyrir frekari ofveiði Sovétmanna á kolmunna. Þar með væri tímahraki Jan Mayen deilu lokið.

Síðan gætu Norðmenn og Íslendingar haldið áfram að semja í friði og spekt um hin mörgu og flóknu atriði, er varða réttarstöðu ríkjanna á Jan Mayen og við Jan Mayen. Enda verða þau mál ekki leyst í skyndiviðræðum í vor.

Hængurinn á bráðabirgðalausn um fiskveiðar er þó sá, að hafréttarfræðingar norska utanríkisráðuneytisins hyggjast nota hana til að hlaða fyrsta steininn í norska efnahagslögsögu við Jan Mayen. Á því verðum við að vara okkur.

Í samningaviðræðunum i apríl munu Norðmenn halda því fram, að fiskveiðilögsaga til bráðabirgða hljóti að vera norsk. Á slíkt megum við ekki undir neinum kringumstæðum fallast. Slík lögsaga yrði smúm saman að norskri efnahagslögsögu.

Ef Norðmenn og Íslendingar semja í apríl um skiptingu afla við Jan Mayen og útilokun annarra aðila, má samkomulagið ekki búa til neitt fordæmi, sem önnur hvor ríkisstjórnin geti síðan notað í frekari viðræðum um raunverulega hagsmuni.

Ríkisstjórn Íslands má ekki stíga neitt skref til samninga, sem hafréttarfræðingar norska utanríkisráðuneytisins geti túlkað sem fráhvarf þeirrar stefnu, að landgrunnið við Jan Mayen og fiskurinn þar eigi að falla Íslandi í hlut.

Við verðum að hafa okkar beztu hafréttarfræðinga með í ráðum og leggja höfuðáherzluna á, að orðalag samkomulags um fiskveiðar bindi ekki hendur okkar í framhaldinu. Annars væri samningur um fiskveiðar verri en enginn samningur.

Íslendingar hafa sterk rök fyrir rétti sínum til hafs og hafsbotns við Jan Mayen og geta dregið í efa sjálft eignarhald Norðmanna á eynni. Það hefur verið gert í þessu blaði og víðar og stendur allt óhaggað.

Okkur má undir engum kringumstæðum verða svo mikið mál út af loðnuveiði við Jan Mayen, að við fórnum hinum varanlegu hagsmunum okkar á svæðinu. Við megum ekki semja okkur inn í sögulega þróun, sem leiðir til norskra yfirráða.

Norska þjóðsagan um, að það sé hafréttarlega útilokað, að tvö ríki fari til bráðabirgða með lögsögu á tilteknu svæði, er satt að segja bara rugl, án haldbærra raka. Þeir endurtaka fullyrðinguna í síbylju til að gera úr henni hornstein.

Tvö friðsamleg nágrannaríki, sem hafa átt góð samskipti um langan aldur, geta auðvitað smíðað samning um sameiginlega fiskveiðilögsögu á tilteknu svæði, til bráðabirgða, meðan þau tefla skák réttarstöðunnar til loka. Önnur ríki yrðu að beygja sig fyrir slíkri skipan mála.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Þegar Norðmenn fá “lost”

Greinar

“Sjokk” hét það í einu stærsta dagblaði Noregs fyrir réttri viku, þegar fréttist um lýsingu Eyjólfs K. Jónssonar alþingismanns á sjónarmiðum allra íslenzku stjórnmálaflokkanna í Jan Mayen deilunni. Hálfur Noregur stóð á öndinni.

Gerði Eyjólfur þó ekki annað en að endurtaka lýsingu á stefnu, sem Norðmönnum hefur verið margtjáð, að minnsta kosti síðan í fyrrahaust. Það er því gersamlega út í hött, að þessi lýsing þurfi að valda “sjokki” eða losti í Noregi.

Þetta er bara eitt dæmi um þá sambandserfiðleika, sem frá byrjun hafa háð viðræðum Íslendinga og Norðmanna um Jan Mayen. Þeir valda því, að embættismenn, fjölmiðlamenn og almenningur í Noregi vita lítið um skoðanir á Íslandi.

Fréttamiðlun milli Íslands og Noregs er eins konar einstefnuakstuur. Íslenzkir fjölmiðlamenn geta lesið norsk blöð og segja frá ýmsu Jan Mayen efni þeirra í íslenzkum fjölmiðlum. Íslendingar vita því um kröfur Norðmanna.

Við þurfum ekki að lýsa því sem losti, þótt norsk stjórnvöld ítreki hugmyndir sínar í þessu deilumáli. En það er óneitanlega hvimleitt að standa andspænis meiri eða minni vanþekkingu í Noregi á íslenzkum sjónarmiðum.

Svona hefur þetta verið frá upphafi. Í fyrrasumar virtust norskir stjórnmálamenn telja, að þeir væru um það bil að ná samkomulagi við Íslendinga um Jan Mayen. Og um haustið fögnuðu þeir stuðningi Íslendinga við norska efnahagslögsögu norður þar!

Hugsanlegt er, að þetta stafi af klókindum. Með því að túlka sjónarmið mótherjans mildar en eðlilegt er, má hvað eftir annað láta líta svo út, sem hann sé stöðugt að færa sig upp á skaftið með frekjulegri kröfur.

Sé þessi túlkun röng, er tæpast um annað að ræða en stórt gat í miðlun upplýsinga frá Íslandi til Noregs. Þetta gat getur orðið til með ýmsum hætti, til dæmis með skorti á árvekni í sendiráðum beggja deiluaðila.

Það getur líka sumpart stafað af norskri oftrú á ummæli einstakra íslenzkra stjórnmálamanna, til dæmis Benedikts Gröndal, einkum þegar þau hafa verið þýdd á villandi hátt á norsku eða sett fram af tæpri kunnáttu í norsku.

Einnig getur þetta stafað af flóknum þýðingavegi margra frétta af Íslandi. Þeim er fyrst snúið úr íslenzku á dönsku og síðan á norsku. En hver sem skýringin er, þá eru dæmi siðustu viku fleiri en lostið frá Eyjólfi Konráð.

Dagblaðið, Morgunblaðið og Þjóðviljinn birtu á þriðjudaginn fyrir rúmri viku efnislega samhljóða viðtöl við Knut Frydenlund, utanríkisráðherra Norðmanna, um Jan Mayen málið, og Vísir fylgdi á eftir degi síðar. Alls staðar var rétt með farið.

Á miðvikudaginn voru svo norskir embættismenn í öngum sínum út af tilvitnunum norska útvarpsins og sjónvarpsins í viðtal Dagblaðsins við Frydenlund. Þeir spurðu jafnvel, hvort utanríkisráðherrann hefði raunverulega talað svona af sér!

Sumpart hafði Frydenlund auðvitað neyðzt til að svara spurningum, sem hann var ekki vanur frá fjölmiðlamönnum í Noregi, t.d. um misjafna þyngd svonefnds sanngirnissjónarmiðs og miðlínusjónarmiðs á hafréttarráðstefnunni.

Auðvitað varð Frydenlund að viðurkenna, að sanngirnissjónarmiðin hafa unnið á að undanförnu. Þetta virtust vera nýjar fréttir í Noregi, því að norskir fjölmiðlamenn virtust vera hissa, þegar þær bárust til baka til Osló, um Reykjavík og Höfn.

Greinilega þarf að koma á tvístefnuakstri í miðlun upplýsinga milli Íslands og Noregs.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Versalir

Veitingar

Fyrir Versölum í Kópavogi hrópa ég húrra. Þar er komin til sögunnar fyrirmyndar veitingastofa með góðum mat og hljóðlátri þjónustu í glæsilegu umhverfi. Versalir eru nánast eins og Hornið eða Laugaás í sparifötunum.

Tímamót í veitingamennsku

Á hringferð minni um veitingahús Reykjavíkursvæðisins staðnæmist ég hvað eftir annað við þessa þrjá nýju veitingastaði. Að mínu viti marka Hornið, Laugaás og Versalir tímamót í íslenzkri veitingamennsku.

Áður mátti í grófum dráttum segja, að gestir yrðu að velja milli góðra, virðulegra og dýrra hótelsala annars vegar og hræðilegra steikarbúla hins vegar. Nú er orðið mögulegt að láta sér líða vel í tiltölulega ódýrum veitingahúsum.

Ég vona og held, að þessi þróun muni halda áfram. Ég veit, að fleiri matsveinar og þjónar eru að hugsa um að gerast sjálfs sín herrar, opna litlar veitingastofur, þar sem þeir geti ræktað iðn sína upp í list og lífsfyllingu.

Erlend reynsla er fyrir því, að matargerðarlist þrífst bezt í litlum 35-45 sæta veitingahúsum, þar sem eigendur vinna sjálfir í eldhúsi og sal. Fari þeir hins vegar í forstjóraleik, er hætt við, að matstofur þeirra koðni niður.

Eigendur Laugaáss elda sjálfir og þjóna sumpart til borðs. Ég held, að það sé skýringin á því, að maturinn er þar betri en á Horninu og dálítið betri en í Versölum. Síðari stofurnar tvær hafa svo önnur atriði fram yfir Laugaás.

Aðeins 36 stólar

Versalir eru ekki stærri en nútíma setustofa og taka ekki nema 36 manns í sæti. Innréttingar eru stílhreinar í gömlum stíl. Þær búa yfir innra samræmi, sem gefur veitingastofunni fallegan og virðulegan blæ.

Á veggjum eru mikilfengleg velúrtjöld, en engin fyrir gluggum. Í logagylltum römmum hanga lítilfjörleg málverk milli tjalda. Stólar eru virðulegir og borðdúkar eru hvítir. Þykkt teppi á gólfi undirstrikar rósemina.

Bezt er samræmið í lýsingunni, annars vegar frá mörgum átta arma ljósakrónum og hins vegar frá borðlömpum. Lakast er samræmið í gatinu inn í eldhús. Slík göt eru oft sniðug, en henta ekki virðulegum innréttingum Versala.

Gosbrunnurinn á miðju gólfi var ekki í sambandi í þau tvö skipti, sem ég hef sótt Vesali heim. Lágvær baktjaldatónlistin var þægileg. Og borðbúnaðurinn úr Royal Tudor leir frá Staffordshire var í samræmi við umhverfið.

Stúlkur ganga um beina í Versölum. Þær voru ekki orðnar þjálfaðar, en kunnu þó fagið. Þjónusta þeirra var kurteis og hljóðlát, svo að ég varð tæpast var við hana. Þykir mér þetta betra en gassagangur sumra þrautþjálfaðra þjóna.

Fyrst og fremst steikur.

Staðurinn heitir Steikhúsið Versalir. Þá nafngift tel ég bastarð, því að steikhús er amerískt og Versalir franskir. En með þessu munu eigendurnir vera að leggja áherzlu á, að matseðillinn byggist að verulegu leyti á steikum.

Þar skilur á milli Versala annars vegar og Laugaáss og Hornsins hins vegar. Síðari húsin leggja áherzlu á sjávarrétti og eru lítt eða ekki með nautasteikur á boðstólum. Hér við sjávarsíðuna líkar mér það betur, þótt ég lasti ekki hitt.

Matseðill Versala er einkar snyrtilegur útlits. Hann morar þó í prentvillum eins og matseðill Borgar. Turnbauti eða tournedos heitir tornato og appelsína eða glóaldin heitir glóðaldin. Er það löstur á annars fallegum seðli.

Með ráðgjöfum mínum prófaði ég í tveimur atrennum tólf af 26 réttum á matseðli Versala. Útkoman var í stuttu máli sú, að allur var þessi matur góður og sumt af honum mjög gott. Að því leyti eru Versalir í gæðaflokki Laugaáss.

Það sem skilur á milli er, að Versalir fylgja ekki matargerðarlistinni á leiðarenda. Þegar matsveinarnir eru búnir að búa til hinar ljúfustu steikur úr bezta hráefni, grípa þeir dósahnífinn og kúffylla diskana með jukki.

Ég viðurkenni að vísu, að margir Íslendingar vilja sjá hrokaða diska af niðursoðnum sveppum, baunum, gulrótum, spergli og rósakáli. En ég mótmæli því samt, að þetta jukk sé samboðið góðum steikum.

Auðvitað get ég ýtt þessu til hliðar á diskinum. En hraukurinn særir samt fegurðarskyn mitt og spillir því, að matargerðarlistin í steikunum komist til skila. Af hverju ekki spyrja gesti, hvort þeir kæri sig um dósajukk?

Versalir mega svo eiga það umfram marga aðra veitingastaði, að soðna grænmetið er þar minna ofsoðið og ekki eins maukað. Og hrásalatið, sem fylgir aðalréttunum, er með bezta móti, einfalt og aðeins lítillega olíuvætt.

Spergilsúpa
Rjómalöguð spergilsúpa var í betra lagi, en nokkuð bragðdauf. Sem rjómasúpa var hún fremur þunn, en mér fannst það ekki til skaða. Verðið er 1.160 krónur, þegar þetta er skrifað.

Lúðvíkssúpa
Súpa að hætti Lúðvíks fjórtánda var góð, en fremur flókin og sérkennileg. Þetta var rjómasúpa, sem hafði að geyma jafnaðskiljanlega hluti og skinku og krækling. Verðið er 1.230 krónur.
Í annarri heimsókninni fylgdi súpunum brauð með grófu salti ofan á, en í hitt skiptið venjulegra franskbrauð. Í bæði skiptin hafði brauðið verið skorið of snemma og þornað.

Síld
Síldarþrenna með rúgbrauði og smjöri var góður matur. Skemmtileg andstæða var milli óvenju milds bragðs kryddlegnu síldarinnar og óvenju mikils bragðs gaffalbitanna. Með þessu voru egg, sem höfðu verið soðin of lengi og með of miklum fyrirvara, svo og salat og tómatur með majonesi. Verðið er 1.975 krónur sem forréttur.

Fiskur
Fiskur orly er eini raunverulegi fiskrétturinn á seðlinum, ef frá er talið síld, lax og skeldýr. Þessi djúpsteikti fiskur var góður og virtist vera úr ferskri fremur en frystri ýsu. Hrísgrjónin, sem fylgdu, voru mauksoðin. Karrísósan var skemmtilega sterk á bragðið. Annað meðlæti var salatblað, ananas og sítróna. Í heild var gott samræmi í þessum mat. Verðið er 1.800 krónur sem forréttur og 3.620 krónur sem aðalréttur.

Graflax
Graflaxinn var borinn fram með ristuðu brauði og smjöri, sítrónu, salatblaði, tómati, gúrku og svo auðvitað dillsósu. Hún var óvenju sæt á bragðið, líkt og sírópi hefði verið blandað í hana. Þetta var góð sósa, sem og graflaxinn sjálfur. Mér fannst hann þó betri í Holti og á Sögu. Verðið er 3.060 krónur sem forréttur og 4.150 krónur sem aðalréttur.

Meðlæti
Áður hefur verið minnzt á, að ágætt hrásalat fylgdi öllum aðalréttum. Yfirleitt fylgdi þeim einnig sama soðna grænmetið, rósakál, gulrætur, spergill og sveppir, svo og bökuð kartafla. Mér hefði nægt kartaflan ein, enda var hún ágæt.

Lúðvíkslamb
Kryddlegin lambabuffsteik að hætti Lúðvíks fjórtánda var aðeins lítillega ofsteikt og hafði enn dálítinn roða innst. Þetta var sérstaklega meyr steik og nokkuð bragðgóð. Sósan var fremur hlutlaus. Verðið er 5.420 krónur.

Appelsínulamb
Lambabuffsteik með glóaldinum var hæfilega steikt, bleik og meyr, sennilega bezti matur prófunarinnar. Með henni fylgdi ágæt sveppasósa. Verðið er 5.270 krónur.

Kjúklingur
Kjúklingur að hætti Ho Chi Min var hæfilega lítið matreiddur og þar af leiðandi bragðgóður. Honum fylgdu hrísgrjón með papriku, ananas og karrísósu. Þetta meðlæti var vel við hæfi og mun betra en jukkið, sem fylgdi hinum réttunum. Sætubragð var af karrísósunni eins og sumum öðrum sósum Versala. Verðið er 6.795 krónur.

Turnbauti
Tournedos béarnaise, hrásteiktur, var mjög mjúkur og góður, en dálítið mikið pipraður. Béarnaise-sósan var líka góð. Verðið er 8.865 krónur.

Lúðvíksnaut
Nautabuffsteik að hætti Lúðvíks fjórtánda var raunar öllu betri en turnbautinn, miðlungi steikt og með brúnni, hálfsætri sósu. Verðið er 8.900 krónur.

Ís
Rjómaíss hússins búinn til í eldhúsinu var einfaldur og góður. Verðið er 1.290 krónur.

