Author Archive

Stillholt

Veitingar

Opnuð hefur verið á Akranesi alveg ljómandi góð matstofa, sem heitir Stillholt eftir samnefndri götu austarlega í bænum. Þessi veitingastofa kom mér mjög á óvart, enda efast ég um, að önnur 5000 manna bæjarfélög státi af slíku.
Stillholt gefur ekki eftir Laugaási og Horninu í Reykjavík og gerir raunar skömm til öllum þorra veitingahúsa höfuðborgarinnar. Þetta gildir um allt í senn, matreiðsluna, þjónustuna og andrúmsloftið.
Stillholt vantar aðeins léttu vínin. Væru þau, gæti ég bent Reykvíkingum á að bregða sér upp eftir með síðustu fer Akraborgar, rölta í veizlu í Stillholt, svo á ball, síðan niður á hótel og loks til baka með fyrstu ferð Akraborgar daginn eftir.
Slíkt væri óneitanlega skemmtileg tilbreytni frá hefðbundnu hjónaborðhaldi á veitingahúsum. Að vísu hef ég ekki hugmynd um, hvort hótelið á Akranesi er sómasamlegt eða ekki. Hugmyndin stendur náttúrlega og fellur með þeim lausa enda.

Æðri stílbrögð
Aðall Stillholts er nærfærin meðferð hráefna í eldhúsi og skilningur á nauðsyn þess að setja eldunartíma þröng mörk. Þarna verður jafnvel hamborgari ætur, svo ekki sé talað um æðri stílbrögð eins og humarskeljasoð út á humarhala.

Það, sem dregur Stillholt niður, er hin kórrétta fylgni við málstað franskra kartaflna, kokkteilsósu, dósagrænmetis og hrásalats. Þetta meðlæti endurtekur sig í sífellu með nærri öllum réttum þessarar annars ágætu veitingastofu.

Vendipunktur Stillholts er hinn sami og hjá Laugaási. Egill Egilsson eigandi stendur sjálfur við pottana og hefur auga með gestunum. Sú er eina leiðin til að halda háum gæðum í matreiðslu og þjónustu veitingahúsa, annarra en dýrra hótela.

Stillholt samræmi létta nútímamatreiðslu við hefðbundna íslenzka rétti á borð við plokkfisk, gellur, saltkjöt og saltfisk. Þessir réttir eru ekki á fastaseðlinum, en eiga jafnan fulltrúa á matseðli dagsins.

Síðarnefndi seðillinn heitir raunar “meðmæli kokksins” og hefur oftast að geyma fjóra aðalrétti með súpu á undan. Þar eru sjávarréttir í hávegum hafðir, sem og á fastaseðlinum, þar sem m.a. má sjá kræklingasúpu og djúpsteiktan hörpudisk.

Gamlar ljósmyndir

Stillholt tekur um 56 manns í sæti í tveimur jafnstórum sölum. Innri salnum má loka til einkasamkvæma. Báðir salirnir eru rúmgóðir, snyrtilegir og hreinlegir, málaðir í léttum og ljósum litum og minna örlítið á Hornið.

Einkenni innréttingarinnar eru hinar gömlu ljósmyndir frá Akranesi. Í innri sal eru blóm á borðum, speglar, sem stækka stofuna, og þakgluggalýsing. Pinnastólarnir eru með þægilegum sessum. Í bakgrunni er notaleg tónlist, sem minnir líka á Hornið.

Þjónustan í Stillholti var þægileg og vinsamleg og virtist vera það jafnt við alla gesti. Hér hefur bætzt við enn ein menningarvinin í eyðimörk djúpsteikingarhúsa, þar sem eigendur í forstjóraleik skáka fram fýlulegum og timbruðum píum.

Spergilsúpa
Spergilsúpa fylgdi réttum dagsins að þessu sinni. Hún var óvenju góð og var greinilega búin til á staðnum, en ekki hellt úr dós eða pakka. Meira að segja franskbrauðsneiðin, sem fylgdi, var betri en venja er hér á landi. Sérpöntuð kostaði spergilsúpan 850 krónur.

Humarhalar
Ristaðir humarhalar í skelinni voru fremur smávaxnir, en góðir og meyrir undir tönn. Þeir voru bornir fram í eftirréttaglasi með sítrónubáti, tómatbáti, paprikuhring, ristuðu brauði og smjöri. Punkturinn yfir i-ið var þó skemmtilega bragðsterkt soðið af humarskeljum, sem er skynsamlegri ídýfa en bráðna smjörið. Þarna var um náttúrulega matreiðslu að ræða. Verðið var 2.400 krónur sem forréttur.

Fiskrúllur
Gratineraðar lúðurúllur voru of þurrar. Þarna endurtók sig soðið af humarskeljunum, sem gaf einkennisbragð ostasósunnar. Þessi sósa var mjög sterk og óvenjuleg og hefði sómt sér vel, ef sjálf lúðan hefði líka verið góð. Með réttinum fylgdu hvítar kartöflur með steinselju og hrásalat. Hvort tveggja var gott, einkum hrásalatið. Verðið var 2.400 krónur.

Gellur
Djúpsteiktar gellur voru á matseðli dagsins. Þær voru mjúkar og góðar, en steikarhjúpurinn var fullmikið áberandi. Með fylgdi ágætt hrásalat, alveg sérstaklega, óvenjulega góð kokkteilsósa og óþarfar franskar kartöflur, ekki brenndar. Verðið var 2.400 krónur að súpu innifalinni.

Hamborgari
Hamborgari með frönskum, ananashring og tómatsósu var furðulega ljúffengur, mjúkur og bragðgóður, alger andstæða hinna bragðlausa pappaspjalda, sem hér á landi eru kölluð hamborgarar. Hins vegar var lítið varið í þær frönsku og tómatsósan var andstyggilega dísæt. Verðið á þessari útgáfu hamborgara var 2.030 krónur.

Kjúklingur
Grillsteiktur kjúklingur var á matseðli dagsins. Ekkert var við hann að athuga, enda var hann mátulega grillaður, nákvæmlega laus frá beinunum, en ekkert meira eldaður. Þessum góða kjúklingi hæfði vel hin góða kokkteilsósa og hrásalatið, sem áður hefur verið sagt frá. Verðið var 4.500 krónur, hið sama og á fastaseðlinum.

Lambahryggur
Ofnsteiktur lambahryggur indien var of mikið steiktur, grár í gegn, en meyr og sæmilega góður á bragðið. Kartöflurnar voru hæfilega létt brúnaðar. Karríhrísgrjónin voru góð, svo og karrísósan. Verðið var 4.100 krónur.

Turnbauti
Tournedos Stillholt var frábær. Hann kom lítið steiktur, eins og um var beðið, undurmeyr og bragðmikill. Með honum fylgdi góð svepparjómasósa, áðurnefnt hrásalat, franskar kartöflur og einnig óþarfar belgbaunir. Verðið var 6.300 krónur.

Barnaís
Barnaísinn er ekki í frásögur færandi að öðru leyti en því, að hann var þrenns konar og einn hlutinn var bláberjaís, ljómandi góður. Verðið var 450 krónur.

Kaffi
Kaffið í Stillholti var ekkert sérstakt. Það var ekki reiknað sérstaklega til verðs eftir mat, en sérpantað kostaði það 400 krónur. Vatnið með matnum var volgt.

Hagstætt verð
Meðalverð tveggja rétta máltíðar af matseðli dagsins var 3.100 krónur. meðalverð þrettán forrétta, súpa og eggjarétta var 1.300 krónur, nítján aðalrétta úr fiski eða kjöti 4.100 krónur og fjögurra eftirrétta 700 krónur. Þrírétta máltíð af fastaseðli ætti því að kosta 6.100 krónur.
Stillholt er í verðflokki með hinum hliðstæðu og ágætu veitingastofum í Reykjavík, Laugaási og Horninu, töluvert ódýrari en hinar hvimleiðu steikarbúlur landsins.

Eitt af allra beztu
Stillholt fær sjö í einkunn fyrir matreiðslu, sex fyrir þann hlut þjónustu, sem veittur er (af sjö mögulegum) og átta fyrir umhverfi og andrúmsloft. Vegin meðaleinkunn veitingastofunnar er sex eða hin sama og Hornsins, Laugaáss, Loftleiða og Nausts. Aðeins Holt, Saga og Versalir eru hærri.

Það er því ástæða til að óska Skagamönnum til hamingju með Stillholt.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Misvæg mál.

Greinar

Fyrr í vetur hvatti Dagblaðið Carter Bandaríkjaforseta að láta ekki taka sig á taugum í hinu einstæða og hörmulega gíslamáli í Íran. En það hefur hann einmitt gert og leyft herfræðingum sínum að færa sér hrapallegan ósigur.

Carter var í fullum rétti, þegar hann lét reyna að bjarga gíslunum með vopnavaldi. Klerkaveldið í Íran hafði fyrirgert rétti til friðar. Ofstæki þess hafði rofið aldagamla hefð á friðhelgi sendimanna.

En réttlæti og skynsemi þurfa ekki að fara saman. Herfróðir menn höfðu bent á, að nánast útilokað sé að ná gíslum úr prísund miðborgar, þar sem allur almenningur er andvígur innrásarliði. Slíkt mundi stefna lífi gíslanna í öruggan voða.

Gíslarnir í Íran eru mikið tilfinningamál í Bandaríkjunum og geta hæglega orðið Carter hættulegt kosningamál. Margir Bandaríkjamenn eiga erfitt með að skilja, að stjórnin getur ekki tryggt öryggi borgaranna í útlöndum.

