Author Archive

Feigðarflan smábyggðastefnu.

Greinar

“En hvers vegna hefur verið keyptur floti umfram þarfir síðustu árin? Vegna byggðastefnunnar mundu margir segja. En það er ekki rétt. Hér hefur verið tekin upp smábyggðastefna á kostnað eiginlegrar byggðastefnu … “

Svo segir í nýlega birtri kjallaragrein eftir Valdimar Kristinsson viðskiptafræðing. Hann rökstyður þar, að núverandi smábyggðastefna sé enn hættulegri fólki úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu. Hann nefnir dæmi:

“Í Norðurlandskjördæmi eystra eru þrír bæir stærstir, Akureyri, Húsavík og Dalvík með samtals 67% af íbúum kjördæmisins. Þessum stöðum og íbúum þeirra er vissulega enginn greiði gerður með því að grafið sé undan útgerðargrundvelli þeirra með Þórshafnartogara … “

“ … Patreksfjörður, Bolungarvík og Ísafjörður með samtals 54% íbúa Vestfjarðakjördæmis. Þessum stöðum og íbúum þeirra er sannarlega enginn greiði gerður með því að grafið sé undan útgerðargrundvelli þeirra með Hólmavíkurtogara … “

Svipaða sögu mætti segja úr öðrum kjördæmum. Ráðamenn hafa næma heyrn fyrir kveinstöfum fámennra þrýstihópa, án þess að geta eða vilja gera sér grein fyrir, að greiðasemin er andstæð hagsmunum meirihluta fólks í þeirra eigin kjördæmum.

Ekki má heldur gleyma hagsmunum þjóðarinnar í heild, “ … sem verið er að sliga, því steyti skúta hennar á skuldaskerinu, verður öll íslenzk þjóðarbyggð í hættu”, segir Valdimar.

Skynsamur herforingi dreifir ekki liði sínu jafnt á öll landamærin. Hann safnar því saman á hernaðarlega mikilvægustu staðina, svo að eitthvert gagn sé í því, þegar til átaka kemur. Á svipaðan hátt ættu íslenzkir ráðamenn að hugsa.

Sjálfstæði þjóðarinnar er í meiri hættu en svo, að varnir gegn fólksflótta eigi við í hverjum einasta hreppi landsins. Slík dreifing á kröftum getur hæglega leitt til þjóðargjaldþrots og fólksflótta frá landinu.

Hornsteinar sjálfstæðis þjóðarinnar eru efnahagslegur máttur Reykjavíkursvæðisins annars vegar og traustar byggðir sjávarsíðunnar hins vegar. Ef undan þessu tvennu er grafið, fellur heildin.

Smábyggðir eiga fyllsta rétt á sér, ef unnt er að halda þar uppi öflugu atvinnulífi, án þess að æpt sé á meiri fyrirgreiðslur en almennt gerast í atvinnulífi landsins. Að öðrum kosti eru þær þjóðinni skaðlegar.

Óskynsamlegt er að veita stríðum straumum fjármagns frá Reykjavíkursvæðinu og öflugum þéttbýlisstöðum utan þess, einmitt frá stöðunum, þar sem unnt er að halda uppi vörnum fyrir efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar.

Tvennt er verst í feigðarflaninu. Annað er að útvega smábyggðunum togara, sem minnka hlut lífvænlegra byggða af takmörkuðum heildarafla úr sjó. Á slíku tapa allir, að lokum einnig smábyggðirnar, sem lenda í skuldasúpu og gjaldþrotum.

Hitt er stuðningur við sauðfjárrækt og mjólkurbúskap í hvaða mynd sem er. Útflutningsuppbætur, niðurgreiðslur, ótal aðrir styrkir, og vildarlán til hins hefðbundna landbúnaðar er brennsla á verðmætum, sem nýta mætti annars staðar.

Við erum komnir upp fyrir Dani í söfnun erlendra skulda. Við ætlum börnum okkar að endurgreiða þær. Til þess að gera þeim það kleift verðum við að hverfa frá feigðarflani smábyggðastefnunnar, hætta að kasta peningum á glæ.

Jónas Kristjánsson.

DV

Eitrað kerfi aukið.

Greinar

Til skamms tíma voru skipulagssinnar ekki komnir með klærnar í eggjaframleiðslu. Þar hefur ríkt opinn markaður á ferskri vöru, enda eru ekki dæmi þess á undanförnum árum, að kvartað hafi verið um, að egg væru ekki nógu góð.

Verðið hefur breytzt eftir markaðsaðstæðum hverju sinni. Oftast hefur verið hægt að kaupa egg langt undir viðmiðunarverði skipulagssinna í Framleiðsluráði landbúnaðarins. Og aldrei hafa þau verið dýrari á frjálsum markaði.

Skipulagsleysið hefur leitt til þess, að vaxið hafa úr grasi nokkur stór fyrirtæki í eggjaframleiðslu. Þau hafa náð aukinni hagkvæmni í vinnslu og skilað henni til neytenda með því að halda niðri markaðsverði á eggjum.

Þetta er gerólíkt þrautskipulagðri landbúnaðarafurð á borð við mjólk. Óhófleg notkun fúkalyfja, tvíhitun mjólkur, gerlamyndun og langar helgar hafa hvað eftir annað leitt til kvartana, sem hafa reynzt á rökum reistar.

Verðið hefur ekki breytzt eftir markaðsaðstæðum. Miðað við verðbólgu er það eins sumar og vetur, hvort sem mjólkin er drukkin eða fer að mestu leyti í osta, sem gefnir eru til útlanda á verði flutningskostnaðar.

Þrautskipulagið hefur leitt til þess, að við Lómagnúp er framleidd mjólk til notkunar í Reykjavík, meðan framleitt er í Mosfellssveit dilkakjöt handa Kirkjubæjarklaustri. Samt eru skipulagssinnar afar ánægðir með sig.

Þeir hafa nú tekið að sér hlutverk viðskiptaráðuneytis. Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur ákveðið að veita með ákveðnum skilyrðum leyfi til heildsölu á eggjum. Þar er kominn vísir að einkasölu á einu sviði enn.

Fyrsti leyfishafinn er Samband eggjaframleiðenda. Þar ráða ferðinni óhagkvæmir smáframleiðendur, sem eru vanir því á öðrum sviðum landbúnaðar að fá að vera í friði með himinhá verð, niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur.

Stóru framleiðendurnir, sem sagðir eru undirbjóða markaðinn, þótt þeir séu bara að skila hagkvæmni í rekstri til neytenda, hafa ekki enn fengið heildsöluleyfi hins nýja viðskiptaráðuneytis í Framleiðsluráði landbúnaðarins.

Fastlega má búast við, að hin nýja skipulagning verði notuð til að þvinga markaðsverð eggja upp í viðmiðunarverð Framleiðsluráðs landbúnaðarins og til að skattleggja hina hagkvæmu framleiðendur í þágu hinna óhagkvæmu.

Ríkisstjórnin er auðvitað úti að aka, meðan þessu ofbeldi fer fram. Landbúnaðarráðherra er sjálfsagt í hjarta sínu hlynntur því, að sem mest af landbúnaði færist undir skipulag styrkja, niðurgreiðslna og útflutningsuppbóta.