Pönnukökur
Pönnukökur með ís og ávöxtum voru með rönd af þeyttum rjóma að utan og fylltar með ís og niðursoðnum ávöxtum. Pönnukökurnar voru ekki nógu þunnar. Verðið er 1.560 krónur.

Kaffi
Kaffi eftir matinn var sæmilegt og kostaði heilar 550 krónur.

Vín

Einhver ruglingur var á vínveitingaleyfi Versala um þessar mundir. Vínlistinn var þó til, stuttur og ágætur. Þar mátti sjá Tio Pepe sérrí og Noval portvín. Geisweiler, Saint-Laurent og Trakia rauðvín og Chablis, Gewürztraminer og Edelfräulein hvítvín. Þetta er raunar bezti vínlisti landsins, þótt stuttur sé.

Að þessum orðum skrifuðum, sé ég í fréttum, að vínveitingaleyfið er fengið. Því fagna ég, um leið og ég vona, að Hornið þurfi ekki lengi að bíða og Laugaás fái leyfi, verði þess óskað. Sum hús með gömul og ný vínveitingaleyfi eru mun lakari en þessi þrjú.

Milliverð

Enginn matseðill dagsins er í Versölum. Meðalverð sjö súpa og forrétta er 2.300 krónur, sautján aðalrétta 6.900 krónur og þriggja eftirrétta 1.500 krónur. Samtals ætti þríréttuð máltíð því að kosta að meðaltali um 10.700 krónur og að meðtalinni hálfri flösku á mann af Trakia rauðvíni og kaffi um 12.600 krónur. Allt er þetta samkvæmt verðlagi í febrúarlok.

Af þessu má sjá, að verðið í Versölum er á milli verða Holts og Sögu annars vegar og Hornsins og Laugaáss hins vegar. Virðast mér þau verðhlutföll vera við hæfi.

Matreiðslan í Versölum fær sjö í einkunn, þjónustan átta, vínlistinn sjö og umhverfi og andrúmsloft átta. Vegin meðaleinkunn Versala er sjö. Og er þar með fundið þriðja bezta veitingahús landsins.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Jan Mayen leikfléttur

Greinar

Í vörnum norskra embættismanna í Jan Mayen deilunni er um þessar mundir lögð mikil áherzla á svör við þeim rökum Íslendinga, að Jan Mayen sé á íslenzka landgrunninu og að fyrirvarar Jóns Þorlákssonar frá 1927 hafi gildi.

Egil Amlie, yfirmaður lagadeildar norska utanríkisráðuneytisins, sagði íslenzkum blaðamönnum í Osló í síðustu viku, að fyrirvararnir hefðu beinzt að landnámi af hálfu stofnunar, en ekki ríkis og giltu því ekki þjóðréttarlega.

Amlie telur, að fyrirvarana hefði átt að endurtaka árið 1929, þegiar norska ríkið tók við landnámi norsku veðurstofunnar. Íslendingar telja aftur á móti, að fyrirvararnir frá 1923 hafi verið í fullu gildi tveimur árum síðar.

Ýmsir slíkir skemmtilegir lagakrókar af hálfu beggja aðila blikna þó fyrir þeim röksemdum Amlies, að norsk lög og stjórnarskrá banni þeim að gefa eftir hluta af völdum Norðmanna á landi, í sjó og í botni við Jan Mayen!

Nýjasta og hættulegasta röksemd Norðmanna beinist þó að landgrunninu. Carl A. Fleischer prófessor sagði fyrir skömmu í erindi við Háskóla Íslands, að landgrunn Íslands og Jan Mayen væri ekki samfellt, heldur sprungið.

Með þessu eru Norðmenn að gera greinarmun á tvenns konar landgrunni, jarðfræðilega ólíkum. Það gera þeir til þess að geta í senn haldið því fram, að landgrunn Noregs nái norður fyrir Svalbarð, en hið íslenzka ekki norður fyrir Jan Mayen.

Norska landgrunnið er forn skjöldur á máli jarðfræðinga eins og Noregur sjálfur. Íslenzka landgrunnið er hins vegar ungur neðansjávarhygggur. Norska landgrunnið er tiltölulega slétt, en íslenzka landgrunnið stórskorið.

Fari Norðmenn að slá fram tölum um dýpt sprungna á landgrunni Íslands í átt til Jan Mayen, geta þeir alveg eins neitað því, að úfnir eldfjallahryggir séu landgrunn og að Ísland hafi þá yfirleitt nokkurt landgrunn.

Hins vegar kemur hvergi fram í alþjóðlegum gögnum hafréttarmála, að landgrunn þurfi að vera úr graníti eða hafa ákveðinn jarðsögulegan aldur. Íslenzkt landgrunn, sprungið og ósprungið, er jafn gott og gilt sem norskt.

Enda leggja Norðmenn raunar meiri áherzlu á eignarétt sinn. Þeir segjast geta teygt sitt landgrunn út fyrir Svalbarð, norskar eyjar. Íslendingar geti hins vegar ekki teygt sitt grunn út fyrir Jan Mayen, því að það sé ekki íslenzk eyja.

Íslendingar segjast hins vegar hafa í tæpar átta aldir átt ítök á Jan Mayen og við Jan Mayen. Þeir hafi gert fyrirvara um útþenslu Norðmanna á þær slóðir á 20. öldinni og telja hana ekki leiða til neinnar skerðingar á fornum rétti Íslendinga.

Þegar norskir ráðamenn segja 50 ára norskt landnám á Jan Mayen eyða sögulegum rétti Íslendinga, eru þeir komnir út á hálan ís nýlendustefnunnar. Um slíkt eignarhald er deilt víðar um heim en hér í norðurhöfum.

Ýmsar þjóðir, sem áður máttu síns lítils gegn öflugum siglingaþjóðum, eru nú farnar að draga í efa eignarétt þeirra á fjölmörgum klettum og eyjum, óbyggðum sem byggðum, jafnvel þótt nýlendufáninn hafi blakt þar lengur en á Jan Mayen.

Alþjóðaréttur var áður hliðhollur siglingaþjóðunum. En þróunin er í þá átt, að hann taki meira tillit til tímabundinna erfiðleika minni máttar þjóða við að halda sögulegum rétti sínum til streitu.

Að öllu samanlögðu hefur ekkert komið fram af norskri hálfu, er geti fælt okkur frá því að vísa til íslenzks landgrunns norður fyrir Jan Mayen og til fyrirvara Jóns Þorlákssonar frá 1927.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Ójafn leikur.

Greinar

Norðmenn reka sinn sjávarútveg eins og við rekum okkar landbúnað. Við styrkjum hvern starfsmann í landbúnaði með um það bil fjórum milljónum íslenzkra króna. Þeir styrkja hvern fiskimann með um það bil fjórum milljónum íslenzkra króna.

Hér er það sjávarútvegurinn, sem á að halda uppi þjóðfélaginu, þar á meðal landbúnaði. Þar er það stóriðjan og nú síðast olían, sem eiga að halda uppi þjóðfélaginu, þar á meðal sjávarútveginum. Og raunar landbúnaðinum líka.

Norðmenn stefna að því að verða ríkasta þjóð heimsins á olíunni. Þeir geta leyft sér að nota hluta gróðans til að halda uppi harðri byggðastefnu norður eftir allri ströndinni, frá Vesturlandi til Norðurlands.

Norska ríkið greiðir í þessu skyni margs konar styrki. Það greiðir fyrir hvern úthaldsdag og fyrir vegalengdir í siglingu. Það greiðir uppbót á fiskverð og á laun sjómanna. Samtals kostar þetta ríkissjóð 80 milljarða íslenzkra króna.

Hin öflugu samtök sjómanna og útvegsmanna telja þetta ekki nándar nærri nóg. Þau krefjast tvöföldunar upphæðarinnar á þessu ári eða samtals 160 milljarða. Það yrðu þá átta milljónir króna á hvern sjómann.

Svo virðist sem þessi samtök hafi stjórnmálamennina í vasanum vegna áhrifa á fylgi þeirra í kosningum. Þess vegna telja heimildarmenn þessa leiðarahöfundar í Noregi, að styrkir til sjávarútvegs fari hátt yfir 100 milljarða á árinu.

Þessi stefna kemur Íslendingum mjög illa. Okkar sjávarútvegur verður að keppa við norskan sjávarútveg á erlendum markaði. Því meira sem norsk stjórnvöld hossa sínum sjávarútvegi, þeim mun meira þrengist staða íslenzks sjávarútvegs.

Ekki bætir úr skák, að samfara þessu eru Norðmenn að stinga Íslendinga af í tækni, vísindum og fræðslu í sjávarútvegi, bæði í fiskveiðum og fiskiðnaði. Þar spara þeir hvorki fé né menn. Þessi hjálp kemur til viðbótar við ríkisstyrkina.

Af öllu þessu má ráða, að Norðmenn muni í vaxandi mæli geta undirboðið Íslendinga á erlendum markaði sjávarafurða. Styrkjakerfið er eins konar “dumping”, alveg eins og okkar útflutningsuppbætur landbúnaðarafurða.

Hvað segja svo íslenzkir stjórnmálamenn, þegar sjómenn og útgerðarmenn fara að heimta svipaða styrki og í Noregi? Geta þeir neitað því, að norska styrkjakerfið sé að setja íslenzkan sjávarútveg á hausinn?

Og hversu dýr verða góðu ráðin, þegar íslenzkur sjávarútvegur er kominn á hreppinn eins og hinn norski? Hver á þá að reisa Kröflur Íslands, halda uppi vitstola landbúnaðarstefnu, greiða menntun, heilsu og velferð þjóðarinnar?

Davíð Scheving Thorsteinsson vakti fyrir rúmu ári athygli Fríverzlunarsamtakanna á “dumping” iðnaðarvara í formi ríkisstyrkja, einkum af hálfu Norðurlandanna. Samtökin hafa síðan verið að kanna, hversu óheiðarleg þessi samkeppni sé.

Íslenzk og norsk stjórnvöld munu á næstunni hafa náin samskipti vegna Jan Mayen deilunnar. Það tækifæri má nota til að benda á, hversu óheiðarleg samkeppni felist í ríkisafskiptunum af norskum sjávarútvegi.

Ríkisrekið sport í þágu byggðastefnu í Noregi getur reynzt Íslendingum skeinuhættara en norsk samningaharka í Jan Mayen deilunni. Ef íslenzkur sjávarútvegur hættir að geta haldið þjóðfélaginu uppi, er sjálft fullveldið í voða.

Kannski semjum við þá um, að Ísland fái Jan Mayen gegn því, að Noregur fái Ísland.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið

Brauðbær

Veitingar

Brauðbær við Óðinstorg er notaleg matstofa af hæfilegri stærð, 40-50 sæta eins og Laugaás og Hornið. Brauðbær er líka í sama lága verðflokknum og hin tvö og virðist töluvert sóttur af barnafólki, enda er boðið upp á sérstakan barnamatseðil.

Brauðbær er fyrst og fremst steikhús að bandarískum hætti. Lamba- og nautasteikur tróna miðskips á matseðlinum, en lítið er lagt upp úr fiskréttum. Brauðbær er án efa í fremstu röð slíkra veitingastofa hér á landi.

Mér finnst matreiðslan mun betri í Laugaási og innréttingar skemmtilegri á Horninu. Þá hefur Hornið fulla þjónustu og Laugaás treikvart-þjónustu, en Brauðbær býður aðeins upp á sjálfsafgreiðslu. Slíkt reynist gestum oft ónæðissamt.

Afgreiðslan í Brauðbæ er elskuleg og hjálpsöm. Eldamennskan er snör og örugg, en hvílir í öruggum faðmi meðalmennskunnar. Segja má, að þarna sé enginn matur vondur, en enginn heldur góður. Er það raunar betri umsögn en hér hefur verið gefin um suma dýrari veitingastaði.

Brauðbær er hreinlegur staður, dimmur og mjög þröngur. Andrúmsloftið er þægilegt og rólegt. Stólar eru þægilegar og luktir skemmtilegar. Tónlistin að tjaldabaki mætti vera aðeins lægri. En barnastólarnir eru vel þegnir.

Steinflísar eru á gólfi. Grófar trésúlur og grófir tréveggir setja svip á staðinn, sem og batikmyndirnar fyrir ofan tréveggina. Úr opnu eldhúsinu heyrist ekki óþægilegur hávaði. Og þaðan berst ekki lykt af aldraðri steikarfeiti.

Enginn matseðill dagsins er í Brauðbæ. Þar er eingöngu byggt á fastaseðlinum. Á honum enda öll verð á 90 krónum. Þar er um að ræða frávik frá hinni amerísku hefð, þar sem öll verð enda á 95 sentum. Af hverju neita sér um fimmkallinn?

Ýsa fyrir börn
Felix með frönskum var réttur nokkur á barnamatseðlinum. Það var djúpsteiktur fiskur, bara nokkuð góður, með hæfilega þunnri og harðri skorpu. Þær frönsku voru sæmilegar. Súkkulaðiís fylgdi þessum rétti, að minnsta kosti til þeirra barna, sem luku af diskinum. Og á reikningi kvöldsins var þessi fiskur og ís alls ekki bókaður til verðs.

Og meiri ýsa
Dálæti sjómannsins eða ofnbakaður fiskur með hvítlauksbrauði reyndist einnig hafa í farangrinum ostsósu og dósasveppi. Þetta var ýsa, bökuð í sósunni og kom snarpheit úr ofninum. Hún var nokkuð mikið bökuð, en samt ennþá góð á bragðið. Ostsósan var í lagi, en nokkuð sterk. Hvítlauksbragðið af brauðinu var hæfilega milt. Verðið er 2.790 krónur.

Lambateinn
Draumur kaupmannsins eða “shish kebob með rispilav” reyndist vera grillað lambakjöt, laukur og vínarpylsubitar á teini. Sem meðlæti var ágætt hrásalat og hrísgrjón í sósu. Lambakjötið sjálft var þrælgrillað til síðasta safadropa. Verðið er 2.490 krónur.

Lambalundir
Lambalundir Café de Paris með samnefndu smjöri, bakaðri kartöflu, hrásalati og brauði, smurðu lifrarkæfu, höfðu einnig meðferðis belgbaunir og sveppi úr dós. Lundirnar voru vafðar upp og festar þannig með tannstönglum. Þær voru dálítið mikið steiktar, en þó örlaði fyrir bleiku í miðjunni. Verra var, hversu ótæpilega þær voru kryddaðar. Bakaða kartaflan var aðeins hálfbökuð. Hrásalatið var ágætt. En lítið fór fyrir brauðinu og kæfunni.
Hin franska Larousse alfræðiorðabók um mat kannast ekki við Café de Paris smjör, þótt þar séu áreiðanlega fleiri en hundrað mismunandi kryddsmjör. En mönnum leyfist líklega að koma á framfæri uppfinningum á styttri leið en frá Ítala-Breiðstræti að Óðinstorgi.
Verð lundanna er 3.890 krónur.

Piparlamb
Sítrónupiparsteik eða lambabuff með rjómapiparsósu og fleiru hafði í farangrinum bakaða kartöflu og belgbaunir. Kartaflan var hálfbökuð og baunirnar voru úr dós. Lambakjötið var þrælsteikt og gífurlega piprað, en sósan var bara nokkuð góð. Verðið er 3.690 krónur.

Nautalundir
Brauðbæjar bezta steik eða nautalundir með ristaðri skinku, sveppum, hrásalati, bakaðri kartöflu og béarnaise sósu hafði einnig með sér belgbaunir og lauk. Beðið var um lundirnar hrásteiktar, en þær komu miðlungi steiktar. Þær voru þó meyrar og bragðgóðar. Sem betur fer voru þær ekki ofkryddaðar. Hrásalatið góða hæfði kjötinu vel. Ristaða skinkan og dósasveppirnir voru hins vegar bara að flækjast fyrir. Bakaða kartaflan var hálfbökuð. Sósan var sæmileg. Verðið er 5.890 krónur.

Kjúklingur
Glóðarsteiktur kjúklingur með salati, sveppasósu og frönskum kartöflum var of mikið grillaður og farinn að verða seigur og bragðdaufur. Frönsku kartöflurnar voru sæmilegar og hrásalatið var gott að venju. Hálfur kjúklingur kostar 3.990 krónur og fjórðungurinn 3.290 krónur.

Hamborgari
Hamborgari með lauk var eins og vænta mátti bragðlaus grunnur fyrir bragðlauka, sem hafa hlotið þjálfun sína í tómatsósu og öðru verra. Hamborgarinn kostar 1.090 krónur og franskar kartöflur 500 krónur til viðbótar.

Kaffi
Kaffið eftir matinn var með því betra, sem ég hef fengið á íslenzku veitingahúsi. Kaffisins var ekki sérstaklega getið á reikningnum.

Lágt verð, miðlungs gæði

Meðalverð sjö forrétta, súpa og smárétta er 2.000 krónur. Meðalverð aðalrétta er 3.600 krónur. Tvírétta máltíð ætti því að kosta 5.600 krónur auk drykkjar og kaffis.

Matreiðslan í Brauðbæ fær sex í einkunn, en það eru óneitanlega rýrari sex en hjá Blómasalnum í Loftleiðahótelinu. Fyrir góða afgreiðslu fær matstofan prik, þótt engin þjónusta sé veitt til borðs. Og fyrir umhverfi og andrúmsloft eru gefnir sjö. Vegin meðaleinkunn Brauðbæjar er fimm.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Háll er ísinn orkuskatts.

Greinar

Sumir segja, að mestu máli skipti að jafna húshitunarkostnað á hitaveitusvæðum og olíukyndingarsvæðum. Aðrir segja, að mestu máli skipti að flýta útþenslu hitaveitusvæða og losa sem flesta landsmenn við olíukyndingu.

Þessi tvenns konar viðhorf til olíustyrkja og orkuskatts endurspegla tvenns konar viðhorf til þjóðfélagsmála. Annars vegar eru þeir, sem leggja áherzlu á skiptingu kökunnar. Hins vegar eru þeir, sem leggja áherzlu á stækkun kökunnar.

Núverandi olíustyrkur byggist á þeirri skoðun, að fólk utan hitaveitusvæða búi við óþolandi misrétti. Það sé ósanngjarnt, að þetta fólk þurfi að bera tvöfaldan og jafnvel margfaldan húshitunarkostnað á við hina lánsömu.

Þetta tengist hinni ríkjandi byggðastefnu í þjóðfélaginu. Því er haldið fram með réttu, að verðmunur jarðhita og olíu leiði til byggðaröskunar í landinu. Misréttið valdi flótta fólks af olíukyndingarsvæðum dreifbýlisins.

Hástigi nær þessi einfeldningslegi góðvilji hjá þeim ráðgjöfum ríkisstjórnarinnar, sem vilja nú koma á orkuskatti, er dreifi peningum frá hitaveitufólki til olíukyndingarfólks, svo að úr verði félagsleg jafnstaða á þessu sviði.

Því miður leiðir þessi góðviljaða hugsun til mun hægari stækkunar kökunnar en ella hefði verið. Hún jafnar stöðu þjóðarinnar í átt til fátæktar, en ekki til ríkidæmis. Hún gleymir mikilvægi þess, að kakan sé stækkuð.

Því meira sem jafnað er milli jarðhita og olíu, þeim mun meira dregur úr áhuga sveitarfélaga á dýrum átökum í hitaveitumálum. Af hverju skyldu þau leggja út í slík ævintýri, ef íbúarnir hagnast ekki á því?

Þeir, sem harðastir eru á hinum vængnum, segja, að skynsamlegra væri að skattleggja olíukyndingu til að fjármagna nýjar hitaveitur. Þeir vísa til hins háa bensínverðs, sem miðar að því að minnka notkun á dýrum og takmörkuðum orkugjafa.

Ef olíukynding yrði skattlögð með þessum hætti, mundu sveitarfélög um allt land standa andspænis þeirri kröfu íbúanna, að jarðhitaveitum yrði komið upp hið bráðasta. Hinn ódýri orkugjafi yrði því tekinn í notkun mun hraðar en nú.

Sum sveitarfélög eru fjarri jarðhitasvæðum og geta tæpast komið sér upp hagkvæmum hitaveitum. Þaðan mundi fólk flýja hinn háa olíukostnað og leita til jarðhitasvæðanna. Þar mundi þjóðin þjappa sér saman í orkukreppunni.

Enginn vafi er á, að þessi síðari leið er hagkvæmari fyrir þjóðfélagið. Hún knýr það til átaka, til innlendra lausna á orkukreppunni, til nýtingar á ódýrum og íslenzkum orkugjafa. Hún leiðir um síðir til meira ríkidæmis allrar þjóðarinnar.

Gallinn er hins vegar sá, að við getum ekki eingöngu lifað fyrir framtíðina. Við verðum að taka tillit til líðandi stundar, erfiðleika þess fólks, sem verður nú og næstu árin að sætta sig við olíukyndingu. Því ber að fara bil beggja.

Verði orkuskattur tekinn upp, á ekki að nota hann til að stöðva þróunina, til að viðhalda úreltri olíukyndingu, heldur til að stuðla með lánum og styrkjum að frekari útþenslu jarðhitaveitna, að stækkun kökunnar.

Öllum ætti að vera augljóst, að skynsamlegra er að beita skatti til framfara fremur en stöðnunar, til jarðhita fremur en olíu. Ríkisstjórnin þarf að átta sig á, að stækkun kökunnar er ekki síður mikilvæg en skipting hennar.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið

Meira af sama.

Greinar

Hið nýja fjárlagafrumvarp er afleitt. Samkvæmt því á ríkið að halda forustu sinni í framleiðslu séríslenzkrar verðbólgu. Ríkisgeirinn á áfram að vera rúm 28% af þjóðarkökunni. Hér eru því hrein verðbólgufjárlög á ferð.

Þar með er ekki sagt, að þetta fjárlagafrumvarp sé neitt verra en tvö fyrri frumvörp þessa vetrar eða önnur fjárlagafrumvörp áttunda áratugarins. Það gerir raunar ráð fyrir nákvæmlega sömu grautarstjórn ríkisfjármála og verið hefur.

Fjárlagafrumvarp Ragnars Arnalds gæti alveg eins verið smíðað af Halldóri E. Sigurðssyni, Matthíasi Á. Mathiesen, Tómasi Árnasyni eða Sighvati Björgvinssyni. Satt að segja er það bara frumvarp Tómasar frá í haust, næstum óbreytt.

Hvernig á líka að vera hægt að semja hófsamleg fjárlög, þegar ráðherrar byggja á því trúaratriði, að ríkisrekstur landbúnaðarins skuli vera sjálfvirkur? Hvaða önnur þjóð þykist hafa efni á að gefa landbúnaði tíundu hverja krónu ríkisins?

Samkvæmt frumvarpinu eiga 24,4 milljarðar að fara í niðurgreiðslur landbúnaðarafurða, 8,15 milljarðar í útflutningsuppbætur landbúnaðarafurða og 3,25 milljarðar í aðra beina styrki til landbúnaðarins eða samtals tæp 11% fjárlaga.

Eru þá hvorki taldir með þeir 3 milljarðar, sem ríkisstjórnin vill gefa landbúnaðinum út á offramleiðsluna í fyrra, né þeir 6,8 milljarðar, sem landbúnaðarráðherra lofaði búnaðarþingi út á væntanlega offramleiðslu þessa árs.

Fjárlagafrumvarpið er fullt af slíkum trúaratriðum, allt frá 36-43 milljörðum til styrktar landbúnaði niður í 100 milljónir til styrktar hinum fimm flokkspólitísku dagblöðum þessa lands. Þessi trúaratriði rækta verðbólguna.

Í frumvarpinu felst enn einu sinni hin gamalkunna staðreynd, að bráðabirgðaráðstafanir verða varanlegar. Hækkun sölugjalds og vörugjalds frá í fyrra er framlengd í þessu nýja frumvarpi og er þar með orðin að hefð.

Ríkisstjórnin hefði staðið sig vel, ef hún hefði með frumvarpinu reynt að vinda örlítið ofan af ríkisframleiddu verðbólgunni, til dæmis með því að afnema ofangreidda hækkun eða með því að lækka beina skatta í sama mæli.

Ef alþingi vill gegna því hlutverki, sem ríkisstjórnin hefur brugðizt, verður það að skera niður þetta verðbólgufrumvarp. Tíu ára þindarlausri verðbólguforustu ríkisins verður að linna og það gerist aðeins með niðurskurði.

Því miður segir frumvarpið eitt ekki alla söguna um hraðann á ríkisverðbólgunni. Í undirbúningi er orkuskattur, sem mun leiða til hægari þróunar frá olíukyndingu til hitaveitna en ella hefði verið. Heimskan er endalaus.

Þar á ofan hafa þingmenn allra stjórnarflokkanna lagt fram frumvarp um heimild til hækkunar útsvara úr 11% í 12%. Þar með er líklegt, að opinberi geirinn í heild þenjist út, þótt ríkisgeirinn sjálfur standi í stað.

Við vitum ekki enn, hve hár verður hinn óréttláti tekjuskattur samkvæmt hinum nýju skattalögum, því að skattstigar hafa ekki litið dagsins ljós. Þeir, sem ekki geta svikið undan skatti, óttast mjög gróðafíkn stjórnvalda.

Enn má nefna, að ástæða er til að óttast lánsfjáráætlunina, sem er á leiðinni. Hún verður sennilega notuð til að fylla upp í eyður fjárlaga. Alvarlegast er, ef fetuð verður sú óheillabraut að fjármagna landbúnaðarbrjálæðið með lánum.

Verðbólgusagan er því ekki öll sögð með verðbólgufjárlagafrumvarpi.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið

Matstofa Austurbæjar

Veitingar

Í Matstofu Austurbæjar er hægt að fá sómasamlegan mat hjá vingjarnlegu fólki fyrir óvenju lágt verð. Meðalverð aðalrétta af fastaseðli er 3.200 krónur og meðalverð tveggja rétta máltíða af matseðli dagsins er 2.400 krónur.

Innréttingar Matstofu Austurbæjar eru hvorki beinlínis smekklegar né fagmannslegar. Þær eru þó sæmilega hlýlegar og gefa gott svigrúm. Innan um nýlega hluti eru nokkur þreytuleg borð og stólar. Horfnir eru ljótir básar á miðju gólfi.

Þarna virðist dálítið um kostgangara og húsvini. Andrúmsloftið er laust við streitu. Ég tók eftir börnum umsjónarfólks, sem hlupu með öðrum börnum milli salar og eldhúss. Þarna þurfti ekki sérstakt barnahorn.

Streituleysið endurspeglaðist í vingjarnlegu viðmóti starfsfólks. Ég krækti mér í öl úr glerskáp á skenknum. “Viltu ekki heldur kalt öl?” sagði stúlkan. Ég tek eftir slíku á tímum, þegar fjöldi stúlkna virðist timbraður og svefnlaus við afgreiðslu.

Hálf þjónusta

Eins og Laugaás veitir Matstofa Austurbæjar hluta úr þjónustu. Þú pantar og tekur þér áhöld og drykki við skenkinn, en getur svo látið færa þér matinn til borðs. Þar með þarftu ekki að standa upp meðan þú ert að borða.

Þetta er auðvitað hátíð miðað við sjálfsafgreiðslu, þar sem gestir eru á þönum fram og aftur eða horfa á aðalmatinn kólna, meðan súpan er innbyrt. Þú færð mikilvægasta hluta þjónustunnar, þótt matstofan spari sér nokkurn kostnað.

Segja má, að í Laugaási sé veitt treikvart-þjónusta, því að þar bera gestir engan mat til borðs. Í Matstofu Austurbæjar væri þá hálf þjónusta, því að mér virðist, að þar beri gestir rétti dagsins til borðs, en fái þjónustu með sérrétti.

Hvorug leiðin jafnast þó á við hina gömlu og góðu þjónustu. Hins vegar kann treikvart-þjónustan að vera heppileg millileið í hraða nútímans og í tilraunum til að halda niðri verði. Og mér finnst hún mun aðgengilegri en hálfa þjónustan.

Í einkunnum mínum fyrir þjónustu veitingahúsa geta þau fengið hæst tíu fyrir fulla þjónustu. Fyrir treikvart-þjónustu gef ég hæst sjö og hæst fjóra fyrir hálfa þjónustu. Sjálfsafgreiðsluhús fá auðvitað ekkert fyrir þennan þátt.

Hnífapör eru of veigalítil í Matstofu Austurbæjar. Ég beyglaði gaffal. Og hnífurinn átti í erfiðleikum með nautakjöt, sem þó var ekki seigt. Það er kominn tími til að fleygja þessu kreppuáradóti og fá áhöld, sem eru gerð fyrir veitingahús.

Hinn fasti matseðill Matstofunnar er fremur ýtarlegur með ýmsum eggjakökum, pítsum, samlokum og hamborgurum. Súpur eru aðeins tvær og einnig fiskréttirnir. Kjötréttir eru sjö. Engir eftirréttir eru á matseðli, en samt er hægt að fá smátertur úr eldhúsi veitingastofunnar.

Matseðill dagsins er einnig með fjölbreyttasta móti. Ég kom tvisvar í heimsókn nýlega og voru sex réttir á boðstólum í annað skiptið, sjö í hitt. En eins og fastaseðillinn er dagseðillinn fátækur af fiskréttum, nærtækasta hráefni landsins.

Blómkálssúpa
Blómkálssúpa var súpa dagsins, þegar ég heimsótti Matstofu Austurbæjar í hádeginu. Hún hefði verið sæmileg, ef hún hefði ekki verið örlítið kekkjuð. Súpa dagsins er innifalin í verði rétta dagsins, en kostar 700 krónur, sé hún keypt sérstaklega.

Ýsa
Steikt ýsuflök með hrásalati og sítrónu voru á þessum seðli dagsins. Þetta var ágætur matur, enda voru flökin hæfilega lítið pönnusteikt, mjúk og mjallhvít að innan. Með fylgdu ristaðar rækjur og sæmilegasta remúlaði, hálfkaldar hvítar kartöflur, sítrónubátur, gúrkusneiðar og bærilegasta hrásalat. Verðið er 2.000 krónur og er þá súpa innifalin.

Síld
Marineruð síld með brauði, smjöri og lauk var mild og góð á bragðið, einkar frambærilegur matur. Meðlætið var svipað og fylgdi ýsunni og laukurinn var ágætur. Verðið er 1.800 krónur að súpu innifalinni.

Pitsa
Pitsa með skinku og sveppum reyndist sæmileg, miðað við íslenzkar aðstæður. Hún var ekki eins góð og pitsan í Laugaási og langt frá því eins og sú á Horninu. En ég hef fengið margar verri pítsur um dagana hér á landi. Botninn var of þykkur, en samt hæfilega stökkur. Pitsan var ekki brennd, en of bragðdauf. Verðið er 1.900 krónur.

Nautabuff
Nautabuff með kryddsmjöri, frönskum kartöflum, hrásalati og grænmeti átti að vera lítið steikt, en kom samt rúmlega miðlungi steikt. Ég skil ekki þann sið íslenzkra kokka að spyrja viðskiptavininn um steikingartíma og taka síðan ekkert mark á svörum hans. Annars var þetta sæmilegt kjöt, tæpast nógu meyrt og allt of mikið saltað og piprað.
Með fylgdu linar baunir og gulrætur úr dós, sæmilegt hrásalat með léttri eggjasósu, dökkar, en ekki brenndar franskar kartöflur og miður gott kryddsmjör með béarnaise-bragði.
Verðið er 3.780 krónur.

Lambagrillsteik
Lambagrillsteik með kryddsmjöri, frönskum kartöflum og salati var raunar líka með dósagrænmeti og dósasveppum. Meðlætinu var lýst hér að framan. En lambakjötið sjálft var mjög gott, mun minna ofgrillað en venja er hér á landi. Það var enn rautt og undurmeyrt. Því miður var það allt of saltað og piprað. Verðið er 3.780 krónur.

Eftirréttir
Fyrir tilviljun komst ég að því, að Matstofa Austurbæjar býður upp á smátertur úr eigin eldhúsi sem eftirrétti á 400 krónur, þótt þess sé ekki getið á matseðli. Ég prófaði eina hálfhringlaga með marsipan og aðra aflanga með sætum hnetumassa. Sú fyrri var nokkru betri.

Kaffi
Kaffið var venjulegt, íslenzkt kaffi, hvorki gott né vont. Aðalkostur þess var, að bollinn eftir mat var seldur á lægra verði en kaffi án matar. Venjulega kostar kaffi þarna 400 krónur, en eftir mat kostar bollinn 250 krónur. Þetta er sama hugulsemi og í Laugaási og mættu fleiri veitingamenn taka hana upp.

Lægsta verðið

Meðalverð tveggja rétta máltíðar af matseðli dagsins er 2.400 krónur, hið lægsta, sem komið hefur í ljós í þessum greinaflokki. Með tertu hússins og kaffibolla ætti þriggja rétta máltíð þá að fara upp í 3.000 krónur, sem óneitanlega er óvenju hagstætt.

Meðalverð forrétta, súpa og smárétta á fastaseðlinum er 1.500 krónur. Meðalverð aðalrétta úr kjöti og fiski er 3.200 krónur. Með tertu og kaffi ætti þriggja rétta máltíð af fastaseðli því að kosta að meðaltali 5.300 krónur, sem líka er mjög hagstætt.

Matstofa Austurbæjar er dálítið ódýrari en Hornið og Laugaás og töluvert ódýrari en Askur og Esjuberg. Þetta er enginn veizlusalur matargerðarlistar, en lætur viðskiptavininn fá töluvert fyrir peninga hans.

Matreiðsla Matstofu Austurbæjar fær fimm í einkunn, hálfa þjónustan fær þrjá í einkunn, andrúmsloft og umhverfi fimm. Vegin meðaleinkunn staðarins eru fjórir. Og er þá auðvitað ekki tekið tillit til lága verðsins.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Trúarofsi í “súpergaggó”.

Greinar

Nú eru endurvaktir kaþólskir miðaldatímar í Háskóla Íslands. Í stað hinna kaþólsku vísinda, sem þá voru kórrétt, eru komin hin marxisku vísindi, sem nú eru orðin kórrétt í hluta heimspekideildar.

Útskrifaður háskólaborgari, sem hefur kennt dönsku í átján ára getur ekki haldið áfram frekara námi í dönsku, af því að hún hefur ekki sömu marxisku trúarbrögðin og kennarar í dönsku vilja troða upp á alla nemendur sína.

Í gamla daga urðu menn að gjalda skoðana sinna, ef þeir töldu kaþólsku ekki vera vísindi. Nú er aftur svo komið, að menn verða að gjalda skoðana sinna, ef þeir telja marxiska trú ekki vera vísindi.

Auðvitað er marxismi ekki vísindi. Það er ekki einu sinni til einn marxismi, heldur margir marxismar. Alveg eins og margar kaþólskur deildu í gamla daga um merkingu ritningarinnar, deila nú margir marxismar um sina ritningu.

Allir ismar heimsins eru í bezta lagi hugmyndakerfi, en oftast þó trúarbrögð. Það, sem sameinar þessa isma, er fyrirlitning á skoðunum annarra og notkun valdaaðstöðu til að hindra rétt þeirra til þessara skoðana.

Voltaire gamli sagði: “Ég fyrirlit skoðanir þínar, en er fús til að láta lifið fyrir rétt þinn til að hafa þær.” Þessi grundvallarhugsjón frelsisbaráttu mannsandans hefur fallið niður milli fjala miðaldakaþólsku og marxisma.

Auðvitað er sjálfsagt, að menn fái að læra marxisma, helzt marga marxisma, og raunar aðra isma í háskólanum, svo sem spíritisma og nýjalsisma, en þó á þann hátt, að þeir trufli ekki aðra kennslu, svo sem dönskukennslu.

Heimspekideild háskólans vísaði frá að lítt athuguðu máli kærunni, sem reis út af innrætingu trúarbragða í dönskukennslu. Þessi frávísun og meðferðin á kærandanum eru deildinni og háskólanum í heild til skammar.

Aðalstefna deildarinnar virðist verða að standa saman um sína menn. Þetta minnir á stuðning deildarinnar við skipun prófessors í sagnfræði, sem var í samræmi við umdeilt álit dómnefndarmanns úr deildinni.

Þá setti deildin niður, af því að þessi maður skrifaði undir eitt álit, þar sem hann taldi tvo umsækjendur hæfa, og annað álit, þar sem hann taldi þá óhæfa. Einnig vegna þess, að álit hans var fullt af skætingi og áróðri.

Háskólarektor og háskólaráð yppta öxlum og segja allt þetta vera einkamál deildarinnar, sem komi rektor og ráði ekki við. Þetta er sjálfsagt rétt, en bjargar ekki sóma skólans.

Almenningur og útskrifaðir háskólamenn eru farnir að tala um heimspekideildina sem “súpergaggó”. Er þá átt við, að menn geti dólað þar í gegn án forsenda úr fyrra námi, án hæfileika og án ástundunar.

Fyrir nokkru var svo komið, að kunnugir menn töldu sig hafa dæmi um vaxandi andstöðu erlendra alvöruháskóla gegn því að taka gild próf úr heimspekideild. Væru önnur lönd en Norðurlönd að lokast af þessum ástæðum.

Með þessu er auðvitað verið að dæma heila háskóladeild og raunar heilan háskóla fyrir vandamál, sem kunna að vera afmörkuð. En það er verkefni deildar og skóla að sýna fram á, að “súpergaggó” sé rangnefni.

Við slíkar aðstæður mega háskóli og heimspekideild sízt við því, að hafið sé trúarbragðaofstæki í dönskukennslu.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið

Til hamingju.

Greinar

Sigurganga Vals í Evrópukeppni meistaraliða í handknattleik karla er komin á svo hátt stig eftir leikinn um helgina, að sjálfur úrslitaleikur álfunnar blasir við. Meistarar Svía og Spánverja hafa óvænt verið lagðir að velli í átta liða úrslitum og undanúrslitum.

Þetta er ótrúlegt afrek lítils félags áhugamanna í litlu landi áhugamanna. Menn, sem þurfa að vinna fyrir sér með öðrum hætti, bera sigurorð af þrautþjálfuðum atvinnumönnum, sem geta einbeitt sér að íþrótt sinni við hinar beztu aðstæður. Við óskum öll Val til hamingju.

Handknattleikur hefur um árabil verið helzta keppnisíþrótt Íslendinga. Valsmenn hafa þar verið fremstu röð, en engan veginn einráðir. Um þetta leyti eru þeir um miðja fyrstu deild. Breiddin í handboltanum byggist á meiru en einu félagi.

Landslið Íslands í handknattleik hefur náð umtalsverðum árangri á undanförnum árum. Fyrir þremur árum lék það grátt Dani, Pólverja og Tékka, öndvegisþjóðir í handbolta. Og nú hefur ný og efnileg kynslóð haslað sér völl í landsliðinu.

Velgengni Vals í Evrópukeppni meistaraliða er almenningi og stjórnvöldum hvatning til að láta ekki sitt eftir liggja. Aðstaða til iðkunar handknattleiks og raunar annarra íþrótta er mun lakari en efni standa til.

Íslendingar hafa ráð á að hlúa betur að íþróttum en þeir gera. Það gildir jöfnum höndum um almenningsíþróttir og keppnisíþróttir. En keppnisíþróttir eru í eðli sínu dýrari í mannvirkjum og rekstri, kosta meira af almannafé.

Íþróttamannvirkjum hefur fjölgað hratt á undanförnum árum. En betur má, ef duga skal. Og á mörgum sviðum eykst eftirspurnin mun hraðar en framboðið. Sem dæmi má nefna, að á einu ári hefur aðsókn að skíðalyftum í Bláfjöllum þrefaldazt, en flutningsgetan haldizt óbreytt.

Unga fólkið, sem tekur þátt í keppnisíþróttum, þarf að bæta daglegri þjálfun ofan á venjulegan vinnudag. Oft veldur keppnin því tekjutapi, námstöfum og óeðlilegum fjarvistum frá fjölskyldu. Þetta er mikið álag umfram hina erlendu atvinnumenn.

Þetta unga fólk vinnur síðan oft sæta sigra, sem hlýja þjóðinni um hjartarætur, þjappa henni saman og magna sjálfstraust hennar. Gunnar Huseby, Vilhjálmur Einarsson, Friðrik Ólafsson og aðrir slíkir eru smáþjóð mikils virði.

Íþróttir eru stjórnmál. Það sjáum við greinilega af því ofurkappi, sem stórþjóðir á borð við Sovétríkin leggja á þjálfun afreksfólks. Slíkt kapp getur gengið út í öfgar, en langt er frá, að sú sé raunin hér á landi.

Opinberir aðilar þurfa að verja meira fé til íþrótta en þeir gera. Þeir þurfa að stuðla að byggingu íþróttamannvirkja og greiða fyrir ráðningu fyrsta flokks þjálfara í fullu starfi. Þetta er raunar ein hlið sjálf stæðisbaráttunnar.

Árangur keppnismanna hvetur börn og unglinga til þáttöku í hollu tómstundastarfi á ýmsum sviðum íþrótta. Og í seinni tíð hafa hinir fullorðnu einnig tekið við sér í auknum mæli, enda veitir ekki af í innisetuþjóðfélaginu.

Allt er þetta samtvinnað, æskulýðsstarfið, íþróttir fullorðinna og svo keppni afreksmanna. Framfarir á einu þessara sviða hafa áhrif í sömu átt á hinum. Opinber stuðningur við keppnisfólk skilar sér í auknum almenningsíþróttum.

Uppákoma á borð við sigur Vals á sunnudaginn sendir strauma um allt þjóðlífið. Hún flytur með sér stolt, sem gerir þjóðinni auðveldara að fást við vandamál sín. Og hún hvetur þjóðina til að sinna íþróttum betur en áður, bæði sem skattgreiðendur og þáttakendur.

Til hamingju með sigurinn, Valur.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið

Þeir tala og við hlustum.

Greinar

Vandi Ingvars Gíslasonar menntamálaráðherra í norræna sjónvarpsþættinum á þriðjudaginn endurspeglar vanda Íslendinga almennt í norrænni samvinnu og á ekkert skylt við meinta ást Íslendinga á engilsaxnesku máli og menningu.

Ingvar sagði fátt í þættinum og sagði það hægt. Hann lagði lítið til málanna annað en að taka undir sjónarmið hinna. Hann varð utanveltu í umræðunum, beinlínis af því að hann varð að tala annað mál en móðurmálið.

Í norrænu samstarfi hafa Danir, Norðmenn og Svíar orðið. Þeir tala sitt móðurmál og tala það hratt. Smám saman fer umræðan framhjá Íslendingum og mörgum Finnum, sem ekki eru jafn flugfærir í skandinavísku og móðurmálinu.

Við slíkar aðstæður hefur komið fyrir, að Íslendingar og Finnar hafi óskað eftir, að enska yrði notuð í stað skandinavisku. Með þessu eru þeir aðeins að biðja um að geta tekið þátt í norrænum umræðum á jafnréttisgrundvelli.

Þegar enska er notuð í norrænum umræðum, verða allir að tala hægt, líka Danir, Norðmenn og Svíar. Þannig kemur hraði umræðunnar í þann farveg, að Finnar og Íslendingar geta tekið þátt án minnimáttarkenndar.

Enska er nokkurn veginn hlutlaust mál á Norðurlöndunum. Þar með er ekki sagt, að hún sé hlutlaus í evrópsku eða víðtækara samhengi. Það er einmitt oft áberandi, hvernig enskumælandi menn ráða ferðinni í alþjóðlegum umræðum.

Ef til vill þurfum við á að halda esperanto eða latínu, svo að umræðumenn úr öllum heimshornum hafi jafnrétti á við engilsaxa í alþjóðlegu ráðstefnulífi. En á Norðurlöndum út af fyrir sig getur enskan dugað.

Þegar Danir, Norðmenn og Svíar heyra Íslendinga halda slíkum skoðunum fram, telja sér gjarnan trú um, að við séum að sogast hættulega mikið burt frá norrænni menningu inn í engilsaxneska menningu.

Í umræddum sjónvarpsþætti var greinilegt, að bæði norski og sænski ráðherrann voru úti að aka á þessu sviði. Sá sænski kvartaði um, að hér vildi fólkið á götunni fremur tala við sig ensku en skandinavisku.

Gaman hefði verið, ef Ingvar hefði sagt honum, að fólkið á götunni í Stokkhólmi vildi heldur tala við sig á ensku en íslenzku! Frændur vorir mega nefnilega gæta sín ofurlítið á hinum svonefnda stórskandínavisma.

Norski ráðherrann virtist dauðhræddur um, að íslenzk menning væri að líða undir lok og nefndi það sérstaklega, að Íslendingar væru farnir að tala ensku! Svona er nú þekkingin á Íslandi hjá nágrönnum okkar.

Íslenzk dægurlög í útvarpinu eru þó í minna mæli með enskum textum en hlíðstæð lög nágranna okkar á Norðurlöndum. Við köllum “teve” sjónvarp og “radio” útvarp. Daglegt mál okkar er minna enskuskotið en danska, norska og sænska.

Þegar sænski ráðherrann í sjónvarpinu talar um, að stjórnmálamenn verði að hafa “courage”, talar Ingvar Gíslason um, að þeir verði að hafa hugrekki. Jafnvel árið 1980 varðveitum við okkar mál betur en þeir sitt.

Það setur Íslendinga að óþörfu upp á móti norrænu samstarfi, að ráðamenn menningarmála í nágrannalöndunum skuli vera jafn fullir af fordómum í garð Íslendinga og sjónvarpsþátturinn bar vitni um.

Þessir fordómar eru sumpart afleiðing af einhliða ráðstefnum, þar sem þeir tala og við hlustum.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið

Enn er óbragð

Greinar

Óneitanlega eru margir hér á landi enn mjög sárir út i norsk stjórnvöld vegna tilrauna þeirra í fyrrasumar til að ná undirtökum í Jan Mayen málinu með óskemmtilegum brögðum í leiftursókn gegn Íslendingum.

Ráðherrar norska Verkamannaflokksins og verndarar íslenzka Alþýðuflokksins beittu fyrst fyrir sig íslenzkum flokksbróður, Benedikt Gröndal, þáverandi utanríkisráðherra. Þeir töldu honum trú um, að deilan snerist um miðlínu.

Þannig komst norska stjórnin aftan að Íslendingum. Hér heima vissu stjórnmálamenn lítið sem ekkert um innihald einkaviðræðna Benedikts, þegar þrír ráðherrar norsku stjórnarinnar komu til Íslands í lok júní.

Norsku ráðherrarnir buðust til að takmarka loðnuveiðar sinna manna við Jan Mayen gegn því að Íslendingar samþykktu miðlínu. Þessi einstæða frekja kom flatt upp á íslenzka stjórnmálamenn, aðra en Benedikt Gröndal.

Svo byrjuðu hótanirnar, þegar Íslendingar þvældust fyrir í viðræðunum. Fyrst var sagt, að engan tíma mætti missa, því að annars mundu Sovétmenn veiða alla loðnuna. Með þessum ósannindum átti að taka okkur á taugum.

Þegar hinum norsku ráðherrum varð ljóst, að Benedikt Gröndal talaði ekki fyrir munn Íslendinga í Jan Mayen málinu, ruku þeir burt i fússi. En taugastríði þeirra lauk ekki, þótt Sovétmenn lýstu yfir áhugaleysi á loðnu.

Samanlagt stóð þessi skyndisókn norskra stjórnvalda allan júlí og fram eftir ágúst. Þegar Rússagrýlan var úti, fóru norsk stjórnvöld að hóta ofveiði af eigin hálfu á loðnu við Jan Mayen. Þau sögðust ekki ráða við norska sjómenn.

Við vitum núna, hvernig þetta taugastríð endaði. Við verðum því alveg róleg næst, þegar við mætum nýrri leiftursókn af norskri hálfu í sumar. En undir niðri þökkum við okkar sæla fyrir að hafa sloppið fyrir horn í fyrra.

Það varð okkur til bjargar, að nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðubandalagsins áttuðu sig á, hvað var að gerast. Þeir mótuðu af Íslands hálfu tillögur í Jan Mayen málinu, þar sem tekið var tillit til Íslands.

Þessi sjónarmið voru mjög studd hér í Daghlaðinu. Ennfremur snerist þáverandi forsætisráðherra og núverandi utanríkisráðherra, Ólafur Jóhannesson, á sveif með þeim, sem töldu, að hafa þyrfti góðar gætur á islenzkum hagsmunum þar nyrðra.

Þegar Ólafur lýsti því yfir í ágústlok, að ekki kæmi til greina, að við deildum hafsbotninum við Jan Mayen með Norðmönnum, mátti segja, að norska leiftursóknin væri endanlega runnin út í sandinn.

Síðan hefur verið reynt að hóta með hugmyndum um norska fiskibátahöfn á Jan Mayen. Þetta var minni háttar útspil, sem Ólafur Jóhannesson kallaði “veikleikamerki”. Annars hefur verið tíðindalítið á þessum vígstöðvum í vetur.

Íslendingar viðurkenna ekki norska efnahagslögsögu við Jan Mayen af ástæðum, sem raktar hafa verið í leiðurum Dagblaðsins undanfarna daga. Íslendingar telja sig raunar hafa meiri rétt til Jan Mayen en Norðmenn hafi.

Auðvitað höfum við ekki styrk til að fylgja rétti okkar eftir til fulls. Og auðvitað vitum við, að á endanum verða Norðmenn og Íslendingar að semja í vinsemd um málið. En lævísin og leiftursóknin hafa skilið eftir óbragð, sem við finnum enn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið