Author Archive

Hvað segja lektorar svo?

Greinar

Í fjórða skiptið í röð hafa niðurstöður síðustu skoðanakönnunar Dagblaðsins fyrir kosningar verið réttur fyrirboði um úrslit kosninganna. Og í þetta sinn var nákvæmnin meiri en nokkru sinni fyrr.

Vigdís og Albert fengu í kosningunum 0,3 prósentustigum minna en í könnun Dagblaðsins og Pétur 0,7 prósentustigum meira. Enn minni skekkja var í tölum Guðlaugs, 0,1 prósentustig. Meðalskekkjan var 0,4 prósentustig á hvern hinna fjögurra frambjóðenda.

Eins og alltaf áður var könnun Dagblaðsins nær hinu rétta en könnun Vísis. Þar var meðalskekkjan 2,3 prósentustig. Það er út af fyrir sig ágætur og frambærilegur árangur, þótt hann jafnist engan veginn á við nákvæmni Dagblaðsins.

Ekki má heldur gleyma því, að Vigdís Finnbogadóttir varð efst í könnun Dagblaðsins, en Guðlaugur Þorvaldsson í könnun Vísis. Í könnununum munaði að vísu litlu eins og í raunveruleikanum. En það munaði því, sem munaði.

Hinn kunni George Gallup skrifaði nýlega: “Úrslit kosninga eru bezti mælikvarðinn á, hversu áreiðanlegar eru vinnuaðferðir í skoðanakönnunum.” Sá mælikvarði er nú fenginn, marktækari en þokuþras lektora úr félagsfræðideild.

Menn, sem ættu að vita betur, hafa bitið sig í þá skoðun, að símaskrá sé vafasamur hornsteinn í skoðanakönnunum. Það hafa þeir frá útlöndum, þar sem hlutverk símans er allt annað annað og minna en hér á landi.

Hér eru heimasímar forsætisráðherra og seðlabankastjóra í símaskránni, alveg eins og blaðamanna og þvottakvenna. Auðvitað er símaskrá ekki fullkominn hornsteinn. En mergurinn málsins er sá, að hún hefur gefizt vel.

Menn, sem ættu að vita betur, hafa komið því inn hjá keppinautum Dagblaðsins, að lítil úrtök megi sundurgreina nánast endalaust. Þetta stafar af því, að þá skortir skilning á takmörkunum stærðfræðinnar.

Það er ekki hægt að taka fjóra stuðningsmenn eins frambjóðandans af Vestfjörðum og búa úr þeim gífurlegt fylgi hans á þeim slóðum. Né heldur er hægt að reikna það fylgi með tveimur aukastöfum, eins og Vísir gerði.

Dagblaðið hefur hins vegar þekkt takmarkanir síns litla úrtaks. Það hefur ekki reynt að sundurgreina sitt úrtak lengra en stærðfræðin leyfir. Þess vegna hafa aðrir verið einir um að reikna lítil úrtök út í hött.

Lektorar félagsfræðideildar hafa að undanförnu fjallað af töluverðum hofmóð og sáralitlum skilningi um skoðanakannanir Dagblaðsins og aðferðafræði þeirra. Allt það tal hefur verið þokukennt og lítt traustvekjandi.

Skynsamlegra hefði verið fyrir lektorana að bera saman fyrri skoðanakannanir Dagblaðsins og úrslit þáverandi kosninga. Þá hefði getað læðzt að þeim efi um, að Dagblaðið hafi þrisvar sinnum verið heppið.

Nú standa lektorar svo í holtaþoku sinni andspænis þeirri staðreynd, að skoðanakönnun Dagblaðsins náði raunveruleikanum í fjórða sinn og í þetta sinn nákvæmar en nokkru sinni fyrr. Kannski hofmóður þeirra minnki nú loks.

Hinum þarf svo ekki að svara, sem sögðu kannanirnar falsaðar eða unnar í þágu ákveðinna frambjóðenda. Þar var um að ræða eðlilega taugaveiklun ofkeyrðra starfsmanna í kosningabaráttunni. Þau ummæli eru nú öll gleymd.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Vigdís er forseti allra.

Greinar

Íslendingar heilsuðu í morgun nýjum þjóðhöfðingja, sem þeir kusu í gær, Vigdísi Finnbogadóttur. Þeir munu fylkja sér um hana sem einn maður, þegar hún tekur við embætti forseta Íslands 1. ágúst.

Kjör Vigdísar markar ekki aðeins tímamót í íslenzkum þjóðmálum, heldur er einnig dálítið innlegg í sjálfa veraldarsöguna. Það er ákaflega sjaldgæft, að konur séu kosnar til þjóðhöfðingja.

Kosningabarátta Vigdísar vakti mikla athygli erlendis.Við megum nú búast við, að kjör hennar veki enn meiri athygli. Nafni Íslands verður haldið á lofti í erlendum fjölmiðlum á næstunni.

Vigdís Finnbogadóttir er vel að embættinu komin. Hún er fjölmenntuð kona, sem í senn er heima í menningararfleifð Íslands og í erlendum menningarstraumum. Hún mun sóma sér vel á Bessastöðum.

Hinum forsetaefnunum þremur er enginn persónulegur ósigur að því að hafa ekki náð kjöri. Allir hafa þeir vaxið af kosningabaráttu sinni. Þjóðin metur þá alla meira en áður.

Guðlaugur Þorvaldsson var aðeins hársbreidd frá sigri. Hans bíða nú gífurlega erfið verkefni við að sætta aðila vinnumarkaðarins. Þar mun hann njóta þeirrar reisnar, sem hann hefur unnið sér í kosningabaráttunni.

Albert Guðmundsson og Pétur Thorsteinsson munu líka hverfa aftur til fyrri starfa. Álit það, sem þeir hafa unnið sér að undanförnu, mun verða þeim og þjóð til góðs, öðrum í stjórnmálum og hinum í utanríkisþjónustu.

Allir fjórir frambjóðendurnir voru hæfir til að gegna embætti forseta. Þjóðin átti ekki annars úrkosti en að taka einn þeirra fram yfir hina. Það hefur hún nú gert. Vigdís varð fyrir valinu.

Hin forsetaefnin og stuðningsmenn þeirra munu taka þessum úrslitum á einn veg. Öll þjóðin mun sýna Vigdísi Finnbogadóttur hollustu og standa saman um sinn nýja þjóðhöfðingja.

Undanfarnar vikur hafa verið tími eðlilegs, lýðræðislegs klofnings, kosningabaráttu. Nú er þeirri baráttu lokið á venjulegan lýðræðishátt og þjóðin er aftur sameinuð sem ein heild.

Nóttin var óneitanlega sérstaklega spennandi. Oft munaði mjóu og um skeið innan við hundrað atkvæðum. Þúsundir manna munu minnast með ánægju þessarar andvökunætur.

Dagblaðsmenn hafa sérstaka ástæðu til að minnast endanlegs sigurs aðferðar þeirra í skoðanakönnunum, gegn úrtölum lektora úr félagsfræðideild, sem hafa árangurslaust talið sig vita betur.

Hinn kunni Gallup sagði nýlega, að menn ættu að reikna með 2-3 prósentustiga frávikum í skoðanakönnunum. Á því bili hafa skoðanakannanir Dagblaðsins einmitt verið. En í þetta sinn komust frávikin niður í 0,6 prósentustig.

Þannig munu margir eiga sínar minningar um sigra og ósigra næturinnar. Óhjákvæmilegt er, að sumir verði beizkir fyrst í stað, ekki sízt þeir, sem þrotlaust hafa unnið fyrir sitt forsetaefni. En þeir munu fljótt jafna sig.

Að lokum er við hæfi að gefa hinum nýkjörna forseta orðið. Vigdís Finnbogadóttir sagði í morgun í viðtali við Dagblaðið: “Þetta á að vera hamingja okkar allra, nú er sumarið byrjað.”

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Enginn öruggur – enginn vonlaus.

Greinar

Nýjasta skoðanakönnun Dagblaðsins um fylgi forsetaframbjóðenda bendir til, að enginn sé öruggur um sigur og að enginn sé vonlaus um sigur. Bilið milli forsetaefna hefur minnkað nokkuð og margir kjósendur hafa ekki ákveðið sig.

Að óreyndu hefði mátt búast við, að framboðsþættir útvarps og einkum sjónvarps um síðustu helgi mundu ráða úrslitum. Skoðanakönnunin nýja bendir hins vegar til, að þessir þættir hafi mjög lítið hjálpað kjósendum að velja.

Hinum óákveðnu hefur að vísu fækkað úr 30% í 22% á þremur vikum. Síðari talan er samt mjög há. Og við hana bætast svo þau 7%, sem ekki vilja svara. Samtals svara þessar tölur til tæplega þriggja af hverjum tíu kjósendum.

Dagblaðið gerði í þetta sinn tilraun til að skyggnast í þá kosti, sem hinir óákveðnu eru að hugleiða. Í ljós kom, að helmingur þeirra var að velta fyrir sér einu forsetaefni eða fleirum, og að hinn helmingurinn var alveg óráðinn.

Samkvæmt þessu er kosningabaráttunni engan veginn lokið. Margt á eftir að gerast síðustu þrjá dagana, svo sem framboðsræður forsetaefna í sjónvarpinu annað kvöld. Kannski verða þær ræður þyngstar á metunum.

Mesta möguleika hafa Guðlaugur Þorvaldsson og Vigdís Finnbogadóttir. Þau hafa jafnan verið samhliða í forustu í skoðanakönnunum Dagblaðsins – og Vísis raunar líka. Bilið milli þeirra er ekki marktækt frekar en áður.

Því hefur stundum verið haldið fram, að skoðanakannanir hafi búið til tveggja manna kosningabaráttu milli Guðlaugs og Vigdísar. Sú kenning nýtur ekki stuðnings í þeirri staðreynd, að Albert Guðmundsson og Pétur J . Thorsteinsson hafa sótt á.

Birting skoðanakannana hefur ekki leitt til þess, að fylgi hafi flutzt frá vonminni frambjóðendum til hinna, sem í fararbroddi eru. Þvert á móti hefur fylgi hinna vonmeiri staðið í stað, en hinna aftari aukizt.

Ætli staðreyndin sé ekki sú, að birting skoðanakannana sé minna afl í aðdraganda kosninga en taugaslappir kosningastarfsmenn ætla? Hins vegar gefa slíkar kannanir öllum aðilum gott tækifæri til að meta stöðuna hverju sinni.

Mikið hefur verið deilt um gildi hinna mismunandi aðferða, sem notaðar hafa verið í könnununum. Eins og áður verður bezti mælikvarðinn fólginn í samanburði viðraunveruleg úrslit forsetakosninganna.

Dagblaðið telur, að rangt úrtak verði ekki réttara, þótt það sé stækkað. Það telur, að tölur úr tölvum séu jafn vitlausar og tölurnar, sem settar eru í þær. Og það telur marklaust að tákna fjóra kjósendur á Vestfjörðum með tveimur aukastöfum.

Þrátt fyrir allar deilur má ljóst vera, að báðar aðferðirnar eru nálægt réttu lagi. Tvisvar í röð hafa fengizt mjög svipaðar og næstum samhljóða niðurstöður í skoðanakönnunum Vísis og Dagblaðsins.

Aðdragandi þessara kosninga er þó ólíkur aðdragandi alþingis- og sveitarstjórnakosninga síðustu ára. Þá voru langflestir búnir að gera upp hug sinn viku fyrir kosningar, en nú virðist drjúgur hluti ætla að fresta því til síðustu stundar.

Allir vita svo, að skoðanakannanir eru ekki sjálfar kosningarnar. Þær fara fram á sunnudaginn kemur og það eru þær einar, sem gilda.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Svara ekki bréfum.

Greinar

Embættismenn, sem koma saman að tjaldabaki til að úthluta hver öðrum greiðslum fyrir ómælda aukavinnu, hafna afskiptum almennings af fleiri atriðum en því einu. Þeir vilja að fornum sið fá að stjórna þjóðinni í friði.

Sumir þeirra telja sig jafnvel hafna yfir lög. Annað er ekki hægt að sjá af viðbrögðum þeirra við afskiptum Neytendasamtakanna af ýmissi innheimtu, sem virðist örugglega ólögleg. Þeir taka ekkert mark á framíköllum.

Þetta gætu þeir auðvitað ekki, nema með stuðningi ráðherra. Milli embættismanna og ráðherra hefur myndazt traust varnarbandalag, sem kemur bæði fram í hinum leynilegu aukavinnugreiðslum og þögninni í innheimtumálunum.

Í þeim efnum er það stefna ráðuneytanna að draga Neytendasamtökin á svari og bíða eftir, að þau gefist upp á eltingaleiknum. Það er gamalkunn og áhrifarík aðgerð til að eyða mótbárum og svæfa óþægileg mál.

Ragnar Arnalds, þáverandi samgönguráðherra, svaraði aldrei bréfi Neytendasamtakanna í fyrra um ólöglega innheimtu fyrir símasnúrur. Sú innheimta var svo sem ekki stórvægileg, en sýndi þó hugsanagang ráðamanna Pósts og síma.

Steingrímur Hermannsson, núverandi samgönguráðherra, hefur ekki svarað bréfi Neytendasamtakanna um ólöglegt afnotagjald af aukabúnaði. Sú innheimta sýnir, að ráðamenn Pósts og síma taka ekkert mark á fyrra þrasi neytenda.

Ingvar Gíslason menntamálaráðherra hefur ekki svarað bréfi Neytendasamtakanna um ólöglega innheimtu útvarpsgjalda. Hann hefur heldur ekki komið í veg fyrir lögtök til innheimtu þessara ólöglegu útvarpsgjalda.

Neytendasamtökin eru of fámenn og því ekki eins öflug og þau þyrftu að vera. Þau kveinka sér við að fara í hart og höfða mál gegn hinum þögulu ráðherrum, sem eru að reyna að eyða málunum. Til greina eru þó talin koma málaferli.

Allir þeir, sem áhuga hafa á verndun almennings fyrir ofríki embættismanna af fornum skóla stiftamtmanna, ættu að ganga í Neytendasamtökin og styðja þau til varna í málum sem þessum.

80.06.25.

Stétt til skammar.

Stétt dýralækna hefur undir forustu yfirdýralæknis orðið sér til mikillar skammar á undanförnum árum. Þessi þrýstihópur hefur komið í veg fyrir, að dýraspítalinn gæti hafið störf með eðlilegum hætti. Saga málsins er hin ljótasta.

Fyrst neituðu dýralæknar að starfa við spítalann. Þegar þrautreynt var hér heima, fengust dýralæknar erlendis. Í veg fyrir það var komið á þeim forsendum, að samtök dýravina væru að taka atvinnu frá íslenzkum dýralæknum.

Þegar óvinsældir málsins urðu ljósar, buðust þrír dýralæknar til að taka spítalann leigulaust og reka hann í aukavinnu fyrir eigin reikning. Þetta var eitt af hinum frægu einokunarboðum, sem ekki á að vera hægt að hafna.

Dýravinir létu sér ekki segjast og hafa um skeið fengið danskan dýralækni til starfa. Yfirdýralæknir hefur nú að ráði samtaka dýralækna ákveðið að neita manni þessum um atvinnumeðmæli. Dýraspítalinn hefur aftur á móti höfðað mál gegn yfirdýralækni.

Þetta er flókið mál lagakróka. En eitt er þó ljóst, að dýravinátta ræður ekki ferð yfirdýralæknis og annarra íslenzkra dýralækna.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Allir fjórir eru hæfir.

Greinar

Venjulega þurfum við í kosningum að velja milli mismunandi lélegra kosta, frambjóðenda fjögurra stjórnmálaflokka. Á sunnudaginn höfum við aftur á móti einstakt tækifæri til að velja milli fjögurra góðra kosta.

Í öllum þrennum forsetakosningum Íslendinga hefur aðeins verið um hæfa menn að velja. Það má vera til hugarhægðar okkur, sem erum meira vanir andstreymi þingkosninga. Altjend er tryggt, að eitt embætti er vel skipað.

Kosningabaráttan hefur í stórum dráttum verið drengileg. Aðeins þrjú dæmi eru um frávik frá þeirri reglu. í öllum tilvikum voru áhrifin öfug við það, sem til var ætlazt. Högg fyrir neðan belti freista því ekki lengur.

Hins vegar hefur þessi barátta verið of dýr. Óheyrilegur kostnaður er af auglýsingum, útgáfum og ferðalögum. Þar er um að ræða stigmögnun, sem boðar ekki gott um framtíð kosninga til embættis forseta Íslands.

Að vísu hafa frambjóðendur yfirleitt ekki þurft að leggja fram fé úr eigin vasa. Umhverfis þá alla er fjölmennur og sannfærður hópur stuðningsmanna. Frá þessum fylkingum kemur stríður straumur peninga.

Segja má, að ekkert sé verðugt forsetaefni, er ekki sogar að sér fjölmenna hirð, sem er reiðubúin að borga fyrir kosningabaráttu af því tagi, er við höfum verið vitni að síðustu vikurnar. En hvað gerist næst?

Nokkur hluti kostnaðarins stafar af lélegri frammistöðu sjónvarpsins. Það er miðill, sem dugar vel til kynningar á persónum, en síður til kynningar á málefnum. Þess vegna er sjónvarpið mikilvægt í forsetakosningum.

Sjónvarpið hefði átt að bjóða upp á rabbfundi með einu forsetaefni í senn, í stíl þáttarins: “Maður er nefndur.’, Ennfremur spurningaþætti með einu forsetaefni í senn, eins og útvarpið hafði um helgina.

Þegar sjónvarpið bregzt á þessu sviði, leiðir það til aukins kostnaðar af hálfu frambjóðenda til persónulegrar kynningar með öðrum og dýrari hætti. Núverandi stefnu þarf útvarpsráð því að endurskoða fyrir næstu kosningar.

Þetta er þó af hinu góða, að svo miklu leyti sem það hefur leitt til aukinna ferða forsetaefna. Enginn vafi er á, að þessar ferðir hafa stuðlað að jarðsambandi forsetaefnanna, gert þau hæfari til að gegna hinu eftirsótta embætti.

Hinir prentuðu fjölmiðlar hafa staðið sig vel í þessari baráttu. Þeir hafa ekki tekið afstöðu, en opnað dálka sína í þágu allra frambjóðenda. Þessi þjónusta spannar frá lesendabréfum og kjallaragreinum yfir í skoðanakannanir.

Dagblaðið hefur reynt að forðast að birta áróður frá kosningaskrifstofunum. Í staðinn hefur það sent menn til að fylgjast með ferðum og fundum forsetaefna. Þessi vinnubrögð hafa upp á síðkastið verið tekin upp hjá öðrum.

Hinn mikli flaumur prentaðs máls hefur smám saman gert kjósendum kleift að sjá, hvernig frambjóðendur eru á mismunandi hátt hæfir til að gegna embætti forseta. Menn standa andspænis mismunandi kostum, þótt allir séu þeir góðir.

Endanlegur úrskurður birtist svo á mánudaginn. Þá kemur í ljós, hvaða persóna fellur bezt að hugmyndum kjósenda um forseta. Þegar menn telja alla frambjóðendur hæfa, felst óvissan í, hvaða eiginleika eða hæfileika þeir setja á oddinn.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Klúbburinn á fjöllum.

Greinar

Nú er verið að byggja gufubaðstofu og hvíldarherbergi fyrir kommissarinn við Rauðarárstíg. Stórhýsi Framkvæmdastofnunar ríkisins rís með ógnarhraða. Enda eru hér peningar nógir, ef verkefnið er nógu vitlaust.

Þegar mönnum dettur í hug að láta skattalýðinn byggja yfir sig gufubaðstofu og hvíldarherbergi, er ekki við því að búast, að þeim detti í hug að láta framhjá sér fara ýmis stílbrögð í sjálftekt á peningum fyrir þingmennsku.

Kommissarinn var auðvitað sjálfkjörinn leiðtogi í leynimakki þingmanna um 20% hækkun eigin launa. Reynsla hans er slík, að meðalspilltir þingmenn horfa á í auðmjúkri aðdáun. En hann var ekki einn ábyrgur.

Í skítverkinu stóð sjö manna nefnd þingmanna, skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokkanna. Hún fann spillingu í embættismannakerfinu og ákvað auðvitað að taka þátt í henni. Hún taldi meðalspillingu nema 20% af launum.

Hlutverk reiknimeistarans lék stjórnarformaður Olíumalar hf., sá maður, sem bezt allra hefur sannað sérkenni rekstrar í skjóli hins opinbera. Enda eru 20% til þingmanna ekki nema sandkorn í samanburði við olíumölina.

Þessum yfirsósíalistum alþingis fylgdi nefndarhjörðin einum rómi. Hún hafði líka góða reynslu af kommissarnum. Það eru ekki nema tvö ár síðan hann hækkaði laun þingmanna í einu pennastriki um 75% með einföldu bragði.

Auðvitað er billegt að leggjast á yfirsósíalistana og þingfararkaupsnefnd. Á þeim slóðum gerðist ekki neitt, sem var utan ramma siðferðis íslenzkra alþingismanna sem heildar. Allt var þetta í stíl klúbbsins.

Veigamesti þáttur málsmeðferðarinnar var kynningin á fundum þingflokkanna. Þar voru klúbbfélagar sammála um, að eitthvað dónalegt væri að ske, sem ekki bæri að fjalla um á formlegan hátt. Bezt væri að koma af fjöllum.

Enda eru nú allir sammála um að vera steinhissa. Ráðherra þess ráðuneytis, sem aðstoðaði olíumalarstjórann við útreikningana, átti þó orð til að lýsa undrun sinni. Hann sendi bænarskrá til kommissars og annarra þingforseta.

Í klúbbnum við Austurvöll er þess vandlega gætt að álykta ekki um neitt, sem gæti orðið að bobba. Þar þykja kommissarar sjálfkjörnir sem forsetar og olíumalarstjórar sem þingflokksformenn. Þar er ætíð sólskin.

Þetta er eins konar dansklúbbur, þar sem menúettinn er stiginn af snilld. Í einum hópi eru þeir sem þykjast vera á móti varnarliðinu. Í öðrum hópi eru hinir, sem þykjast vera á móti útþenslu opinbers rekstrar, einkum Framkvæmdastofnunar.

Auðvitað er þetta ekki auðvelt í upphafi. Oftast eru innan um ýmsir utangátta nýliðar, sem eiga erfitt með að skilja dansinn. Þeir ímynda sér, að þeir séu á alþingi til að marka spor í þjóðlífinu, ekki dansspor fríðindanna.

Smám saman lærist þessum nýliðum að feta sig inn í klúbbinn. Þegar þeir hætta að rugga bátnum, komast þeir í bankaráð eða sjóðsstjórn. Stærsti draumurinn er sá að enda sem kommissar í gufubaðstofu Framkvæmdastofnunar.

Sennilega ættu blöðin að hætta að nöldra út af þessu og líta fremur á björtu hliðarnar. Kannski gæti þjóðin fengið gjaldeyri fyrir útflutning á sérfræðiþekkingu í frumlegri útfyllingu reikningseyðublaða.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Að vísitelja gengið.

Greinar

Fjárhirðirinn í sögunni var búinn að hrópa “úlfur, úlfur” ótal sinnum. Menn voru hættir að trúa honum, þegar úlfurinn birtist svo loks í rauninni. Svo virðist sem frystihúsasamtökin séu að lenda í svipuðum vanda.

Eins og Listahátíð hélt upp á sjómannadaginn, þá fór menntamálaráðherrann í síðustu viku með sjávarútvegsmál. Hann sagðist taka gengislækkunarkröfum frystihúsamanna með varúð. Yrði gengið fellt, þá yrði það gert hægt og sígandi.

Seðlabankastjórinn var í útlöndum þá dagana. Þess vegna bárust ríkisstjórninni ekki neinar tillögur frá bankanum um lækkun eða sig gengis. Sumum gæti dottið í hug, að ráð gegn gengislækkunum væri að geyma bankastjórann erlendis.

Sennilega var fjárhirðirinn í sögunni sjaldnast að segja verulega ósatt. Þegar þorpsbúar, þ.e. ráðherrar og bankastjórar, ruku upp með óhljóðum, þ.e. gengislækkunum, fældu þeir úlfinn, svo að hann át ekki lömbin, þ.e. frystihúsin.

Úr því að úlfurinn fældist og sást ekki, er hætt við, að sumir telji hann ekki hafa verið til, að minnsta kosti ekki á þessum slóðum. Þetta virðist nú vera eitt af vandamálum fjárhirðisins, þ.e. frystihúsasamtakanna.

Að vísu viðurkenna viðsemjendur frystihúsa, útgerðarmenn og sjómenn, að hækkun fiskverðsins 1. júní hafi verið út í hött. Hún hafi aðeins verið gerð til að sjómenn fengju sömu prósentuhækkun og aðrir landsmenn fengu.

Það ætti að vera ábyrgðarhluti að knýja fram hækkun og viðurkenna svo nokkrum dögum síðar, að kaupandinn geti ekki greitt hana. Að þessu ábyrgðarleysi stóðu formenn samtaka útgerðar og sjómanna og oddamaður ríkisstjórnarinnar.

Hvað er þá til ráða? Formaður Sjómannasambandsins segist vera andvígur gengislækkun. Hann talar óljóst um “viðeigandi ráðstafanir” ríkisstjórnarinnar. Óneitanlega væri fróðlegt að vita, hvað hann á í rauninni við.

Líklega eru menn orðnir leiðir á að trúa, að krukk í hliðaratriði á borð við vexti geti hindrað vanda af þessari stærð. Það væri þá frekar, að landbúnaðarstefna með “viðeigandi” útflutningsuppbótum fái bjargað frystihúsunum!

En hver vill ganga fram fyrir skjöldu og óska eftir sjálfvirku landbúnaðarkerfi í sjávarútveginum? Hver vill gera útgerðarmenn, sjómenn og frystihúsafólk að ríkisstarfsmönnum? Er eitt kvígildi í atvinnulífinu ekki nóg?

Staðreyndin er sú, að ekki dugir að hafna gengislækkun og tala út í loftið um “viðeigandi ráðstafanir” hins opinbera. Það er ekki hægt að vísitölubinda alla hluti í þjóðfélaginu aðra en gengi íslenzku krónunnar.

Stigið hefur verið skref í átt vísitölubindingar kjara sjómanna eins og annarra landsmanna. Fjárskuldbindingar eru smátt og smátt að verða vísitölubundnar. Þetta kerfi kallar á, að gengi krónunnar verði líka vísitölubundið.

Þar með væri búið að koma verðbólgunni fyrir á hliðarspori, þar sem hún getur hamazt án tímabundinnar uppákomu á borð við gjaldþrot frystihúsa. Þar með væri búið að sníða verstu vankantana af verðbólgunni.

Enn betra væri raunar að játa, að sjálfstæði okkar byggist ekki á eigin gjaldmiðli fremur en sumra annarra smáþjóða. Hví ekki hafna alveg heimatilbúinni verðbólgu og taka upp svissneska franka sem gjaldmiðil í stað krónunnar?

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Harðsvíraðir þingmenn.

Greinar

Í síðasta mánuði voru laun þingmanna 731.908 krónur. Í þessum mánuði stóð svo til, að þau færu í 981.049 krónur. Hækkunin milli mánaða átti að nema tæpum 250.000 krónum hjá þessari forréttindastétt í þjóðfélaginu.

Í sama stökkinu áttu laun ráðherra að hækka um hálfa milljón króna upp í 1.958.794 krónur. Þessa launahækkun átti til dæmis fjármálaráðherrann að fá um leið og hann bauð opinberum starfsmönnum 0,37%-1,98% hækkun.

Ákvörðun um þetta var tekin með leynd í þingfararkaupsnefnd. Það er sérstök nefnd þingflokkanna, sem ákveður laun og fríðindi þingmanna. Hún hefur á síðustu árum sýnt mikið og vaxandi hugmyndaflug í hagsmunamálum.

Frægust varð nefndin árið 1978, þegar henni tókst á einu ári að hækka laun þingmanna um 75%. Það gerði hún með því að færa viðmiðunina frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja til Bandalags háskólamanna.

Það ár hækkuðu efstu flokkar Bandalags háskólamanna meira en efstu flokkar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Þennan mismun notaði þingfararkaupsnefnd og hoppaði með alþingismenn milli bandalaganna.

Þetta svindl vakti mikla hneykslun almennings. Margir þingmenn áttuðu sig á, að of langt hafði verið gengið. Fram kom tillaga um, að dómstóll skyldi ákveða kjör þingmanna, en ekki sérstök nefnd þingmanna sjálfra.

Hinir harðsvíruðu eiginhagsmunamenn í hópi þingmanna lögðust gegn þessari tillögu. Mest gekk þar fram Sverrir Hermannsson. Tókst þeim að koma í veg fyrir, að þingmenn yrðu látnir hætta að ákveða sjálfir kjör sín.

Nú hefur þingfararkaupsnefnd aftur leikið á kerfið. Hún þóttist sjá, að í viðmiðunarflokknum hjá Bandalagi háskólamanna fengju menn 20% ofan á laun fyrir ómælda yfirvinnu. Hún ákvað, að þetta skyldu þingmenn einnig fá.

Hitt er jafnframt ljóst, að þingmenn fá þegar greitt fyrir viðvik sín. Þeir taka laun fyrir að sitja í bankaráðum og stjórnum sjóða og stofnana. Þeir hafa hingað til fengið yfirvinnu sína mælda og ættu ekki líka að þurfa ómælda.

Samt sem áður áttu þingmenn að fá í þessum mánuði 163.508 króna launahækkun ofan á 85.633 króna vísitöluhækkun. Ráðherrar áttu að fá tvöfaldar þessar tölur ofan á tvöföld laun sín. Og þetta átti að gerast í kyrrþey.

Nefndin samþykkti, að nefndarmenn skyldu ekki tala um málið utan nefndarinnar. Hækkunin var ekki einu sinni borin undir þingflokkana. Þingmenn áttu að fá hana sem óvænta og þægilega sumargjöf í launaumslagi mánaðarins.

En svo komst upp um svindlið. Þingflokkaformenn Alþýðubandalags og Framsóknarflokks kröfðust þess, að hækkunin yrði afturkölluð. Og fjármálaráðherra gerði hliðstæða kröfu til forseta alþingis. Sumargjöfin verður því varla framkvæmd.

Formaður þingfararkaupsnefndar er Garðar Sigurðsson frá Alþýðubandalaginu. Aðrir nefndarmenn eru Eiður Guðnason frá Alþýðuflokknum, Stefán Valgeirsson og Þórarinn Sigurjónsson frá Framsóknarflokknum og Matthías Bjarnason, Guðmundur Karlsson og Sverrir Hermannsson frá Sjálfstæðisflokknum.

Þessir þingmenn hafa haldið á lofti því merki harðsvíraðra eiginhagsmuna, sem er allt of áberandi hjá þingmönnum landsins. Um leið hafa þeir stuðlað að kjarasprengingu og tilsvarandi verðbólgu í þjóðfélaginu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

36 ár í sjóði.

Greinar

Í þjóðarsögu eru 36 ár ekki langur tími. Lýðveldið er enn ekki orðið svo gróið hér á landi, að hægt sé að spá um framtíð þess langt fram í tímann. Ekki er heldur unnt að spá um framtíð fullveldisins, sem líka er ungt, tæpra 62 ára.

Hvorug talan, 36 eða 62, þætti sérlega minnisverð í lífi manns. En í lífi þjóðar eru þetta tölur æskuára. Á því skeiði er ástæða til að fagna hverju ári, sem safnast áfallalítið í sjóð reynslunnar. 17. júní á morgun skiptir því máli.

Hingað til hefur gæfan oftast brosað við okkur, þótt stundum hafi á móti blásið. Ef við lítum í kringum okkur, er auðvelt að sjá, að hér blómstrar sjálfstætt þjóðfélag auðugs fólks, sem getur leikið við hvern sinn fingur.

Hver skyldi hafa trúað því fyrir svo sem 100 árum, að Íslendingar yrðu síðari hluta tuttugustu aldar í hópi örfárra þjóða, þar sem skortur er lítt þekkt fyrirbæri og meirihluti manna lifir höfðinglegu lífi?

Hingað til hefur þessi velgengni að mestu byggzt á auðlindum hafsins. Þaðan hafa komið verðmætin, sem standa undir listum okkar, íþróttum og vísindum. Fiskurinn veldur því, að Ísland er ekki bara verstöð á hjara veraldar.

Undanfarna daga hefur mátt sjá blómstrandi listir í sölum og á götum höfuðborgarinnar. Hér hafa alizt upp frambærilegir fulltrúar á flestum sviðum menningarmála og frábærir á sumum þeirra. Við lifum fyrir fleira en brauðið.

Menningartindar okkar eru sjálfsagt lægri en hjá stórþjóðunum, þar sem samkeppnin er fjölmenn og markaðurinn óvæginn. En samanburð við nágranna okkar á Norðurlöndum megum við vel við una, þrátt fyrir mikinn mun á íbúafjölda.

Svipað má segja um ýmsa aðra þætti þjóðlífsins, einkum íþróttir og leiki. Hér hafa alizt upp hæfileikamenn í ótal greinum, allt frá kúluvarpi og lyftingum yfir í leikfléttur skákborðsins. Allt ber þetta vott um þrótt í þjóðlífinu.

Þekking í vísindum og tækni er mikil hér á landi. Virðing almennings fyrir langskólanámi hefur lengi verið slík, að flestum, sem geta lært, hefur verið þrýst í þá átt. Við erum því tilbúnir til þátttöku í heimi vísinda og tækni.

Smám saman höfum við farið að láta bókvitið í askana. Sú hugarfarsbreyting hefur að vísu verið hæg og skrykkjótt. Við stefnum alténd í rétta átt. En hraðinn mætti vera meiri, því að verkefnin hrannast upp á ótal sviðum.

Við þurfum að flýta okkur að ná tökum á verndun fiskistofna, svo að við getum í alvöru farið að stefna að sem beztri nýtingu þeirra með sem hagkvæmustum hætti. Þessum tökum höfum við enn ekki náð, þótt þekkingin sé til.

Við þurfum að flýta okkur að draga saman seglin í landbúnaði í ekki minna mæli en gert hefur verið í nágrannalöndunum undanfarna áratugi – til að losa krafta og fé til verkefna, sem henta aðstæðum okkar betur. Þetta gengur of hægt.

Við þurfum að feta okkur hraðar á braut orkuöflunar og stóriðju til að fá meiri fjölbreytni, gjaldeyri, hátekjur og tækniþekkingu. Við deilum allt of mikið um gildi stóriðju.

Við þurfum að rækta upp framleiðinn iðnað, einkum þekkingariðnað, til dæmis í rafeindafræði, þar sem nýtur sín vel rekstur í smáum stíl. Einhvern tíma verðum við að þora að gerast iðnaðarþjóð. Framtíð lýðveldisins veltur á þessu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Eitruð hönd ríkisins.

Greinar

Hætt er við, að menn vakni fljótlega upp við vondan draum, ef sjávarútvegurinn heldur áfram á leið sinni til landbúnaðar. Ástandið er þegar orðið svo alvarlegt, að ríkisstjórnin getur varla hafnað því að vakna af værum blundi.

Í tvo áratugi hefur ríkið markvisst beitt styrkjum og lánum til að magna fjárfestingu í landbúnaði. Önnur afleiðingin er ofbeit og hnignun gróðurs. Hin er offramleiðsla á óseljanlegum landbúnaðarafurðum.

Hingað til hefur þjóðfélagið þótzt hafa efni á að greiða 37 milljarða króna á ári í beina styrki, uppbætur og niðurgreiðslur til ómaga atvinnulífsins, landbúnaðarins. Þetta fyrirgreiðslukerfi er núna fyrst að springa.

En málið er miklu alvarlegra, ef hliðstæð stefna hins opinbera í sjávarútvegi er farin að þröngva sjálfum hornsteini atvinnulífs og þjóðlífs í hlutverk ómagans. Þá verðum við ekki lengi sjálfstæð þjóð.

Ríkið hefur lamið áfram fjárfestingu í fiskveiðum með hrikalegu og sjálfvirku lánakerfi. Og afleiðingarnar eru hinar sömu og í landbúnaði, ofbeit og offramleiðsla. Ofbeitin er gamalkunn, en offramleiðslan ný af nálinni.

Með ári hverju skurka fleiri og stærri skip í minni og veikari hrygningarstofnum. Ekkert mark er tekið á fiskifræðingum, heldur veitt langt umfram ráðlegt mark. Nú stefnir þorskafli ársins að 450 þúsund tonnum í stað 300 þúsund ráðlagðra.

Það skal viðurkennt, að stjórnvöld hafa pínulítið reynt að klóra í bakkann. Ríkisstjórnin er að reyna að stöðva stækkun flotans. Og hún er að reyna að koma þorskafla ársins niður í 380 þúsund tonn. En þetta bara dugir ekki.

380 þúsund tonna þorskafli í ár mun leiða til hnignunar hrygningarstofnsins. Þegar menn ljúga því, að slíkt aflamagn sé í lagi, eru þeir að axla ábyrgð, sem þeir geta ekki staðið undir. Við slíkan afla réttir stofninn ekki við.

Svo kemur það eins og reiðarslag ofan á ofbeitina, að þetta aflamagn selzt ekki. Frystigeymslur okkar í Bandaríkjunum og í frystihúsunum eru að fyllast af fiski, sem útlendingar vilja ekki eða geta ekki keypt.

Smám saman lækka birgðirnar í verði vegna aldurs, auk þess sem á þær leggst mikill vaxtakostnaður. Sjávarútvegsráðherra er farinn að tala um að setja kvóta á frystihúsin, svo að þau hvíli sig eins og togararnir.

Þannig leiðir offramleiðslan til óhagkvæmari reksturs vinnslustöðva, alveg eins og ofbeitin leiddi til óhagkvæmari reksturs fiskiskipanna. Fiskvinnslan þarf lækkað fiskverð á sama tíma og útgerð og sjómenn þurfa hækkað fiskverð.

Um daginn var höggvið á enn einn fiskverðshnútinn. Þá fengu sjómenn sitt, en vandamálum fiskvinnslu var frestað. Nú er talað um, að hratt gengissig í sumar muni bjarga fiskvinnslunni fyrir horn. Allt eru þetta hrossalækningar.

Ofveiðin og offramleiðslan í sjávarútvegi eru búin til af stjórnvöldum síðasta áratugar. Þau skipulögðu lánakerfi, sem leiddi til óhóflega mikils skipaflota. Alveg eins og styrkja- og lánakerfi landbúnaðarins leiddi til ofbeitar og offramleiðslu.

Ráðamenn þjóðarinnar hafa séð, hvernig landbúnaðurinn hefur smám saman verið gerður að ómaga. Þeir verða nú að sjá til þess, að eitruð hönd ríkisins búi hornsteini þjóðlífsins ekki slík örlög.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Þorskinum engin grið gefin.

Greinar

Fiskifræðingarnir hafa mælt með 300 þúsund tonna þorskafla á þessu ári. Þeir segja, að hrygningarstofninn muni sennilega minnka á næstu árum, ef aflinn verði umfram þetta, en sennilega stækka, ef aflinn verði innan við þetta.

Hvorki stjórnmálamenn né útgerðarmenn vefengja, að þekking fiskifræðinga sé eina þekkingin, sem við eigum völ á í þessum efnum. Þeir segjast bara þurfa að bæta félagslegum og efnahagslegum sjónarmiðum við hin fiskifræðilegu.

Sjávarútvegsráðherrann segir réttilega, að tölur fiskifræðinga séu ekki nákvæmar. Þegar þeir segi 300 þúsund tonn, gæti rétta talan hugsanlega verið 355 þúsund tonn. Með þessari röksemdafærslu friðar hann samvizku sína.

Sjávarútvegsráðherranum dettur auðvitað ekki í hug, að skekkja fiskifræðinganna sé í hina áttina og stofninn þoli aðeins 245 þúsund tonna afla. Eins og forverar hans túlkar hann tölur fiskifræðinganna jafnan í aðra áttina.

Þetta auðveldar stjórnmálamönnum að kljást við vandamál líðandi stundar á kostnað framtíðarinnar. Þetta sparar þeim að taka erfiðar og óvinsælar ákvarðanir, sem ekki gefa arð fyrr en eftir nokkur ár.

Nú hefur sjávarútvegsráðherrann sparað sér svo mikið af slíkum ákvörðunum, að hann getur ekki haldið þorskaflanum innan við 355 þúsund tonn á árinu og hvað þá 300 þúsund tonnin, sem hann raunverulega átti að stefna að.

Með því að fjölga skrapdögum togaranna um 30 getur ráðherrann haldið ársaflanum í um það bil 380 þúsund tonnum. Með þessum viðbótardögum verður aðgerðaleysi togaranna komið upp í fjóra mánuði á ári.

Hins vegar stefnir þorskveiðin í 450 þúsund tonna ársafla, ef engar nýjar veiðihömlur verða settar til viðbótar hinum eldri. Sú tala er hvorki meira né minna en 50% hærri en 300 þúsund tonnin, sem fiskifræðingar vildu leyfa.

Í síðasta hefti Fjármálatíðinda Seðlabankans voru leiddar stærðfræðilíkur að því, að 380 þúsund tonna ársafli mundi stefna til hruns hrygningarstofnsins og verulegs samdráttar þorskafla eftir árið 1984.

Í þessum útreikningum er gert ráð fyrir, að samband sé milli stærðar hrygningarstofns og svonefndrar nýliðunar, þ.e. fjölda einstakra fiska í nýjum árgangi, einkum þegar hrygningarstofninn fer ört minnkandi.

Horfurnar eru því mun verri en sjávarútvegsráðherra og útgerðarmenn vilja vera láta. Þorskstofninn er í meiri hættu en þeir vilja viðurkenna. Þær takmarkanir, sem þeir hafa samið um, eru ekki nægilegar.

Þessir aðilar hafa allan fyrri helming ársins horft á allt of stóran flota skófla upp allt of miklum þorskafla. Frystihúsin hafa ekki einu sinni haft undan og fiskurinn hefur oft fallið í verði af þeirri ástæðu.

Ofveiðin hefur þar á ofan verið meiri en markaðir okkar þola. Frystigeymslur okkar eru að fyllast, bæði í Bandaríkjunum og hér umhverfis landið. Möguleikar á verkun í skreið og saltfisk eru að þrjóta.

Árum saman höfum við hunzað ráð fiskifræðinga og frestað vandamálum. Á hverju ári verður dýrara að grípa í taumana. Á næsta ári verður það dýrara en í ár. Og fljótlega verður það endanlega of seint.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Kaldhæðni örlaganna.

Greinar

Kannski verður það náttúrulögmál markaðarins, sem kemur okkur til bjargar. Við verðum að hætta að ofveiða þorskinn, þegar ekki er lengur rúm fyrir hann í frystihúsunum. Sú stund er einmitt að renna upp víða um land.

Lífskjör hafa versnað að undanförnu í Bandaríkjunum. Fólk kaupir minna af fiski í matinn, enda er hann þar í landi dýrari en kjöt. Og fólk fer minna út að borða á fiskréttahúsum, sem bjóða íslenzkan freðfisk.

Hin trega sala hefur leitt til þess, að frystigeymslur íslenzku verksmiðjanna í Bandaríkjunum hafa fyllzt. Verksmiðjurnar hafa því ekki getað tekið við eins miklum fiski að heiman og reiknað hafði verið með.

Vegna hinna hægu afskipana eru frystihús um land allt óðum að verða uppiskroppa með geymslur. Þegar rúmið þrýtur, geta húsin ekki lengur tekið við fiski til frystingar. Í kjölfar þess hlýtur þorskveiði að minnka verulega.

Ótrúlegt er, að skreiðarverkun geti í sumar og haust komið í stað frystingar, þótt talið sé unnt að selja meiri skreið en framleidd er. Því veldur maðkurinn, sem herjar á skreiðarhjalla á þessum árstíma. Og saltfiskmarkaðir eru fullnýttir.

Lífskjararýrnunin í Bandaríkjunum er því í þann mund að leiða stöðnun og atvinnuleysi yfir íslenzk sjávarpláss. Útlitið er svartara en menn gera sér almennt grein fyrir.

Kaldhæðnislegt er, að ástandið væri mun betra, ef þjóð og landsfeður hefðu í fyrra farið að ráðum fiskifræðinga um að hætta að ofveiða þorskinn. Þá væru frystigeymslur nú tómar og afskipanir með eðlilegum hætti.

Ofveiðin í fyrra spillti þorskstofninum, þótt ýmsir skammsýnir menn í sjávarútvegi neiti að skilja það og tali um fullan sjó af þorski. Hrygningarstofninn, sem fyrir nokkrum árum var ein milljón tonn, er nú kominn niður í 200 þúsund tonn.

Ofveiðin í ár er sýnu alvarlegri og stefnir að bráðu hruni þorskstofnsins. Þjóð og landsfeður hafa ekkert mark tekið á tillögum fiskifræðinga um 300 þúsund tonna þorskafla. Slík veiði hefði nefnilega skert lífskjörin.

Í þess stað hefur ofveiðin stefnt í 450 þúsund tonna ársafla. Kannski 380 þúsund tonna afla, ef skrapdögum ársins yrði fjölgað um 30. Á þetta hafa þjóð og landsfeður horft, sælir í velmegun líðandi stundar.

Ef veidd hefðu verið 270 þúsund tonn í fyrra og veidd yrðu 300 þúsund tonn á þessu ári, væru lífskjör í landinu mun síðri en þau eru nú. En framtíð þorskstofnsins væri jafnframt tryggari. Og sveiflan á Bandaríkjamarkaði ekki tilfinnanleg.

Svona getur farið fyrir þjóð, sem neitar að sjá það, sem ritað er á vegginn. Við getum ekki endalaust neitað morgundeginum í velsæld líðandi stundar. Ofveiðin hlaut fyrr eða síðar að hefna sín grimmilega.

Sennilega væri vandi okkar mun meiri, ef lífskjör hefðu haldizt óbreytt í Bandaríkjunum. Þá værum við nú að veiða þorskinn í stjórnlausri blindni sem hingað til. Þá værum við endanlega að kippa fótunum undan sjálfstæðu þjóðlífi.

En svo gerist það skyndilega, að markaðsöfl í Bandaríkjunum koma okkur til bjargar, þegar til langs tíma er litið. Atvinnuleysi og skerðing lífskjara er að vísu slæmt, en samt skárra en útrýming þorsksins.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Viðskiptahagsmunir réðu.

Greinar

Sumir kölluðu það viðskiptahagsmuni. Aðrir kölluðu það atvinnuöryggi. Þessi orð eru tveir fletir á sama hlutnum, hagsmunum. Útvarpsráð bjó til síðara orðið til að geta sameinazt í ritskoðunarstefnu gegn Dauða prinsessu.

Yfirlýsing útvarpsráðs um bann kvikmyndarinnar er sérkennilega ósvífin. Þar segir m.a. “að markaðsaðstæður eða viðskiptahagsmunir fyrirtækja og hagsmunahópa ráði alls ekki efnisvali sjónvarpsins”.

Útvarpsráð byggir bannið á skarpri aðgreiningu viðskiptahagsmuna annars vegar og atvinnuhagsmuna hins vegar. Í raunveruleikanum eru þessi skörpu skil ekki til. Þetta eru sömu hagsmunirnir, séðir frá tveimur hliðum.

Hér eftir munu fyrirtæki í ritskoðunarhug snúa sér til starfsfólks síns og beita því fyrir sig. Í flestum tilvikum mun starfsfólkið sjá hina sameiginlegu hagsmuni og veita lausnarorðið, sem útvarpsráð bíður eftir: “Atvinnuöryggi.”

Eftir lélegar útskýringar útvarpsráðs á banni kvikmyndarinnar er hætt við, að ráðið sé varnarlaust gagnvart viðskiptahagsmunum í framtíðinni. Til dæmis gæti umfjöllun um varnarliðið skaðað “atvinnuöryggi” starfsfólks í Ameríkuflugi.

Marklausar með öllu er dylgjurnar um öryggisleysi íslenzkra flugliða í Saúdi-Arabíu. Enginn flugufótur er fyrir þessum dylgjum, sem í sjálfu sér eru verra skítkast í garð Saúdi-Arabíu en hin umdeilda kvikmynd er.

Úr því að Flugleiðum tókst að komast upp með þetta, getur þeim tekizt að komast upp með annað. Og fleiri fyrirtæki gætu hugsað sér að komast á bragðið. Hvað með hagsmuni starfsfólks Sambandsins og Sölumiðstöðvarinnar?

Útvarpsráð tók afstöðu með hagsmunum og gegn tjáningarfrelsi. Þeirri staðreynd verður ekki útrýmt með sjónhverfingum eða orðaleik. Útvarpsráð hunzaði hugsjón, sem því er einmitt ætlað að gæta. Ákvörðun ráðsins var röng.

Það er svo aukaatriði í málinu, að Dauði prinsessu er stórgölluð mynd. Heppilegast hefði verið að láta fylgja sýningu hennar umræðuþátt, þar sem unnt hefði verið að útskýra kosti hennar og galla, fordóma hennar og falsanir.

Dauði prinsessu er leikin kvikmynd, sem siglir undir fölsku flaggi heimildarmyndar. Af ásettu ráði er reynt að fá áhorfendur til að halda, að þeir séu að horfa á raunveruleika, þótt þeir eigi ef til vill að vita betur.

Útvarpsþátturinn lnnrásin frá Mars er frægasta dæmið um, hvernig villa má um fyrir fólki, þegar leikið efni er sett fram sem raunveruleiki. Þessi grein fjölmiðlunar getur hæglega orðið óheiðarleg. Svo er um Dauða prinsessu.

Einnig er kvikmyndin mörkuð vestrænni einsýni. Höfunda hennar skortir skilning á siðum og venjum í öðrum heimshornum. Kvikmyndin afbakar og afflytur siði Múhameðstrúarmanna. Hún er full af fordómum.

Dauði prinsessu er ekki aðeins villandi og fordómafull. Hún er líka langdregin og leiðinleg kvikmynd. Hún hefði ekki spillt hugarfari Íslendinga, ef hún hefði verið sýnd í fylgd með umræðuþætti, þar sem hún hefði verið gagnrýnd.

Með banninu hefur útvarpsráð hins vegar ákveðið, að viðskiptahagsmunir fyrirtækja og hagsmunahópa geti ráðið efnisvali sjónvarpsins. Samt er útvarpsráð ekki skipað til að gæta slíkra hagsmuna, heldur tjáningarfrelsis.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Endanleg uppgjöf.

Greinar

Sjálfstæðismenn eru endanlega búnir að glata voninni um Reykjavík. Forustumenn þeirra í borgarstjórn eru á leið í grænni haga á öðrum sviðum þjóðlífsins. Og eftirmennirnir eru ekki þeir bógar, að þeir endurheimti meirihlutann.

Birgir Ísleifur Gunnarsson, fyrrverandi borgarstjóri, er hættur formennsku stjórnarandstöðunnar í Reykjavík. Hann hefur verið á þingi í tvö ár og er kominn á kaf í landsmálin. Sennilega verður hann ekki aftur í framboði til borgarstjórnar.

Birgir var um tíma einn af fáum mönnum, sem nefndir voru sem formannsefni Sjálfstæðisflokksins. Það var, þegar sú skoðun var uppi, að Geir og Gunnar yrðu að víkja úr forsæti fyrir sameiningartákni, er stæði utan við klíkur.

Nú virðist hins vegar sem Geir vilji halda stríðinu til streitu, fjarlægja Gunnarsmenn úr áhrifastöðum flokksins og halda sjálfur áfram formennsku. Og meðal Geirsmanna er Birgir talinn heppilegur varaformaður í stað Gunnars.

Eins og Birgir er Albert Guðmundsson líklegur til minni afskipta af borgarmálum. Hann er í framboði til forseta og situr á þingi. Og hann gaf ekki kost á sér við forustuskiptin í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna.

Margir sjálfstæðismenn höfðu trúað og vonað, að Ólafur B. Thors mundi vilja taka við formennsku stjórnarandstöðunnar í Reykjavík, þegar Birgir hætti. Hann var þriðji og síðasti bógurinn í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna.

En Ólafur gaf ekki kost á sér. Sagt er, að það sé vegna þess, að senn verði hann einn forstjóri Almennra trygginga og þurfi að helga fyrirtækinu krafta sína óskipta. Þetta hefur magnað svartsýni sjálfstæðismanna í Reykjavík.

Ólafur var í vetur eins og Birgir af sumum talinn heppilegt formannsefni í Sjálfstæðisflokknum sem almennt vel látinn utanklíkumaður. En vaxandi atvinnuskyldur Ólafs virðast hafa gert hann fráhverfan pólitískum frama.

Engan stjórnvitring þarf til að sjá vonleysið, sem hlýtur að grípa sjálfstæðismenn í Reykjavík, þegar Birgir Ísleifur Gunnarsson, Albert Guðmundsson og Ólafur B. Thors sýna ekki áhuga á forustu í borgarstjórnarflokknum.

Davíð Oddsson er nú orðinn formaður stjórnarandstöðunnar í Reykjavík. Hann varð skrifstofustjóri borgarstofnunar, Sjúkrasamlags Reykjavíkur, fljótlega eftir að hann varð borgarfulltrúi. Nú er hann forstjóri þessarar stofnunar.

Þegar borgarfulltrúinn Kristján J. Gunnarsson var skipaður embættismaður borgarinnar, fræðslustjóri Reykjavíkur, þótti honum óviðkunnanlegt að halda áfram þátttöku í stjórnmálum borgarinnar. Hann hætti að vera borgarfulltrúi.

Úr því að Davíð hafði sem borgarfulltrúi þáverandi meirihluta aðstöðu til að verða embættismaður borgarinnar, átti hann að hætta í stjórnmálum borgarinnar eða einfaldlega neita sér um embættið. Kristján valdi, en Davíð ekki.

Þessi forsaga er sízt til þess fallin að blása lífsanda í baráttu sjálfstæðismanna fyrir endurnýjuðum meirihluta í Reykjavík. Það verður erfitt hjá embættismanni borgarinnar, þegar hann hyggst fylla lið sitt eldmóði.

Leit forustumanna borgarstjórnarflokksins í grænni haga og hin róttæku forustuskipti segja áhorfendum þá sögu, að sjálfstæðismenn í Reykjavík eygi ekki lengur von um afturkomu meirihlutans.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið

Mjög nærri lagi.

Greinar

Flest bendir til, að skoðanakönnun Dagblaðsins um fylgi forsetaframbjóðenda lýsi nokkuð vel stöðunni, eins og hún var um síðustu helgi. Nokkur rök má leiða að þessari skoðun.

Í fyrsta lagi var gott samræmi milli þessarar könnunar og fyrri könnunar Dagblaðsins. Í öðru lagi var gott samræmi milli hennar og könnunar Vísis á sama tíma. Í þriðja lagi var gott samræmi milli hennar og álits manna, sem fylgjast vel með almenningsálitinu.

Í fjórða lagi er þegar komin mjög góð reynsla af skoðanakönnunum Dagblaðsins. Síðustu kannanir blaðsins fyrir kosningar hafa jafnan spáð ótrúlega nákvæmlega um úrslitin. Í hvert einasta sinn hefur Dagblaðið verið nær réttu en Vísir.

Könnun Dagblaðsins sýnir, að Guðlaugur Þorvaldsson og Vigdís Finnbogadóttir hafa mikla og tiltölulega jafna forustu. Hún sýnir líka, að Albert Guðmundsson og Pétur Thorsteinsson hafa sótt í sig veðrið.

Eins er athyglisvert, að nærri 30% kjósenda bíða enn átekta og hafa ekki gert upp hug sinn. Þessir kjósendur geta haft áhrif á stöðuna, ef þeir raðast öðru vísi á frambjóðendur en þeir, sem þegar hafa ákveðið sig.

Hópur hinna óákveðnu hefur meira að segja stækkað lítillega frá fyrri könnun Dagblaðsins. Það gefur vísbendingu um, að mikill fjöldi kjósenda muni ekki festa sig fyrr en mjög nálægt kosningunum sjálfum.

Tölur Dagblaðsins eru mjög líkar tölum Vísis. Að meðaltali munar innan við tvö prósentustig á tölum hvers frambjóðanda. Það er minni munur en áður hefur tíðkazt og bendir til, að báðar kannanir séu nærri lagi.

Metingur um aðferðafræði hefur aftur skotið upp kollinum. Vísir teflir fram frambjóðendafulltrúum, sem lýsa ánægju með stærð úrtaks blaðsins, tölvuvinnslu og talnaflóð. Þar er gamalkunnugur misskilningur á ferð.

Talnarunur úr tölvum eru nákvæmlega jafn vitlausar og tölurnar, sem tölvurnar eru mataðar á. Dagblaðið hefur aldrei notað tölvur við úrvinnslu. Samt hefur blaðið alltaf fengið réttari útkomu en Vísir.

Ekki verður heldur rangt úrtak réttara, þótt það sé stækkað. Dagblaðið hefur alltaf notað minna úrtak en Vísir. Samt hefur blaðið alltaf fengið réttari útkomu en Vísir. Sú reynsla hlýtur að segja nokkra sögu.

Spurningin er fremur sú, hvort vegi þyngra á metunum: Annars vegar gallar símaskrár í símaskrárkönnun, sem nær til 100% úrtaksins. Hins vegar gallar 80% árangurs í þjóðskrárkönnun. Um mismuninn á þessu tvennu má vafalaust skrifa mörg lærð bindi.

Reynslan sýnir svo, að Dagblaðið spáði réttar en Vísir fyrir borgarstjórnarkosningarnar árið 1978. Það spáði líka réttar fyrir alþingiskosningarnar á sama ári. Og það spáði ennfremur réttar fyrir alþingiskosningarnar 1979.

Enn meira máli skiptir þó, að í öll skiptin spáði Dagblaðið svo nærri réttu lagi, að frávikin voru um tvö-þrjú prósentustig á hvern flokk að meðaltali. Og það er ekki hægt að reikna með meiri nákvæmni í skoðanakönnunum.

Aðferðafræði Dagblaðsins hefur staðizt dóm reynslunnar í þrennum kosningum. Það er einkum þess vegna, sem búast má við, að könnun blaðsins um síðustu helgi hafi verið mjög nærri lagi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið