Author Archive

Byrjað á endanum

Greinar

A þessu ári þvingar ríkið bændur til að minnka framleiðsluna, um leið og það hvetur þá til að auka fjárfestinguna. Það beitir stjórntækjum, sem stangast á. Annars vegar er kvótakerfið nýja og hins vegar styrkja- og lánakerfið gamla.

Kvótakerfið hóf göngu sína í ár. Þetta kerfi virðist munu leiða til minni framleiðslu á veturna, þegar hún er hæfileg fyrir, og til óbreyttrar framleiðslu á sumrin. þegar hún er nú 50% of mikil. Útfærsla kvótakerfisins er því vanhugsuð.

Dæmigert fyrir ráðamenn okkar er, að þeir búa til stjórnkerfi, sem er bæði í innra og ytra ósamræmi. Á föstudaginn var hér í leiðara fjallað um innra ósamræmið, sem mun leiða til meiri árstíðaskekkju í framleiðslunni en áður var.

Ytra ósamræmið er ekki síður alvarlegt. Kerfi til takmörkunar á framleiðslu búvöru er skellt ofan á eldra kerfi, sem stefnir eindregið að því að búa í haginn fyrir aukna framleiðslu. Styrkja- og lánakerfið helzt óbreytt.

Á þessu ári ver ríkið af skatttekjum sínum hálfum fjórða milljarði króna til beinna fjárfestingarstyrkja í landbúnaði. Og Stofnlánadeild landbúnaðarins ver svipaðri upphæð til fjárfestingarlána. Þetta er rífleg verðbólguhækkun milli ára.

Afleiðingin er sú, að nú er fjárfest í landbúnaði með sama hraða og áður. Búvélasalar hafa staðfest, að enginn bilbugur sé á vélakaupum til landbúnaðar. Bundið er meira fjármagn til að framleiða minni afurðir.

Það eykur verðbólguna og er í óþökk skattgreiðenda að styrkja framkvæmdir í grein, sem er að draga saman seglin. Því fé er ekki aðeins á glæ kastað. Því er beinlínis beitt gegn augljósum hagsmunum þjóðfélagsins.

Bændur hafa svo sjálfir bölið af þeim hluta framkvæmdafjárins, sem er lán. Þau þurfa þeir að endurgreiða, í verðtryggðri mynd, af minnkuðum afurðatekjum. Lánabyrðin verður stærri hluti af veltu þeirra. Afkoman versnar.

Segja má, að hver ráði því, hvort hann reisir sér hurðarás um öxl. En það er ábyrgðarhluti að hafa í frammi freistingar styrkja og lána, sem valda því, að menn gleyma morgundeginum og binda sér óskynsamlega skuldabagga.

Landbúnaðurinn er engan veginn eina dæmið um, að fyrirgreiðsla stjórnvalda getur leitt til verri afkomu. Hin miklu skipakaup á áttunda áratugnum eru í rauninni enn hrikalegra dæmi. Öll voru þau skip keypt á kostnað sjóða og á ábyrgð ríkis.

Síðan stendur sjávarútvegurinn andspænis óhóflegri sókn í fiskistofna. Hann stendur andspænis sífelldri fækkun leyfilegra veiðidaga, sem dugir þó ekki til að bjarga stofninum. Hann stendur hreinlega andspænis gjaldþroti á næstu árum.

Seint og um síðir sáu stjórnvöld að sér og fóru að draga ár freistingum til skipakaupa. Nú er þar á ofan verið að taka skip af frílista, gera skipakaup háð samþykki ríkisvaldsins. Og öllum er ljóst, að um annað var ekki að ræða.

Lærdómurinn af þessu nýttist ekki á öðrum sviðum. Þegar offramleiðsla óseljanlegrar búvöru sprengdi ríkissjóð, datt feðrum lands og landbúnaðar ekki í hug að draga úr freistingum til fjárfestingar í landbúnaði.

Í stað þess að byrja á byrjuninni var gripið til þess ráðs að neita að kaupa búvörur umfram hið skammtaða magn kvótakerfisins. Og þegar er ljóst, að þetta kerfi mun verða bændum, neytendum og skattgreiðendum þungt í skauti.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Fínimannsleikur.

Greinar

Varla er opnuð svo sýning á danskri framleiðslu í öðrum löndum, að Margrét, drottning Dana, sé ekki viðstödd. Hún er höfð í fremstu víglínu danskrar sölumennsku. Og það er ekki að ástæðulausu.

Þegar Margrét mætir, verða þjóðhöfðingjar og ráðamenn sýningarlandsins líka að mæta. Hið sama gildir um fjölmiðlana. Árangurinn eru myndir af drottningunni með danskar vörur í baksýn.

Þannig selja Danir smjör og listmuni og allt þar á milli. Þeir beita hyggjuviti sínu á þessu sviði sem öðrum. Og enginn þeirra telur fyrir neðan virðingu sína að taka þátt í þessu.

Danir hafa litlar auðlindir. Samt hefur þeim tekizt að byggja upp iðnað og velmegun. Lykillinn að þeim árangri er kostgæfni í sölumennsku á erlendri grund.

Sendiráð Dana eru önnum kafin í sölumennsku. Ráðherrar þeirra taka stundum þátt í þessu starfi. Jafnvel konungsfjölskyldan telur sér skylt að vera nánast í fullu starfi á þessu sviði.

Danir eru ekki einir um þessa stefnu. Hvarvetna er mikið unnið að sölumennsku í sendiráðum ríkja. Við höfum nýlegt dæmi af sölumannafundi fiskseljenda í Bandaríkjunum.

Sendiráð Kanada og Noregs áttuðu sig á, að nauðsynlegt var að sinna þessum mönnum, sem selja kanadískan og norskan fisk víðs vegar um Bandaríkin. Þau höfðu inni boð fyrir þá.

Sendiráði Íslands var bent á, að hér væri um að ræða hóp manna, sem skipti Ísland miklu máli. Þeir væru á endastöð lífsbaráttu þjóðarinnar. Þeir útveguðu gjaldeyrinn.

En sendiráðið hafnaði afskiptum af málinu. Líklega hefur því þótt fyrir neðan sína virðingu að bjóða til sín fisksölum. Sendiráð eru nefnilega stikkfrí í íslenzkri lífsbaráttu.

Við erum svo skyni skroppnir í þessum málum, að við höfum sérstakt ráðuneyti í utanríkisviðskiptum, svonefnt viðskiptaráðuneyti, sem er ekki í neinum formlegum tengslum við utanríkisráðuneytið.

Sendiherrar Íslands erlendis eru ekki í vinnu hjá viðskiptaráðuneytinu, heldur utanríkisráðuneytinu. Og vegna tilvistar hins fyrra telur hið síðara sig engum söluskyldum hafa að gegna.

Nærri allur tími íslenzkra sendiherra fer í sérkennilegan og hefðbundinn menúett sendiherra. Þegar þeir taka við störfum á nýjum stað, þurfa þeir að heimsækja hina hundrað sendiherrana og bjóða þeim á móti.

Utanríkisþjónusta okkar er hreinn og einfaldur fínimannsleikur. Fiskur er þar svo fjarlægur, að menn vita ekki sinu sinni, hvernig hann er á bragðið.

Samt búum við í svo fámennu þjóðfélagi, að við áttum okkur á, að það er sameiginlegt fyrirtæki. Allir verða að leggja hönd á plóginn, ekki bara þeir, sem stunda sjóinn og frystihúsin.

Ef ormur finnst í íslenzku fiskflaki í Bandaríkjunum, er hægt að rekja hann til stúlkunnar, sem hreinsaði þann fisk. Láglaunakonan ber ábyrgð á handverki sínu.

Fína fólkið ber hins vegar enga ábyrgð. Forsetaskrifstofan, forsætisráðuneytið og utanríkisráðuneytið telja sig ekki vera málsaðila í velgengni og vanda íslenzkra útflutningsafurða.

Svo stöndum við allt í einu andspænis samdrætti í fisksölu í Bandaríkjunum. Frystigeymslur okkar, bæði þar vestra og um allt land, eru að fyllast. Verðhrun er hugsanleg afleiðing.

Ef þetta væri danskur fiskur, væri Margrét drottning komin vestur um haf til að láta mynda sig með fisk í baksýn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Flaggið er ekki lengur falskt.