Ráðamenn í Vestur-Evrópu búa ekki við þennan vanda sárt leikinna landsmanna. Þeir hafa réttilega hvatt ráðamenn Bandaríkjanna til að fara varlega í gíslamálinu. Enda er mikið í húfi fyrir Vesturlönd, að stjórnmál Írans þróist til betri vegar.

Gíslamálið er tilfinningamál. En frá heimspólitísku sjónarmiði er það smámál í samanburði við innrás Sovétríkjanna í nágrannalandið Afganistan. Þar er á ferðinni eina alvarlega ógnunin við heimsfriðinn, útþenslustefna Moskvukeisara.

Þar hafa ráðamenn í Vestur-Evrópu ekki staðið sig eins vel. Þá skortir hnattarsýn ráðamanna í Bandaríkjunum, eru of bundnir þröngri Evrópusýn. Flestir þeirra, aðrir en Margaret Thatcher í Bretlandi, láta staðbundna hagsmuni villa sér sýn.

Ráðamenn Vestur-Þýzkalands eru háðir óskhyggju minnkaðrar spennu í Evrópu og óhóflegum viðskiptahagsmunum í Austur-Evrópu. Ráðamenn Frakklands eru háðir ímyndinni um hina “sérstöku sambúð” Frakklands og Sovétríkjanna.

Þessir ráðamenn hugsa sumpart eins og kaupmenn. Sú hugsun er ágæt gagnvart Íran og öðrum löndum Íslams, sem þarf að færa inn í friðsamlegt samfélag þjóðanna. En hún dugir ekki gagnvart Sovétríkjunum, sem vilja drottna yfir heiminum.

Svo langt erum við leidd í Vestur-Evrópu, að við eigum erfitt með að skilja, hversu nauðsynlegt er að hunza ólympíuleikana í Moskvu. Íslenzka ólympíunefndin hyggst fara þangað og nýtur í því stuðnings sex af hverjum tíu landsmönnum.

Dagblaðið hefur hins vegar hvað eftir annað bent á, að Vesturlönd og þar á meðal Ísland verða að hunza Moskvuleikana. Við megum alls ekki endurtaka hina bitru reynslu Berlínarleikanna 1936. Við verðum að sýna fyrirlitningu í verki.

Jarmið um íþróttir og pólitík er marklaust. Ólympíuhugsjónin er þegar drukknuð í lyfjaþrælum og vélmennum. Við getum bjargað henni með alþjóðlegum sjónvarpsleikum til bráðabirgða og síðan til frambúðar með föstum leikum í Olympíu.

Auðvitað mun mörgum þegnum Sovétríkjanna sárna fjarvera fulltrúa af Vesturlöndum. En það er óhjákvæmilegt, að sannleikurinn síist inn í brotum: Ríki, sem hafnar mannréttindum heima fyrir og ræðst á aðrar þjóðir, getur ekki haldið ólympíuleika.

Kjarni máls þessa leiðara er sá, að gagnvart Íran eiga Vesturlönd að starfa með silkihönzkum, þrátt fyrir klerkaveldið, en gagnvart Sovétríkjunum er kominn tími til að sýna festu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Ikarus.

Greinar

Mikið hefur verið deilt um ungversku Ikarus strætisvagnana, sem Reykjavík hefur átt kost á að kaupa. Í stórum dráttum hafa alþýðubandalagsmenn verið hlynntir kaupum, sjálfstæðismenn andvígir og aðrir verið nokkuð tvístígandi.

Kaupin voru einkar freistandi vegna hins lága verðs. Það hefði gert Reykjavík kleift að endurnýja flotann mun örar eða spara sér stórfé. Á móti komu svo rökstuddar efasemdir um, að strætisvagnarnir mundu standa sig hér.

Dagblaðið lagði til, að keyptir yrðu örfáir Ikarus vagnar til reynslu, en brýnni vagnaþörf að öðru leyti mætt á hefðbundinn hátt. Þar með væri dregið úr áhættu, án þess að hafnað væri möguleika á stórfelldum sparnaði í framtíðinni. Þessi stefna hefur orðið ofan á. Það var skynsamleg ákvörðun, sem heldur dyrunum opnum.

Aðstoðarráðherrar.

Dagblaðið gagnrýndi á sínum tíma hinn mikla fjölda ráðherra núverandi ríkisstjórnar. Það hlýtur að teljast nokkuð rausnarlegt, að sjötti hver þingmaður skuli vera ráðherra. Svo margir hafa þeir aldrei verið áður.

Um leið hvatti blaðið til þess, að ekki yrðu skipaðir aðstoðarráðherrar. Með bindindi á því sviði hefði ríkisstjórninni tekizt að halda ráðherrakostnaði innan við það, sem hann var í tíð síðustu vinstri stjórnar.

Á þessu hefur ekki verið tekið mark. Þegar hafa verið skipaðir þrír aðstoðarmenn ráðherra. Er því ráðherrakostnaður, miðað við verðlag hvers tíma, kominn upp í það, sem hann var í fyrra. Það er vond þróun á samdráttartíma.

Kortsjnoj.

Að undanförnu hafa sumir hneigzt til opinberrar gagnrýni á Kortsjnoj, skákmeistarann landflótta. Hann hefur verið sakaður um eigingirni, skapbresti og slæma framkomu gagnvart aðstoðarmönnum og velvildarmönnum.

Þessir gagnrýnendur mega þó ekki gleyma kjarna málsins. Hann er sá, að glæpsamlegt er að hindra brottför konu hans og sonar frá Sovétríkjunum. Það er gróft brot á lágmarksréttindum þeim, sem stofnskrá Sameinuðu þjóðanna á að tryggja.

Menn hefðu vænzt þess, að ársþing Alþjóðlega skáksambandsins í Reykjavík mundi marka einhverja ferska sókn í þessu mannréttindamáli. Þögn þingsins um mál fjölskyldu Kortsjnojs er ósigur mannréttinda og sambandinu til vansæmdar.

Flokkakostnaður.

Alþýðuflokkurinn í Reykjavík hefur birt reikninga kosningabaráttu sinnar á öndverðum þessum vetri. Reikningarnir eru ekki aðeins athyglisverðir fyrir þá sök, að þeir sýndu hagnað flokksins af kosningabaráttunni.

Markverðast er, að þeir skuli vera birtir alþjóð. Í því felst heiðarleg tilraun til að opna flokkinn og sýna almenningi starfshætti hans. Og það er alltaf traustvekjandi, þegar stjórnmálamenn eru ekkert að fela.

Ástæða er til að hvetja aðra stjórnmálaflokka til að fylgja ágætu og drengilegu framtaki Alþýðuflokksins á þessu sviði. Flokkarnir eru hálfopinberar stofnanir, sem eiga að hafa tekjur sínar og gjöld í dagsljósinu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Skattagræðgin er sprengiefni.

Greinar

Fyrir 30 árum voru skattar til ríkis og sveitarfélaga 25% þjóðartekna. Fyrir 10 árum voru þeir 35%. Á þessu ári eru þeir komnir upp í 45%. Með sama áframhaldi verða opinberir skattar komnir upp í 55% þjóðartekna eftir aðeins fimm ár.

Skattheimtan er þannig nú þegar komin upp undir það, að önnur hver króna renni til hins opinbera. Hjá fólkinu í landinu litur þetta enn verr út, því að hlutur hins opinbera er enn hærri af þeim viðbótarkrónum, sem menn vildu kannski afla.

Í mörgum fjölskyldum vilja menn afla sér aukatekna vegna tímabundinna eða langvinnra þarfa. Þetta hafa menn til dæmis gert með yfirvinnu, bónusvinnu eða með því að hjón vinni bæði úti. Þessi vinnuþrælkun skilur lítið eftir.

Samkvæmt skattstiga hinnar nýju og gráðugu ríkisstjórnar eiga beinir skattar, það er tekjuskattur, útsvar, byggingasjóðsálag, sjúkratryggingargjald og kirkjugarðsgjald að fara upp í 65% af þeim viðbótarkrónum, sem menn afla sér.

Þessi prósentutala er að vísu ekki sama eðlis og hinar, sem fyrr voru nefndar. Hún er ekki greidd fyrr en ári eftir að peninganna er aflað og er því ekki svona há í raun. En á móti kemur, að í hana vantar alla óbeinu skattana, svo sem sölugjald.

Þess vegna ætti í heild að vera nálægt lagi, að tvær krónur af hverjum þremur krónum viðbótartekna lendi hjá hinu opinbera. Þetta eru uggvænleg tíðindi fyrir þá, sem eru að þræla, til dæmis fyrir þaki yfir höfuð sitt og sinna.

Hraði þessarar óheillaþróunar hefur vaxið áttunda tug þessarar aldar undir dauðri hendi tveggja vinstri stjórna og einnar hægri stjórnar. Hin nýja ríkisstjórn hefur á tveggja mánaða ferli riðið mikinn á sama helvegi skattagræðginnar.

Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen hefur ekki skilið, fremur en aðrar stjórnir eftir viðreisn, að það er takmarkað, sem fátækt þjóðfélag getur lagt til sameiginlegra þarfa. Sú geta takmarkast af stöðnuðum þjóðartekjum Íslendinga.

Á einum áratug ómögulegra ríkisstjórna hafa launagreiðslur ríkisins aukizt úr 20% skatttekna í 30%. Einn maður þjónar nú ríkinu á hverja fjóra í atvinnulífinu, en var einn á hverja sjö fyrir tíu árum. Þessa þróun verður að stöðva.

Allir eru sammála um, að skattagræðgin sé komin út yfir allan þjófabálk. Meðal annars hefur Verkamannasambandið lýst því yfir, að “ríkisstjórnin getur ekki vænzt aðhalds af öðrum aðilum, þegar hún heimtar sífellt meira í sinn hlut”.

Í yfirlýsingu Verkamannasambandsins segir einnig: “Á sama tíma og kjaraskerðingar dynja yfir af völdum verðlagshækkana, er óhæfa að skerða kjörin frekar með skattaálögum eins og samþykktar hafa verið”. Þessa óhæfu hefur ríkisstjórnin framið.

Eini ljósi bletturinn í frumskógi hinnar opinberu skattagræðgi eru tilraunir nokkurra sveitarfélaga til að láta sér nægja lægri útsvör og fasteignagjöld en leyfileg eru. Fremst er þar Seltjarnarnes, sem heldur sér við 10% útsvar.

Önnur sveitarfélög í nágrenni Reykjavíkur, þar sem sjálfstæðismenn hafa meirihluta, fjalla nú um að halda sér við 11% útsvar, meðan Reykjavik er komin í 11,88% og önnur í 12,21%. Ef þetta viðnám kemst til framkvæmda, mun það vekja mikla athygli.

Stjórnmálamenn á þingi sitja eins og jólasveinar með sveittan skallann við að uppfylla sífellt nýjar, sameiginlegar þarfir, sem tekjur þjóðarinnar standa ekki undir. Þeir átta sig ekki á, að skattagræðgin er að verða hið stórpólitíska sprengiefni.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Skútan

Veitingar

Skútan í Hafnarfirði er hinn sómasamlegasti matstaður í miðjum lægri verðkantinum. Matreiðslan er frambærileg að sósum undanskildum, snyrtimennskan er í lagi og þjónustan ósköp vingjarnleg. Skútan stenzt vel samanburð við hliðstæðar matstofur í Reykjavík.

Helzti galli staðarins eru þrengslin við borðin. Seturnar eru of stuttar til hnésins og of þröngt er milli borðs og baks. Þetta getur þó komið sér vel fyrir elskendur, sem fá tækifæri til að nudda saman hnjánum að vild.

Þrengslin stafa þó ekki af plássleysi, því að myndarlegt torg er á miðju gólfi. Vandað flísagólf er undir fótum manna. Innréttingin er næstum nákvæm stæling á súlum og bitum Halta hanans, en hér er notaður trönuviður. Skreytingar eru í fiskveiðastíl.

Í hádeginu er hægt að fá súpu og rétt dagsins, en á kvöldin gildir fastaseðillinn einn. Hann er skynsamlega stuttur, telur aðeins tólf rétti. Flesta þeirra er hægt að fá í hálfum skömmtum, þannig að upplagt er að fá sér tvo hálfa rétti og ís á eftir og raða þannig í þriggja rétta máltíð.

Soðið lamb
Soðið lambakjöt var réttur dagsins í hádeginu, þegar Vikan heimsótti Skútuna. Kjötið var rétt soðið með örlitlum roða, merkilega vel gert, alls ekki þurrt. Hvítu kartöflurnar voru í tæpu meðallagi. Hvít hveitisósan var einkar vond. Dósabaunir voru hóflega soðnir. Verðið var 2.700 krónur heill skammtur og 2.300 krónur hálfur.

Körfukjúklingur
Körfukjúklingur á fastaseðlinum var ekki góður. Hann var ofsteiktur. Hjúpurinn var of þykkur og brauðmylsnan var of yfirgnæfandi. Sveppasósan úr hveiti var þykk með skán. Frönsku kartöflurnar voru ljósar og frambærilegar. Dósagulræturnar voru ekki of linar. Hrásalatið var fjölbreytt og hafði meira að segja að geyma ferska ávexti. Þá fylgdi ferskur tómatur, ánægjuleg nýbreytni, svo og salatblað. Verðið var 3.800 krónur heill skammtur og 2.600 krónur hálfur skammtur.

Turnbauti
Turnbautinn var rétt steiktur, semsagt hálfhrár, góð matreiðsla á góðu hráefni. Dísæt kryddsósan ofan á var ekki við minn smekk. Þarna voru sams konar frönsku kartöflurnar, hrásalatið, tómaturinn og salatblaðið, sem getið var hér að ofan. Ennfremur ýmislegt úr dósum, belgbaunir, sveppir og paprika. Verðið var 5.600 krónur heill skammtur og 3.920 krónur hálfur, óneitanlega óvenjulega góð kjör.

Djúpsteiktur fiskur
Djúpsteikti fiskurinn var fersk ýsa, sæmilegasti fiskur. Skorpan var nokkuð hörð, en án feitibragðs. Hrísgrjónin, sem fylgdu, voru með hinum beztu, sem ég hef fengið hér á veitingahúsi, enda rétt mátulega soðin. Hrásalatið var í remúlaðisósu með karríbragði. Salatið var gott, en sósan var of mikil. Frönsku kartöflurnar voru í lagi, sem fyrr segir. Salatblaðið var innlend, góð framleiðsla. Kokkteilsósan var í lagi. Verðið er 2.400 krónur heill skammtur og 1.680 krónur hálfur.

Spánarkjúklingur
Kjúklingur Spanja var aldeilis ljómandi góður, að engu leyti ofgerður, hvorki í kryddi né steikingartíma, enda meyr og bragðgóður. Um franskar kartöflur og hrásalat hefur áður verið rætt. Dósagrænmetið var eftir vonum, paprika, belgbaunir ofsoðnar og dósasveppir, sem ekki voru eins slepjulegir og venja er til. Með fylgdi nánast hræðileg, kekkjótt, brún hveitisósa, ofboðslega þykk. Verðið var 4.600 krónur heill skammtur og 3.220 krónur hálfur.

Skútusteik
Skútusteik hét nautavöðvi, tæplega “medium” steiktur, rauður og blóðugur að innan, frambærilegur matur. Kryddsmjörið hafði lítið kryddbragð og var fremur væmið, en alténd betra en sósur staðarins. Áður hafði verið getið franskra kartaflna, hrásalats, sveppa, belgbauna, salatblaðs og papriku. Verðið var 5.400 krónur heill skammtur og 3.780 krónur hálfur.

Sjómannasteik
Sjómannasteik hét sérkrydduð sneið af lambahrygg, einkar hófsamlega steikt og rauð að innan, sannarlega herramannsmatur. Í kryddinu virtist einkum vera piparkrydd og sítróna. Því miður var helmingur sneiðarinnar fita, en hana mátti skera frá. Með fylgdu skemmtileg karríhrísgrjón með svipuðu kryddi og í kjötinu. Einnig vond, brún hveitisósa með þremur sveppasneiðum. Ennfremur áðurnefndar franskar kartöflur, hrásalat, paprika og salatblað. Verðið var 4.200 krónur heill skammtur og 2.940 krónur hálfur.

Kaffi
Kaffi eftir matinn var vel þolanlegt, en fremur þunnt.

Meðalverð á súpum og hálfum réttum var 2.400 krónur á Skútunni, á heilum aðalréttum 4.100 krónur. Þetta er svona eins og meðalverð á hliðstæðum grillstöðum í Reykjavík. Kaffi eftir matinn kostaði 330 krónur. Samanlagt ættu tveir réttir með kaffi að kosta um 6.800 krónur.

Ef ekki væru hinar hvimleiðu sósur, fengi Skútan hátt fyrir matreiðslu. Kannski verður tækifæri til þess næst. En í þessari prófun fékk staðurinn fimm fyrir matreiðslu, prik fyrir vingjarnlega afgreiðslu og sex fyrir útlit og andrúmsloft. Vegin meðaleinkunn stofunnar er fjórir.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Víglínan er röng.

Greinar

Víglína íslenzkrar byggðastefnu stendur ekki lengur á Hornströndum. Þær eru þegar komnar í eyði, minnisvarði gífurlegra fólksflutninga átta áratugi þessarar aldar. Hornstrandir munu ekki byggjast á nýjan leik í fyrirsjáanlegri framtíð.

Sjálfstæði íslenzks þjóðfélags beið ekki verulegan hnekki af ósigri byggðar á Hornströndum. Þaðan og úr öðru dreifbýli var efnt í mikla fólksfjölgun í þéttbýli um land allt. Ósigur á einum stað varð að stærri sigri á öðrum.

Sem náttúra hafa Hornstrandir hagnazt á eyðingu byggðar. Í kjölfar snarminnkaðrar sauðbeitar og annars ágangs hefur gróður aukizt verulega. Hornstrandir eru eitt af fáum svæðum utan ræktunarlanda, þar sem gróður er ekki á undanhaldi.

Víglína íslenzkrar byggðastefnu hefur ekki flutzt til Melrakkasléttu. Sjálfstæði þjóðarinnar mun standa og falla með öðrum og alvarlegri atburðum en brottflutningi manna af Sléttu, minnkandi sauðbeit og endurreisn gróðurs.

Víglína íslenzkrar byggðastefnu hefur meira að segja ekki flutzt til blómlegra sveita Eyjafjarðar. Hvort tveggja getur tekizt í senn, að byggð haldist í slíkum sveitum, en samt takist ekki að halda uppi sjálfstæðu þjóðfélagi á Íslandi.

Víglína íslenzkrar byggðastefnu er satt að segja á Reykjavíkursvæðinu, glugga landsins gagnvart umheiminum. Þar í gegn hafa farið flestir þeir, sem flúið hafa land síðasta áratug. Þeir eru 5.500 umfram aðflutta, fleiri en allir sjómenn landsins.

Sjálfstæði þjóðfélagsins þolir ef til vill í tvo eða þrjá áratugi enn, að flótti umfram aðflutning nemi 550 manns á ári. Jafnvel þótt í þessum hópi sé óþægilega mikið af fólki, menntuðu í hagnýtum fræðum, sem víða er hægt að nýta.

Því miður er að koma skrið á flóttann til útlanda. Tala flúinna umfram aðflutta getur þegar á þessu ári farið yfir 1000. Hún getur hæglega og fyrirvaralítið hlaupið upp í 2000 manns á ári eða meira. Við höfum t.d. aðgang að frjálsum, norrænum vinnumarkaði.

Meðal þeirra, sem flytja, eru þeir, sem hafa þekkingu eða kunnáttu eða leikni, sem metin er til meiri tekna í útlöndum en hér. Jafnvel háskólamenntaðir sjávarútvegsfræðingar fá ekki vinnu hér, en velja ár girnilegum, erlendum tilboðum.

Á sama tíma magnast óveðursský lífskjaramunarins. Fyrir fimmtán árum voru lífskjör okkar svipuð og nágrannanna. Nú hefur hins vegar myndazt gjá, sem breikkar stöðugt. Og margir neita að þræla á Íslandi fyrir þeim lífskjörum, sem þeir stefna að.

Með vaxandi nýlendum Íslendinga í nálægum löndum verður auðveldara fyrir fólk að flytjast úr landi og verða þátttakendur í fyrirhafnarminni velsæld. Til dæmis hjá Norðmönnum, sem senn munu ekki vita olíuaura sinna tal.

Á þessum áratug gengissigs þjóðfélagsins hafa fimm eymdarstjórnir hver fram af annarri óviljandi keppzt við að magna fólksflóttann og grafa undan sjálfstæði þjóðarinnar. Þær hafa m.a. gert það með því að heyja byggðastríðið á röngum stað.

Þær hafa tafið iðnbyltingu með því að taka fjármagnið og sökkva því í snarvitlausan landbúnað. Þær hafa látið kaupa milljarðaskip, sem fá að vera á veiðum þriðjung ársins. Þær hafa slævt framtak þjóðarinnar með gegndarlausri samneyzlu og seðlaprentun.

Eina leiðin til að stöðva hrunið er, að stjórnmálamenn neiti sér um að kaupa atkvæði á Melrakkasléttum landsins. Fyrsta skrefið til slíkrar sjálfsafneitunar er að átta sig á, að byggðavarnarstríðið hefur verið háð í rangri og vonlausri víglínu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Skrifað í skjóli.

Greinar

Langt er síðan Blaðamannafélag Íslands skipaði Indriða G. Þorsteinsson í siðareglunefnd blaðamanna. Þá var hann ekki virkur þáttakandi í hvassri umræðu fjölmiðla um menn og málefni. Þetta má segja blaðamannafélaginu til vorkunnar.

Ýmsum finnst nærri sér höggvið í fjölmiðlum. Siðareglunefndin var meðal annars stofnuð til aðstoðar þeim. Hún átti að taka við kærum. Og hún átti að áminna blaðamenn, sem reyndust hafa brotið siðareglur félagsins.

Í rauninni ættu engir starfandi blaðamenn að sitja í siðareglunefnd. En allra sízt menn á borð við ritstjóra, leiðarahöfunda og höfunda kjallaragreina. Enda hefur engum þeirra dottið slíkt í hug. Nema Indriða G. Þorsteinssyni.

Allir þessir menn geta í daglegu starfi orðið tilefni málareksturs fyrir siðareglunefnd. Þessi þriggja manna nefnd verður óstarfhæf, ef einn nefndarmanna þarf að víkja úr sæti í eigin máli. Nóg er til af hæfum mönnum í nefndina.

Það leysir engan vanda að víkja úr sæti í einstöku máli. Það hlýtur að vera óbærilegt fyrir hina nefndarmennina tvo að úrskurða með hjálp varamanns í máli þriðja nefndarfélagans. Þann brunn þarf blaðamannafélagið að byrgja.

Við skulum að þessu sinni láta Svarthöfða alveg liggja milli hluta. Þar er kastað skít í skjóli nafnleysis. Alveg eins og í Þöglum og Staksteinum hinna fornlegri og samvizkusnauðari fjölmiðla landsins.

Þetta nafnleysi er úfur fyrri tíma, er blaðaskrif voru rætnari og persónulegri. Erlendis þekkist það tæpast lengur, nema í formi góðlátlegs hjals, sem engan særir. Í sumum íslenzkum dagblöðum sitjum við hins vegar að forneskjunni.

Siðareglunefnd Indriða G. Þorsteinssonar hefur úrskurðað, að sig bresti úrskurðarvald um skrif huldumanna á borð við Svarthöfða. Byggist þetta á því, að nafnið Svarthöfði finnst ekki í félagaskrá blaðamannafélagsins.

Við skulum aðeins tala um Indriða G. Þorsteinsson sem fastan dálkahöfund undir eigin nafni. Sem slíkur er hann í sömu stöðu og aðrir dálkahöfundar, leiðarahöfundar og ritstjórar. Hann þarf að gagnrýna menn og málefni.

Umræddir menn geta móðgazt, með réttu eða röngu. Þeir verða að geta treyst siðareglunefnd. Þeir mega ekki sjá þar nefndarmenn, sem eiga á hættu að þurfa að víkja úr sæti í eigin máli. Þetta skilja allir nema lndriði.

Stétt blaðamanna á sífellt undir högg að sækja í almenningsálitinu. Stofnun siðareglunefndar var tilraun til að efla álit manna á blaðamönnum. Hún átti að sýna, að blaðamönnum væri ljós ábyrgð sín og vildu standa víð hana.

Nú er hætt við, að almenningur líti öðrum augum á silfrið. Siðareglunefnd er af sumum þegar talin liður í samtryggingarkerfi blaðamanna. Það sýni, að siðferði stéttar blaðamanna sé ekki í nógu góðu lagi. Þennan brunn þarf strax að byrgja.

Blaðamönnum má vera ljóst, að siðareglunefnd stendur og fellur með traustinu. Ef hún fær ekki augljós mál til meðferðar, er pottur brotinn. Þá er ljóst, að menn treysta henni ekki. Og sú er einmitt þróunin um þessar mundir.

Siðareglunefnd eiga eingöngu að skipa menn, sem ekki eiga í neinum útistöðum um menn og málefni. Til dæmis menn, sem þekkja blaðamennsku, en starfa nú á þeim sviðum þjóðlífsins, þar sem sviptingar eru minni.

Það er nefnilega ekki aðeins hægt að skrifa í skjóli nafnleysis. Það er líka hægt að skrifa í skjóli nefndar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Hvimleiðar dúfur.

Greinar

Íslenzkur blaðamaður sagði fyrir rúmri viku í eyru norskra starfsbræðra, sem voru hér á ferð, að markmið Dagblaðsins með stefnu þess í Jan Mayen málinu væri að auka sölu blaðsins.

Stjórnmálamenn höfðu þá sagt þessum norsku blaðamönnum, að Ólafur Ragnar Grímsson væri tækifærissinni, sem notaði Jan Mayen málið til að vekja athygli á sjálfum sér.

Um mánaðamótin höfðu enn aðrir sagt sumum þessara blaðamanna úti í Noregi, að Eyjólfur Konráð Jónsson hefði ruglazt í ríminu, er hann kynnti hin íslenzku Jan Mayen viðhorf í New York.

Þótt allt þetta væri satt, er heimskulegt að flagga því framan í norska fjölmiðla, að baráttumenn íslenzkra hagsmuna séu annarlegir, illgjarnir eða heimskir.

Því miður er það árátta margra Íslendinga að tapa áttum í viðurvist útlendinga. Ein mynd þessa er sú árátta að rægja landa sína í erlend eyru. En sú árátta er ekki hin eina.

Sumir utanríkisráðherrar okkar hafa verið sérfræðingar í að koðna niður og verða að gjalti gagnvart erlendum stórmennum, jafnvel í viðræðum við Frydenlund um Jan Mayen.

Sök Dagblaðsins, Ólafs og Eyjólfs hér að framan var aðeins sú að hafa haldið fram viðhorfum allra íslenzku þingflokkanna, viðhorfum ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu.

Ólafur Jóhannesson segir nú, að sér hafi ekki dottið í hug að mæla með grundvelli hins illræmda uppkasts fundanna í síðustu viku.

Undir forustu Sighvats Björgvinssonar hefur þingflokkur Alþýðuflokksins tekið harðari stefnu en áður í Jan Mayen málinu, hliðstæða stefnu hinna flokkanna.

Því eru þeir engir sértrúarmenn, sem fordæma uppkastið, efast um heilindi Norðmanna og hafna rétti þeirra til efnahagslögsögu við Jan Mayen.

Meira að segja hljóðið í Morgunblaðinu og Tímanum er orðið raunsærra en áður. Tíminn segir, að Norðmenn hafi verið óbilgjarnir, þverir og ósanngjarnir við samningaborðið.

Morgunblaðið segir, að Norðmenn hafi siglt viðræðunum í strand með því að hafa ekki meðferðis umboð ríkisstjórnarinnar til að ræða hafsbotninn umhverfis Jan Mayen.

Nú orðið koma sjónarmið í þágu Norðmanna helzt í ljós í Alþýðublaðinu og eru þau ekki í samræmi við sjónarmið Alþýðuflokksins.

Þar er hinu sama haldið fram og í norskum fjölmiðlum, að Íslendingar séu í klípu og tímahraki vegna 200 mílna efnahagslögsögu Grænlands hinn 1. júní.

Þessi ímyndun um tímahrak byggist á þeim misskilningi, að auðveldara verði að semja við Norðmenn en Dani og Efnahagsbandalagið.

Ný og gömul saga kennir okkur hins vegar, að norsk stjórnvöld eru og verða harðskeyttust allra í viðræðum um íslenzka hagsmuni á norðurslóðum.

Auðvitað er okkur mikilvægt að ná samkomulagi um veiðar innan 200 mílna frá Grænlandi. En um það viljum við semja við aðra en Norðmenn.

Nú vitum við líka annað: Norsk stjórnvöld munu smella í baklás um leið og þau fá skriflegan vott af íslenzkri viðurkenningu á norskri lögsögu.

Framhaldið verður nógu erfitt, þótt ekki sé hvatt til æðibunugangs. Einhliða norsk útfærsla gegn mótmælum er skárri en 95% uppgjöf okkar.

Á meðan mættu ljúflingar Norðmanna gjarna láta af því að rægja hina, sem fast vilja standa á rétti Íslands, og hætta að ráðast á sjónarmið þeirra.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið

Sanngirnin er ekki til.

Greinar

Tvennt getum við lært af Jan Mayen fundum þessarar viku. Í fyrsta lagi hafa norsk stjórnvöld lítinn sem engan áhuga á sanngirni í samkomulagi við íslenzk . Og í öðru lagi er málstaður okkar vonlaus, meðan sundrung okkar er norskum stjórnvöldum ljós.

Það er útbreiddur misskilningur hér á landi, að norsk stjórnvöld vilji samkomulag á sanngirnisgrundvelli. Það, sem þau vilja, er íslenzk undirritun á skilyrðislausri uppgjöf í Jan Mayen málinu í heild. Að því stefna þau markvisst.

Stundum láta norsk stjórnvöld í það skína, að þau hafi áhuga á gagnkvæmri sanngirni. Síðast láku þau í norska fjölmiðla eins konar boði um íslenzkar 200 mílur í átt til Jan Mayen, helmingaskiptum auðlinda við Jan Mayen og eins konar íslenzka loðnuveiðistjórn.

Íslenzkir stjórnmálamenn velta því síðan fyrir sér, hvort rétt sé að samþykkja norska fiskveiðilögsögu eða efnahagslögsögu í skiptum fyrir hin ímynduðu norsku boð. En þessi boð eru alls ekki til, þegar á hólminn er komið.

Í staðinn er beitt aðferðum mafíunnar og sett fram tilboð af því tagi, sem kallað er, að ekki sé hægt að hafna. Í fyrra var reynt að setja Íslendinga í skrúfstykki með hótunum um fyrst rússneska og síðan norska ofveiði á loðnu.

Í þetta sinn var hótað með Efnahagsbandalaginu. Íslendingar verði meira að segja að fallast á miðlínu milli Íslands og Jan Mayen til að skapa fordæmi um miðlínu milli Jan Mayen og Grænlands. Þá muni íslenzk fiskimið lenda Jan Mayen megin.

Síðan er veifað framan í samningamenn Íslands óljósum hugmyndum um íslenzkan veiðirétt á þessu svæði. Ekki er þetta þó meira áþreifanlegt en aðrar tálsýnir og gildrur í vopnabúri samningamanna norskra stjórnvalda.

Í rauninni eru minni líkur á, að slíkur réttur náist hjá Norðmönnum en hjá Dönum, jafnvel þótt Efnahagsbandalagið sé þar að baki. Íslendingar hafa góða reynslu af danskri sanngirni, til dæmis í handritamálinu.

Af norskri hálfu þekkjum við hins vegar aðeins takmarkalausa ósanngirni í Jan Mayen málinu. Þessi ósanngirni er svo einlæg og eðlileg, að norskum samningamönnum finnst allt í lagi að koma umboðslausir, að því er varðar landgrunnið.

Þeir menn, sem kalla greinargerð Sigurðar Lindal, ,drivtömmerfilosofi”, hafna allri sögu Jan Mayen fyrir árið 1926. Þeir gefa líka í skyn, að landgrunn sé ekki til á neðansjávarhryggjum. Og þeir neita því, að sanngirnislína komi í stað miðlínu.

Auðvitað er norskum stjórnvöldum fullkomlega heimilt að koma fram af stjórnlausri frekju. En jafnframt er til of mikils mælzt, að Íslendingar trúi því, að þeir geti samið um fríðindi eftir að þeir eru búnir að fallast á norska lögsögu.

Sumir íslenzkir stjórnmálamenn, svo og Alþýðublaðið, telja, að Íslendingar séu komnir upp að vegg og neyðist til að semja um hvað sem er, áður en 1. júní rennur upp og þar með dönsk útfærsla við Grænland. Þessi taugaveiklun er óskiljanleg.

Ímyndunin um íslenzkt tímahrak hefur valdið sundrungu hjá íslenzkum samningamönnum og fjölmiðlum og magnað vissu norskra stjórnvalda um skilyrðislausa og undirritaða uppgjöf Íslendinga í Jan Mayen málinu.

Hér er ekki rúm til að ræða sundrungina. En hitt er fáránlegt, að Norðmenn skuli geta talið nokkrum Íslendingum trú um, að dönsk útfærsla við Grænland eigi að leiða til íslenzkrar uppgjafar gagnvart Norðmönnum.

Ekkert rökrétt samhengi er þar að baki.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið

Halti haninn

Veitingar

Halti haninn á Laugavegi 178 er ósköp kyrrlát og notaleg veitingastofa, þótt þröng sé. Menn sitja þar oft lengur en þeir nauðsynlega þurfa. Og það er einmitt öruggt merki þess, að þeir kunni við sig.

Innréttingar eru djarfar og grófar. Groddalegur viðurinn trónir í hálfrökkrinu og hverfur upp í myrkrið. Strigaskreytingar á veggjum eru í samræmi við þennan harðákveðna stíl.

Há sætisbök á borðbásunum magna einrúmið. Svo er lýsingin frá rafsuðumótuðum járnlömpunum í draugalegasta lagi. Þar á ofan stuðlar lágvær tónlistin að því, að tímaskynið detti úr sambandi um stundarsakir.

Hér vantar raunar aðeins rauðvínsglasið til að geta fullkomið stefnumótið við elskuna sína. Halti haninn þyrfti vínveitingaleyfi til að nýta sérkennilegar innréttingar og rólegt andrúmsloft til fulls.

Ekki ætti þrifnaður að standa því í vegi. Mér sýndist umgengni starfsfólks um matsal og fremra eldhús vera snyrtilegt. Halti haninn ljómar af hreinlæti og raunar af viðkunnanlegri afgreiðslu líka.

Svo er það maturinn, sem er því miður ekkert sérstakur. Kannski má segja, að hann sé í áreynslulitlu meðallagi og þó tæplega það. Af svonefndum grillstöðum er hann þó í skárra lagi og gengur líklega næst Brauðbæ.

Í prófun Vikunnar kom í ljós, að óhófleg saltnotkun einkenndi matreiðsluna, hefðbundin íslenzk ofsteiking á kjöti, svo og þykkar og vondar hveitisósur. Ef þessir gallar væru lagfærðir, mundu innréttingarnar njóta sín betur.

Skötuselur
Djúpsteiktur skötuselur með kartöflum og kokkteilsósu reyndist vera nokkuð fallegur fiskur, hvítur og bragðgóður. Steikingarhjúpurinn var ljós, þunnur og stökkur, en því miður alltof saltur. Kartöflurnar voru franskar og frambærilegar sem slíkar eins og aðrar þær, er fylgdu réttum Halta hanans. Því miður er ég ekki lengur dómbær á kokkteilsósur, því að ég er farinn að hata þær eins og pestina. Ráðgjafar mínir segja þó, að þetta hafi verið skásta sósan á staðnum. Verðið var 2.800 krónur.
Í stað franskra og kokkteilsósu er hægt að fá hrísgrjón og karrísósu, sem trúlega er skynsamlegra, hrísgrjónanna vegna. Kostar þá skötuselurinn 2.630 krónur.

Pitsa
Pitsa með skinku og spergli var sjálf of þykk og mjúk, en áleggið var sæmilegt. Þetta var síðri pitsa en í Laugaási og hvað þá á Horninu, sem sennilega býður upp á beztu pizzur landsins. Verðið á Halta hananum á þessari tegund pizzu var 2.880 krónur.

Pottréttur
Karrípottréttur, borinn fram í leirskál á leirdiski, hafði að geyma kjötbita, papriku, lauk, gulrætur, tómatkraft og líklega sitthvað fleira. Ofan á tróndu fyrirtaks hrísgrjón. Þetta var kryddsterkur matur og bragðgóður. Verðið var 3.500 krónur á matseðli dagsins.

Kínverskar
Kínverskar pönnukökur með karrísósu og hrísgrjónum voru hæfilega stökkar og þunnar, en að öðru leyti ekki í frásögur færandi. Þarna kom þó í ljós, að hrísgrjón voru betra meðlæti en ýmislegt bras, sem fylgdi réttum Halta hanans. Verðið var 2.400 krónur.

Kjúklingur
Hálfur kjúklingur með sveppasósu og spergli hafði verið grillaður hæfilega lengi og var meyr og safaríkur. Spergilbitarnir voru ómerkilegt jukk úr ódýrri dós. Sveppasósan var hveitisósa með fáeinum sveppum, andstyggileg sósa. Hrásalatið var sæmilegt, en þó næstum eingöngu hvítkál og of mikið jóðlandi í salatsósu. Frönsku kartöflurnar voru ljósar og frambærilegar, sem fyrr segir. Þetta var semsagt ágætur kjúklingur með lélegu meðlæti. Verðið var 5.080 krónur.

Lambagrillsteik
Lambagrillsteik með kryddsmjöri og sveppum hafði verið þrælsteikt, svo að hún var orðin of þurr. Þar á ofan var hún of söltuð. Kryddsmjörið var mjög sterkt, sérkennilegt, ljósrautt og vont. Frönskum kartöflum hefur áður verið lýst, svo og hrásalatinu. Ofan á réttinum hvíldi skelfilegur hlaði af dósasveppum. Verðið var 4.320 krónur.

Turnbauti
Turnbauti með béarnaise-sósu og ristuðum sveppum var þrælsteiktur og safalaus, en ekki seigur og hélt nokkru af upprunalegu bragði. Sósan var ein af þessum, sem tæpast hníga, mikið krydduð, en ekki beinlínis vond. Frönskum og hrásalati hefur áður verið lýst, svo og hlaðanum af dósasveppum. Verðið var 6.500 krónur.

Ís
Ísinn kom beint úr pakkanum og var sæmilegur, en ég kunni hvorki við hina sterku bragðsósu né niðursoðnu ávextina, sem velja mátti um. Verðið á fyrri gerðinni var 600 krónur og 650 krónur á hinni síðari.

Kaffi
Kaffi á Halta hananum reyndist hlutlaust og sæmilegt. Verðið var 400 krónur.

Langur seðill

Matseðillinn á Halta hananum er óvenjulega langur. Fyrir utan pizzur, hamborgara og ýmsa smárétti má telja á honum tæplega 30 aðalrétti. Það er greinilega of mikill fjöldi fyrir svona lítinn stað, þótt margir réttirnir séu tilbrigði við sama stef.

Á matseðli dagsins eru tvær súpur og tveir aðalréttir. Sé valið af honum ætti tveggja rétta máltíð að kosta að meðaltali 4.300 krónur og 4.700 krónur, ef kaffi er meðtalið. Það er nokkuð hátt verð.

Á fastamatseðlinum var verð sex smárétta að súpum dagsins meðtöldum 2.200 krónur, 28 aðalrétta 4.400 krónur og ýmissa ísa í eftirrétt 600 krónur. Þriggja rétta máltíð af fastaseðli ætti því að kosta að meðaltali 7.200 krónur og 7.600 krónur að kaffi meðtöldu.

Í grófum dráttum má því segja, að Halti haninn sé í sama verðflokki og Skrínan, Askur og Esjuberg, dýrari en Matstofa Austurbæjar, Múlakaffi, Laugaás, Hornið og Brauðbær.

Matreiðslan á Halta hananum fær fimm í einkunn og umhverfi og andrúmsloft átta í einkunn. Þjónusta er ekki veitt, en fyrir þægilega afgreiðslu fær staðurinn aukaprik. Vegin meðaleinkunn staðarins er fjórir.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Uppkast út í hött.

Greinar

Knut Frydenlund virðist hafa einstæða hæfileika til að vefja íslenzkum starfsbræðrum um fingur sér. Þannig lék hann Benedikt Gröndal, þáverandi utanríkisráðherra, í fyrra . Og þannig hefur hann nú leikið Ólaf Jóhannesson, raunar sýnu grár.

Uppkastið, sem Ólafur Jóhannesson var reiðubúinn að skrifa undir í gær, er nokkru verra en það, sem Benedikt Gröndal kom með frá Noregi á sínum tíma. Það má því segja um stjórn utanríkismála Íslands, að lengi geti vont versnað.

Samkvæmt uppkastinu áttu Íslendingar að viðurkenna eða láta óátalda norska efnahagslögsögu við Jan Mayen. Í staðinn áttu Íslendingar ekki að fá neitt einasta, áþreifanlegt atriði, ekki einu sinni varanlegar loðnuveiðar.

Í uppkastinu fólst ekki viðurkenning á óskertum 200 efnahagsmílum Íslands í átt til Jan Mayen. Þar var ekki minnzt einu orði á hafsbotnsréttindi Íslands við Jan Mayen. Og loðnuveiðar Íslendinga við Jan Mayen áttu aðeins að fá að standa í eitt til fimm ár til viðbótar!

Nú er það sérstakt rannsóknarefni, hvernig Ólafur Jóhannesson gat talið sjálfum sér trú um um, að þetta fáránlegasta uppkast allra uppkasta túlkaði sanngjarna niðurstöðu . Hann hlýtur að hafa verið sleginn óvenjulegri blindu.

Ekki er síður alvarlegur þáttur Hans G. Andersen í smíði uppkastsins. Sá þáttur kom líka sérstaklega á óvart, því að Hans hefur hingað til staðið sig vel í hafréttarmálum. En hér eftir verður Dagblaðið að draga í efa, að hann sé fær um að gæta hagsmuna Íslendinga gagnvart Norðmönnum.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Alþýðubandalagsins, þeir Matthías Bjarnason og Ólafur Ragnar Grímsson, sögðu Ólafi Jóhannessyni auðvitað strax, að þetta uppkast væri út í hött. Og þeir urðu að taka til fótanna til að stöðva karlinn.

Ásamt Sighvati Björgvinssyni frá Alþýðuflokknum skutu þeir á þingflokksfundum til að segja frá ótíðindunum. Niðurstaðan var sú, að þingflokkar Sjálfstæðisflokksins, Alþýðubandalags og Alþýðuflokks höfnuðu uppkastinu algerlega.

Á sama tíma voru þingmenn Framsóknarflokksins farnir að hringja í Steingrím Hermannsson sjávarútvegsráðherra til að forvitnast um, hvað væri á seyði. Er það kom í ljós, varð einnig uppreisn í Framsóknarflokknum.

Er Ólafur Jóhannesson stóð andspænis hótunum mikils meirihluta alþingis um að taka þetta endemisuppkast umsvifalaust upp utan dagskrár á þingi, lét hann loks undan. Segja má með sanni, að þar hafi hurð skollið nærri hælum.

Það er hart til þess að vita, að nú sem í fyrra skuli í broddi utanríkismála og hafréttarmála landsins vera menn, sem ekki er hægt að treysta. Menn, sem koðna niður og tapa öllum áttum, þegar þeir standa andspænis erlendum höfðingjum.

Nú er ljósara en nokkru sinni fyrr, að baráttumenn íslenzkra hagsmuna, bæði í stjórnarflokkunum og í stjórnarandstöðunni, svo og fjölmiðlar, verða að halda vöku sinni, ef unnt á að vera að hindra stórslys í samningum um Jan Mayen.

Satt bezt að segja er skárra, að Norðmenn taki sér efnahagslögsögu við Jan Mayen gegn mótmælum Íslendinga, heldur en að ráðamenn Íslands þurfi sjálfir að undirrita skilyrðislausa uppgjöf í Jan Mayen deilunni. Hótanir Norðmanna eru því einskis virði.

Uppkastið í gær jafngilti skilyrðislausri uppgjöf Íslendinga gagnvart Norðmönnum.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið

Stórhættulegir.

Greinar

Norðmenn eru slyngir kaupsýslumenn. Í samningum hafa þeir lag á að kreista sítrónuna til fulls. Þetta kemur vel fram í viðræðum þeirra við Íslendinga um Jan Mayen. Þar hyggjast þeir ná sem mestu fyrir sem minnst.

Svo einlæg er harka hinna norsku samningamanna og þeim svo eðlileg, að þeir blikna ekki, þegar þeir reyna að draga viðsemjendur sína á asnaeyrunum. Þeir þykjast aldeilis undrandi á því, að Íslendingar vilji ekki taka við gjöfum á silfurdiski.

Fyrir fundina, sem nú standa yfir í Reykjavik, létu norsk stjórnvöld leka því, að þau væru fús til að létta á hinni hörðu Jan Mayen línu. Þetta virtist í fyrstu nokkurt fagnaðarefni, enda raunveruleikinn þá ekki kominn í ljós.

Samkvæmt lekanum áttu Íslendingar að fá 200 mílna lögsögu til Jan Mayen, hálfar nytjar norskrar efnahagslögsögu við Jan Mayen og yfirstjórn loðnuveiða á svæði Íslands og Jan Mayen að verulegu leyti, ef þeir samþykktu hina norsku lögsögu.

Steingrímur Hermannsson sjávarútvegsráðherra beit á agnið. Hann sagði í fjölmiðlum, að norsk fiskveiðilögsaga kæmi til greina við Jan Mayen, ef ýmsum skilyrðum væri fullnægt. Norska efnahagslögsögu nefndi hann þó ekki.

Steingrímur bætti svo gráu ofan á svart með því að segja, að íslenzka krafan um samstjórn Norðmanna og Íslendinga á fiskveiðum umhverfis Jan Mayen sé algerlega óraunhæf. Þarna endurtekur hann órökstuddar fullyrðingar Norðmanna.

Út af fyrir síg getur verið, að Steingrímur trúi síbylju Norðmanna um samstjórnina. En hann má ekki vera svo lélegur samningamaður, að hann gefi sér þessa trú sem forsendu í upphafi viðræðna við harða samningamenn.

Steingrímur hefði heldur átt að líta á þessa trú sem mikilvæga tilslökun af sinni hálfu, sem yrði vegin og metin á móti öðrum tilslökunum af hálfu Norðmanna. Þannig fara hinir norsku samningamenn að í svipuðum málum.

Afleiðingin af tvöföldum fótaskorti Steingríms á tungunni er sú, að hinir norsku samningamenn hafa styrkzt í þeirri trú, að þeir geti haldið áfram að neita að ræða norska lögsögu við Jan Mayen öðru vísi en sem forsendu.

Ekki bætir úr skák, að flokksblað íslenzkra og norskra Alþýðuflokksmanna tekur í morgun í forsíðuleiðara upp hanzkann fyrir Norðmenn og gagnrýnir harðlega ýmsar röksemdir, sem haldið hefur verið fram af Íslands hálfu.

“Jan Mayen skiptir engu höfuðmáli …”, segir í lok þessarar einstæðu greinar. Þá vita hinir norsku samningamenn það. Enginn vafi er á, að þeir gleðjast mjög af fótaskorti Steingríms og rugli skjólstæðings síns, Alþýðublaðsins.

Enda kemur það í ljós á fundunum, að norsku samningamennirnir kannast ekki við lekann, sem þeir stóðu fyrir. Þeir eru enn að þjarka um, að miðlína verði að gilda milli Íslands og Jan Mayen. Þetta kallast nú að kreista sítrónuna vel!

Dagblaðið tók í gær undir það sjónarmið Norðmanna, að til greina gæti komið að taka fiskveiðimálin á undan öðrum þáttum, reyna að leysa þau nú til bráðabirgða, en fresta hinum þáttunum til betra tóms.

Dagblaðið varaði þó við bráðabirgðasamkomulagi, er túlka mætti sem skref í átt til norskrar efnahagslögsögu við Jan Mayen. Þessar aðvaranir, sem voru meginefni leiðarans, hafa greinilega ekki verið ástæðulausar. Norðmenn eru stórhættulegir í samningum.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið

Farið varlega.

Greinar

Norðmenn og Íslendingar munu í þessari lotu ekki ná samkomulagi um varanlega skipan mála á Jan Mayen svæðinu. Sjónarmiðin eru svo andstæð, að það mun taka langan tíma að finna sanngjarna lausn, þótt báðir aðilar legðu sig fram.

Enda munu ríkisstjórnir beggja landa telja vænlegra til árangurs að stefna að niðurstöðu á afmörkuðu sviði fyrir sumarið. Tímahrak deiluaðila er fyrst og fremst í skipulagi fiskveiða á Jan Mayen svæðinu. Það skipulag er nú aðalmálið.

Hagkvæmast fyrir báða aðila er að koma á einhverri þeirri skipan, sem í raun hindri veiðar annarra á þessu svæði og ákveði skiptingu loðnunnar milli Norðmanna og Íslendinga. Slík niðurstaða væri áfangasigur fyrir báða.

Vandinn er hins vegar sá, að samkomulag til bráðabirgða má ekki búa til neitt fordæmi, sem önnur hvor ríkisstjórnin geti síðan notað sér í hag í frekari viðræðum um varanlega hagsmuni á Jan Mayen svæðinu. Þar stendur hnífurinn í kúnni.

Norsk stjórnvöld eru andvíg samkomulagi, sem síðar mætti túlka sem vefengingu á rétti þeirra til efnahagslögsögu eða fiskveiðilögsögu við Jan Mayen. Og íslenzk stjórnvöld eru andvíg samkomulagi, sem síðar mætti túlka sem staðfestingu slíks réttar.

Til bráðabirgða gætu ríkisstjórnirnar tilkynnt sameiginlega, að þær hefðu tekið að sér fiskvernd og skipulag fiskveiða á þessu svæði, þar með ákvörðun leyfilegs afla úr einstökum stofnum og skiptingu hans.

Af norskri hálfu er því haldið fram, að sameiginlegar tilkynningar af slíku tagi hafi ekkert hafréttargildi. Þetta segja þeir af ásettu ráði til að negla fast það sjónarmið, að samkomulag þurfi að vera innan ramma norskrar efnahagslögsögu.

Í raun eru þetta marklausar röksemdir. Aðrar þjóðir, meira að segja Rússar, mundu eiga mjög erfitt með að athafna sig í trássi við sameiginlega yfirlýsingu Norðmanna og Íslendinga um skipan fiskveiða á Jan Mayen svæðinu.

Ef litið er til fortíðarinnar, má sjá, að svokallaður hafréttur er lítið annað en formleg staðfesting á rétti, sem hinn sterki hefur tekið sér. Og enginn getur efast um, að einungis Norðmenn og Íslendingar hafa þarna sögulegan efnahagsrétt.

Íslendingar verða að halda fast við þá skoðun, að norsk efnahagslögsaga við Jan Mayen komi ekki til greina. Fyrir því eru ýmsar gildar ástæður.

Segja má, að það sé söguleg tilviljun, að hinn sterki aðili í þessum samanburði, Noregur, hafði bolmagn til að nýta hagsmuni sína á Jan Mayen til landnáms, þótt nær allar götur hafi tengslin við Jan Mayen fremur verið íslenzk en norsk.

Við lítum á það sem norska útþenslustefnu, þegar reynt er að nota þessa sögulegu tilviljun til að draga úr rétti Íslendinga til landgrunns á neðansjávarhryggnum út til 350 mílna í samræmi við nýjan hljómgrunn á Hafréttarráðstefnunni.

Við lítum líka á það sem norska útþenslustefnu, þegar þetta sama er reynt að nota til að draga úr rétti Íslendinga til umsjónar með þeim loðnustofni, sem þeir urðu fyrstir til að nýta, á undan Norðmönnum.

Efnahagslögsaga byggist á efnahagsþörfum íbúa strandarinnar. Á Jan Mayen eru engir þeir íbúar, sem sækja sjó eða vinna verðmæti af hafsbotni. Við höfum hins vegar íbúa til að nýta allt landgrunn og landgrunnshaf Íslands og Jan Mayen.

Þessa dagana skiptir mestu, að samningamenn Íslands láti ekki teyma sig út í neitt orðalag, er skert geti þann rétt, sem hér hefur verið lýst.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið

Jan Mayen fyrir saltkjöt?

Greinar

Leiddar hafa verið líkur að því, að hagsmunir íslenzks landbúnaðar hafi komið í veg fyrir, að framsóknarstjórn Tryggva Þórhallssonar ítrekaði árið 1929 fyrirvara íhaldsstjórnar Jóns Þorlákssonar frá 1927 gegn norsku landnámi á Jan Mayen.

Norskir þjóðréttarfræðingar leggja áherzlu á, að fyrirvarar Jóns Þorlákssonar hafi beinzt að þáverandi landnámi Veðurstofu Noregs á Jan Mayen. Þá fyrirvara hefði átt að ítreka, þegar norska ríkið sem slíkt nam eyna tveimur árum síðar.

Sigurður Líndal prófessor er þessu ósammála: “Norska Stórþinginu var kunnugt um alla fyrirvara Íslendinga … Þeim hafði ekki verið andmælt, né heldur gerðar við þá aðrar athugasemdir. Hefur því verið eðlilegt að álíta 1929, að fyrirvararnir frá 1927 nægðu, enda skammt síðan þeir hefðu verið gerðir og því óþarfi að ítreka þá.”

Hinu er samt ekki að leyna, að staða Íslands væri nú sterkari gagnvart Noregi út af Jan Mayen, ef Tryggvi Þórhallsson hefði ítrekað fyrirvara Jóns Þorlákssonar. Þá gætu norskir þjóðréttarfræðingar ekki haldið uppi hártogunum á mismun landnáms af hálfu stofnunar og ríkis.

Í tilvitnaðri greinargerð Sigurðar Líndal um afskipti Íslendinga af Jan Mayen er gerð tilraun til að útskýra, hvaða hagsmunir ollu því, að íslenzk stjórnvöld voru miklu varfærnari gagnvart Norðmönnum árið 1929 en 1927.

Frá aldamótum hafði helzti saltkjötsmarkaður Íslendinga verið í Noregi, þrír fimmtu hlutar alls kjötútflutningsins. Þessi markaður lokaðist árið 1922 vegna stórhækkunar tolls í Noregi. Árið 1924 sömdu Norðmenn og Íslendingar síðan um lækkun þessa tolls gegn ívilnun til norskra fiskveiða við Ísland og norskrar fiskvinnslu á Íslandi.

Norskir bændur voru mjög óánægðir með þennan samning og vildu sitja einir að norskum kjötmarkaði. Íslendingar töldu því liggja í loftinu, að kjöttollssamningnum yrði sagt upp. Og það gerðist einmitt árið 1932. Um þetta tímabil segir Sigurður:

“Þegar þetta er haft í huga, sýnist sú skýring nærtæk, að íslenzka ríkisstjórnin, sem einkum studdist við fylgi bænda og taldi sig eiga undir högg að sækja hjá Norðmönnum um brýnt hagsmunamál bændastéttarinnar, hafi talið óráðlegt að hætta á deilur við Norðmenn um réttindi við Jan Mayen, sem skiptu litlu máli eins og á stóð miðað við þá miklu viðskiptahagsmuni, sem í húfi voru.

Má hér minna á, að í umræðum um kjöttollssamninginn (síðari (innsk. DB)) á alþingi 1933 féllu þung orð um þann ágang, sem nokkrir þingmenn töldu Íslendinga hafa orðið að þola af hendi Norðmanna vegna síldveiða þeirra víð Ísland. Var jafnvel látið að því liggja, að Norðmenn hefðu hug á að ná tangarhaldi á Íslandi, enda í samræmi við landvinningastefnu þeirra í norðurhöfum.

Árið 1929 hefur því aðstaða Íslendinga til að hreyfa athugasemdum við innlimum Jan Mayen og minna á rétt sinn þar verið ákaflega erfið.”

Það er því ekki ný bóla, að íslenzkur landbúnaður sé okkur þungur í skauti. Líklega hafa menn ekki haft hinar rosalegu útflutningsuppbætur framtíðarinnar í huga, þegar þeir “gáfu” Jan Mayen fyrir saltkjöt!

Við verðum að horfast í augu við, að árið 1980 nota norskir þjóðréttarfræðingar sér erfiðleika íslenzks landbúnaðar og framsóknarstjórnar árið 1929, þegar saltkjötsmarkaður virtist merkilegri en Jan Mayen. Árið 1929 voru engir fyrirvarar, segja þeir.

En íslenzku gagnrökin eru sterk. Fyrirvararnir frá 1927 voru nýlegir og Norðmenn höfðu ekki andmælt þeim.

Jónas Kristjánsson.

Dagblaðið

Múlakaffi

Veitingar

Múlakaffi er líklega vinsælasti matstaður Reykjavíkur. Þangað flykkjast vöruflutningabílstjórarnir. Í Frakklandi væri slíkt talið merki þess, að um góða matstofu væri að ræða. Í hádeginu er hinn stóri, 200 sæta salur nokkurn veginn fullsetinn.

Í kvöldmat koma einhleypingarnir, sem búa í leiguherbergjum úti í bæ. Þeir nota Múlakaffi sem sitt annað heimili, hanga þar fram eftir kvöldi yfir sjónvarpinu. En hvað er það, sem gerir Múlakaffi svona vinsælt?

Ekki eru það útlitið eða innréttingarnar. Hinn stóri salur er fremur kuldalegur og alls ekki smekklegur. Hann hefur þó eins konar teppi á gólfi og lítur snyrtilega út, nema kannski rétt á meðan hádegisbylgjan er að falla út.

Kannski hefur verðið mikið að segja, en tæplega allt. Mér sýnist Matstofa Austurbæjar vera örlitlu ódýrari, Laugaás á sama verði, Hornið og Brauðbær lítillega dýrari. Múlakaffi sker sig því ekki eitt úr í lágu verði, þótt lágt sé.

Saltkjöt og baunir

Mér sýnist helzt, að vinsældirnar stafi af því, að menn fá heimilismat í Múlakaffi, mat eins og þeir fengu hjá mömmu gömlu. Þeir njóta þar hefðbundinnar íslenzkrar matreiðslu, sem er heilum gæðaflokki ofan við flestar steikarbúlur.

Í Múlakaffi fá menn til dæmis steikta lifur, saltkjöt og baunir, hangikjöt, gúllas, kjötbollur, hvítkálsböggla, fiskibollur, saltfisk, soðna ýsu, skötu, skyr með rjómablandi, hvítar kartöflur og brúnaðar, rauðkál og mjólk.

Menn fá hins vegar ekki pizzur og tæplega hamborgara, franskar kartöflur og kokkteilsósu. Að vísu er í Múlakaffi sérstakt grillhorn, þar sem menn geta sérpantað steikur og hamborgara, franskar og kokkteilsósu, en sárafáir notfæra sér það.

Rótfestan í matreiðslu Múlakaffis er greinilega að skapi hins úlpuklædda almennings, sem vinnur fyrir sér með höndum sínum. Hvítflibbungar sjást þar fáir og enn síður rótlaus unglingaaðallinn, sem elskar franskar með sósu á steikarbúlum.

Skata með mörfeiti

Í rauninni er 200 sæta salur allt of stór. Umsetningin er of hröð fyrir góða matreiðslu. Enda byggist árangur Múlakaffis á því, að eigandinn er ekki í forstjóraleik, heldur fylgist dag eftir dag árvökulum augum með stóru og smáu. Þannig heldur staðurinn matreiðslureisn, þrátt fyrir stærðina.

Ég er með þessu ekki að segja, að Múlakaffi sé eitthvert Mekka matargerðarlistar. Aðeins, að matreiðslan þar er í góðu meðallagi, fylgir íslenzkri hefð og er betri en á öllum grillstöðum borgarinnar, öðrum en Brauðbæ.

Í Múlakaffi er til sérstakur fastamatseðill, sem enginn notar og er ekki hafður til sýnis. Allir gestir nota matseðil dagsins, sem býður upp á tvær súpur, skyr og kaffi, fimm aðalrétti í hádeginu og fjóra á kvöldin.

Í hádegisheimsókn Vikunnar var boðið upp á soðna skötu með mörfeiti, steikt smálúðuflök, reykt folaldakjöt með kartöflujafningi og Vínarsnitsel með grænmeti. Í kvöldheimsókninni voru pönnusteikt ýsuflök, sænskur biximatur, ragú með kartöflustöppu og enskt buff með lauk.

Súpa
Espagnole var hveitisúpa, sæmileg sem slík og ekki kekkjuð, en ekki við minn smekk. Verð súpunnar var innifalið í verði rétta dagsins, en sérpöntuð kostaði hún 700 krónur.
Í þessu hádegi mátti velja milli Espagnole og vanillusúpu og um kvöldið mátti velja milli “súpu” og makkarónusúpu. Menn geta því valið um að fá venjulega hveitisúpu á undan aðalrétti eða, eins og tíðkaðist hér áður fyrr, sæta mjólkursúpu á eftir aðalrétti.

Steikt lifur
Steikt lifur með kartöflustöppu var ágætur matur. Lifrin var hæfilega steikt og bragðgóð. Kartöflustappan var sómasamleg. En brúna hveitisósan var ekki lystug. Verðið var 2.500 krónur að súpu innifalinni.

Pönnufiskur
Pönnusteikt ýsa með hvítum kartöflum og hrásalati var góður hversdagsmatur. Fiskurinn var hvítur að innan. Steikarhjúpurinn var hvorki of voldugur né með grófu feitibragði. Hvítu kartöflurnar voru góðar og hrásalatið var bæði fjölbreytt og gott. Verðið var 2.300 krónur með súpu.

Laukbuff
Buff með lauk, rauðkáli og brúnuðum kartöflum var furðu góður matur. Buffið hafði verið duglega barið og var nokkuð meyrt. Ekki hefði þó skaðað að steikja það töluvert minna. Rauðkálið var tiltölulega milt á bragðið. Brúnuðu kartöflurnar voru ljósar, ekki of mikið brúnaðar og bara nokkuð góðar. Verðið var 3.300 krónur með súpu.

Kótilettur
Grillaðar kótilettur með hreðku, salatblaði, frönskum kartöflum og hrásalati var ekki á seðli dagsins, heldur á fastaseðli grillhornsins. Þær höfðu ekkert umfram hina hversdagslegri rétti matseðils dagsins. Þær voru ekki of feitar, en fullmikið grillaðar og ofsaltaðar. En þær voru meyrar og sæmilega bragðgóðar. Dálítið feitibragð var að frönsku kartöflunum, sem voru þó sæmilega ljósar. Hótelsmjörið var í lagi og hrásalatið fjölbreytt og gott. Verðið var 3.700 krónur.

Skyr
Hrossaskammtur af skyri með rjómablandi, sem ætti einn út af fyrir sig að seðja hvern sem er, kostaði 900 krónur.

Ís
Marsipanís með niðursoðnum perum og súkkulaði var á fastaseðlinum. Í rauninni var hann með niðursoðnum jarðarberjum og að auki með þeyttum rjóma, blönduðum safanum úr berjadósinni. Þetta var emmess ís og kostaði 700 krónur.

Kaffi
Kaffið var ósköp líkt því, sem gengur og gerist á íslenzkum veitingahúsum. Helzti kostur þess var hinn sami og í Laugaási og Matstofu Austurbæjar, að kaffi eftir mat er selt á lægra verði en kaffi eitt út af fyrir sig. Verðið var 220 krónur.

Það er skynsamlegt hjá Múlakaffi að leggja alla áherzlu á matseðil dagsins og skipta stöðugt um rétti á honum. Fyrir bragðið ræður eldhúsið betur við það, sem upp á er boðið. Fastaseðillinn er líka fremur hóflegur og telur aðeins 13 aðalrétti.

Meðalverð tveggja rétta máltíðar á seðli dagsins var 2.600 krónur. Að kaffi viðbættu kemst máltíðin upp í 2.800 krónur, sem eru reyfarakaup. Hliðstæð tveggja rétta máltíð með kaffi kostar 2.600 krónur í Matstofu Austurbæjar, 3.000 krónur í Laugaási, 3.600 krónur í Aski, 4.100 krónur í Skrínunni og meira annars staðar.

Meðalverð sex forrétta og smárétta á fastaseðlinum var 1.600 krónur, 13 aðalrétta 3.800 krónur og þriggja eftirrétta 800 krónur. Meðalverð þriggja rétta máltíðar af þeim seðli ætti því að vera 6.200 krónur og 6.400 krónur að kaffi meðtöldu.

Múlakaffi hefur hvorki þjónustu né vín og getur því ekki fengið stig fyrir þá hluti. Og ekki getur staðurinn fengið hátt fyrir útlitið og innréttingarnar. En frá sjónarmiði matargerðarinnar einnar er Múlakaffi virðingarverður staður, sem heldur uppi merki íslenzkrar heimilismatreiðslu.

Múlakaffi fær sex í einkunn fyrir matreiðslu og fimm fyrir umhverfi og andrúmsloft. Vegin meðaleinkunn staðarins er fjórir.

Jónas Kristjánsson

Vikan