Muninn á markaði og skipulagi sjáum við í muninum á framboði ávaxta og grænmetis. Alltaf er til nóg úrval af margvíslegum ferskum ávöxtum, meðan ferskt grænmeti er fábreytt og oft lélegt. Það er nefnilega einkasala á grænmeti, en ekki ávöxtum.

Á tímum vaxandi skilnings á lögmálum efnahagslífsins væri eðlilegt, að stjórnmálamenn og embættismenn reyndu að brjóta niður einokun, leyfakerfi, millifærslur, hringamyndun, styrki, niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur.

Í þess stað virðast skipulagssinnar Framleiðsluráðs landbúnaðarins ætla að komast upp með að breiða eitrað kerfi sitt yfir fleiri þætti íslenzkrar framleiðslu og stuðla þannig að því, að þjóðin stígi skref til baka í átt til eymdar og örbirgðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Þriggja stafa tala þykkra hausa.

Greinar

Sjöunda áratug þessarar aldar, svonefndan viðreisnaráratug, nam verðbólgan um 10% á ári og þótti ofboðslega mikil, enda var hún fjórum sinnum hærri en í öðrum löndum. Margt var þá krukkað til að ná verðbólgunni niður.

Eiginleg lækning fannst ekki, enda voru menn þá sem síðar uppteknir við að glíma við sjúkdómseinkenni, en ekki sjúkdóm. Verðbólgan er nefnilega ekki sjúkdómurinn sjálfur, heldur eins konar hiti, sem fylgir öðrum sjúkdómum.

Á þessum áratug lærðu menn hins vegar að milda áhrif verðbólgunnar með því að verðtryggja launamarkaðinn og ýmis félagsleg útgjöld, sem talið var eðlilegt, að fylgdu launum, svo sem ellilaun og örorkubætur.

Áttunda áratug aldarinnar, svonefndan framsóknaráratug, nam verðbólgan um 50% á ári og þótti hroðalega mikil, enda var hún áfram fjórum sinnum hærri en í öðrum löndum. Aftur var margt krukkað til að ná verðbólgunni niður.

Enn fannst engin lækning, því að hinir pólitísku læknar horfðu aðeins á hitamælinn, verðbólguna, en sinntu ekki sjúkdómunum, sem höfðu orsakað verðbólguna. Þeir héldu áfram að glíma við afleiðingu, en ekki orsakir.

Á þessum áratug lærðu menn hins vegar að milda enn áhrif verðbólgunnar með því að verðtryggja flestar fjárskuldbindingar. Þannig var verulega dregið úr hefðbundnum fjárstuldi þeirra, sem aðstöðu höfðu í kerfinu.

Níunda áratug aldarinnar hefur ekki enn verið gefið nafn. En svo virðist sem hann ætli ekki síður að vera sögulegur en hinir tveir undangengnu, frá sjónarmiði glímunnar við verðbólguna, sem nú er meiri en nokkru sinni fyrr.

Í vetur hefur verðbólgustigið verið um 75% og stefnir að því að verða 100% á einu ári, frá marz þessa árs til marz hins næsta. Þriggja stafa verðbólga hefur ekki áður mælzt hér og gefur auðvitað tilefni nýrra aðgerða.

Í þetta sinn verður ekki hægt að hugga sig við, að verðbólgan sé sem fyrr bara fjórum sinnum hærri en í öðrum löndum. Þar fer verðbólgan nefnilega hjaðnandi um þessar mundir, svo að séríslenzk verðbólga verður minnst tíföld.

Hér verður látin í ljós sú von, að ráðamenn þjóðarinnar, hinir pólitísku læknar, dragi einn lærdóm af verðbólgu þessa níunda áratugar, alveg eins og þeir gerðu áratugina tvo, sem á undan gengu. Slíkt væri raunar eðlileg krafa.

Á þessum áratug gætu menn lært að milda áhrif verðbólgunnar með því að verðtryggja skráningu á gengi erlendra gjaldmiðla. Þar með yrði hætt að reyna að leysa séríslenzk vandamál á kostnað útflutnings- og samkeppnisframleiðslu.

Með því væri þeim mikilvæga árangri náð, að verðbólgan mætti hjóla spólvitlaus á hliðarspori í þjóðlífinu, sem sjálft væri orðið nánast fyllilega vísitölutryggt. Læknarnir gætu þá snúið sér að öðru en að horfa í sífellu á hitamælinn.

Rökrétt afleiðing þess væri þá fólgin í að leggja niður íslenzka krónu og taka upp erlenda mynt, t.d. svissneska franka. Um leið væri gulltryggt, að verðbólga hér yrði ekki meiri en í Sviss. Séríslenzk verðbólga væri úr sögunni.

Um leið þurfum við, þolendur hinna pólitísku lækna, að berja inn í þykka hausa þeirra, að verðbólgan er ekki vandamálið, heldur sjálf læknislist þeirra, einkum eins og hún lítur út í árlegum fjárlögum og lánsfjárlögum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Ártíð spámanns og trúboða.

Greinar

Að lokinni hundrað ára ártíð þýzka stjórnmálamannsins, trúboðans og spámannsins Karls Marx er eftirminnilegast, að meira en heil öld og í sumum tilvikum nærri hálf önnur öld er síðan hann ritaði verkin, sem margir hafa síðan haft að átrúnaði.

Þegar Marx var að móta heimsmynd sína og söguskoðun fyrir miðja síðustu öld, var upphaf iðnbyltingarinnar nýlega riðið yfir Vestur-Evrópu. Hvorki hann né aðrir vissu þá, hvaða afleiðingar þessi mikla breyting mundi hafa.

Menn vissu þá ekki, að þjóðarsáttmálar mundu rísa milli ólíkra hópa, til dæmis um lífskjör og afkomuöryggi. Menn vissu þá ekki, að miðstéttirnar mundu blómstra umfram aðra hópa í stað þess að hverfa milli tveggja andstæðra póla.

Í þá daga var sagnfræði frumstæðari en nú og fornleifafræði raunar á frumstigi. Suma er að segja um hagfræði og tölfræði, svo að ekki sé minnzt á yngri greinar félagsvísinda, sem hófu ekki göngu sína fyrr en á tuttugustu öld.

Þess vegna má treysta því, að spádómar og söguskýringar nítjándu aldar manns eru haldlausar undir lok tuttugustu aldar, enda kolrangar í veigamiklum atriðum. Þetta gildir um Marx eins og samtíðarmenn hans og fyrirrennara.

Auðvitað er Marx söguleg staðreynd, sem á heima í forsögu félagsvísindanna á hálfri blaðsíðu á eftir Plató og Macchiavelli. En hann er engin biblía til túlkunar á nútímanum, né tilefni viðgangs ýmissa sértrúarhópa.

Þar að auki er Marx af annarri ástæðu lakari fræðimaður en margir slíkir fortíðarmenn. Hann byrjaði á öfugum enda á fræðistörfum sínum, safnaði staðreyndum, sem féllu að hugmyndum, er hann var þegar búinn að móta.

Marx skrifaði Kommúnistaávarpið snemma á ferli sínum. Það kom út 1848 og hafði að geyma samandregnar söguskýringar hans og spádóma. Það er ritað af ljóðrænum ofsa hins sannfærða hugsjónamanns, sem telur sig vera að bjarga heiminum.

Það er ekki fyrr en síðar, að Marx sezt að á British Museum til að leita staðreynda, sem gætu fallið að kenningunum. Das Kapital byrjar ekki að koma út fyrr en 1867. Þetta eru vinnubrögð spámanns en ekki vísindamanns.

Allir, sem þannig vinna, finna upplýsingar, er henta kenningunum. Alveg eins og Rutherford sannaði, að ættkvísl Benjamíns hefði flutzt til Íslands, með því að reikna pýramídann mikla út og suður. Slíkar aðferðir eru marklausar.

Vísindamenn verða sem mest þeir mega að reyna að forðast samkrull stjórnmála og trúboðs við rannsóknarverkefni sín. Og maður, sem reisir fræði sín á stjórnmálum og trúboði, er spámaður og pólitíkus, en ekki vísindamaður.

Þannig hefði verið rétt að minnast Karls Marx á hundrað ára ártíðinni. Hann var stjórnmálamaður, trúboði, spámaður og grúskari, sem var uppi á öld margfalt minni upplýsinga en menn hafa aðgang að nú á tímum.

Sem vísindamaður er hann hins vegar aðeins virði svo sem hálfrar blaðsíðu í forsögu félagsvísindanna, skör lægra en Plató og Macchiavelli. Og enginn skaði væri skeður, þótt hann félli smám saman í gleymsku og sértrúarflokkarnir leystust upp.

Jónas Kristjánsson.

DV

Höfðingi er að hætta.

Greinar

Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra hefur á þessu kjörtímabili borið höfuð og herðar yfir aðra þingmenn. Þar hefur margt farið saman, reynsla, ræðusnilld, æðruleysi og taflfléttulist, sem aðra stjórnmálamenn skortir.

Það er í samræmi við aðra skynsemi Gunnars, að hann hefur nú ákveðið að verða við óskum fjölskyldu sinnar og eigin vilja, – að hætta leik, þá hæst fram fer. Hann gefur ekki kost á endurkjöri til alþingis í næstu kosningum.

Gunnar er orðinn 72 ára og hefur setið 43 þing. Hann hefur því unnið fyrir hvíld frá amstri hversdagsins, þótt í raun sé hann hressari og skjótráðari en margir þeir þingmenn, sem sækjast eftir nýju umboði kjósenda.

Með því að draga sig í hlé stuðlar Gunnar að friði í flokki sínum. Til langs tíma litið er það meira virði en skammtímaáhyggjur sumra stuðningsmanna hans af því, sem þeir kalla vaxandi þröngsýni og flokksræði í flokknum.

Skoðanabræðrum Gunnars og þeim, sem vildu draga úr ofsafenginni andstöðu gegn honum, hefur vegnað vel í prófkjörum flokksins. Stuðningur við hann eða hlutleysi gagnvart honum hefur ekki orðið mönnum að fótakefli í prófkjörunum.

Gunnar hefur því ágæta aðstöðu til að draga sig í hlé og ljúka ferli sínum með því að sigla stjórnarskútunni fram hjá næstu skerjum, meðan nýtt þing nær meirihlutasamkomulagi um nýjan skipstjóra og nýja áhöfn.

Hinu er ekki að leyna, að alþingi verður smærra við brottför Gunnars. Þar verða að vísu eftir nokkrir góðir fagmenn, en fáir skörungar. Meðalmennskan verður meira áberandi, nema nýrri þingmenn megni að fylla skörðin.

Ekki bætir úr skák, að ýmsir forustumenn á þingi hafa færzt niður á listum eða eru af öðrum ástæðum taldir standa tæpt í kosningunum. Því gæti reynsluhrunið orðið mun meira en vegna fráhvarfs Gunnars eins.

Reynslan hefur samt ekki komið mörgum þingmönnum að nægu gagni. Hvað eftir annað hafa ráðamenn þar klúðrað málum sínum með því að einblína á slagsmál dagsins í stað þess að líta víðar og hugsa í mánuðum og árum.

Ráðumenn flokkanna á þingi mættu temja sér rósemi og æðruleysi Gunnars og átta sig á, að ósigur í einni orrustu er oft nauðsynlegur til að styrjöldin vinnist. Þar skilur á milli meðalmenna og stjórnvitringa.

Ráðamenn flokkanna á þingi mættu einnig temja sér kurteisa ræðusnilld Gunnars og átta sig á, að pólitískar ræður innan þings og utan eru annað en þras og illindi á málfundum í skólum. Þar skilur á milli meðalmenna og ræðuskörunga.

Margir eru þeir, sem efast um einlægni Gunnars og telja hann kaldrifjaðan eiginhyggjumann. Hinir sömu efast um árangur hans í starfi forsætisráðherra og telja ríkisstjórn hans vera með hinum verstu í manna minnum.

En hvar eru arftakarnir? Hvar eru mennirnir, sem kunna að tala við fólk, svo að það treystir þeim? Hvar eru mennirnir, sem lyfta sér yfir smásmugulegt dægurþras og tala eins og sönnum landsfeðrum sæmir?

Það verður verkefni þeirra þingmanna, sem endurkjörnir verða, og hinna, sem nýir bætast við, að endurreisa virðingu alþingis, meðal annars með því að rækta þar fagmennsku, ræðusnilld, æðruleysi og taflfléttulist stjórnskörunganna.

Jónas Kristjánsson

DV

DV er að ná Morgunblaðinu.

Greinar

Eftir áratuga útbreiðsluyfirburði Morgunblaðsins meðal dagblaða er nú loksins kominn keppinautur á hæla þess. Það er DV, sem vantar aðeins 5-6 prósentustig í að vera jafnmikið lesið og Morgunblaðið, virka daga og helga.

Samkvæmt fjölmiðlakönnun Hagvangs fyrir samtök auglýsingastofa, sem birt var á laugardag, er Morgunblaðið lesið af 69,83% þjóðarinnar og DV af 64,17% virka daga, Morgunblaðið af 73,71% og DV af 68,36% í helgarútgáfum.

Í könnuninni var ekki sérstaklega athugaður lestur mánudagsblaðs DV, sem prentað er í 8% stærra upplagi en aðra daga. Hún upplýsir því ekki, hvaða dagblað nær lestrarhæsta tölublaði vikunnar, Morgunblaðið eða DV.

Niðurstaða þessi stafar ekki af rýrnandi lestri Morgunblaðsins, sem heldur stöðu sinni frá fyrri fjölmiðlakönnunum. Hún stafar af sameiningu Dagblaðsins og Vísis í eitt blað, sem getur veitt harða samkeppni.

Samkvæmt könnuninni eru 46,3% áskrifenda DV ekki áskrifendur að Morgunblaðinu og 58,6% áskrifenda Morgunblaðsins ekki áskrifendur að DV. Þessar háu tölur benda til, að töluverður munur sé á lesendahópum blaðanna.

Í grófum dráttum má lesa úr könnuninni, að skipta megi þjóðinni í þrjá stóra hluta, en ekki alveg jafnstóra. Þriðjungur les bæði blöðin, annar þriðjungur les Morgunblaðið eingöngu og enn annar þriðjungur les DV eingöngu.

Athyglisverð er greining könnunarinnar á lestri eftir aldursflokkum, atvinnustéttum og búsetu. Þar koma fram ýmsar sveiflur, sem ekki koma í ljós í niðurstöðutölunum sjálfum, en segja ítarlegri sögu af raunveruleikanum.

Morgunblaðið er hlutfallslega meira lesið af fólki, sem komið er yfir fimmtugt, af opinberum starfsmönnum og af íbúum Reykjavíkursvæðisins. Á þessum þremur sviðum er munur blaðanna nokkru meiri en meðallagstölurnar sýna.

DV fær hins vegar hærri lestrartölur en Morgunblaðið hjá fólki á 20-34 ára aldri, hjá starfsfólki í sjávarútvegi og landbúnaði og hjá fólki, sem býr utan Reykjavíkursvæðisins. Á þessum þremur sviðum er DV hæst, bæði virka daga og um helgar.

Upplýsingar af þessu tagi koma auglýsendum og auglýsingastofum að gagni. Til dæmis er ljóst, að fólk, sem er yfir 50 ára, kaupir sumpart aðrar vörur en það fólk, sem er 20-34 ára, nýbúið að stofna heimili.

Meðan eldri hópurinn kaupir skrautmuni, dýra bíla og hús, kaupir yngri hópurinn tízkuvörur, húsbúnað, heimilistæki, ódýra bíla og íbúðir og sækir skemmtistaði. Hvor hópurinn um sig hefur sitt uppáhaldsdagblað.

Útbreiðslusamkeppni þessi nær ekki til annarra blaða. Tíminn er samkvæmt könnuninni lesinn af 32,28% þjóðarinnar um helgar og af 29,03% virka daga. Helgarpósturinn er lesinn af 29,69% þjóðarinnar. Þetta eru hálfdrættingarnir.

Neðar eru svo Þjóðviljinn með 19,99% um helgar og 16,26% virka daga og Alþýðublaðið með 3,7% lestur. Þessi tvö blöð eru á enn hraðara undanhaldi en Tíminn og Helgarpósturinn, sem einnig hafa tapað frá fyrri könnunum.

Sérstaklega er þó athyglisvert, að sjónvarpið er einnig á undanhaldi. Á fréttir þess horfa að meðaltali nokkru færri en lesa Morgunblaðið og DV og aðeins tæplega þriðjungur þjóðarinnar horfir þar á auglýsingarnar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Formannafrumvarpið má bæta

Greinar

Opin og hálfopin prófkjör hafa aukið lýðræði innan stjórnmálaflokkanna, sem þeim hafa beitt. Í sumum tilvikum hafa nýir og ferskir menn komizt til áhrifa, en í öðrum hafa gamalgrónir þingmenn haldið velli.

Í lýðræðislegum flokkum er ekki lengur unnt að neita almennum stuðningsmönnum um prófkjör. Dæmið frá Vestfjörðum sýnir, að menn sætta sig ekki við, að slíkum málum sé ráðið í fámennisstjórnum. Slíkt leiðir til sérframboða.

Hins vegar eru prófkjör engin allra meina bót. Þeim fylgir umstang og kostnaður og ekki sízt sárindi, sem síðan hafa áhrif á samstöðu flokksins í kosningunum. Og einstöku sinnum er þeim spillt með þáttöku annarra flokka manna.

Oft hefur verið bent á, að bezta leiðin til að nýta kosti prófkjöra og draga úr göllum þeirra, er að sameina þau sjálfum kosningunum. Það má gera með þeirri reglu, að listar flokkanna séu óraðaðir, svo að persónuval sé gert kleift.

Jón Skaftason flutti slíkt frumvarp á þingi fyrir sex árum. Í vetur hefur Magnús H. Magnússon tekið upp merkið ásamt tveimur öðrum þingmönnum Alþýðuflokksins. Frumvarp hans mætti gjarna samþykkja með nýjum kosningalögum.

Með óröðuðum listum og persónuvali er persónulegt átak margra frambjóðenda á einum lista sameinað í eitt flokksátak, án þess að sumir séu í fýlu. Og menn, sem styðja aðra flokka, geta ekki haft afskipti af persónuvalinu.

Niðurstaða frumvarpsgerðar formanna um kjördæmismál er fremur lítil og léleg. Hún yrði bætt verulega og raunar gerð þolanleg, ef frumvarp Magnúsar yrði einnig samþykkt, og komið á persónuvali innan ramma framboðslistanna.

Sanngirni í garð aldraðra.

Eftirágreiðsla skatta veldur fólki afar miklum erfiðleikum, ef það vill eða verður að draga saman segl tekjuöflunar. Þyngst lendir þetta á fólki, sem er að ljúka starfsævinni. Það á hreinlega ekki fyrir sköttum fyrsta eftirlaunaárið.

Mörg dæmi eru um, að aldraðir hafi slitið sér út við vinnu löngu eftir að eðlilegum starfstíma er lokið. Önnur dæmi eru um, að þeir hafi orðið að selja húsnæði sitt til að hafa ráð á að setjast í helgan stein.

Albert Guðmundsson alþingismaður hefur ásamt þingmönnum úr öllum flokkum lagt fram frumvarp um að brúa þetta bil, meðan staðgreiðslukerfi skatta hefur ekki verið tekið upp. Samkvæmt frumvarpinu fá aldraðir helmings skattaafslátt í eitt ár.

Ef frumvarp Alberts og félaga verður að lögum, geta menn setzt í helgan stein á eftirlaunaaldri án þess að sæta röskuninni, sem felst í greiðslu fullra skatta af skertum tekjum. Þetta er augljóst sanngirnis- og réttlætismál.

Frumvarpið gerir ráð fyrir, að þeir, sem vilja vinna lengur, geti frestað skattaafsláttarárinu fram að þeim tíma, er þeir kjósa að setjast í helgan stein. Þetta valfrelsi skapar heilsugóðu fólki eðlilegt svigrúm.

Fyrir löngu er orðið tímabært að leysa þennan vanda. Ekki ætti að þurfa um það langar umræður á alþingi. Þótt skammt sé til þingslita, á að vera nægilegt svigrúm til að samþykkja svona einfalt mál, svo sem mælt hefur verið með af hálfu fjárhags- og viðskiptanefndar neðri deildar alþingis.

Jónas Kristjánsson.

DV

Sanngirni í garð aldraðra.

Greinar

Eftirágreiðsla skatta veldur fólki afar miklum erfiðleikum, ef það vill eða verður að draga saman segl tekjuöflunar. Þyngst lendir þetta á fólki, sem er að ljúka starfsævinni. Það á hreinlega ekki fyrir sköttum fyrsta eftirlaunaárið.

Mörg dæmi eru um, að aldraðir hafi slitið sér út við vinnu löngu eftir að eðlilegum starfstíma er lokið. Önnur dæmi eru um, að þeir hafi orðið að selja húsnæði sitt til að hafa ráð á að setjast í helgan stein.

Albert Guðmundsson alþingismaður hefur ásamt þingmönnum úr öllum flokkum lagt fram frumvarp um að brúa þetta bil, meðan staðgreiðslukerfi skatta hefur ekki verið tekið upp. Samkvæmt frumvarpinu fá aldraðir helmings skattaafslátt í eitt ár.

Ef frumvarp Alberts og félaga verður að lögum, geta menn setzt í helgan stein á eftirlaunaaldri án þess að sæta röskuninni, sem felst í greiðslu fullra skatta af skertum tekjum. Þetta er augljóst sanngirnis- og réttlætismál.

Frumvarpið gerir ráð fyrir, að þeir, sem vilja vinna lengur, geti frestað skattaafsláttarárinu fram að þeim tíma, er þeir kjósa að setjast í helgan stein. Þetta valfrelsi skapar heilsugóðu fólki eðlilegt svigrúm.

Fyrir löngu er orðið tímabært að leysa þennan vanda. Ekki ætti að þurfa um það langar umræður á alþingi. Þótt skammt sé til þingslita, á að vera nægilegt svigrúm til að samþykkja svona einfalt mál, svo sem mælt hefur verið með af hálfu fjárhags- og viðskiptanefndar neðri deildar alþingis.

Jónas Kristjánsson.

DV

Hnútinn má enn leysa.

Greinar

Túlka má fjarskiptalögin frá 1941 svo, að ólöglegt sé að hafa dyrasíma í fjölbýlishúsi og stefnuljós á bifreiðum. Á svipaðan hátt má túlka útvarpslögin frá 1971 svo, að ólöglegt sé að reka eða nota kapalsjónvarp.

Ríkissaksóknari hefur ekki kært almenning fyrir notkun dyrasíma og stefnuljósa, enda eru fjarskiptalögin eitt af ótal dæmum um, að gömul lög eru í rauninni ólög, af því að þau gera ekki ráð fyrir nýjum aðstæðum.

Sagt er, að með lögum skuli land byggja, en með ólögum eyða. Venjulega er málið leyst með þegjandi samkomulagi um að beita ekki úreltum lagaákvæðum, meðan verið er að undirbúa ný lög og ná samkomulagi um orðalag þeirra.

Sérstök nefnd á vegum menntamálaráðherra hefur samið frumvarp að nýjum útvarpslögum, sem gera ráð fyrir auknu frelsi til útvarps og sjónvarps, þar á meðal frelsi til kapalsjónvarps á borð við það, sem rekið er víða um land.

Stjórnmálaflokkarnir eru í stórum dráttum sammála um, að þetta frumvarp sé nothæft, þótt þeir hafi á því misjafnan áhuga. Sjálfstæðisflokkurinn getur fallizt á það, þótt hans frumvarp gangi lengra í frelsisátt.

Menntamálaráðherra hefur gleymt að leggja fram frumvarp sitt, eins og hann gleymir svo mörgu öðru. Ef til vill er það þess vegna, að ríkissaksóknari hefur nú eftir dúk og disk ákveðið að kæra eina af kapalstöðvum landsins.

Í þrjú ár hafa ótal kapalstöðvar verið reknar hér á landi í trausti þess, að í þjóðfélaginu ríkti þegjandi samkomulag um að láta þær afskiptalausar, meðan beðið væri eftir nýjum útvarpslögum, sem næðu einnig yfir þær.

Kæran sýnir, að þegjandi samkomulagið hefur rofnað. Sennilega er það að undirlagi áhrifamanna í Framsóknarflokknum, því að þangað liggja þeir þræðir málsins, sem unnt er að rekja. Af atlögu einokunarsinna er framsóknarlykt.

Ákaflega er einkennilegt að veitast sérstaklega að því kapalsjónvarpi, sem virðir höfundarétt og birtir löglega fengið efni, meðan látnar eru í friði þær stöðvar, sem meira eða minna stela öllu sýningarefninu.

Árangurinn er sá, að stöðvarnar, sem hafa notað löglega fengið efni, hafa hætt rekstri, meðan sjórán hinna heldur áfram. Kæra ríkissaksóknara hefur þannig orðið til að styðja lögleysu á sviði kapalsjónvarps.

Úr því að ríkissaksóknari hefur sýnt meira framtak í kapalsjónvarpi en í dyrasímum og stefnuljósum, ætti næsti leikur að vera hjá alþingi. Þingmenn þurfa að draga útvarpslagafrumvarpið upp úr skúffu menntamálaráðherra.

Lítill tími er til stefnu, þar sem kosningar eru á næsta leiti. Ef alþingi vill ekki telja sig hafa tíma til að afgreiða ný útvarpslög, gæti það, ef það vildi, leikið millileik, er leiði til þess, að kæran verði dregin til baka.

Einföld þingsályktunartillaga eða einnar málsgreinar lagabreyting um viðurkenningu ástandsins og veitingu tveggja ára bráðabirgðaleyfis handa hefðbundnum kapalstöðvum, meðan gengið er frá nýjum útvarpslögum, gæti leyst hnútinn, sem skyndilega hefur verið reyrður.

Jónas Kristjánsson

DV

Karlaklúbburinn.

Greinar

Frægir eru brezku karlaklúbbarnir, sem eru í röðum við Pall Mall og götu heilags Jakobs í London. Þangað koma heiðursmenn landsins að loknum stuttum athafnadegi, setjast í djúpa stóla og segja hver öðrum nýjustu sögurnar fram að kvöldmat.

Alþingi er sú stofnun á Íslandi, sem helzt minnir á brezkan karlaklúbb. Þar verja menn síðdeginu við kaffidrykkju og góðlátlegt spjall, pönnukökuát og skáktafl, en bridge og barseta hefur ekki haldið innreið sína enn.

Talið er, að þingmenn sinni nokkuð nefndastörfum á morgnana. Af fjölda og innihaldi nefndaálita alþingis verður þó ekki séð, að umtalsverð athafnasemi ríki á því sviði. Líklega er þar einnig meira um kaffi og fréttaflutning.

Meiri annir eru hjá þeim hluta þingmanna, sem stjórna fjármálum þjóðarinnar í gegnum Framkvæmdastofnun, sjóði og banka. Á morgnana þurfa þeir mjög að sinna sérstakri tegund útgerðarmanna, sem gera út á ríkissjóð.

Þingmenn ákveða, hverjir fá lán, hversu mikið og með hvaða vildarkjörum. Þeir ákveða, hvar fyrirtækjum skuli komið fyrir, hvaða fyrirtækjum og hverjir skuli eiga þau. Og auðvitað ákveða þeir líka, hvaða kaup landsmenn fá.

Þetta gera þeir ekki af því að það sé hluti af starfi þingmanna. Þeir hafa bara svo lítið að gera við lagasetningu og eftirlit með framkvæmdavaldi, að þeir hafa nógan tíma aflögu til að stjórna öllu öðru í þjóðfélaginu.

Yfirleitt eru þetta góðir strákar, sem mega ekkert aumt sjá, hvorki bláfátækan uppmælingarmanninn né margrúllaðan flugfélagseigandann. Örlæti þeirra á sér lítil takmörk, enda byggist það ekki á þeirra eigin vasa.

Eftir góðverk dagsins safnast þingmenn saman í klúbbhúsi sínu við Austurvöll. Í kjölfar þeirra koma síðustu útgerðarmenn dagsins, sem enn eiga eftir að bjarga víxlinum eða kísilverksmiðjunni fyrir bankalokun klukkan fjögur.

Við þessar aðstæður skiptir miklu, að þingmenn séu búnir að koma sér upp nokkru safni af gamansögum til að segja klúbbfélögum, svo ekki sé talað um þá sérstöku virðingarmenn, sem enn kunna að skjóta fram dýrt kveðinni stöku.

Settir eru fundir í deildum og sameinuðu þingi. Þar tala þingmenn hver á fætur öðrum, oft fyrir gersamlega auðum sölum, svo sem myndir sanna. Mikla þjálfun þarf til að tala í klukkustund yfir auðum stólum og skjalaþungum borðum.

Á meðan sinna klúbbmenn hinum mikilvægari störfum í hægindastólum hér og þar eða í ágætri kaffistofu. Þar rúlla menn á milli sín sykurverum, steinullarverum, stálverum og saltverum, því að það er gaman að vera ríkur.

Eftir hæfilegan tveggja til þriggja stunda klúbbdag safnast alþingismenn saman í þingflokksherbergjum til að ræða nýjustu brögðin í þráskákinni um meðferð og afgreiðslu mála. Þar eru harðir stólar og lítið kaffi.

Ef til vill eru það ástæðurnar fyrir því, að ráðin, sem verða til í þessum herbergjum, duga oft skammt í þráskákinni. Stundum neyðast menn meira að segja til að sitja hjá um mál, sem þeir hafa lengi sagzt vera eindregið andvígir.

Til að færa andrúmsloftið í kórréttan stíl kæmi til greina að breyta til í klúbbhúsinu og koma þar fyrir bar á einum stað og bridgeherbergi á öðrum. Billjardborð mundi hins vegar ekki hæfa svo virðulegum karlaklúbbi.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðin vill ekki 63.

Greinar

Enda þótt mikill meirihluti Íslendinga telji, að jafna beri atkvæðisrétt landsmanna, eru flestir þeirrar skoðunar, að skrefið til jöfnunar, sem nú verður stigið, sé sanngjarn meðalvegur í hagsmunum dreifbýlis og þéttbýlis.

Stjórnarskrárnefnd og formannanefnd þingflokkanna hafa metið þessa stöðu rétt í ýmsum tillögum um minnkun misvægis atkvæðisréttar úr 4,1 í 2,6 eða þar um bil. Þetta er skref, sem þjóðin sættir sig við eins og málin standa.

Skoðanakönnun DV í kjördæmamálinu, sem birt var í gær, bendir til, að af þeim, sem skoðun hafa, séu 46% sammála þessari lausn, 34% vilji ganga lengra til jöfnunar og 20% styttra. Og þessi styrkleikahlutföll eru marktæk.

Í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi er að vísu meirihluti fylgjandi frekari jöfnun. En á móti því vegur landsbyggðin, sem eindregið er andvíg frekari jöfnun en þeirri, sem gert er ráð fyrir, að samkomulag verði um á þingi.

Þetta er stjórnmálalegt mat kjósenda á núverandi stöðu og breytir ekki því, að flestir telja jöfnun atkvæðisréttar vera æskilegt framtíðarmarkmið, þótt þjóðarsátt geti tekizt um aðeins eitt skref að þessu sinni.

Í skoðanakönnun DV um kjördæmamálið í október voru 83% þeirra, sem skoðun höfðu, samþykkir jöfnun atkvæðisréttar og 17% voru henni andvígir. Og nú hefur fundizt leið, sem meirihluti fyrrnefnda hópsins getur sætt sig við.

Í sömu könnun í október kom í ljós, að 86% þeirra, sem skoðun höfðu, voru andvígir fjölgun þingmanna úr 60 og aðeins 14% voru fjölgun fylgjandi. Á þessu atriði málsins voru skoðanir enn eindregnari en á hinu fyrra.

Það kemur svo í ljós í skoðanakönnun DV, er birt var í gær, að Íslendingar halda fast við þá skoðun, að þingmönnum eigi ekki að fjölga, og sætta sig ekki við töluna 63, sem hefur verið ofan á hjá formönnum þingflokka í vetur.

Þótt hinir óákveðnu og þeir, sem ekki vilja svara, séu taldir með, vildu 70% hinna spurðu alls ekki neina fjölgun og aðeins 18% voru fylgjandi þriggja þingmanna fjölgun. Enn meiri fjölgun hafði aðeins stuðning tæpra 4%.

Afar óvenjulegt er í skoðanakönnunum, að einungis tæplega 9% séu óákveðnir eða vilji ekki svara. Þess vegna er ljóst, að landsmenn hafna eindregið eins konar þjóðarsátt, sem feli í sér fjölgun þingmanna upp í 63.

Ef Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra leggur nú fram frumvarp að stjórnarskrá að meðtöldum kosningaákvæðum, sem fela í sér óbreytta þingmannatölu og áðurnefnda jöfnun atkvæðisréttar, er sú tillaga í nánu samræmi við þjóðarvilja.

Í þingmannatölunni hefur formannanefndin því metið þjóðarviljann skakkt. Hún hefur líka sóað vikum og mánuðum í rislágar tilraunir til að tölvukeyra sem flesta núverandi þingmenn inn á þing á ný við hinar breyttu aðstæður.

Þess vegna hurfu þeir frá tiltölulega skynsamlegri og einfaldri hugmynd um 63 þingmenn, er allir væru kjördæmakosnir, yfir í hugmynd um jafnmarga þingmenn, sem kosnir væru á illskiljanlegan og jafnvel óskiljanlegan hátt.

Þetta kalla Íslendingar ekki þjóðarsátt, heldur hrossakaup innan alþingis og hafa á þeim hið sama lága álit og þeir hafa á þingmönnum yfirleitt. Ef þingmenn keyra í gegn töluna 63, breikka þeir gjána milli sín og þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Óheppileg uppákoma.

Greinar

“Úrslit kosninga eru bezti mælikvarðinn á, hversu áreiðanlegar eru vinnuaðferðir í skoðanakönnunum.” Þetta sagði George Gallup, hinn kunnasti í heiminum af þeim, sem hafa fengizt við að mæla í tölum skoðanir fólks.

Vinnuaðferðin, sem DV notar í skoðanakönnunum, hefur frá upphafi eða fimm sinnum í röð verið svo nálægt raunverulegum kosningaúrslitum, að meðalskekkjan hefur aðeins verið 0,4 prósentustig, minni en hjá Gallup sjálfum.

Þegar búið er að reyna aðferðina fimm sinnum, tvisvar í alþingiskosningum, tvisvar í borgarstjórnarkosningum og einu sinni í forsetakosningum, alltaf með sama frábæra árangrinum, eiga öfundarmenn að hafa hljótt um sig.

DV notar önnur vinnubrögð en Gallup, af því að íslenzka þjóðfélagið er öðruvísi en hið bandaríska. Í upphafi var skiljanlegt, að sumir félagsvísindamenn efuðust um aðferðina, sem síðan hefur sí og æ staðizt dóm reynslunnar.

Gagnrýni háskólakennara hefur hljóðnað, enda telja þeir sig verða að taka mark á staðreyndum. Hið sama er ekki hægt að segja um ýmsa stjórnmálamenn, sem hvað eftir annað rugla út í loftið um þessar skoðanakannanir.

Hin raunverulega orsök gremju stjórnmálamanna er, að skoðanakannanir draga úr möguleikum þeirra til að ljúga að fólki um strauma fylgis og sigurlíkur þeirra eigin flokka, svo sem þeir gerðu fyrir tilkomu skoðanakannana.

Síðasta haldreipi þessara manna hefur verið að krefjast banns við skoðanakönnunum síðustu dagana fyrir kosningar, þar sem birting niðurstaðna kunni að hafa áhrif á hina óákveðnu kjósendur og endanlega ákvörðun þeirra.

Þetta var mest til umræðu í aðdraganda síðustu forsetakosninga. Sumir bjuggust þá við, að birting niðurstaðna mundi beina straumi ákveðinna kjósenda í meira mæli að tveimur efri frambjóðendunum en að hinum tveimur.

Í rauninni kom í ljós, að hinir óákveðnu skiptust á alla frambjóðendurna í svipuðum hlutföllum og hinir, sem höfðu ákveðið sig fyrir skoðanakönnun. Birting niðurstaðna fældi kjósendur ekki frá þeim, sem minni möguleika höfðu.

Enda var fyrir skömmu svo komið, að ekki heyrðust lengur neinar raddir, sem gagnrýndu aðferðafræði og áhrif skoðanakannana. En þá kom skoðanakönnun Helgarpóstsins eins og fjandinn úr sauðarleggnum í síðustu viku.

Þar voru upplýsingar fjórtán kjósenda á Vestfjörðum notaðar til að raða þingsætum niður á flokka. Tveir kjósendur Sjálfstæðisflokksins gáfu einn þingmann og einn kjósandi Sigurlaugarlistans gaf engan þingmann.

Sjálfstæðiskjósendurnir tveir voru svo notaðir til að reikna flokksfylgið, ekki upp á 4% og ekki 4,0%, heldur 4,00%! Að baki talnameðferðinni er eitt höfuðeinkenni félagsvísindamanna, skortur á skilningi á takmörkum líkindareiknings.

Til að bæta gráu ofan á svart forðaðist skoðanakönnun Helgarpóstsins strjálbýlið, þar sem fylgi Framsóknarflokksins er eindregið mest. Þetta leiddi til hrikalegs vanmats könnunarinnar á fylgi flokksins, svo sem bent hefur verið á.

Því miður hefur uppákoma Helgarpóstsins hleypt púkunum út á nýjan leik. Þeir hafa slegið upp ofangreindum göllum og notað tækifærið til að lasta aðrar, óskyldar skoðanakannanir, eins og þeir telji sig geta gleymt dómi reynslunnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Fylgið kvarnast.

Greinar

Ríkisstjórninni ætlar að endast kjörtímabilið til að komast í minnihluta í hugum kjósenda. Í skoðanakönnun DV í dag kemur fram, að fylgismenn hennar eru 55% og andstæðingar 45% þeirra, sem afstöðu hafa í málinu.

Þessar tölur eru marktækari en tölurnar um fylgi flokkanna, sem birtust á miðvikudaginn. 53% hinna spurðu gátu ekki eða vildu ekki taka afstöðu til flokkanna, en aðeins 25% höfðu ekki skoðun með eða móti ríkisstjórninni.

Þar sem stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar eru tiltölulega fjölmennir í þeim hópi, sem ekki hefur gert upp hug sinn til flokkanna, má að öðru jöfnu búast við, að flokkakönnunin hafi lítillega vanmetið fylgi stjórnarflokkanna.

Hin tiltölulega góða staða ríkisstjórnarinnar endurspeglaðist einnig í skoðanakönnuninni um bráðabirgðalögin, sem birtist í DV á föstudaginn. Af þeim, sem skoðun höfðu, voru 63% fylgjandi lögunum og 37% andvígir.

Fylgi bráðabirgðalaganna hefur raunar aukizt síðan í október, þegar 54% studdu þau og 46% voru á móti. Þetta kemur ekki á óvart eftir útreiðina, sem stjórnarandstaða Sjálfstæðisflokksins fékk á lokaspretti málsins.

En ríkisstjórnin má muna fífil sinn fegri, þrátt fyrir þessar jákvæðu tölur. Hún hóf göngu sína fyrir rúmlega þremur árum með nærri 90% stuðning og hefur mestallt tímabilið haft 60-70% fylgi í skoðanakönnunum.

Um þetta er ekki hægt að segja annað en, að ríkisstjórnin hafi verið vinsælli en hún á skilið. Verk hennar hafa ekki verið betri en ríkisstjórna áttunda áratugarins, en landsmenn hafa sýnt henni ótrúlega þolinmæði.

Þegar fylgi ríkisstjórnarinnar dettur nú úr 60% í 55%, er það greinileg afleiðing þess, að ráðherrar eru byrjaðir að leggja niður mannasiði og farnir að haga sér eins fíflalega og þeir gerðu í vinstri stjórninni árin 1978-1979.

Skeytin milli ráðherra Alþýðubandalags og Framsóknarflokks birtast daglega á forsíðum Þjóðviljans og Tímans. Og í forustugreinum taka þessi blöð hraustlega undir taugaveiklunarlegan áburð, ásakanir og dylgjur af ýmsu tagi.

Báðir flokkarnir eru komnir í kosningaham og kunna sér ekki hóf frekar en fyrri daginn. Hjörleifur og Alþýðubandalagið telja til dæmis enn, að sér verði það til framdráttar að saka samráðherra um landráð og auðhringaþjónkun.

Hjörleifur og Alþýðubandalagið verða auðvitað að fá að meta menningarstig væntanlegra kjósenda þess. En framkoma af þessu tagi fælir vitanlega kjósendur frá ríkisstjórninni og þarmeð Alþýðubandalaginu einnig.

Með frekara framhaldi hnífs-í-bak stefnu ráðherranna, með Hjörleif í broddi fylkingar, mun fylgið halda áfram að kvarnast. 55% fylgið verður senn komið niður í 50%. Spurningin er bara, hvort því marki verði náð fyrir kosningar.

Kjósendur ern nefnilega ekki eins vitlausir og margir stjórnmálamenn streitast enn við að halda. Margir kjósendur vilja, að ráðherrar séu ábyrgir, traustir og orðvarir, og hafa skömm á tilraunum til að búa til kosningastöðu.

Þess vegna ætti ríkisstjórnin að nota þessa síðustu daga meirihlutafylgisins til að koma sér að ábyrgum verkum, svo að eitthvað liggi eftir hana, sem geti mildað dóma manna um hana í náinni og fjarlægri framtíð.

Jónas Kristjánsson

DV

Kjósendur bíða átekta.

Greinar

Þingmenn og aðrir forustumenn hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka hafa ekki náð sér eftir niðurstöðu skoðanakönnunar DV í gær, þar sem kom í ljós, að ríflegur meirihluti þjóðarinnar vildi ekkert hafa saman við þá að sælda.

Verst er áfall forustusveitar Alþýðuflokksins. Hún sér nú fram á, að Vilmundur Gylfason kunni að geta þurrkað hana út af þingi og setzt þar í staðinn með sína sveit sem einn af stóru stjórnmálaflokkum landsins.

En þeir gráta of seint, er nú fyrst átta sig á, að þeir hafa síðan 1978 ranglega ímyndað sér, að þeir ættu aðild að sigrum Vilmundar og gætu leyft sér að ýta honum til hliðar sem sérvitringi, þegar þeir væru búnir að nota hann.

Skoðanakönnunin var einnig mikið áfall lausafylgisflokksins mikla, Sjálfstæðisflokksins. Þar geta menn auðveldlega séð af tölunum, að tveir þriðju hlutar Vilmundarfylgisins koma beint úr röðum sjálfstæðiskjósenda.

Þótt prófkjör flokksins hafi sums staðar megnað að plástra yfir helzta klofninginn í honum, svo að hann býður þar fram í einu lagi, þá hafa þau ekki dugað til að halda utan um lausafylgið, er jafnan svífur umhverfis hann.

Áfallið er um leið flokkanna allra. Skoðanakönnunin bendir til, að fjögurra flokka kerfið sé að riðlast, því að Vilmundur tekur sitt fylgi frá flokkunum, en ekki þeim helmingi kjósenda, sem er fráhverfur flokkunum.

Þessi helmingur, sem er óbreyttur frá síðustu könnunum, stafar ekki af göllum í könnununum sjálfum, svo sem sést af því, að verulegur hluti þessa fólks getur tekið afstöðu til ríkisstjórnarinnar og annarra pólitískra mála.

Þessi helmingur kjósenda, er gefur stjórnmálaflokkunum öllum langt nef og hefur ekki einu sinni sætt sig við framboð Vilmundarbandalagsins, mun ráða úrslitum í alþingiskosningunum, sem verða 23. apríl í vor.

Hugsanlegt er, að Vilmundarbylgjan magnist og sogi til sín fylgi úr þessum hópi. Þá er ekki síður líklegt, að framboð svonefndra Gunnarsmanna, ef af verður, muni skjóta nokkurri sveit þingmanna inn í húsið við Austurvöll.

Ofan á allan þennan flokkaharm bætast fréttir af kvennaframboði í Reykjavík og hugsanlega einnig víðar. Reynslan frá byggðakosningunum í fyrra bendir til, að slíkt framboð verði ekki í vandræðum með að ná mönnum inn á þing.

Þessi mikli og óútreiknanlegi vandi steðjar að sextíu manna þingliði, sem er svo illa á sig komið, að heyrst hafa rök fyrir því, að einungis einn tíundi þeirra eigi nokkurt erindi fyrir þjóðina inn á þing í annað sinn.

Og þessum um það bil sex núverandi þingmönnum, sem hægt er að treysta til góðra verka, mun fækka um 17% við þá staðreynd eina, að Guðmundur G. Þórarinsson er ekki lengur í framboði. Þannig getur lengi vont versnað.

Ef einhverjir stjórnmálamenn hafa í rauninni áhuga á að skilja, hvers vegna þjóðin er að snúast gegn þeim, ættu þeir að setjast niður og lesa í einum rykk fréttirnar af grátbroslegum störfum þeirra á þingi í vetur.

Síðan ættu þeir að láta spila fyrir sig svo sem tíu sinnum myndbandið af kvöldfundinum með atkvæðagreiðslunni um bráðabirgðalögin, svo að inn síist sú grimma staðreynd, að fólk vill ekki, að alþingi sé málfundur í leikaraskóla.

Jónas Kristjánsson

DV

Löður á þingi.

Greinar

Vegna fátæktar skemmtideildar sjónvarpsins er tilvalið að nýta betur þingfréttirnar með því að klippa vikuskammt þeirra niður í gamanþátt í stíl Löðurs, sem nýtur einna mestrar hylli sjónvarpsáhorfenda.

Þinglöðurþátt vikunnar mætti til dæmis hefja með þessari kynningu: “Í síðustu viku var lagt fram lagafrumvarp um sölu jarðarinnar Þjóðólfshaga 1 í Holtahreppi og kvartað var yfir aðgerðaleysi í að greiða götu votheysverkunar.

Þar var svarað fyrirspurn um lestur veðurfrétta á metrabylgjum og fluttar tillögur um undirbúning brúa yfir Kúðafljót og Gilsfjörð. Fram kom nefndarálit um yfirráð Íslands á Rockall-svæði og mælt var fyrir frumvarpi um rútubíla.”

Við mál af þessu tagi var alþingi að dunda sér í síðustu viku, meðal annars til að þurfa ekki að taka bráðabirgðalögin um efnahagsmál til umræðu. Þannig líður hver þingvikan af annarri með spjalli um votheysverkun og veðurfréttir.

Þennan biðtíma mátti vel nota til að ræða hinar nýju tillögur að stjórnarskrá. Þær voru lagðar fram með orðalagi frumvarps og í ýmsum liðum gefinn kostur á mismunandi útgáfum, sem auðvelt á að vera að velja um.

Unnt er að halda því fram, að ekkert liggi á að færa þjóðinni nýja stjórnarskrá. Meira að segja er hægt að rökstyðja, að þjóðin þurfi alls ekki nýja stjórnarskrá. Hin gamla muni duga hér eftir sem hingað til.

En hitt er svo markleysa, þegar þingmenn fara að fullyrða, að þeir hafi ekki haft tíma til að ræða stjórnarskrána. Þeir hafa haft og hafa enn nógan tíma til slíks. En þeir vilja bara ekki fyrir nokkurn mun ræða hana.

Söltun stjórnarskrárinnar á þessu þingi stafar af skorti á vilja, en ekki af skorti á tíma. Nauðsynlegt er, að kjósendur muni þetta síðar, þegar annað fullyrða þingmenn, sem nú eru að reyna að þegja stjórnarskrána í hel.

Innan um langhunda votheysverkunar og veðurfrétta á alþingi brjótast svo fram bylgjur baktjaldamakks um bráðabirgðalögin. Dæmigert er, að allt fer á hvolf, þegar óbundnir varamenn leysa aðalmenn af hólmi.

Þetta tafl er orðið svo öfugsnúið, að stjórnarandstaðan er að reyna að tefja fyrir þeim örlögum sínum að þurfa að fella bráðabirgðalögin og tókst loks í gærkvöldi að bjarga sér á þurrt land hjásetunnar.

Flækjan hefur aukizt vegna misjafnra hagsmuna einstakra flokka, einstakra kjördæma og einstakra þingmanna af nýskipan kjördæma. Sumir vilja snöggt þingrof til að losna við breytingar og aðrir vilja breytingar fyrir kosningar.

Þess vegna er nóg efni til í framhald kynningarinnar á Löðri alþingis, sem byrjað var á hér að ofan. Það gæti hljóðað svo:

“Bjargar Sigurlaug bráðabirgðalögunum? Semur Eggert um að hleypa Siggeiri aftur inn? Verður mikið fundað í þingflokki Bandalags jafnaðarmanna? Semja Geir og Ólafur Ragnar um fjölgun Reykjavíkurþingmanna fyrir kosningar? Leggur Gunnar fram einkafrumvarp um vísitölu? Leyfir Alexander Birgi Ísleifi að tala? Eða verður að sækja Sverri? Mun Tómas skilja kjördæmastefnu Steingríms? Hættir Garðar að greindarmæla þingflokksbræður? Verður boðið fram fyrir hönd Blöndu? Finnur tölvan reikningsaðferð, sem kemur öllum núverandi þingmönnum aftur inn á þing?

Ruglaður í ríminu? Ekki eftir þennan vikuþátt af Þinglöðri!”

Jónas Kristjánsson

DV