Greinar

Út af fyrir sig er hægt að þakka Seðlabankanum fyrir að hafa loksins áttað sig á eðli margfrægrar innlánsbindingar. Einnig er hægt að gagnrýna bankann fyrir að hafa árum saman reynt að láta líta svo út sem um stjórntæki í peningamálum væri að ræða.

“Eins og nú standa sakir hefur Seðlabankinn ekki yfir að ráða neinu áhrifamiklu tæki til þess að vega gegn utanaðkomandi þenslu, t.d. vegna óvenju mikilla gjaldeyriskaupa, þar sem innlánsbindingin er að fullu notuð til þess að fjármagna endurkaup.”

Þessi orð formanns bankastjórnar á ársfundi Seðlabankans eru auðvitað laukrétt. En þau eru ekki nýjar fréttir þeim, sem löngum hafa bent á þessa staðreynd og kvartað um, að bankinn sigldi undir fölsku flaggi í innlánsbindingunni.

Frá ómunatíð hefur Seðlabankinn barizt fyrir aukinni innlánsbindingu. Sú barátta hefur reynzt svo árangursrík, að nú krækir bankinn í 28 aura af hverri krónu, sem lögð er til ávöxtunar inn á banka landsins.

Jafnan hefur græðgi Seðlabankans verið varin með virðulegu hjali um, að nauðsynlegt sé að frysta fjármagn til að draga úr verðbólgu. Innlánsbindingin hefur jafnan verið aukin undir því yfirskini, að um stjórntæki væri að ræða.

Dagblaðið hefur margoft bent á, að svonefnd frysting væri engin frysting, heldur millifærsla, liður í viðleitni ráðamanna til að beina fjármagni þjóðarinnar til mismunandi arðbærra forréttindagreina í atvinnulífinu.

Með innlánsbindingunni hefur fé verið tekið af hálffrjálsum markaði og notað í sjálfvirkt kerfi endurkaupa á afurðavíxlum þeirra greina, sem eru í náðinni hjá stjórnvitringum þjóðarinnar, til að mynda landbúnaði.

Með innlánsbindingunni hefur meðal annars verið fjármögnuð birgðasöfnun til útflutnings á afurðum, sem seldar eru á verði, er tæplega stendur undir flutningskostnaði til útlanda og leggur ekki grænan eyri til innlends framleiðslukostnaðar.

Skiljanlegt er, að þriðja flokks stjórnmálamenn skuli vera hlynntir sjónhverfingum af þessu tagi. Hitt er alvarlegra, að Seðlabankinn, sem ekki þarf á atkvæðaveiðum að halda, skuli árum saman hafa stjórnað glæpnum.

En batnandi mönnum er bezt að lifa. Svo notað sé mál, sem hagfræðingar skilja, þá hefur öll magnaukning ræðu formannsins að þessu sinni farið í að játa, að innlánsbindingin væri í rauninni ekkert stjórntæki í peningamálum.

Í ræðunni segir réttilega: “… er nauðsynlegt að losa um hluta bindiskyldunnar, svo að hægt sé að beita henni sem almennu stjórntæki á sviði peningamála”. Enda hefur Seðlabankinn að undanförnu reynt að draga úr hinum sjálfvirku endurkaupum.

Þriðja flokks stjórnmálamennirnir hafa hamlað gegn þeirri viðleitni. Þeir hafa náð þeim árangri, að einungis eru komin til framkvæmda 1,5 prósentustig af hinni 3,5 prósentustiga lækkun endurkaupa, sem Seðlabankinn hefur stefnt að.

Auðvitað þarf að vera til kerfi endurkaupa á afurðavíxlum. En eins og formaður bankastjórnar segir, þarf að “færa þennan þátt lánastarfseminnar að verulegum hluta aftur í hendur innlánsstofnana.” Það er ekki auðvelt, en þó framkvæmanlegt.

Mestu máli skiptir, að hlutirnir séu jafnan nefndir sínum réttu nöfnum. Þess vegna ber sérstaklega að fagna því, að Seðlabankinn neitar nú frekari þátttöku í þeirri fölsun að kalla afurðalánin nauðsynlega frystingu í baráttu gegn verðbólgu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Við verðum að þora.

Greinar

Hækkun olíuverðs í útlöndum hefur að vísu valdið okkur tímabundnum búsifjum. Meira máli skiptir þó, að hækkunin hefur varpað birtu á framtíð okkar. Hún hefur stóraukið verðgildi hinnar ónotuðu vatns- og varmaorku í landinu.

Um þessar mundir er til dæmis verið að loka álverum og kísiljárnverum, þar sem olía hefur verið notuð sem orkugjafi. Þau bera sig ekki lengur. Samt þarf heimurinn áfram ál og kísiljárn. Og hann gæti fengið meira af því héðan.

Kominn er tími til að átta sig á þessu og fara að huga að meiri stóriðju á Íslandi. Engin ástæða er til að sitja aðeins við skuggahliðar orkukreppunnar og neita sér um hinar björtu. Við höfum þegar beðið of lengi.

Við þurfum stóriðju til að afla gjaldeyris fyrir síhækkandi olíu og benzíni. Við þurfum stóriðju til að komast aftur í takt við lífskjör nágrannaþjóðanna. Með slíkum takti í lífskjörum treystum við bezt búsetu í landinu.

Auðvitað er stóriðja engin töfralausn. Við megum ekki gleyma öðrum atvinnuvegum, þótt við beinum sjónum okkar að stóriðju. Sjávarútvegur, almennur iðnaður og stóriðja eru þrír meiðar, sem eiga að vaxa samhliða í samlyndi.

Til þessa hefur sjávarútvegurinn verið okkar stóriðja. Við höfum því miður ofnýtt orkulindir hans og getum ekki reiknað með aukinni framleiðslu að sinni. Miklu frekar þurfum víð að draga úr nýtingunni til að hindra hrun fiskistofna.

Hinn almenni iðnaður hefur lengi verið öskubuska atvinnulífsins. Hann er ekki einn fær um að taka við, þar sem náttúran setur sjávarútveginum takmörk. Hann þarf mikinn tíma til að byggja upp framleiðni, er hæfi hornsteini.

Þess vegna þurfum við að greikka stóriðjusporin. Þar höfum við hálaunagrein, sem notar mikla þekkingu, hefur góð margfeldisáhrif í atvinnu og aflar gjaldeyris. Við höfum þegar reynslu af því, að þetta er rétt lýsing.

Við höfum líka lært af hinum bitru hliðum reynslunnar. Við höfum sniðið alla veigamikla vankanta af samningum okkar og samskiptum við stóriðjuverin. Nema einn. Við höfum ekki enn náð að semja um viðunandi orkuverð.

Í því efni var Grundartangaverið umtalsverð endurbót frá Straumsvíkurverinu. Ástæða er til að ætla, að í þriðju atrennu getum við náð orkuverði, er sé sanngjarnt báðum aðilum og taki tillit til breytinga á orkuverði í öðrum löndum.

Jóhannes Nordal seðlabankastjóri lagði nýlega til, að við tvöfölduðum stóriðju á einum áratug. Þetta er varfærnislegt og hóflegt markmið. Hann benti líka á, að Íslendingar hefðu reynslu, bolmagn og lánstraust til að gera þetta sjálfir.

Jóhannes sagði einnig, að hagkvæmast væri að tvöfalda núverandi stóriðjuver. Það er rétt, en með fyrirvara þó. Við þurfum að hafa fleiri kosti, svo að við getum teflt skákina um orkuverð við hagstæðari og fjölbreyttari skilyrði.

Ef samið yrði um stækkun núverandi stóriðjuvera, þarf um leið að endurskoða orkuverð til eldri hluta þeirra. Þetta gildir einkum um álverið, sem býr við gersamlega úrelt orkuverð frá því löngu fyrir olíukreppu.

Við lifum á ótryggum tíma við vaxandi landflótta til betri lífskjarastaða og við mjög óvissa framtíð mikilvægustu fiskistofnanna. Það væri heimska við slíkar aðstæður að þora ekki að taka að nýju upp stóriðjuþráðinn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Snilldarleg heimska.

Greinar

Um 50%. meiri mjólk er framleidd hér á sumrin en á veturna. Það er á sumrin, sem myndast hinn mikli kúfur óseljanlegrar mjólkur. Þá er búið til úr henni duft, sem selt er til útlanda fyrir flutningskostnaði einum.

Á veturna er hins vegar rétt framleitt til daglegra þarfa þjóðarinnar. Sú framleiðsla er því augljóslega miklu minni þjóðfélagsvandi en sumarframleiðsla mjólkur. Aðgerðir gegn offramleiðslu hefði átt að miða við þetta.

Stjórnvöld lands og landbúnaðar hafa komið sér saman um kvótakerfi. Markmið þess er að draga úr offramleiðslu, svo að ekki þurfi að borga meira en átta og hálfan milljarð á ári í útflutningsuppbætur á verðlagi þessa árs.

Samkvæmt kerfinu er hverjum bónda skammtaður framleiðslukvóti. Fari hann yfir kvótann, fær hann lítið sem ekkert fyrir afurðirnar, sem umfram eru. Þetta kvótakerfi hefði vel mátt nota til að jafna mjólkurframleiðslu yfir árið.

Kvóta hvers bónda hefði mátt skipta á einstaka mánuði á þann hátt, að hann væri fyrst og fremst hvattur til að draga úr mjólkurframleiðslu á sumrin, en ekki hvattur til að draga úr henni á veturna, þegar ekki er offramleiðsla.

Slíkt kerfi hefði verið í heldur meira samræmi við lögmál markaðsins. Ef frjáls sala væri hér á mjólk, mundi hún stíga í verði á veturna og falla á sumrin. Þetta er einfalt dæmi um framboð og eftirspurn.

Hið nýja kvótakerfi hefur hins vegar þveröfug áhrif í reynd. Bændur hafa haldið áfram að framleiða mjólk eins og ekkert hafi í skorizt. Í haust munu þeir svo standa andspænis fullum árskvóta og verðlausri vetrarframleiðslu.

Þetta mun svo leiða til mikils niðurskurðar í haust. Vetrarframleiðslan verður þá minni en eftirspurnin. Niðurstaðan verður alvarlegur mjólkurskortur, samfara útgáfu skömmtunarseðla, alveg eins og í gamla daga biðraðanna.

Stjórnvöld lands og þjóðar hafa búið til kvótakerfi, sem ekkert dregur úr offramleiðslukúfi sumarsins, en býr til mjólkurskort á veturna. Svo segja sumir, að heimska þessara manna sé ekki takmarkalaus! Hún er það raunar.

Landsfeðrum okkar til hægri og vinstri dettur ekki í hug, að unnt sé að leyfa sjálfvirkum markaðslögmálum að minnka offramleiðsluna. Þeir eru harðlæstir í hugsunarhætti opinberrar miðstýringar, skömmtunar og kvóta.

Þeir hefðu þó getað líkt eftir markaðslögmálinu með því að láta mjólkurverð til bænda sveiflast eftir árstíðum. Þá hefðu þeir ekki heldur þurft neitt kvótakerfi, neina nauðung í garð bænda, neinn nýjan stein í fáránlegt landbúnaðarkerfi.

Þeir hefðu líka getað látið sér detta í hug, að hagkvæmara sé að framleiða mjólk í nágrenni þéttbýlis og kindakjöt í fjarlægari sveitum. Þeir hefðu getað stuðlað að slíku með því að taka tillit til flutningskostnaðar í verði til bænda.

Kvótakerfið í landbúnaði hefur farið illa af stað. Það mun fyrirsjáanlega valda bæði bændum og neytendum miklum búsifjum. Sennilega verður það að lokum sprengt og þá á kostnað skattgreiðenda. En það er víst ekki ný bóla í landbúnaði!

Þótt við reynum að vera sanngjörn, verður ekki hjá þeirri niðurstöðu komizt, að einstæða snilligáfu í heimsku þurfi til að búa til mjólkurskort ofan á gífurlega offramleiðslu. Það geta íslenzkir landsfeður og landbúnaðarfeður einir.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Dugði í fyrra, en ekki í ár.

Greinar

Við getum ekki endalaust látið ofveiði fiskistofna mæta nýjum vandamálum í utanríkisviðskiptum okkar. Við gerðum það í fyrra og erum nú komnir vel á veg með að endurtaka það í ár.

Með þessu erum við að éta útsæðið. Við höldum jafnvægi á líðandi stund með því að búa okkur til gífurleg vandræði í náinni framtíð. Slíkt getur aldrei gengið til lengdar.

Olía hækkaði mjög í verði á síðasta ári, fór úr 12% innflutningsins í 19%. Þessi breyting rýrði viðskiptakjör okkar gagnvart útlöndum um 10% og dró úr þjóðartekjum sem svarar4%.

Við vitum, að olían mun halda áfram að hækka í verði. Við vonum, að það verði ekki á þessu ári, að minnsta kosti ekki í verulegum mæli. En satt að segja vitum við ekkert um næstu skriðu.

Hitt áfall síðasta árs var hrunið í tekjum okkar af flugi yfir Norður-Atlantshafið. Það eitt olli rúmlega helmingi af 16 milljarða króna tapi á þjónustujöfnuðinum gagnvart útlöndum.

Við vitum, að samkeppnin í fluginu mun áfram verða grimm. Við vonum, að við getum dregið úr tilkostnaði okkar. En við vitum, að hinum miklu flugtekjum náum við ekki aftur.

Áföllum flugs og olíu mættum við í fyrra með því að auka sjávarvöruframleiðsluna um 12-15% og útflutninginn í kjölfarið um tæp 10%. Þetta nægði nokkurn veginn til að halda jafnvægi.

Viðskiptajöfnuðurinn í fyrra varð aðeins óhagstæður um rúma sjö milljarða króna, sem jafngildir tæpu einu prósenti þjóðarframleiðslunnar. Út af fyrir sig lítur þetta vel út.

Á yfirborðinu virðist skuldabyrðin gagnvart útlöndum einnig vera í lagi. Afborganir og vextir eru 14% af árlegum tekjum af útflutningi, svo sem verið hefur í nokkur ár.

Þar eru hins vegar blikur á lofti, því að upp eru greidd gömul lán með lágum vöxtum, en í staðinn tekin ný með háum vöxtum. Að óbreyttu mun því skuldabyrðin þyngjast mjög á næstu árum.

Meðan við ofveiðum til að hafa upp í útgjöld okkar, erum við að lifa um efni fram. Í fyrra jókst einkaneyzla um 2% og samneyzla um 2%. Hvort tveggja hefði átt að standa í stað.

Af þessu má sjá, að nú og á næstunni getum við ekki bætt lífskjörin. Það eina, sem hægt er að gera, er að lagfæra launakjör hinna lægst launuðu á kostnað hinna, sem betur mega.

Enn augljósara er, að ríki og sveitarfélög verða að stöðva þenslu samneyzlunnar þegar í stað. Á erfiðum tímum höfum við ekki efni á að bæta við meintar sameiginlegar þarfir okkar.

Erfiðara verður fyrir okkur að spara í fjárfestingu. Hún hefur á fimm árum minnkað úr 33% af þjóðarframleiðslu í 25%. Það er hættulegt að klípa meira af henni en orðið er.

Við getum hins vegar dregið úr opinberri stýringu fjárfestingarinnar til óarðbærra greina á borð við landbúnað og til óhóflega stórs fiskiskipaflota. Við getum nýtt fjárfestingarkrónurnar betur.

Aflatakmörk nægja ekki ein til að koma þorskafla ársins niður í 300 þúsund tonn og hindra ofveiði í öðrum stofnum. Núverandi kerfi er sjávarútveginum of dýrt í skauti.

Finna þarf leiðir til að minnka flotann, sem notaður er, og til að tryggja um leið, að arðbærasti hluti hans sé notaður. Uppboð eða sala veiðileyfa er hugsanleg leið til þess.

Ef ekki tekst að finna leið til að sameina minnkun afla og hagkvæmari útgerð fiskiskipa, er aðeins um það að ræða að sameina minnkun afla og minnkun á einkaneyzlu og samneyzlu okkar allra.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Viðstaddir útförina.

Greinar

Íslenzka ólympíunefndin hefur endanlega ákveðið að blanda saman íþróttum og stjórnmálum á þann veg að taka þátt í Moskvuleikjum þessa sumars. Hún hefði betur blandað þessu tvennu saman á hinn veginn, með því að sitja heima.

Íslendingar verða því viðstaddir andlát ólympíuleikjanna og ólympíuhugsjónarinnar í Moskvu. Það er út af fyrir sig tímamótaviðburður, en ekki af því tagi, er sé neinum viðstöddum til sóma. Þvert á móti er hann þeim öllum til minnkunar.

Það einstæða hefur gerzt, að ólympíuleikir eru haldnir í árásarríki, sem heyr grimmdarstríð gegn fátækri þjóð handan landamæranna, gegn sameinuðum Afgönum, og lætur sig ekki muna um að skjóta niður vopnlaus börn og unglinga á götum úti.

Alþjóða ólympíunefndin styður þetta árásarstríð með því að mæla með þátttöku í Moskvuleikjunum. Hið sama gera íslenzka nefndin og aðrar þær, sem fara að tilmælum alþjóðanefndarinnar. Ennfremur íþróttamennirnir, sem fara í austurveg.

Rétt er að taka fram, að á sínum tíma hefði verið óhugsandi að halda ólympíuleika í Bandaríkjunum, meðan þau ráku grimmdarstríð gegn fátæku fólki í Víetnam. Um öll árásarríki á að gilda, að þau geti ekki verið gestgjafar ólympíuleikja.

Ekki er hægt að saka ríkisstjórn Íslands um þátttöku í þessu hneyksli. Hún ræður ekki yfir íslenzku ólympíunefndinni. Og það var líka erfitt fyrir hana að draga til baka styrktarfé, sem áður hafði verið veitt.

Hins vegar hefði ríkisstjórnin haft meiri sóma af því að biðja íslenzku nefndina um að sitja heima með sitt lið eða af því að sýna á einhvern annan hátt vanþóknun sína. Slíkt hafa margar ríkisstjórnir réttilega gert.

Vonandi verða ekki margir til að styrkja stjórnmálaafskipti íslenzku ólympíunefndarinnar. Þar mundi skel hæfa kjafti, ef hún yrði að láta Rússa borga undir sig, svo sem ólympíunefndir ýmissa ríkja þriðja heimsins hafa gert.

Þeir, sem styrkja Moskvuferð Íslendinga, eru um leið óbeint að styðja árásarstríð Rússa í Afganistan. Þar á ofan styðja þeir, að í tilefni ólympíuleikja skuli Moskva vera hreinsuð öllu því fólki, sem þar hafði sjálfstæðar skoðanir.

Blindan í heimi íþróttanna er svo mögnuð, að í alvöru hefur verið stungið upp á, að handboltalið verði sent austur, ef önnur landslið sitja heima nógu mörg til þess að pláss myndist fyrir Ísland. Þetta eru eins og hræfuglar.

Íslenzkir ólympíufarar geta að þessu sinni ekki vænzt þess, að hugur þjóðarinnar fylgi þeim heill. Sumir munu hugsa sem svo, að þessir pólitísku stafkarlar mættu gjarna verða eftir þar eystra að leikjunum loknum.

Má þá vísa til þess, að bæði vanti hrausta menn í sovézka herinn í Afganistan og sem fangaverði á geðveikrahælum Sovétríkjanna. Með því að vekja slíkar hugsanir skaða Moskvufarar málstað íþróttagreina sinna hér heima.

Um 80 nefndir fara og um 50 sitja heima. Hinn fámennari félagsskapurinn hefði hæft Íslendingum betur, þjóð sem neitaði sér um stofnaðild að Sameinuðu þjóðunum með því að lýsa ekki stríði á hendur hinum sigruðu í lok síðasta heimsstríðs.

15 Íslendingar ætla austur í umboði nefndar landsins til að taka pólitískan þátt í morði ólympíuhugsjónarinnar og til að vera viðstaddir útför þessara leikja, sem greinilega hafa gengið sér til húðar í núverandi mynd.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Vorhugur í einokunarsinnum

Greinar

Það er vorhugur í einokunarsinnum þessa daga. Þeir sækja fram á mörgum sviðum í senn. Reynt er að koma á einokun í sölu eggja og innfluttra blóma og hindra notkun myndsegulbanda í fjölbýlishúsum.

Marga þreytta menn í ýmsum greinum dreymir um fordæmi Grænmetisverzlunar landbúnaðarins, þar sem lífið líður áfram í ljúfum straumi án tillits til vandræðamanna á borð við neytendur.

Meirihluti Sambands eggjaframleiðenda stefnir nú að samstarfi við Osta- og smjörsöluna um að fá einokun á eggjasölu hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins. Undirtektir eru sagðar góðar.

Þessir menn eru þreyttir á sveiflum í framboði, sem hafa leitt til tímabundinna verðlækkana á eggjum. Það nístir þá inn að beini að sjá eggjakílóið selt á 995 krónur úr búðum í Reykjavík.

Þeir telja, að lífið yrði ljúfara við einokun í faðmi hins opinbera landbúnaðarkerfis. Þá gætu hinir hvimleiðu neytendur valið um egg á 2000 krónur kílóið eða það, sem úti … . Þá yrði líka auðvelt að skipuleggja akstur með umframegg á haugana, sællar minningar um breiður tómata, sem Sölufélag garð- yrkjumanna lét flytja á haugana fyrir nokkrum árum.

Undir einokun væri unnt að beita ýmsum slíkum aðgerðum til að hindra, að neytendur fái egg á sannvirði og tryggja þreyttum eggjaframleiðendum góðar svefnfarir og minnkandi magasár.

Ef neytendur farra að skræmta óþægilega mikið, er alténd hægt að fitja upp á hugmyndum um niðurgreiðslu eggja. Skattgreiðendur verða nefnilega seint spurðir ráða.

Skylt er þó að geta þess, að sumir eggjabændur skilja, að einokun með hækkuðu verði mundi draga mjög úr eggjakaupum neytenda og færa eggjabændum þannig annan vanda í stað hins.

Víðar eru þreyttir menn en í röðum eggjabænda. Blómaframleiðendum finnst innflutningur blóma of mikill, einkum fyrir stórhátíðir, og halda blómaverði í landinu of mikið niðri.

Þeir hafa samþykkt að biðja um einokun Sölufélags garðyrkjumanna á innflutningi blóma, svo að hægt sé að samræma markaðinn, það er að segja halda uppi verðinu á honum.

En það eru bara ekki væntanlegir einokunarkaupmenn, sem hafa sig í frammi þessa daga. Gömul og gróin einokunarstofnun er líka komin á stúfana. Það er Ríkisútvarpið.

Sú stofnun hefur grun um, að íbúar fjölbýlishúsa séu að fara inn á einokunarsvið útvarpsins með samstarfi um notkun eins myndsegulbands fyrir allar íbúðir hússins.

Enn er ekki ljóst, hvaða árangri einokunarsinnar ná á þessum þremur sviðum eggja, blóma og myndsegulbanda. En neytendur geta auðveldlega séð fyrir sér fordæmi Grænmetisverzlunarinnar.

Nokkrum sinnum hefur sannazt, að sú einokunarstofnun gerir vond kaup hjá vildarvinum úti í heimi og hefur í hvert sinn milljónir og milljónatugi af neytendum. Og þetta raskar ekki rónni.

Einnig hefur sannnazt, að sú einokunarstofnun fer með reglur um álagningu og kostnað sem henni sýnist, allt á kostnað neytenda. Þetta raskar ekki heldur rónni.

Grænmetisverzlun landbúnaðarins er frábært dæmi um sæluríki einokunarinnar, þar sem ekki þarf að hafa hinar minnstu áhyggjur af viðskiptavinunum og áhugamálum þeirra.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

KEA

Veitingar

Sem hótel er KEA á Akureyri orðið dálítið lúið, en veitingasalurinn er í góðu lagi um þessar mundir. Sennilega er Hótel KEA fjórði bezti veitingastaður landsins á eftir Holti, Sögu og Versölum. Taka verður þó fram, að með vínveitingaleyfi mundu Stillholt, Hornið og Laugaás sennilega fara upp fyrir KEA.

Veitingasalurinn á KEA er gamaldags og að sumu leyti þreytulegur, en samt í aðra röndina vistlegur og rólegur. Þykka, rauða teppið á gólfinu er óslitið og temprar hávaða. Veggfóður er upp á miðja veggi og þar fyrir ofan hanga nútímamálverk, vel valin. Róleg og lágvær tónlist í bakgrunni magnar hina notalegu stemmningu.

Þjónustan á Hótel KEA var kunnáttusamleg og vingjarnleg. Meira að segja var víni rétt hellt í glös, sjaldgæf sjón hér á landi. Þjónninn sagði líka fyrirfram, hvað ekki væri til af fastaseðlinum, einnig sjaldgæf tillitssemi hér á landi. Að máltíð lokinni bar hann óumbeðinn á borð tannstöngla með mintubragði.

Súpa
Súpa dagsins var seljurótarsúpa, of þykk, en með girnilega ákveðnu seljurótarbragði, sem gerði hana góða. Með súpunni var borið fram heitt og mjúkt brauð. Súpan er innifalin í verði rétta dagsins, en kostaði 870 krónur sérpöntuð.

Smálúða
Rauðspretta var ekki til og féllu þar með fjórir réttir af fastaseðlinum. Þjónninn bauð í staðinn upp á smálúðu, sem hann viðurkenndi hreinskilnislega, að væri úr frysti. Venjulega er reynt að telja manni trú um, að smálúða og jafnvel ýsa heiti rauðspretta og sé örugglega ekki úr frysti.
Sem fryst var smálúðan auðvitað þurrari en fersk. Hún var eigi að síður bragðgóð, gufusoðin í hvítvíni og kryddi og framreidd með rækjum og sveppum í hvítvínssósu. Þetta var fremur ómerkileg hveitisósa. Umhverfis réttinn var ofnbökuð kartöflustappa. Ofan á var ferskt grænmeti, sneiðar af gúrku og tómati og steinseljugreinar, sem gerðu þetta að fallegum rétti. Verðið var 4.630 krónur.

Graflax
Graflaxinn var fremur óvenjulegur, örlítið reyktur á bragðið, nokkuð góður, en ekki eins og í Holti eða á Sögu. Rjómuð sinnepssósan var óvenju mild og óvenju lítið sæt, semsagt óvenju góð. Með graflaxinum fylgdi að venju ristað brauð með smjöri. Verðið var 3.200 krónur sem forréttur.

Steikt ýsa
Steikt ýsuflök St. Germain voru á matseðli dagsins. Þetta var ferskur og góður fiskur í mátulegum steikarhjúp. Með honum var borin fram mjög góð og mild béarnaise-sósa, hvítar kartöflur, tómatsneiðar og steinseljugreinar. Ennfremur tvær léttar og fínar tartalettur, önnur fyllt dósagrænmeti og hin dósaspergli. Verðið var 6.250 krónur að súpu, eftirrétti og kaffi inniföldu.

Kjúklingur
Kjúklingurinn var á matseðli dagsins. Hann var ekki ofeldaður að ráði, meyr og góður. Með honum fylgdu hæfilega lítið soðin og stinn hrísgrjón, tómatsneiðar, ofsoðið brokkál og ferskar steinseljugreinar. Ennfremur góður maís, sem gæti hafa verið ferskur. Einnig hræðilegar, franskar kartöflur, brenndar og grautlinar. Loks karríkrydduð hveitisósa, sem var frambærileg sem slík. Verðið var 8.700 krónur að súpu, eftirrétti og kaffi inniföldu.

Lambakótilettur
Lambakótilettur hongroise á fastaseðlinum voru ákaflega góðar, bleikar og meyrar, vel fituskornar. Ferskt rósakálið var gott, sem og blaðsalatið, steinseljan og tómatbátarnir. Frönsku kartaflnanna hefur áður verið getið. Óþarft var skinkujukk með mjög snörpu skinkubragði, sem spillti heildarbragði réttarins. Verðið var 6.450 krónur.

Turnbauti
Turnbauti béarnaise var hrásteiktur en blóðlaus, hæfilega lítið kryddaður og bragðgóður. Béarnaise-sósan var mild og mjúk, sem fyrr segir, með þeim betri, sem ég hef fengið hér á landi. Hrásalatið var óvenju gott, að mestu úr blaðsalati og tómatsneiðum og með sinnepssósu. Gulrætur og ristaður spergill voru úr dós. Frönsku kartöflurnar voru vondar, sem fyrr segir. Blómkálið var ofsoðið, en steinseljugreinarnar voru ferskar. Verðið var 8.950 krónur.

Jarðarberjafrómas
Jarðarberjafrómas var borið fram með þeyttum rjóma og dósaberjum, alveg frambærilegur eftirréttur, sem fylgdi í verði rétta dagsins.

Ís
Ís Melba með ferskju úr dós og jarðarberjasósu var ósköp venjulegur. Verðið var 1.170 krónur.

Kaffi
Kaffið á KEA var gott og borið fram með óblönduðum rjóma. Það var innifalið í verði rétta dagsins.

Vín
Vínlistinn á KEA er lélegur. Helzt er hægt að benda þar á Chablis og Bernkasteler Schlossberg af hvítvínum og Chateauneuf-du-Pape og Chianti Antinori af rauðvínum.

Í heild sýndi matreiðslan á KEA virðingu fyrir hráefnum. Maturinn var hóflega kryddaður og sósur voru yfirleitt mildar og léttar í maga. Ánægjulega mikið var af fersku grænmeti, en samt var of mikið af dósagrænmeti. Frönsku kartöflunum skulum við gleyma sem fyrst.

Meðalverð þriggja rétta máltíðar með kaffi á matseðli dagsins var 7.500 krónur. Meðalverð níu forrétta og súpa var 2.800 krónur, nítján aðalrétta 6.600 krónur og fjögurra eftirrétta 1.100 krónur. Þriggja rétta máltíð af fastaseðli ætti því að kosta 10.500 krónur og 12.500 krónur að hálfri vínflösku og kaffi meðtöldu.

Veitingasalur Hótels KEA er í svipuðum verðflokki og Versalir í Kópavogi, ódýrari en hótelsalir Reykjavíkur.

Hótel KEA fær sjö í einkunn fyrir matreiðslu, sjö fyrir þjónustu, þrjá fyrir vínlista og sjö fyrir umhverfi og andrúmsloft. Vegin meðaleinkunn staðarins er sjö. Akureyringar geta því farið út að borða fyrir sanngjarnt verð.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Verðbólgan er ekki allt.

Greinar

Menn eru ekki sammála um, hvort stefni í 45% eða 55% verðbólgu á þessu ári. Öðrum kann að finnast svo lítill munur á þessum tölum, að ekki taki því að deila um þær. Báðar séu þær firnaháar og sýni, að allt sé hér á hverfanda hveli.

Munurinn á tölunum er þó sá, að lægri talan felur í sér hæfilega verðbólgu ársins, en síðari talan óhæfilega. Skynsamlegasta markmiðið í verðbólgustríðinu er nefnilega að minnka verðbólguna tiltölulega hægt, telja hana varlega niður.

Árangursrík leiftursókn gegn verðbólgu getur verið jafn hættuleg og verðbólgan sjálf. Næstum öruggt má telja, að hraðri verðhjöðnun fylgi atvinnuleysi, framtaksskortur og rýrnun lífskjara. Við getum ekki náð öllum markmiðum í senn.

Á gullöld viðreisnaráratugarins höfðum við 10% verðbólgu á ári og þótti óskaplegt. Núna er yfirleitt um 10% verðbólga á Vesturlöndum og þykir þar gífurlegt. Nú höfum við svo haft 50% verðbólgu í tvö ár og lifað hana af.

Ísraelsmenn búa við 120% verðbólgu og skrimta samt. Yfir 100% verðbólga hefur verið algeng á uppgangstímum í sumum ríkjum Suður-Ameríku. Því má spyrja, hvað við séum yfirleitt að agnúast út í verðbólguna, toppventil þenslu og framfara.

Eftir því sem vísitalning hefur aukizt, hefur dregið úr hinum illu áhrifum verðbólgunnar. Laun hafa lengi breytzt eftir vísitölu. Og í heilt ár hefur réttilega verið stefnt að því að vísitölubinda fjárskuldbindingar.

Því miður var það eitt fyrstu verka núverandi ríkisstjórnar að hindra skrefið, sem stíga átti í þessa átt 1. marz. Vonandi sér hún nú að sér, þegar komið er að nýju skrefi 1. júní. Verðtrygging fjárskuldbindinga þarf að nást.

Þegar svo er komið, að lán greiðast í upprunalegum verðmætum, er komið í veg fyrir félagslegt ranglæti, sem hingað til hefur kynt verðbólgubálið hastarlegar en nokkuð annað. Lánaspilling hlýtur að snarminnka.

Þá er aðeins eftir að vísitelja gengi krónunnar eða láta það fljóta frjálst til að ná sams konar jafnvægi í peningatilfærslum út á við og verðtryggingin aflar okkur í slíkum tilfærslum innanlands. Þá þurfa útflutningsatvinnuvegirnir ekki lengur að borga brúsa verðbólgunnar.

Verðtrygging fjárskuldbindinga og erlends gjaldeyris eru aðgerðir, sem hægt er að framkvæma og sem setja verðbólguna að verulegu leyti inn á hliðarspor, þar sem hún getur haldið áfram að rúlla, tiltölulega fáum til ama.

Hins vegar eru tilraunir stjórnvalda til að ráðast beint að verðbólgunni sem slíkri yfirleitt dæmdar til að mistakast. Þær byggjast nefnilega á þeirri óskhyggju, að unnt sé að ná andstæðum markmiðum í senn, halda fullri atvinnu og öðrum kostum þenslunnar, um leið og verðbólga minnki.

Eigi að síður eru slíkar tilraunir æskilegar. Og svo virðist sem á síðasta ári hefði átt að vera unnt að hafa meiri hemil á verðbólgunni án þess að spilla atvinnuástandinu. Sú ætti einnig að verða raunin á þessu ári.

Með því að stöðva útþenslu í opinberum rekstri og með aðhaldi á öðrum sviðum getur ríkisstjórnin komið verðbólgunni niður í 45% á árinu, sem væri hæfileg niðurtalning. En að óbreyttu stefnir hún því miður í 55% verðbólgu.

Hitt skiptir þó enn meira máli, að ríkisstjórnin gefist ekki upp á brautinni í átt til verðtryggingar fjárskuldbindinga innanlands og fari í alvöru að velta fyrir sér verðtryggingu útflutnings, það er visitalningu gengis krónunnar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Gjáin er pólitísk.

Greinar

Sá tími er löngu liðinn, er stjórnmálamenn og embættismenn voru blómi þjóðarinnar, stóðu í fylkingarbrjósti sjálfstæðisbaráttunnar og mótuðu það þjóðfélag, sem við nú búum við. Þeir gerðu það á fyrstu áratugum aldarinnar.

Síðustu fjóra áratugina hefur ekki orðið eðlileg endurnýjun í þessum stéttum og sízt í stjórnmálunum. Ungt hæfileikafólk hefur streymt í aðrar áttir og einkum lagt fyrir sig langskólanám í vísindum, verkfræði og tækni.

Um þetta eru engar tölur til sönnunar. Samt er óhætt að fullyrða, að hinn langi menntavegur hefur haft gífurlegt aðdráttarafl hér á landi, einkum í raungreinum og verklegum fræðum. Þar hefur hæfileikafólkið safnazt fyrir.

Enda kemur yfirleitt í ljós á nýjum sviðum atvinnulífsins, að engin tæknigjá er milli Íslands og umheimsins. Íslenzkir hugvitsmenn og lærdómsmenn eru fljótir að koma til skjalanna í greinum á borð við stóriðju, fiskirækt og tölvutækni.

Þessir sömu árgangar hafa aftur á móti verið fráhverfir stjórnmálum og litið niður á þau. Hér er ekki rúm til að ræða orsakir þessa misræmis, aðeins afleiðingarnar, þær, að stjórnmálin hafa smám saman fyllzt af undirmálsfiski.

Í fiskifræðum er til mikið af hæfu fólki, sem hefur safnað þekkingarforða, er ætti að geta gert okkur kleift að reka fiskveiðar eins og skynsamlegan búskap. Þetta er hins vegar til lítils, þegar fræðin rekast á stjórnmálin.

Þar ráða menn, sem ár eftir ár leyfa meiri veiði en skynsamleg er. Menn, sem búa til fjármögnunarkerfi, er leiðir til óhóflega stórs og óhagkvæms veiðiskipaflota og hindrar meira að segja, að hann sé þó smíðaður hér á landi.

Skipasmíðarnar eru raunar gott dæmi um grein, þar sem til er í landinu nóg þekking og tækni, en tækifærin lítil, eingöngu vegna fjármögnunaraðgerða stjórnmálamanna, sem virðast heldur vilja, að Íslendingar sói orku sinni í landbúnað.

Undirmálsmenn stjórnmálanna hafa tröllatrú á, að betra sé að framleiða hér smjör á 5000 krónur kílóið en kaupa það til landsins á 500 krónur kílóið. Og þeim finnst í lagi að flytja út slíkar vörur fyrir örlítið brot af kostnaðarverði.

Orkumálin eru annað dæmi um skortinn á jafnvægi milli vísinda og tækni annars vegar og stjórnmála hins vegar. Þar er til nóg af fólki, sem getur beizlað auðlindir landsins hratt og örugglega mun djarflegar en nú er gert.

Andspænis þessu fólki standa svo stjórnmálamenn, sem endasendast út í Kröfluvirkjun gegn aðvörunum vísindamanna. Stjórnmálamenn, sem koma á hitaveituskatti, er leiðir til hægari þróunar frá olíukyndingu en ella væri.

Einmitt á þessum áttunda tug aldarinnar hafa gífurlegar verðhækkanir á olíu gert Ísland að gósenlandi orkufreks iðnaðar. Þetta hafa stjórnmálamennirnir tregðast við að hagnýta, meðal annars af stjórnlausri hræðslu við erlent fé.

Það væri efni í mörg Dagblöð að rekja ávirðingar íslenzkra stjórnmálamanna annars vegar og afrek íslenzkra hugvitsmanna og lærdómsmanna hins vegar. Hér hafa aðeins verið rakin nokkur dæmi til að sýna, að misræmið er til.

Við þurfum ekki að brúa neina gjá tækni og þekkingar yfir til framtíðarinnar. Okkar hindrun er fyrst og fremst pólitísk. Það er í stjórnmálunum, sem við þurfum að koma okkur upp hugviti og hæfileikum eftir áratuga langa eyðimerkurgöngu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Þeir trúðu ekki.

Greinar

Ein er veigamesta orsök þess, að Ísland beið ósigur fyrir Noregi í Jan Mayen deilunni. Hún er sú, að stjórnmálamenn okkar trúðu ekki á málstaðinn. Þeir töldu sig vera að semja um norskar eftirgjafir við norska eyju.

Íslenzku samningamennirnir áttu auðvitað að vefengja eignarhald Noregs á Jan Mayen. Sú var hin eina samningsstaða, sem gat veitt Íslendingum annað og meira en ruður af norsku borði. Í skák dugir ekki að geyma drottninguna uppi í borði.

Jafnvel þeir stjórnmálamenn, sem á endanum stóðu einir gegn uppgjöfinni, lögðu aldrei neina áherzlu á vefengingu norsks eignahalds. Þess vegna er holur hljómur í mótmælum Alþýðubandalagsins þessa dagana.

Margt fylgir í kjölfarið, ef menn gefa sér sem hornstein, að Noregur eigi Jan Mayen. Þá fara menn að líta á öll frávik frá þeim hornsteini sem sigur fyrir Ísland. Þá sætta menn sig við ruðurnar, svo sem nú hefur gerzt.

Þeir fagna 85% loðnuaflans og valdi til ákvörðunar heildaraflans. Þeir fagna “sanngjörnum” hluta annars afla. Þeir fagna skipun sáttanefndar um landgrunnið, frestun norskrar efnahagslögsögu og óformlegu fráhvarfi frá miðlínusjónarmiði.

Í þremur atrennum viðræðna vantaði jafnan hrygginn og broddinn í röksemdafærslu hinna íslenzku samningamanna. Enda brotnuðu þeir í öll skiptin, er Norðmenn létu til skarar skríða með skyndisóknum og hótunum.

Niðurstaðan er líka hryggileg. Ruðurnar eru ómerkilegar. Norðmenn, sem nú veiða 14% loðnustofnsins, geta hækkað hlut sinn með samningum við Efnahagsbandalagið. Fyrir aðeins þremur árum höfðu Íslendingar einir alla loðnuna.

Norðmenn geta neitað íslenzkum ákvörðunum um hámarksafla úr loðnustofninum með því að lýsa þær “ósanngjarnar”. Þeir ákveða svo “sanngjarnan” hluta Íslendinga úr öðrum stofnum í norskri fiskveiðilögsögu við Jan Mayen.

Norðmenn geta neitað tillögum sáttanefndar um skiptingu landgrunns, auk þess sem samningurinn talar um skiptingu þess milli Íslands og Jan Mayen. Þar með er hrunin kenningin um, að Jan Mayen sé ey án efnahags á landgrunni Íslands.

Norðmenn geta sett sér efnahagslögsögu við Jan Mayen að rúmu hálfu ári liðnu, 1. janúar 1981. Og þeir geta haldið áfram lögfræðilegu þrasi um, að þeir hafi ekki formlega viðurkennt íslenzkar 200 mílur í átt til Jan Mayen.

Niðurstaðan er sú, að Norðmenn hafa eignazt fiskveiðilögsögu við Jan Mayen, svo og hafsbotninn að verulegu leyti, að minnsta kosti við Jan Mayen og norður af eynni. Í staðinn fáum við svo ýmislegt smælki, sem meta má til 10% málsins.

Að þessari uppgjöf standa Framsóknarflokkurinn, auðvitað Alþýðuflokkurinn og því miður báðir hlutar Sjálfstæðisflokksins. Sárast var, að tiltölulega skeleggir sjálfstæðismenn kusu að beygja sig fyrir formanni sínum.

Annað eins og þetta gerist því aðeins, að menn byggja vígstöðuna á því, sem túlka má sem kröfugerð í eign annarra, í stað þess að vefengja eignarhald hins. Þetta hafa margir sagt oft, en ekki náð eyrum íslenzkra stjórnmálamanna.

Í vetur hefur oft verið rætt um endurtekna bilun íslenzkra stjórnmálamanna í Jan Mayen deilunni. Sú bilun stafar að töluverðu leyti af því, að þeir neituðu sér um skýran og kláran hornstein að standa á – málstað að trúa á.

Þannig töpuðum við Jan Mayen málinu að lokum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Bautinn

Veitingar

Bautinn á Akureyri olli mér nokkrum vonbrigðum. Hann stóð í raun ekki undir því lofi, sem hlaðið hefur verið á hann. Matreiðslan var svo sem í meðallagi, en útlit veitingastofunnar er í rytjulegasta lagi.

Líklega er þó Bautinn sá staður, sem benda verður ferðamönnum á, því að hið hræðilega Súlnaberg handan götunnar er eina samkeppnin. Og Bautinn er alténd ekki dýrari en Súlnaberg. En betra er þó að borða sjaldnar og borða á KEA.

Bautanum er tvískipt í efra og neðra gólf. Mun snyrtilegra er á neðra gólfi og ekki eins kuldalegt. Á báðum stöðum eru ágætir birkistólar eins og á kaffiteríu Loftleiða. Á veggjum í neðri sal er dökkbrúnn panill að ofanverðu og grænt leðurlíki að neðanverðu.

Rauður dúkurinn á gólfi er einkar misheppnaður, því að skítur sést mjög vel á honum. Í stíl við dúkinn virtist skortur á hreinlæti. Óhreinir diskar lágu á borðum í klukkustund eftir að gestir voru farnir. Það er hvimleitt að borða innan um stafla af óhreinum leir og mataráhöldum.

Bautinn er fremur annríkislegur staður. Of hátt stillt útvarp bætir ekki stemmninguna, en er þó ekki nógu hátt til þess, að fréttalestur heyrist. Umhverfið hefur svo hinar jákvæðu hliðar, svo sem barnahorn og röska afgreiðslu.

Djúpsteiktur fiskur
Djúpsteiktur fiskur með salati var á matseðli dagsins. Fiskurinn sjálfur var sæmilegur, en steikarhjúpurinn var of brenndur. Hrásalatið var gott og hafði að geyma tómata, gúrku og blaðsalat, svo og hæfilega litla salatsósu. Frönsku kartöflurnar voru frambærilegar. Sítrónu- og tómatbátar bættu réttinn töluvert. Bezt var þó kokkteilsósan, mild og rjómuð, líklega næstbezta kokkteilsósa landsins. Þessi sósa og hrásalatið góða fylgdu flestum réttum Bautans. Verð fiskréttarins var 2.500 krónur.

Kínverskar pönnukökur
Tvær kínverskar pönnukökur með hrásalati voru á fastaseðlinum. Sjálfar pönnukökurnar voru góðar, þunnar og stökkar. Inni í þeim voru kjötbitar í karríhrísgrjónum, ekki í frásögur færandi. Hrásalatið góða með blaðsalati og tómati bætti réttinn. Verðið var 2.200 krónur heill skammtur og 1.400 krónur hálfur.

Lambakótilettur
Lambakótilettur með frönskum og salati voru á fastaseðlinum. Kótiletturnar voru grásteiktar, dálítið brenndar og bornar fram með öllu fitulaginu á. Þær voru ekkert sérstakar, en ætar. Kryddsmjörið var lítið kryddað og ekki gott. Frönsku kartöflurnar voru frambærilegar, sem fyrr segir, kokkteilsósan ljómandi góð. Loks fylgdi niðursoðinn ananashringur. Verðið var 3.800 krónur.

Kjúklingur
Grillaður kjúklingur með hrísgrjónum og frönskum kartöflum var á matseðli dagsins. Kjúklingurinn var sæmilegur, barbeque-sósan var dísæt, en ekki beinlínis vond. Hrásalati og frönskum hefur áður verið lýst. Hrísgrjónin voru köld og hörð og vond. Verðið var 3.500 krónur.

Turnbauti
Turnbauti með kryddsmjöri, kartöflum og salati var á fastaseðlinum. Turnbautinn var hrásteiktur eins og um var beðið, en samt blóðlaus. Kjötið var meyrt og bragðgott. Frönskum kartöflum, hrásalati og kryddsmjöri hefur áður verið lýst. Béarnaise-sósan var sómasamleg og sveppirnir úr dós. Helzti galli þessa réttar var of mikil notkun krydds á kjötið. Verðið var 5.900 krónur.

Frómas
Ananas-frómas var á matseðli dagsins, ekki merkilegur eftirréttur, en frambærilegur. Verðið var 700 krónur.

Ís
Ísinn á fastaseðlinum var nougat með skemmtilega brenndu bragði, að einverju leyti heimatilbúinn. Þetta var góður ís.

Kaffi
Kaffið var þunnt og lítilfjörlegt og kostaði heilar 400 krónur eftir mat.
Meðalverð tveggja rétta máltíðar á matseðli dagsins var 3.600 krónur og 4.000 krónur að kaffi meðtöldu. Meðalverð á súpum og eggjaréttum var 1.500 krónur, aðalrétta 4.200 krónur og eftirrétta 800 krónur. Þriggja rétta máltíð af fastaseðli ætti því að kosta um 6.500 krónur og 6.900 krónur að kaffinu meðtöldu. Bautinn er í sama verðflokki og Súlnaberg á Akureyri, Skrínan, Askur og Halti haninn í Reykjavík.

Bautinn fær fimm í einkunn fyrir matreiðslu og fjóra fyrir umhverfi og andrúmsloft. Vegin meðaleinkunn staðarins er þrír, svipuð og Skrínunnar í Reykjavík, skárri en Súlnabergs á Akureyri, en engan veginn nógu góð í tólf þúsund manna bæ.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Súlnaberg

Veitingar

Súlnaberg undir Hótel KEA á Akureyri er gott dæmi um tilfinningasnauða færibandamatstofu, sem gefur gestum fóður á garðann, svo að þeir hætti að vera svangir. Engu máli skiptir, hvernig fóðrið er, ef það bara seður.

Þannig er hinn íslenzki einkennismatstaður. Annars vegar er ausið upp úr hitadunkum sundurtættum mat, sem haldið hefur verið heitum allt of lengi. Hins vegar er grillað og djúpsteikt eftir pöntunum í steikarbúluhorni.

Meira að segja börnin, sem elska tómatsósu, hamborgara og franskar meira en annan mat, sögðu, að þetta væri vondur matur og raunar verri matur en enginn matur. Súlnaberg getur semsagt keppt við verstu matstofur Reykjavíkur.

Sjálfur staðurinn er fremur snyrtilegur og virðist vel við haldið. Litasamsetningarnar eru góðar. Brúnir rimlaveggir brjóta niður flötinn, einkum á efra gólfi, þar sem rólegra er að vera. Niðri er meiri annríkisblær yfir öllu.

Fastamatseðillinn er fremur stuttur, með sex forréttum, þremur fiskréttum, átta kjötréttum og sjö eftirréttum, þar af fimm ísum. Matseðill dagsins er aftur á móti langur og þar að auki miklum mun ódýrari en fastaseðillinn.

Daginn, sem Vikan prófaði Súlnaberg, var boðið upp á blómkálssúpu á 650 krónur, djúpsteikt ýsuflök með remúlaði á 2.250 krónur, grísasultu með rauðrófum á 1.900 krónur, vínarpylsur með kartöflusalati á 2.680 krónur, fylltan dilkabóg með rauðrófum á 2.530 krónur, lambasnitsel með grænmeti á 2.980 krónur, frómas á 650 krónur, sveskjukompott á 500 krónur, rjómaís á 500 krónur, skyr með rjómablandi á 800 krónur og ávaxtagraut á 950 krónur.

Djúpsteikt ýsa
Djúpsteikt ýsuflök á matseðli dagsins voru köld upp úr hitapottinum. Þau voru bragðlaus að mestu. Remúlaðisósan var ómerkileg. Hvítu kartöflurnar voru hins vegar frambærilegar, svo og léttsýrðu gúrkurnar. Verðið var 2.250 krónur, sem fyrr segir.

Lambasnitsel
Lambasnitsel með grænmeti á matseðli dagsins hafði verið lamið ótæpilega og var því meyrt og nánast sundurlaust, en næstum alveg bragðlaust. Rauðkál úr glasi var væmið á bragðið. Sýrð gúrkan var í lagi sem fyrr segir. Blandaða dósagrænmetið var þrælsoðið og viðbjóðslegt. Brúnuðu kartöflurnar voru í grautarformi. Hin alræmda, íslenzka framleiðsla, jarðarberjasulta, kórónaði sköpunarverkið. Verðið var 2.980 krónur.

Grillaðar lambakótilettur
Ekki var ástandið betra í grillinu. Þaðan bárust okkur mjög svo feitar og ólögulegar “glóðarsteiktar lambakótilettur með kryddsmjöri, hrásalati og frönskum kartöflum”. Þær jóðluðu í feiti, auk sinnar eigin feiti. Kryddsmjörið var sæmilegt, en ákaflega lítið kryddað. Hrásalatið drukknaði í allt of mikilli og gríðarlega væminni sósu. Frönsku kartöflurnar voru bæði of saltaðar og of steiktar. Verðið var 3.530 krónur.

Hamborgari
Meira að segja hamborgari staðarins var þurr og leiðinlegur á bragðið. Frönsku kartöflurnar voru illa meðhöndlaðar, sem fyrr segir. Og tómatsósan var dísæt, innlend framleiðsla. Verðið var 990 krónur fyrir utan sósu og kartöflur, en 1.890 krónur með þeim.

Meðalverð tveggja rétt máltíðar á matseðli dagsins var 3.100 krónur og þriggja rétta máltíðar 3.800 krónur. Meðalverð forrétta, súpa og eggjarétta á fastaseðlinum var 2.000 krónur, aðalrétta 4.300 krónur og eftirrétta 700 krónur. Þrírétta máltíð af fastaseðli, án kaffis , ætti því að kosta um 7.000 krónur.

Á reikningnum var bara ein heildartala. Ef einstakir liðir hafa verið rétt reiknaðir, kostar kaffibolli eftir mat heilar 3.630 krónur. Ef hann kostar minna, hefur Súlnaberg reiknað verð máltíðarinnar mjög svo gróflega sér í hag, umfram það, sem stendur á matseðli. Og eru þau verð nógu há fyrir, þótt ekki sé á þau smurt.

Súlnaberg er í verðflokki með Skrínunni, Aski og Halta hananum í Reykjavík og mun dýrari en miklu betri staðir á borð við Brauðbæ, Hornið og Laugaás, svo ekki sé talað um hina ódýru staði, Múlakaffi og Matstofu Austurbæjar.

Súlnaberg fær tvo í einkunn fyrir matreiðslu og fimm í einkunn fyrir umhverfi og andrúmsloft. Vegin meðaleinkunn matstofunnar eru tveir. Að fara í Súlnaberg var eins og að lenda í klóm ræningja.

Jónas Kristjánsson

Vikan

Landgrunn og lögsaga.

Greinar

Norsk stjórnvöld segja eyjar Svalbarðs ekki hafa neitt eigið landgrunn, er fallið geti undir svonefnt Svalbarðssamkomulag við Sovétríkin og fleiri ríki. Norsk stjórnvöld segja Svalbarð einfaldlega vera á norska landgrunninu.

Þetta er hliðstætt röksemdum Íslendinga gagnvart Jan Mayen. Sú eyja liggur ekki síður á landgrunni Íslands en Svalbarður á landgrunni Noregs. Neðansjávarhryggir eru nefnilega ekki síðri landgrunn en meginlandsskildir.

Samkvæmt íslenzku landgrunnslögunum frá 1969 má ákveða ytri mörk landgrunnsins með reglugerð. Við getum beðið eftir því, að hafréttarráðstefnan setji fram almenna reglu um 350 mílna landgrunn. En við þurfum ekki að bíða.

Ef norsk stjórnvöld framkvæma hótun sína um einhliða norska efnahags- og fiskveiðilögsögu við Jan Mayen, getum við svarað því samstundis með einhliða íslenzku landgrunni við Jan Mayen, auk annarra mótmæla af okkar hálfu.

Við höfum dæmi um ljósan rétt þjóðríkja til landgrunns út fyrir eyjar, sem önnur ríki segjast ráða. Þetta gildir um rétt Frakklands fram yfir Ermarsundseyjar Breta, þar sem þó er efnahagslíf og föst búseta.

Enn síður getur eyja án efnahags eins og Jan Mayen skert rétt Íslands til fulls landgrunns í samræmi við alþjóðlegar reglur eins og þær eru hverju sinni. Og þetta gildir raunar líka um rétt Íslands til fiskistofna sinna.

Íslendingar hafa bæði sögulegan og sanngirnislegan rétt til fiskveiða og skipulags fiskveiða við Jan Mayen. Hér, en ekki á Jan Mayen, eru þeir strandbúar, sem eðlilegast er, að hagnýtt geti fiskimið við Jan Mayen.

Enda sýnir sagan, að það voru Íslendingar, sem voru fyrstir til að veiða loðnu við Jan Mayen. Þær veiðar voru eðlilegt framhald loðnuveiða við Ísland, enda um sama stofninn að ræða. Norðmenn komu síðar til skjalanna.

Norðmenn segjast hafa átt Jan Mayen í hálfa öld og ítök í loðnuveiðum svæðisins í tvö ár. Um slík atriði þarf auðvitað að semja. Og erfitt er að neita því, að það eru Íslendingar, sem hafa mesta hagsmuni af skipulagi loðnuveiðanna.

Íslendingar hafa vefengt rétt Norðmanna til efnahagslögsögu eða fiskveiðilögsögu við Jan Mayen. Í væntanlegum viðræðum í Osló þurfa samningamenn okkar að halda til streitu kröfunni um sameiginlega efnahagslögsögu við Jan Mayen.

Norskir samningamenn hafa margsagt, að slík sameiginleg lögsaga hafi ekkert þjóðréttargildi. Þeir hafa þó aldrei sett fram nein frambærileg rök fyrir þeirri skoðun. Og sameiginlegir hagsmunir kalla raunar á sameiginlega lögsögu.

Búast má við nýrri, norskri reyksprengju í viðræðunum í Osló. Á fyrsta fundinum voru það meintar loðnuveiðar Rússa. Á öðrum fundinum voru það meintar rækjuveiðar Efnahagsbandalagsins. Slíkar sprengjur eru léleg tilraun til taugastríðs.

Um hagsmuni okkar gagnvart grænlenzkri efnahagslögsögu ræðum við á öðrum vettvangi. Þeir valda okkur ekki tímahraki í viðræðum við Norðmenn um Jan Mayen. Þar höfum við sterka réttarstöðu, jafnvel þótt Norðmenn leiðist út í einhliða yfirlýsingar um norska lögsögu.

Við getum haldið fast við, að Jan Mayen sé á íslenzku landgrunni og að sameiginleg efnahagslögsaga sé báðum aðilum í hag, Norðmönnum og Íslendingum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið